Laugardagur 28.11.2015 - 23:10 - FB ummæli ()

Börnin hennar Evu

Það er rætt og ritað um þjóðarskömm á Íslandi. Þeir sem eru fátækir á Íslandi hafa það verulega skítt, margar greinar á netinu vitna um það. Samtímis er það greint af opinberum aðilum og birt í fjölmiðlum að lítill hópur Íslendinga hefur það mjög gott. Í raun sópar hann auðnum til sín.

Hvað getur verið meira fréttaefni en að fólk eigi varla fyrir mat eða lyfjum. Geti ekki klætt börnin sín eða leyft þeim að taka þátt í tómstundum eða íþróttum. Samtímis og aðrir vita varla aura sinna tal. Er þetta ekki slíkt þjóðfélagsmein að allir ættu að vera sammála um að leysa það. Eru allir kannski jafn sammála um að leysa það ekki? Er það þannig að enginn vill missa spón úr aski sínum?

Frásagnir af einstaklingum sem sofa í bílnum sínum vegna vangetu velferðarkerfisins að sinna þeim vekur smá athygli en ekki byltingu sem væri nær lagi.

ASÍ, stærsti umboðsaðili verkafólks á Íslandi, gerir núna samning um að takmarka launahækkanir verkamanna við velvilja atvinnurekenda til launahækkana. Þar með er kastað fyrir róða þeirri grundvallarhugmynd að auka hlutdeild verkamanna í afrakstri framleiðslunnar. Verkamenn munu bara fá það sem þeim er skammtað samkvæmt SALEK samkomulaginu.

Hvað eiga þeir sem minnst mega sín í þjóðfélaginu okkar að gera þegar brjóstvörn þeirra ASÍ gengur í björg og leggst í rekkju með atvinnurekendum. Þegar stjórnvöld vilja ekki leysa samborgarana undan fátækt en vilja leysa ofurríka undan sköttum og gjöldum. Ef fjölmiðar á Íslandi væru í raun fjórða valdið myndu þeir útsetja stjórnvöld fyrir svo mikilli umræðu um fátækt að þeir sæju sér ekki annað fært en að útrýma henni.

Hagnaður bankanna þriggja sem ollu mikilli fátækt meðal landsmanna er núna 464 milljarðar frá hruni.

Er ekki hægt að sameinast um löggleiðingu lágmarkslauna og skattfrelsis þeirra?

Það má kannski ekki tala um þetta eins og börnin hennar Evu. Stjórnmálasamtökin sem ég tilheyri, Dögun hafa haft þetta sem eitt af sínum aðalmálum frá upphafi en öll stjórnmálasamtök landsins verða að taka á þessu saman. Það er í raun ekki hægt að bera höfuðið hátt í þessu samfélagi meðan til eru einstaklingar sem ganga um svangir. Því verður að linna!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur