Mánudagur 6.10.2014 - 22:03 - FB ummæli ()

Læknar í verkfall

Læknar ætla í verkfall því þeir vilja meiri laun. Hið opinbera mun sennilega reyna að hækka laun lækna eins lítið og hægt er. Þó þannig að flestir verði nægjanlega ánægðir og segi ekki upp. Þannig er það í kjarabaráttu. Vonandi munu samningar ganga vel fyrir sig með jákvæðri niðurstöðu.
Menn spá langri baráttu hjá læknum. Samninganefndir hins opinbera eru þrautþjálfaðar í því að flækja og þreyta andstæðinginn. Þeir kunna leikinn.
Vonandi verða einhverjir eftir til að skrifa undir kjarasamninginn í fyllingu tímans.
Fjármálaráðherra virðist sjá leikinn en ekki áhættuna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 26.8.2014 - 00:13 - FB ummæli ()

Plastkort, peningar og lýðræði

Stundum er sagt að ”fjármálavaldið” ráði mest öllu í þjóðfélagi okkar og mun meira en Alþingi. Þetta er satt en hvernig fer það að því, í hverju felast völd þess. Kjarninn í fjármálavaldinu eru bankarnir. Þeir búa til peningana. Þeir hafa einkaleyfi á því. Hið opinbera, fyrirtæki og almenningur verður að taka peninga að láni hjá bönkunum til að geta stundað sín viðskipti.
Peningar flytja verðmæti frá einum stað til annars. Svipað og fyrirfram greitt debet kort, þú setur ákveðna upphæð inná kortið þitt og nýtir hana seinna. Þetta plastkort geymir því verðmæti. Plastkortið flytur því verðmæti þín frá einum stað til annars og auk þess getur þú geymt peningana á kortinu að vild. Einnig er hægt að nota kortið til að greiða skatta til hins opinbera og þar með er þetta kort orðið ígildi peninga. Kostnaðurinn við kortið er einhver föst stærð óháð því hversu mikið þú setur inná það. Það sem ég er að reyna að segja er að miðillinn, kortið, er selt á kostnaðarverði.
Peningarnir sem við fáum hjá bönkunum eru eins og plastkortið. Hlutverk kortsins og peninganna er það sama, að flytja verðmæti okkar frá einum stað til annars, frá einum tíma til annars, að geyma verðmæti okkar. Það er þó einn mikilvægur munur því við fáum ekki peningana á kostnaðarverði. Á peningana er stimplaðar ákveðnar upphæðir eins og við þekkjum.
Plastkortið kostar nánast ekkert og peningar ættu ekki að kosta neitt heldur. Vandamálið er að bönkum tókst fyrir 300 árum að fá einkaleyfi á því að framleiða peninga og þar með verðleggja þá. Við fáum ekki peningana á kostnaðarverði hjá bönkunum heldur verðum við að taka þá að láni hjá þeim. Lánsupphæðin ákvarðast af þeirri upphæð sem stimpluð er á peningana. Ef við þurfum 1000 krónur þá þurfum við að fá þá að láni hjá bankanum og þegar við höfum greitt þá skuld höfum við borgað 1000 krónur fyrir 1000 króna seðilinn. Síðan getum við notað hann til að flytja verðmæti vinnu okkar frá einum stað til annars.
Þetta er ein aðferð til að framleiða peninga svo við getum átt í viðskiptum en hefur í för með sér óendalega mikla skuldasöfnun. Í raun skulda allir; einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera bönkunum. Auk þess eru það bankarnir sem ákveða hvað er framkvæmt því þeir skammta lánin til þeirra sem eru þeim þóknanlegir. Ef peningar væru búnir til án skuldsetningar af hinu opinbera þá værum við ekki jafn skuldum vafin og almenningur hefði aðgöngu að ákvörðunum um það hvernig við deilum út peningum.
Forseti í einhverju þriðja heims ríki fær ekki krónu lánaða hjá neinum banka heldur bara hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fylgja þá oft ströng skilyrði með. Skiptir þá ekki máli þó stót hluti þjóðarinnar sé á vergangi vegna uppskerubrests og deyjandi úr hungri og þorsta. Viðkomandi land fær þróunarhjálp frá vesturveldunum sem er þó minni upphæð en landið borgar í afborganir af lánum til vesturveldanna.
Það væri mun gæfulegra ef viðkomandi ríki(og öll önnur) gæti framleitt sína peninga sjálft án milligöngu banka. Það gæti þá strax hafist handa við vatnsveitur og annað sem vinnur bug á hungri og þorsta, nægt er vinnuaflið, og greitt fyrir með peningum búnum til án skuldsetningar af hinu opinbera. Þar með væru peningar aftur komnir á sinn stall við að flytja verðmæti frá einum stað til annars án sérstakrar skuldsetningar. Þar með væru peningar aftur orðnir fjórða valdið í lýðræðisskipulagi okkar undir stjórn almennings en ekki fámennrar elítu einkarekinna banka.
Bankarnir yrðu af ofsagróða en við myndum höndla hið lýðræðislega vald aftur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.8.2014 - 22:58 - FB ummæli ()

Hugsa, horfa og framkvæma svo

Var að glugga á netið og reyna að átta mig á tillögum Fylkisflokksins. Þar kennir margra grasa. Mikið er rætt um að við fáum betra líf og aukið réttlæti. Þar sem fyrrnefndar framfarir eru að mestu á kostnað elítunnar á Íslandi sem stjórnar fjórflokknum þá má gera ráð fyrir kröftugri andstöðu. Tel líklegast að ef Fylkisflokkurinn nær fram sínum tillögum á Alþingi þá verði hugmyndin felld í þjóðaratkvæðagreiðslu með sauðtryggum atkvæðum fjórflokksins. PR lið fjórflokssins mun sjá um það. Þannig fer um sjóferð þá.
Vil nú ekki vera úrtölumamaður góðra hugmynda né flykkja mér með elítunni gegn Fylkisflokknum. Þrátt fyrir góðan hug finnst mér hugmyndin með Fylkisflokknum vera uppgjöf fyrir verkefninu að betrumbæta íslenskt þjóðfélag. Má vera að hægt sé að kaupa norskan pakka með ”all inclusive” en slíkir pakkar eru oft dýrir og Norðmenn ekki þekktir fyrir aumingjaskap í viðskiptum.
Þar sem gera má ráð fyrir að hugmyndin komist ekki í gegnum þjóðratkvæðagreiðslu stöndum við eftir með ókláraða búsáhaldarbyltingu. Við erum búin að prófa alla fjórflokkana og virðast allir kjósendur þeirra og annarra sammála því að þeir hafi ekki staðið sig vel. Nú er mál að linni og að kjósendur axli sína ábyrgð, hugsi, horfi og framkvæmi svo. Ef ekki þá verður Fylkisflokkurinn; Gnarr taka tvö.
Eins og ég skil mannkynssöguna þá þurfum við að berjast og færa fórnir til að öðlast réttlæti. Afar okkar og ömmur brutu lög, týndu lífinu eða heilsu og lífsviðurværi til að færa okkur þau réttindi sem við höfum í dag. Ef við viljum meira réttlæti þá er þetta eina færa leiðin í dag sem fyrr. Ef þjóðin vill meira réttlæti þá þarf hún að taka sig taki og ákveða hvernig öllum þessum auði sem Ísland gefur sé dreift milli þegnannna.
Svo er náttúrulega hinn möguleikinn að velta sér upp úr öllum smjörklípunum og böðlast á Facebook elítunni til ánægju og yndisauka, eða sjálfum sér…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.8.2014 - 21:59 - FB ummæli ()

Fréttir

Hvað eru fréttir? Hvað er mikilvægt fyrir almenning að vita um og ræða sín á milli. Ritstjórnarstefna fjölmiðils ákveður hvað er fréttnæmt eða ekki fyrir almenning. Þar sem stór hluti stærstu fjölmiðla heims er í eigu sömu aðila þá er það fámennur hópur og skoðanir þeirra sem skammta fréttir. ”Main stream” fréttir eru fréttir þeirra sem eiga miðlana og fjandsamleg yfirtaka á DV er kannski eitthvað í þessum dúr, hver veit. Það hentar er ekki Hr ”main stream” að það sé verið að bögga stjórnvöld sem að öllu jöfnu fylgja honum að málum. Að missa DV inn í heilaþvottaskrif elítunnar væri skaði. Það er frétt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 2.8.2014 - 20:52 - FB ummæli ()

Börnin á Gaza

Morðin og limlestingarnar á Palestínumönnum eru myndbrot úr mikið stærri mynd. Ísrael er nauðsynlegt fyrir heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Það sem helgar þá stefnu er að ná undir sig auðlindum stórfyrirtækjum til arðráns. Þess vegna eru Bandaríkin verkfæri elítunnar. Að halda að það skipti einhverju máli hver er forseti Bandaríkjanna er miskilningur. Sama gildir um Evrópu, það er enginn munur á stefnu stjórnmálaflokka gagnvart hagsmunum elítunnar, elítan ræður för.
Elítan er nafn- og andlitslaus og illa skilgreind en hún stjórnar. Hún samanstendur af bönkum, seðlabönkum og alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Hún hefur náð undir sig fjölmiðlum þannig að hún skapar almenningsálitið. Hefur gríðaleg ítök innan hergagnaframleiðslunnar, leyniþjónustu og þinga þjóðríkja. Markmiðið eru völd og hámarks gróði.
Palestínumenn skipta elítuna engu máli.
Elítan stjórnar öllum ríkisstjórnum sem við kjósum þannig að ekki er hægt að minnka völd hennar með kosningum. Það sem veitir elítunni sérstöðu er að bankar eru hluti hennar og þannig skuldsetur hún alla og gerir alla háða sér. Skiptir ekki máli hvort um er að ræða einstaklinga, fyrirtæki eða þjóðríki. Bankar hafa einkarétt á því að búa til peninga sem skuld og vistfræðilega er það fóðrið sem gefur þeim valdið til að stjórna heiminum.
Limlestingar og morð á Palestínumönnum vekur með okkur andstyggð á verkfærum elítunnar.
Til að skapa réttlæti er nauðsynlegt að afnema einkarétt banka til að búa til peninga sem skuld. Það er forsendan fyrir völdum elítunnar. Til að skapa réttltæti verðum við að færa það vald aftur til almennings. Það er það fyrsta sem við verðum að gera og hefur í raun lítið með pólitík að gera. Þjóðríki verða ein að hafa valdið til að búa til peninga en ekki einkafyrirtæki og þá mun hið lýðræðislega vald almennings hafa eithvað að segja. Þá getum við farið að rökræða mismunandi pólitík, hvernig við ráðstöfum peningunum.
Von barnanna á Gaza er að við hættum að kljúfa okkur niður í mismunandi pólitíska flokka og sameinumst um að færa valdið til að búa til peninga aftur til almennings frá einkafyrirtækjum. Þá fyrst getum við stöðvað blóðbaðið. Eða er pólitísk rétthugsun mikilvægari?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.7.2014 - 21:47 - FB ummæli ()

Glæpurinn

Heimsfréttirnar eru ömurlegar þessa dagana. Ísraelar murka lífið úr nágrönnum sínum, jafnt ungum sem öldnum. Í Bagdat og nágrenni sprengja þeir hver annan í loft upp og okkur er trúað fyrir því af heimspressunni að slíkt eigi sér upptök í mismunandi trúarsetningum. Farþegaflugvél hrapaði yfir Úkraínu og Rússum er kennt um það. Reyndar er rannsóknin á slysinu ekki hafin en söngurinn minnir okkur á þegar Afganistan var sprengt í tætlur eftir 11. september, hann bjó reyndar í Pakistan eftir allt saman. Síðan er hungursneyð hér og þar í Afríku, heimsálfa sem brauðfætt gæti allan heiminn. Að lokum, þá rignir svakalega mikið á Íslandi.
Sjálfur liggur maður á strönd í Karlskrona í Svíþjóð og les bókina ”En man som heter Ove”. Á milli þess sem maður bælir niður hlátursrokurnar í kæfandi hitanum heyrir maður í börnunum leika sér frjáls í öllum regnbogans litum og enginn spyr þau hvort þau séu réttdræp hér og nú, vegna einhvers, enda væri slíkt talið glæpur.
Á Íslandi er núna Ríkisstjórn sem vill afhenda fáum útvöldum öll auðæfi þjóðarinnar. Hvað svo sem það kostar. Valdhafar heimsins vilja afhenda fáum útvöldum öll auðæfi, hvað svo sem það kostar. Það er það sem við heyrum um í heimsfréttunum enda er það ekki talið glæpur.
Þarfir sérhvers manns eru einfaldar og skiptir þá ekki máli trú eða litur. Vatn og matur á borðið og að börnin séu hamingjusöm. Ekki þvælast fyrir öðrum og skapa sér og sínum örugga framtíð.
Að auðgast á kostnað annarra hvað svo sem það kostar með öllum tiltækum ráðum; að ná einokun, að tryggja sér völd, að hertaka auðlindir; að koma af stað styrjöldum eða hungursneyð, að skapa smá bankakreppu eða hvað sem er, er ekki glæpur í heimsfréttunum. Það eru bara hörmungar einhverra.
Kannski er það mesti glæpurinn að liggja í leti á strönd og segja ekki það augljósa, hinir útvöldu eru ekki við og þeir eru í minnihluta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.6.2014 - 21:29 - FB ummæli ()

FRÍVERSLUNARSAMNINGAR-BRAVE NEW WORL

Grein sem ég skrifaði fyrir Attac árið 2013 um fríverslunarsamninga og ég birti núna vegna (lítillar) umræðu um þá s.l. daga.

INNGANGUR
Fríverslunarsamningar(FVS) milli landa eða álfa eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Við fyrstu sýn virðast þeir snúast um að auðvelda viðskipti milli aðila. Ef svo væri þá væru þeir jákvæð þróun í samskiptum þjóða. Því miður er það ekki alltaf svo.
Það sem einkennir FVS er að þeir eru samdir á bak við luktar dyr og almenningur og þingmenn þurfa að hafa mikið fyrir því að fá gögn um samningavinnuna. Aðrir hagsmunaaðilar s.s. stór, fjölþjóðleg fyrirtæki hafa góðan aðgang að samningagerðinni. Auk þess eru samningarnir ekki auðskiljanlegir og almenningur þarf oft að treysta á sérfræðikunnáttu til að skilja textann og hvaða afleiðingar hann hefur á líf hans.
Samningar sem þessir hafa mjög víðtæk áhrif. Þeir hafa áhrif á laun, kjarasamninga, framboð starfa, heilbrigðismál, félagsmál, umhverfið, fæðu, deilingu auðs, lýðræðið og völd almennings. Yfirleitt er algjör minnihluti sjálfs samningsins sem fjallar um milliríkjaviðskipti.
Það er oftast látið í það skína að um sé að ræða samning um að lækka eða afnema tolla á innflutningi. Það er í raun minniháttar atriði í þessum samningum. T.d. í samningi sem er í burðarliðnum milli USA og ýmissa landa í Asíu og Ástralíu(Trans-Pacific Partnership; TPP) eru 29 kaflar en eingöngu 5 kaflar fjalla um milliríkjaviðskipti. Hinir kaflarnir í þessum samningi og öðrum sambærilegum fjalla um að minnka kostnað fyrir stórfyrirtækin eftir að komið er inn í viðkomandi lönd. Þar erum við komin að ákvæðum um að lækka laun, minnka öryggiskröfur á vinnustöðum, minnka náttúruvernd, minnka neytendavernd, minnka dýravernd við eldi og í raun allt sem getur dregið úr gróða stórfyrirtækjanna eða tafið fyrir þeim.
Eftir seinna stríð var sett á stofn vettvangur fyrir þjóðir til að semja um milliríkjaviðskipti. Það hét GATT(General Agreement on Tariffs and Trade) og þar voru all nokkrir samningar samþykktir sem síðan fylgdu með þegar Alheimsviðskiptastofnunin(World Trade Organization; WTO) var sett á laggirnar 1995. Hlutverk WTO er að auka frelsi í viðskiptum milli landa með því að fjarlægja hindranir. Reglur WTO fjalla að litlu leyti um hefðbundin viðskipti milli landa heldur um allt það sem hugsanlega getur minnkað gróða stórfyrirtækja. WTO fylgist með settum reglum og er einnig úrskurðaraðili milli aðila. Margir samningar WTO hafa lagalega bindingu fyrir þjóðir og úrskurði WTO er ekki hægt að áfrýja.
Samningar WTO/GATT hafa mjög víðtæk áhrif og hafa orðið tilefni til mikilla mótmæla almennings. Auk þess er mikil togstreita milli fátækari landa og þeirra ríku. Þar sem hægt gengur að auka vægi samninga WTO hafa fylgismenn þeirra einbeitt sér að því að koma hugmyndum sínum í framkvæmd með tvíhliða samninga milli landa eða heimsálfa. Á þann hátt reikna þeir með að smásaman verði stefnu WTO framfylgt að lokum hnattrænt.
Afleiðing þessara samninga fela í sér að stórfyrirtækjum eru færð mikil völd. Þau geta farið á mál við yfirvöld sem sett hafa reglur til að vernda borgara eða náttúru ef að þær reglur gætu hugsanlega minnkað gróða fyrirtækjanna. Gerðardómar skipta verulegu máli í umræðunni um fríverslunarsamninga.

Gerðardómar.
Í mörgum fríverslunarsamningum eru ákvæði um hvernig leysa eigi deilumál. Fyrirtæki geta farið með mál fyrir gerðardóm en þjóðríkin ekki. Þrír menn eru í dómnum, einn valinn af hvorum aðila og sá þriðji með samkomulagi aðila. Oftar en ekki eru þetta lögfræðingar sem hafa unnið fyrir fyrirtæki áður og eru því í raun óhæfir enda falla úrskurðir nánast alltaf fyrirtækjunum í vil(15 lögfræðingar hafa dæmt í 55% allra mála). Fyrirtækin þurfa ekki að fara með málin fyrir dómstóla viðkomandi landa og aðilar geta farið fram á að málið sé rekið fyrir luktum dyrum. Aftur á móti þá geta þjóðríki bara sótt fyrirtækin til saka fyrir sínum eigin dómstólum eða mannréttindardómstólum. Oft er flækjustig stórfyrirtækja svo mikið að ábyrgur aðili er ekki innan lögsögu viðkomandi ríkis sem torveldar alla lögsókn. Kostnaðurinn við málarekstur er gífurlegur(um 8 milljónir dollara) og gefur vel í aðra hönd til þeirra sem reka málin. Fátæk ríki hafa oft ekki fjármuni fyrir slíkan málarekstur jafnvel þó þau eigi góða möguleika á að vinna enda er mörgum málum lokið með sátt. Meira að segja Þýskaland lét beygja sig í sátt(Vattenfall vs Germany).
Það eru all nokkrir gerðardómar sem eru notaðir og geta þeir nýtt sér mismunandi alþjóðalög til að rökstyðja máli sitt. Auk þess eru þeir ekki bundnir af fyrri dómaniðurstöðum í svipuðum málum. Þess vegna hafa niðurstöður úr gerðardómum oft verið óvæntar. Megin reglan er þó sú að fyrirtækin fara með sigur af hólmi. Fyrirtækin velja líka hvaða fríverslunarsamning þau nota og dugar þeim að hafa útibú í viðkomandi landi án nokkurrar starfsemi þar til að geta beitt þeim samningi fyrir sig. Málsóknum hefur fjölgað mjög mikið síðustu ár og eru þjóðríki að vakna upp við vondan draum og reyna sum að endursemja um þessi ákvæði. Þess vegna hefur Ástralía gefið út þá yfirlýsingu að þeir muni ekki samþykkja gerðardómsleið í nýjum fríverslunarsamningum.
Lögsóknir stórfyrirtækja eru oft gegn málaflokkum eins og; grænni orku, lyfja og heilbrigðismálum, baráttu gegn reykingum, takmörkunum á eiturefnum, takmörkunum á námugreftri vegna umhverfissjónarmiða og heilbrigðistrygginum. Í þessum og mörgum öðrum málaflokkum er löggjafinn að reyna að vernda þegnana. Þegar það stríðir gegn hagsmunum stórfyrirtækjanna er farið í mál. Ríki hafa oftast þurft að lúta í lægra haldi fyrir stórfyrirtækjunum og þurft að greiða ævintýralegar upphæðir í skaðabætur. Þess vegna er oft nægjanlegt að senda bréf til viðkomandi þingnefndar sem er að undirbúa löggjöf sem stórfyrirtækjunum er ekki að skapi. Afleiðingin verður annað hvort engin löggjöf eða útþynnt löggjöf til að forða sér frá lögsókn. Það er athyglisvert að rannsóknir hafa sýnt að kosningaloforð forsetframbjóðenda í Bandaríkjunum í heilbrigðis og umhverfismálum hefðu aldrei getað orðið að raunveruleika vegna þess að þau eru í andstöðu við reglur WTO.
Þegar kemur að gerðardómum er spurningin hvort við teljum mikilvægara; lagasetning sem miðar að bættum hag íbúa, náttúrunnar, að gangverk lýðræðisins virki eða hinu, gróða risastórra fjölþjóðafyrirtækja. Það verður að teljast eðlilegt að þeir sem þurfa að búa við regluverk hafi lýðræðislega aðkomu að setningu þeirra laga. Því er ekki þannig farið þegar fríverslunarsamningar eru samdir því þeir eru skrifaðir án aðkomu almennings og gerðardómsleiðin er í raun búin að einkavæða dómstólakerfið þ.e. þann hluta af lýðræðinu. Auk þess verður löggjafinn að beygja sig fyrir gerðardómum eða þeirri ógn sem þeir skapa. Þau völd sem stórfyrirtæki fá með gerðardómum gerir þau að jafnoka þjóðríkja og rétthærri en fyrirtæki og eintaklingar í heimalandinu. Ekki nokkur maður getur samþykkt slíkan lýðræðishalla og því verðum við öll að mótmæla þessum svonefndu fríverslunarsamningum.
“When I wake up at night and think about arbitration, it never ceases to amaze me that sovereign states have agreed to investment arbitration at all … Three private individuals are entrusted with the power to review, without any restriction or appeal procedure, all actions of the government, all decisions of the courts, and all laws and regulations emanating from parliament.”
-Juan Fernández-Armesto, arbitrator from Spain
“Arbitrator and counsel: the double-hat syndrome”,
Global Arbitration Review, Vol. 7 – Issue 2, 3/15/12

Nokkur dæmi eru um að ef leyndinni er svift af málsókninni og hún kemst í hámæli þá bakka sum fyrirtæki því þau vilja ekki slæmt umtal.

Transatlantic Trade and Investment Partnership; TTIP
Í febrúar 2013 var það tilkynnt að farið yrði í samningaviðræður milli ESB og USA í þeim tilgangi að semja fríverslunarsamning(Transatlantic Trade and Investment Partnership; TTIP). Í júlí hófust umræðurnar og í nóvember 2013 hittust aðilar í annað skiptið, alltaf fyrir luktum dyrum. Báðir aðilar lofa því að á báðum stöðum muni skapast mörg ný störf og aukin almenn velmegun. Þetta er mjög hefðbundnar fullyrðingar og hafa fylgt flest öllum fríverslunarsamningum úr hlaði. Reynslan segir hið gagnstæða og margir sem hafa kynnt sér málið gagnrýna þessar spár og telja þær fjarri raunveruleikanum. Almenningur hefur ekki fengið að fylgjast með en stórfyrirtækin hafa aðgang og geta komið sínum áherslum óhindrað að.
“So far, the Commission has had more than 100 intimate meetings with big business
lobbyists behind closed doors, while leaving civil society largely in the dark.” http://corporateeurope.org/trade/2013/09/ european-commission-preparing-eu-us-trade- talks-119-meetings-industry-lobbyists.

Obama bauð Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni Forsætisráðherra að taka þátt i þessum samningi þegar þeir hittust í Stokkhólmi um daginn. Þess vegna er ágætt að reyna að rýna í hvað gæti beðið okkar ef við skrifum undir slíkan samning. Hann á að vera tilbúinn fyrir lok 2014.
Fríverslunarsamningur sem Kanada, USA og Mexicó gerðu á milli sín 1993 og kallast NAFTA(North American Free Trade Agreement) er fordæmi sem við getum dregið lærdóm af. Hann var auglýstur þannig að mikill fjöldi starfa yrði til(20 milljón störf) og aukin velsæld handa almenningi. Í USA hafa a.m.k. milljón störf horfið bara vegna NAFTA. Bandarísk fyrirtæki hafa flutt starfsemi sína til Mexicó því NAFTA gerði þeim það auðveldara. Fyrirtæki var lokað í Bandaríkjunum en opnað aftur í Mexícó. Þar eru laun lægri og vinnuvernd mun minni. NAFTA hefur því skapað vinnu í Mexicó við vart boðlegar aðstæður fyrir verkafólk og á sama tíma hefur það valdið miklum þrýstingi á kaup og kjör bandarískra verkamanna. Sá þrýstingur með lækkun launa er það sem kallað er að vera ”samkeppnishæft” vinnuafl. Það er eitt af aðal markmiðum slíkra fríverslunarsamninga. Aftur á móti hafa fyrirtækin aukið gróða sinn verulega vegna NAFTA.
Það sem einkennir samninga eins og NAFTA er að lægsti samnefnarinn verður viðmiðið. Þau svæði sem hafa há laun valda ekki launaskriði upp heldur lækka allir að lægstu laununum. Sama á við um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum. Umhverfisvernd og dýravernd við eldi fer sömu leið.
Í umræðunni um TIPP beggja vegna Atlanshafsins hefur greinilega komið fram að vinnulöggjöf ESB er til vandræða. Launin eru of há og vinnuvernd of umfangsmikil. Jafnvel Framkvæmdastjórn ESB hefur látið í það skína að til að verða samkeppnnishæf við bandaríska verkamenn verði menn að slá af kröfunum í ESB. Vinnulöggjöf í USA er mun óhagstæðari verkamönnum en í ESB. Réttur stéttafélaga er minni og völd atvinnurekenda mun meiri.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins útskýrir sýn sína á samninginn; ”the most signifcant trade barrier is not the tariff paid at the customs, but so- called “behind-the-border” obstacles to trade, such as, for example, different safety or environmental standards for cars. […] The goal of this trade deal is to reduce unnecessary costs and delays for companies…” Press Release. 13 February 2013. http://europa.eu/ rapid/press-release_MEMO-13-95_en.htm.
Þegar bandarísk fyrirtæki fá fullan og óhindraðan aðgang að ESB er hætt við að þeir undirbjóði framleiðslu víðsvegar um Evrópu og sérstaklega í S-Evrópu sem er í sárum. Þar sem atvinnuleysi er nú þegar mikið í S-Evrópu verður erfitt að verjast kröfum um verri vinnulöggjöf. Við það eykst munurinn á norður og suður Evrópu enn frekar.
Vaxandi viðskipti/framleiðsla hafa í för með sér aukna nýtingu auðlinda og mengun. Slíkir samningar miða að því að tileinka sér lægsta samnefnarann í regluverkinu því það eykur venjulega gróða fyrirtækjanna. Hornsteinninn í umhverfisstefnu og neytendavernd ESB er varúðarreglan ”precautionary principle”. Þar sem umhverfisreglugerðir ESB eru strangari en USA má búast við að þær muni veikjast með tilkomu TIPP samningins. Stórfyrrtæki hafa kvartað undan henni og vilja að umhverfisstefna ESB sé færð til samræmis við umhverfisstefnu USA eða Kína að öðum kosti geti Evrópa aldrei orðið samkeppnisfær.
Fracking(Hydraulic fracturing) eða háþrýstivökvabrotun/rof á íslensku er mjög gangnrýnd aðferð út frá umhverfissjónarmiðum og eru miklar takmarkanir á henni í ESB. Með ”fracking” má vinna meira gas eða olíu úr borholum. Samfara vökvanum sem er dælt í holuna eru oft notuð ýmis efni sem geta verið hættuleg auk þess sem mikið vatn og orka eru notuð. Sjálfsagt þyrfti ESB að slá af sínum reglum og leyfa fracking innan ESB með tilkomu TIPP.
Allar tilraunir ríkja til að reyna að styðja við innlenda framleiðslu eru bannaðar samkvæmt slíkum samningum og ef ekki er farið eftir því þá fara stórfyrirtækin í mál við viðkomandi yfirvöld. Gerðardómur fellir einfaldlega þann úrskurð að viðkomandi lög séu ógild. Þar með hefur milliríkjasamningur með tilstuðlan dómsstóls sem hefur ekkert lýðræðislegt umboð á bak við sig komist milli almennings og löggjafans. Þannig hafa yfirvöld enga aðra aðferðafræði til að reka sína pólitík en þá sem er samþykkt af fríverslunarsamningum.
Evrópskur landbúnaður stendur ekki vel að vígi gagnvart þeim bandaríska sem er mun stærri, nánast verksmiðjuframleiðsla samanborið við Evrópu. Evrópska reglur eru mun strangari þannig að hormónabætt kjöt, erfðabreytt matvæli og klórhreinsaðir kjúklingar gætu orðið daglegt brauð hjá Evrópubúum ef reglurnar yrðu afnumdar. Reglur um meðferð dýra er betri í ESB og sennilega myndu þær þynnast út við tilkomu TIPP samningsins. Auðvelt er fyrir þann bandaríska að undirbjóða þann evrópska. Þar með færi í súginn sú stefna að rækta ekológiskt og að versla beint frá bónda. Það myndi heyra sögunni til og ekkert framhald yrði á þeirri stefnu. Það má vel vera að evrópskur almenningur krefjist að strangar reglur gildi um landbúnað en versli síðan ódýrar vörur frá USA. Hrakfarir evrópsks landbúnaðar myndi síðan leiða til aukins atvinnuleysis meðal bænda og skýrsla frá Framkvæmdastjórninni telur að svo muni fara. Reyndar segir Framkvæmdastjórn ESB að ströng löggjöf um erfðabreytt matvæli séu ekki á samningaborðinu en aftur á móti ætli hún að vinna að því að lágmarka þær hindranir sem slík löggjöf skapar með tilveru sinni. Inside US Trade. ‘EU, US, poised to prepare launch of bilateral trade negotiations’. 15 February 2013
Hugverkaréttindi(intellectual property rights). Það er mikill þrýstingur frá stórum fyrirtækjum að semja sérstakar alþjóðlegar reglur um hugverkaréttindi. Hljómar vel á yfirborðinu en ýmislegt er undir. Það var reynt að koma slíkum samningi á með “the Anti-Counterfeiting Trade Agreement(ACTA)”. Hann mætti mikilli andstöðu frá almenningi og var að lokum hafnað af Evrópuþinginu á s.l. ári. Núna er ætlunin að koma honum að bakdyramegin í gegnum fríverslunarsamninga. Nú þegar hafa kaflar úr honum birst í samningi sem er í smíðum á milli Kanada og ESB og má gera ráð fyrir því að draugurinn birtist líka í TIPP. Stórfyrirtæki hafa þegar krafist þess að ákvæði skyld ACTA verði í TIPP samningnum.
Sem fyrr eru reglur um friðhelgi einstaklingsins á netinu strangari í Evrópu. Fyrirtæki hafa þar minni möguleika á að fylgjast með athöfnum einstaklinga á netinu. Fyrirtæki hafa mikinn áhuga á áhugamálum okkar og er hægt að átta sig á þeim með því að fylgjast með netnotkun okkar. Í ACTA samningnum voru ákvæði um að þau fyrirtæki sem veittu netþjónustu myndu fylgjast með viðskiptavinum sínum. Þau áttu að fylgjast með ef einhver myndi brjóta lög eða hugsanlega brjóta lög(meint lögbrot) um höfundarétt. Einnig átti að skylda netþjóna til að fylgjast með þriðja aðila sem bryti eða hugsanlega bryti höfundarétt. Þetta myndi veita einkaleyfishöfum aðgang að persónulegum upplýsingum án dómsúrskurðar. Jafnvel voru ákvæði um refsingu til handa netþjóni vegna athafna kaupanda. Þar með væru allir á netinu orðinir hugsanlegir glæpamenn og auk þess væri löggæsla og ákvörðun refsingar komin í hendur einkaaðila. Þannig yrði tjáningafrelsinu sett takmörk og persónuvernd skert.
Í ACTA var nánast sett samasem merki milli þess að fjölfalda geisladisk annars vegar og hins vegar framleiðslu samheitalyfja. Samtökin læknar án landamæra og fleiri brugðust mjög hart við þessu. Samheitalyf brjóta engin lög um höfundarétt og bjarga mannslífum á hverjum degi hjá þeim sem hafa ekki efni á frumlyfjum. Þrátt fyrir það reyndu stóru lyfjafyrirtækin að koma því þannig fyrir að hindranir og takmarkanir yrðu settar á framleiðslu og flutning samheitalyfja með tilkomu ACTA. Læknar án landamæra álykta svo að reglur um lyf í ACTA myndu hafa banvænar afleiðingar og séu eingöngu settar fram til að auka hagnað stórra frumlyfjaframleiðanda. http://www.msfaccess.org/content/acta-and-its-impact-access-medicines
Framleiðsla samheitalyfja hefur lækkað kostnað við heilbrigðisþjónustu umtalsvert og oft gert fátækum ríkjum mögulegt að bjóða þegnum sínum lyf sem þau hefðu annars ekki efni á.
”In 2000, for instance, basic anti-retroviral (ARV) treatment for HIV cost up to US$ 15,000 per person per year, whereas now (through the availability of generic medicines) the cost has dropped to US$150; a 99% reduction in costs.”
Árið 2012 lögsótti eitt stærsta lyfjafyritæki í Bandaríkjunum, Eli Lilly, stjórnvöld í Kanada. Það var gert á grundvelli fríverslunarsamningsins NAFTA. Þeir kærðu þau viðmið sem stjórnvöld í Kanada nota til að veita einkaleyfi á lyfjum. Fyrirtækið vill að Kanada breyti lögum sínum um hvernig einkaleyfi eru ákveðin eftir að þeim tókst ekki að fá einkaleyfi á lyfi(lyfið hafði eina rannsókn með 22 þátttakendum). Fyrirtækið fer fram á 100 milljóna dollara skaðabætur vegna hugsanlegas gróðataps. Í raun er fyrirtækið að fara fram á skaðabætur fyrir það að Kanada fór eftir sínum eigin lögum. Dómurinn gæti orðið fordæmisgefndi þannig að það séu fyrirtækin sem segi löggjafanum til hvernig lög eru gerð um veitingu einkaleyfa. Auk þess munu skattgreiðendur þurfa að punga út skaðabótagreiðslum. Þetta er enn eitt dæmið þar sem lögsaga fullvalda ríkja er tekin úr þeirra höndum og sett í sérdómsstól-gerðardóm mjög hallan undir fjölþjóðafyrirtæki. Vilji stjórnvalda og þar með kjósenda er þar með að engu gerður. Lýðræðinu er kippt úr sambandi en sérbraut auðs ræður ferðinni. http://www.citizen.org/eli-lilly-investor-state-factsheet
Evrópsk fyrirtæki vilja komast hjá mjög ströngum reglum bandaríska lyfjaeftirlitisins og ströngum reglum í USA um tæki innan heilbrigðisgeirans. TIPP gæti haft mun vægari viðmið og hægt væri að höfða til þeirra eða fara í mál við Bandaríkin.
Á Íslandi reyna yfirvöld að beina lyfjanotkun að ódýrari samheitalyfjum og er það gert með skilyrtri greiðsluþátttöku. Það er örugglega mismunun samkvæmt fríverslunarsamningum og því hætt við því að íslenska ríkið yrði fyrir lögsókn stórra lyfjarisa sem framleiða frumlyf ef við tökum þátt í TIPP.

Opinber innkaup geta breyst við TIPP. Stórfyrirtækin krefjast þess að fá sömu þjónustu og lítil fyrirtæki á staðnum og þess vegna ríkisstyrki. Í Kanada reyndu yfirvöld að styðja lítil staðbundin heilbrigðisfyrirtæki til að koma í veg fyrir að þau yrðu étin af þeim stóru. Með tilvísun í NAFTA fríverslunarsamninginn lögsóttu stór bandarísk heilbrigðisfyrirtæki stjórnvöld í Kanada og kröfðust stórra upphæða í skaðabætur vegna minni gróða. Ef TIPP verður að raunveruleika geta fyrirtæki sniðgegnið evrópska dómstóla, evrópsk lög og allt regluverk ESB ef því er að skipta. Þá er möguleiki á því að stór fyrirtæki taki yfir heilbrigðisþjónustuna og ef tekst að ýta samheitalyfjunum líka út af markaðnum mun kostnaður við heilbrigðisþjónustu hækka verulega. Í samspili við niðurskurðinn í Evrópu vegna bankakreppunnar mun það bitna mest á þeim sem minnst hafa og vera á skjön við þá mannréttindarímynd sem ESB hefur reynt að draga upp af sér.
Eftir bankahrunið hafa stjórnvöld í ESB og USA reynt að semja löggjöf sem minnkar líkurnar á því að bankarnir fari sér að voða aftur. Þessar reglur takmarka bankana að þeirra mati og þess vegna hafa þeir lagt inn tillögur um að í nýjum fríverslunarsamningi milli ESB og USA verði sett ný viðmið til að koma til móts við þá. Í raun eru hugmyndir bankanna í andstöðu við hina nýju löggjöf og eru þeir því að reyna að vinda ofan af henni sér í hag. Þar sem ekki fer mikið fyrir umræðu um fríverslunarsamninga þá eru þeir að reyna að kippa lagasetningum úr umferð bakdyramegin og án aðkomu löggjafans né almennings. Bönkunum tekst þá að koma á regluverki sem löggjafinn hefði aldrei samþykkt. Auk þess vilja þeir skylda yfirvöld til að tilkynna um allar tillögur eða hugmyndir að nýjum lagasetningum svo þeir geti strax byrjað að hafa áhrif. Yfirvöld vilja hafa lista yfir þá framleiðslu bankakerfisins sem er undanþegin reglum TIPP til að hafa betri stjórn á þeim. Bankarnir vilja að þessum lista verði lokað þegar samningurinn er tilbúinn. Það þýðir að allar nýjar afurðir bankakerfisins til framtíðar verða undir samningunum og þá líka gerðadómsleiðinni alræmdu. Í raun snúast hugmyndir bankanna um að minnka áhersluna á stöðuleika og hag viðskiptavina en beina frekar regluverkinu að því að tryggja gróða fjármálakerfisins og takmarka eftirlit. Ef fallist verður á kröfur bankanna þá missum við allt tangarhald á þeim og fjandinn verður fljótlega laus aftur. Gjaldeyrishöftin á Íslandi yrðu þá að fara þegar það hentaði fjármagninu en ekki efnahag Íslands. Einnig munu viðmið í TIPP samningnum smitast til annarra álfa og verða reglan.
TIPP er stór samningur, um 30% af allri verslun heimsins fer um USA og EU og hálf framleiðsla heimsins myndast þar. TIPP verður í raun stærsti samningur sinnar tegundar. Þannig yrði þessi samningur ráðandi vegna stærðar sinnar. Hann væri fordæmisgefandi og auk þess þar sem um er að ræða mikilvægt sölusvæði fyrir aðra þá yrðu þeir að beygja sig fyrir þeim reglum sem settar eru í þeim samningi. Vanþróuðu ríkin hafa verið andsnúinn því að svifta heimamarkað öllum vörnum gegn innrás stórfyrirtækja og þeim hefur tekist að þvælast fyrir innan WTO. Með TIPP samningnum yrði væntanlega þeirri hindrun rutt úr vegi. Auk þess hafa Indland, Brasilía, Rússland, Kína, S-Afríka viljað upp á dekk í heimsviðskiptum og ógnað forystu EU og USA en með TIPP samningnum yrðu þessi lönd hugsanlega að samþykkja hugmyndafræði TIPP samningsins. Þannig eru fríverslunarsamningar nýttir til að koma á stefnu fjölþjóðafyrirtækja sem þeim hefur ekki tekist á vegum WTO.

Mikil andstaða er innan Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Einstaklingar, grasrótarfélög, verkalýðsfélög berjast núna gegn TIPP og öðrum slíkum samningum. Því skítur það skökku við að forysta, þ.e. Ríkistjórn Bandaríkjanna og framkvæmdastjórn ESB vilji þennan samning. Meira að segja hefur framkvæmdaráð ESB lagt til að í honum sé gert ráð fyrir gerðardómi en það þýðir í raun að gefa skotleyfi á eigin löggjöf innan Evrópusambandisns. Ef TIPP verður að raunveruleika geta stórfyrirtæki sniðgegnið evrópska dómstóla og evrópsk lög. Reyndar er afstaða framkvæmdastjórnar ESB ekki sérstök þegar tekið er tillit til hversu stóran hluta(70%) stórfyrirtæki hafa í ráðgjafahópum í Brussel. Það verður alltaf augljósara að æðstu stjórnendur innan USA og ESB eru, minnst sagt, mög leiðitamir fjármálavaldinu og fjölþjóðafyrirtækjum. Markmið þeirra með TIPP samningnum er í andstöðu við hag almennings.
Miðað við þau áhersluatriði sem stórfyrirtækin hafa þá er ætlunin að auka rétt fyrirtækja mjög mikið. Að sama skapi er ætlunin að minnka eða fjarlægja rétt þjóðríkja til að stjórna sínum eigin málum. Réttindi launþega og almennings verða skert og það sem hefur áunnist með langri baráttu verður þurrkað út. Við erum í stöðugri stéttarbaráttu við stétt forréttindaaðals sem virðist aldrei fá nóg og er nægjanlega ósvífinn til að krefjast æ meir.
Með TIPP virðist auðvaldið ætla að reyna að loka hringnum og koma sjálfu sér í dómarasætið hnattrænt. Almenningur getur þá ekki gert neitt nema spyrja um leyfi fyrst þ.e. hvort þetta eða hitt samræmist einhverjum fríverslunarsamningi. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda vöku sinni og taka þátt í að mótmæla þessum hugmyndum. Það eru hópar og félög víðs vegar um heiminn sem standa í mikilli baráttu gegn þessum samningum. Valdið lætur ekki undan án baráttu. Ef ekkert réttlæti þá er enginn friður. Við verðum að halda áfram að berjast.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 2.6.2014 - 23:35 - FB ummæli ()

Fordómar og hótanir

Við í Dögun upplifðum mikinn mun á framkomu fólks eftir að Framsóknarflokkurinn lýsti yfir andstöðu sinni við að múslimar fengju ákveðna lóð undir mosku í Reykjavík. Eftir þá yfirlýsingu fengu sumir frambjóðendur á ferðum sínum ókvæðisorð og öskur um að við værum múslimaflokkur og jafnvel hnefa eða fingri veifað framan í viðkomandi. Fólki var greinilega heitt í hamsi.
Framsóknarflokkurinn gaf þessum einstaklingum löggildingu á hegðun sinni sem undir venjulegum aðstæðum telst ekki sæmandi.
Þráður við frétt Vísis er mjög alvarleg áminning um að við erum á rangri leið. Þar er Salman Tamini meðal annars hótað lífláti. Það er að sjálfsögðu lögreglumál en leysir ekki vandamálið.
Núna verða allir að standa saman og ná þessari umræðu á eitthvert vitsmunalegt plan áður en við missum stjórn á þessu. Allir þeir sem hafa einhverja þyngd í umræðu dagsins verða að leggjast á eitt og hjálpast að. Sagan kennir okkur að sitja heima og ekki skipta sér af dugar ekki. Eiríkur Örn rithöfundur ritar góðan pistil um þessi mál sem vert er að lesa.
Sínum skilning, samstöðu, hugrekki og tölum saman af skynsemi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.5.2014 - 23:34 - FB ummæli ()

Pyttur Framsóknarflokksins

Þegar Framsóknarflokkurinn ákvað að nota moskumálið til að afla sér atkvæða þá opnaðist forarpyttur í íslensku samfélagi. Fram hafa stigið menn og konur sem fullyrða að trúin á Kóraninn valdi hörmungum og dauða saklausra einstaklinga. Þess vegna verði að hefta framrás Islam með öllum tiltækum ráðum og þar með að hindra byggingu mosku í Reykjavík. Guðrún Bryndís fyrrverandi innanbúðarmanneskja í Framsókn lýsir því vel hvernig Framsóknarflokkurinn er í heilögu stríði gegn þeim sem trúa á Kóraninn á Íslandi.
Hinir kristnu Vesturlandabúar eru svo penir að þeir nota ómönnuð flugför-dróna-til að drepa andstæðinga sína um víða veröld. Aðallega er um að ræða Araba í Pakistan, Afganistan og Jemen. Einhverjir tugir eru myrtir daglega og er það allt saklaust fólk. Ef það er eitthvað sem býr til hryðjuverkamenn þá eru það þessi morð. Eru þessi morð vegna kristinnar trúar? Innrásin á Líbýu með NATO í broddi fylkingar myrti þúsundir saklausra borgara og lagði landið nánast í rúst. Er það vegna kristinnar trúar?
Eigum við þá ekki að bannfæra allar kirkjur á Íslandi og jafna þær við jörðu?
Bændaflokkurinn Framsókn virðist njóta þess að velta sér upp úr þessum forarpytti rasískra skoðana eins og ónefnd dýrategund. Það er mál að linni og að fjölgun þeirra verði hamin. Það geta bara kjósendur á kjördag gert, ódeyft.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.5.2014 - 23:24 - FB ummæli ()

Lýðræðið okkar

Í kosningabaráttunni heyrir maður í mörgum kjósendum. Það er hópur einstaklinga sem ætlar ekki að kjósa á laugardaginn. Þessir kjósendur hafa gefist upp á fulltrúalýðræðinu. Þeim finnst ekki skipta máli hvern þeir kjósa því allir svíkja kosningaloforðin. Oft vitnað í landsmálin og að núverandi ríkisstjórn hafi þegar svikið ýmis loforð. Ekki hefur útspil Framsóknar aukið virðingu þessara einstaklinga fyrir lýðræðiskerfinu okkar.

Vandamálið er í raun að það er ekki hægt að hafa stjórn á kjörnum fulltrúm á milli kosninga. Korter fyrir kosningar kemur loforðaflaumurinn og þessir kjósendur fá velgjuna upp í kok og sitja frekar heima en að kjósa. Hvað er til ráða? Ekki dugar sama uppskrift að minnsta kosti.

Það sem við í Dögun viljum gera er að 10% kjósenda geti skrifað á undirskriftalista og þar með fengið kosningu meðal íbúanna um hvaða mál sem er. Þar með hafa kjósendur fengið ákveðið vald milli kosninga. Þeir geta á þennan hátt vakið athygli á málum sem þeir brenna fyrir og skapað umræðu sem getur verið mjög mikilvæg. Ekki síst mál sem kjörnir fulltrúar vilja ekki að komist í hámæli. Auk þess getur kosningin valdið því að kjörnir fulltrúar standi við kosningaloforðin sín. Ekki slæmt eða hvað?

Með því að leggja meira vald í hendur kjósenda eykst pólitískur áhugi þeirra og virkni. Kjósendur eru ekki heimskir því þegar þeir finna sig áhrifalausa þá nenna þeir þessu ekki. Við í Dögun viljum snúa þessari þróun við og vonandi munu aðrir flokkar sjá að sér og útdeila raunverulegu valdi til kjósenda.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur