Miðvikudagur 31.12.2014 - 16:54 - FB ummæli ()

Kæri Bjarni Ben

Áskorun þín í Kryddsíldinni til lækna um að líta í eigin barm kom of seint. Það var það sem þeir gerðu áður en þeir tóku til verkfallsvopnsins.

Til að létta þér starfið vil ég benda á eftirfarandi:

  1. Vegna yfirlýsingar Rríkisstjórnarinnar á sínum tíma(2008) um að allar innistæður í íslenskum bönkum á Íslandi væru tryggðar með skattfé landsmanna hefur skapast skuld við sömu aðila hjá viðkomandi bönkum. Samkvæmt lögum 121/1997 skal greiða fyrir slíka þjónustu. Þess vegna átt þú að rukka bankana um þessa ríkisábyrgð. Hugsanleg upphæð er um 3-500 milljarðar.
  2. Hvalrekaskattur(windfall tax). Hagnaður sem verður til mest fyrir utanaðkomandi aðstæður frekar en elju og útsjónarsemi fyrirtækis kallast hvalreki. Þá er verið að vísa til þess að ekki hafi verið sérstaklega unnið fyrir honum. Hvalrekaskattur er skattur á slíkum hagnaði. Gott dæmi á Íslandi eru lánveitendur (bankar og lífeyrissjóðir) sem hafa hagnast mikið á verðtryggðum lánum vegna þess að verðbólgan gaus upp í kjölfar bankahrunsins. Bankahrun sem viðkomandi lánadrottnar bera töluverða ábyrgð á. Annað dæmi er að íslenska krónan féll mikið í kjölfar bankahrunsins. Þar með jókst hagnaður útflutningsfyrirtækja (sjávarútvegur og áliðnaður) án þess að þau hefðu breytt einhverju hjá sér. Gengisfallið skapaði fyrirtækjunum auknar tekjur en launamanninum minni tekjur. Hvalrekaskattur væri þá aðgerð til að leiðrétta aukið misvægi í tekjum og yrði lagður á áður en að menn fara að greiða sér út arð. Meðan nánast ríkir neyðarástand á mörgum sviðum í velferðarmálum á Íslandi þá er það réttlætismál að skattleggja þá sem eru í dag að greiða sér hagnað talin í tugum eða hundruðum milljarða, þeir svelta ekki.

Lauslega áætlað ættir þú að geta snarað svo sem tugi milljarða inní ríkiskassann með þessum aðgerðum án þess að skapa mikla eymd og vesöld hjá viðkomandi aðilum.

Þetta er barmurinn þinn Bjarni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur