Miðvikudagur 29.07.2015 - 21:25 - FB ummæli ()

Akkilesarhæll Grikkja

Átökin milli Grikkja og Evrópusambandsins eru lærdómsrík. Það sem er þó athyglsiverðast er hvar skilur á milli almennings og Evrópusambandsins í völdum. Skýringin hefur komið upp á yfirborðið núna vegna viðtals við fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja Yanis Varoufakis þar sem hann skýrir þetta betur út í þessari  bloggfærslu.

Grískir kjósendur kusu Syriza til valda. Þar með vildu þeir fara þá leið í samningaviðræðum við Evrópusambandið sem Syriza boðaði. Þegar allt var komið á suðupunkt í samningaviðræðunum þá kaus þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu með aðferð Syriza en á móti Evrópusambandinu. Grísku samningamennirnir höfðu þjóðina á bak við sig, þ.e. fullt umboð og skýra verklýsingu þjóðarinnar en samþykktu þó allt sem Evrópusambandið krafðist. Grikkir höfðu gripið till allra verkfæra lýðræðisins sem þeir hönnuðu sjálfir fyrir margt löngu. Það kom ekki að neinum notum í samningum við Evrópusambandið. Í hverju fólust þessi afgerandi völd ESB að það gat knésett stolta þjóð.

Bankar hafa einkarétt á því að framleiða peninga og stjórna magni þeirra í umferð. Án peninga hrynur samfélagið. Þess vegna hafa bankar hreðjartak á þjóðfélögum og geta sagt réttkjörnum ríkisstjórnum að sitja og standa eins og þeim hugnast. Evrópusambandið með Seðlabanka Evrópu sem verkfæri skrúfaði fyrir peninga til Grikklands. Þar með var ekki hægt að stunda eðlileg viðskipti og allt hrundi og Grikkir urðu auðveld bráð fyrir ESB. Til þess að lýðræðið virki, til þess að vilji almennings verði ofaná verður framleiðsla peninga að tilheyra lýðræðislega kjörnum fulltrúm almennings. Framleiðsla peninga er valdamesti hluti lýðræðisskipulags okkar, mun valdameira en löggjafar-framkvæmda- eða dómsvald lýðræðissins.

Meðan bankakerfið hefur einkarétt á því að framleiða peninga og stjórna magni þeirra þá skiptir harla litlu máli hvað við kjósum eins og reynsla Grikkja kennir okkur. Það eru hin mikilvægu skilaboð frá deilu Evrópusambandsins og Grikkja. Þess vegna verðum við núna að einbeita okkur að því að afnema einkarétt banka  að stjórna peningaframleiðslu. Sá hluti lýðræðisins á heima hjá almenningi en ekki einkareknum bönkum eða seðlabönkum sem þjóna einkabönkum. Þegar því hefur verið kippt í liðinn getum við kosið mismunandi pólitík en þangað til ræður stefna bankakerfisins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur