Mánudagur 20.07.2015 - 21:23 - FB ummæli ()

”Hér veldur hver á heldur”

Sigríður Á Andersen alþingismaður, lögfræðingur og Sjálfstæðismaður skrifar grein í Fréttablaðið um deilu hjúkrunarfrðæðinga við ríkið. Hún skilur óánægju hjúkrunarfræðinga og þar með uppsagnir þeirra. Lausn hennar á lánleysi hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu er að fyrirtæki í einkarekstri veiti ríkinu samkeppni. Þar með muni kjör hjúkrunarfræðinga sem vilja vinna hjá ríkinu batna.

Margvísleg hjúkrun er rekin með mismunandi rekstrarformum á Íslandi og gengur ágætlega. Aftur á móti er rekin einstök hjúkrun á Landspítalanum. Það hljómar hjá Sigríði að hjúkrunarfræðingur sem starfar við æðahnútaaðgerð í einkarekstri út í bæ sem ef til vill hefur hærri laun en hjúkrunarfræðingur sem starfar við hjartaaðgerð á Landspítalanum muni hækka laun þess síðarnefnda á forsendum samkeppni.

Til þess að sanna þessa kenningu eru Sjálfstæðismenn reiðubúnir til að svelta ríkisreksturinn og niðurlægja hjúkrunarfræðinga Landspítalans með því að setja lög á verkfall þeirra og síðan að skammta þeim launahækkanir með sérstökum gerðardómi. Halda því svo fram að starfsemi sem er ekki til í einkarekstri út í bæ veiti samkeppni við Landspítalann er rugl. Samkeppnin er frá sjúkrahúsum í nágrannalöndunum sem veita samskonar hjúkrun og á Landspítalanum og í þeirri samkeppni eru Sjálfstæðismenn hins frjálsa markaðs með allt niður um sig.

Það má vel vera að hjúkrunarfræðingur fái betri laun í einkarekstri við minni háttar aðgerðir úti í bæ, það má vel vera að hjúkrunarfræðingur sem starfar á vegum einkafyrirtækis og selur sig sem verktaka til Landspítalans fái hærri laun. Allur þessi tilbúningur er bara til að reyna að sanna kenningu sem margsinnis hefur afsannað sig sem leið til hagsældar fyrir fjöldann. Hvar er metnaður Sjálfstæðismanna gagnvart sjúklingum Landspítalans, sjúklingum sem eru einstakir, eru hvergi annar staðar í heilbrigðiskerfinu og geta hvergi annars staðar verið og geta því ekki varið sig fyrir niðurskurði pilsfaldakapitalistanna í Sjálfstæðisflokknum með því að leita þjónustu annars staðar á forsendum þessarar helvítis samkeppni sem á að bæta allan andskotann.

Landspítalinn gínir ekki yfir einu né neinu, hann sinnir sérhæfðri hjúkrun sem er ekki til annars staðar á landinu.

Að fjöldi íslenskra hjúkrunafræðinga sé á förum frá Íslandi er sönnun þess að Kristján Þór og Sigríður hafa orðið undir í samkeppninni margumtöluðu, skömmin er þeirra en skaðinn er sjúklinga Landspítalans. Þvílíkur minnisvarði um fólk með normalgreind sem er blindað af hagsmunum og kreddum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur