Mánudagur 31.08.2015 - 21:40 - FB ummæli ()

”Við berum ábyrgð í samfélagi þjóðanna”

Flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi er skelfilegur. Andstaða sumra Evrópuþjóða við að sinna fólkinu og skortur á raunverulegum aðgerðum af hálfu Evrópusambandsins er jafn skelfileg. Sínu verst er þó að til eru hópar manna sem ráðast í ræðu og riti eða með beinu ofbeldi á flóttamenn.

Þeir fáu sýrlensku flóttamenn sem ég hef hitt virðast vera frekar einsleitur hópur og því sennilega ekki marktækt úrtak. Þokkalega stætt millistéttarfólk sem lendir í styrjöld og allar eigur þeirra sprengdar í tætlur, atvinna og lífsviðurværi farið sömu leið. Ekkert í umhverfinu til að byggja eðlilegt líf á. Dauði eða limlestingar á næsta götuhorni. Það flýr til okkar, ekki vegna þess að lönd okkar séu betri en þeirra heimaland fyrir stríðið, nei við erum bara skásti kosturinn núna.

Gömul saga en ekki ný. Ofsóknir og styrjaldir hrekja fólk á flótta. Ef okkur tækist að stöðva styjraldarekstur myndi flóttamannavandamálið verða lítið og viðráðanlegt. Peningar stjórna þarna miklu því ekki er hægt að stunda stríðsrekstur ef maður hefur ekki aðgang að peningum.  Og maður fær peninga meðal annars í bönkum.

Fyrrum forseti Bandaríkjanna Woodrove Wilson vildi stöðva fyrri heimstyrjöldina. Árið 1916 reyndi hann að fá bandaríska banka til að stöðva allar lánveitingar til stríðandi aðila í Evrópu. Hann vissi sem var að stríðsrekstur þeirra var háður þessum lánum. Með þessu vonaðist hann að minnsta kosti til þess að þvinga menn að samningaborðinu. Því miður neituðu bankarnir beiðni hans. Gróðinn var of mikill og þeir fjármögnuðu fyrri hemstyrjöldina allt til enda með öllum þeim hörmungum sem því fylgdi.

Ef Wilson hefði getað stöðvað heimstyrjöldina með þessum hætti væri heimurinn sjálfsagt öðruvísi í dag. Því miður erum við á sama stað í dag og fjármunir streyma sem aldrei fyrr í styrjaldarekstur. Þessari uppsprettu verður að loka því engar stórstyrjaldir verða háðar með prikum eða grjótkasti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur