Laugardagur 22.3.2014 - 01:43 - FB ummæli ()

Baráttan um brauðið

Pólitísk umræða á Íslandi er frekar sorgleg í dag. Stórir hópar fólks mæta á hverjum laugardegi og mótmæla sviknum kosningaloforðum núverandi stjórnarmeirihluta. Það er gott og blessað, í raun virðingaverð viðleitni í ástundun lýðræðis af hálfu almennings. Á því hefur verið mikill skortur lengi og í raun einkennt íslenskt lýðræði fyrir utan smá gos 2008. Í raun var mun mikilvægara fyrir almenning að mæta á Austurvöll í tíð fyrri ríkisstjórnar og mótmæla sviknum kosningaloforðum. Þá hefði kannski verið einhver von um að bæta kjör þeirra sem minnst hafa úr býtum í samfélagi okkar. Ef sófasócilademókratarnir hefðu mætt á Austurvöll þá hefðu Steingrímur og Jóhanna kannski gert skurk í því að bæta kjör fátækra að einhverju marki. Það mun ekki gerast í tíð núverandi ríkisstjórnar, þar njóta bara ríkir hagsmunaaðilar forgangs.

Ísland er eitt af ríkustu löndum veraldar. Við erum í 16-20 sæti yfir þjóðartekjur á mann. Það finnst engin afsökun fyrir því að fátækt sé á Íslandi. Til að breyta því verða þeir sem sætta sig ekki við fátækt  að mótmæla og þvinga stjórnvöld til að breyta um stefnu. Í raun ætlar enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi að breyta þessu því þá yrðu atvinnurekendur að hækka lágmarkslaun og það vill  verkalýðsforystan ekki gera. Ástæðan er einfaldlega sú að verkalýðsforystan og atvinnurekendur deila þeirri sameiginlegu sýn á sjálfan sig að þeir séu hluti af fjármálavaldinu. Þess vegna er Austurvöllur augljós samverustaður fyrir þá sem eru ósáttir við fátækt á Íslandi.

Fjármálavaldið stjórnar íslenskri verkalýðsforystu, stjórnmálaflokkum og atvinnurekendum. Þegar verk framkvæmdastjórnar ESB í viðbrögðum við kreppunni eru metin eru þau flest öll til hagsbótar fyrir fjármagnseigendur, þ.e. fjármálavaldinu. Ef dimmbláir Sjálfstæðismenn stæðu á Austurvelli og mótmæltu því að við værum ekki á leið inní ESB hefði ég skilning á því en þegar ”vinstri” menn hópast til að styðja framgöngu fjármálavaldsins á heimsvísu er mér brugðið.

Kannski fáum við ódýra skinku og Evru einhvern tímann í framtíðinni en við getum útrýmt fátækt á Íslandi í dag. Notum lýðræðið, krefjumst lýðræðis og forgangsröðum rétt kæru félagar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 21.2.2014 - 21:45 - FB ummæli ()

ESB og þjóðarvilji

Ég hafði hugsað mér að blogga um Evrópusambandið. Hugsunin var að fjalla á málefnalegan hátt um hvers vegna ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að ganga í ESB. Núna er allt upp í loft í samfélaginu vegna ESB. Framsóknarflokkurinn hefur haft í frammi fullyrðingar um ESB sem er erfitt að flokka sem málefnalega umræðu, frekar upphrópanir. Núna ætlar Ríkisstjórnin  að draga til baka umsókn Íslands um aðild að ESB.

Að sjálfsögðu ætti ég að vera ofsa kátur yfir því sem sannur ESB andstæðingur. Það var nú einu sinni þessir Samfylkinga”landráðamenn” sem kengbeygðu Vinstrigræna til að sækja um aðild, snúið var upp á handleggi þannig að brakaði í. Vandamálið er að ég er ekki kátur. Núverndi stjórnarflokkar höfðu gefið kosningaloforð, ”ef ég man rétt”, að almenningur fengi að kjósa um hvort halda ætti aðaildaviðræðum áfram eða ekki.

Ég minnist þess ekki að Samfylkingin hafi lofað kjósendum neinum valmöguleikum áður en sótt var um aðild að ESB, hvað þá þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að þeir sviku ekki neitt…

Kannski er ég of mikill smáborgari en mér finnst loforð alltaf vera loforð og það sama gildir um kosningaloforð, orð skulu standa eða hvað? Reyndar hefur þessi Ríkisstjórn ekki staðið við nein kosningaloforð ennþá(nema fyrir þá ríku), þannig ef staðið væri við þetta þá væri það stílbrot.

Ég vil að þjóðin ákveði og ráði, jafnvel þó ég sé ekki sammála niðurstöðu hennar. Ég óttast ekki umræðuna en mun frekar þá sem vilja ekki umræðuna.

Ég held að ég bíði með málefnalegt blogg um hvers vegna ég tel að ESB sé ekki góður kostur fyrir Ísland þangað til upphrópanir og sleggjudómar hafa horfið af sviðinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.2.2014 - 23:27 - FB ummæli ()

Haftaleysi Viðskiptaráðs

Bankahrunið á Íslandi haustið 2008 olli mjög miklum skaða. Menn rifjuðu upp að ríkisstjórnir í aðdraganda hrunsins höfðu að miklu leyti farið að tilmælum Viðskiptaráðs Íslands. Árið 2006 fékk VÍ tvo menn, Tryggva Þór og Mishkin til að skrifa skýrslu um hversu vel heppnuð hagfræði VÍ væri á Íslandi. Það er því ljóst að VÍ er þungavigtafélag í íslenskri pólitík sem með sínum lobbíisma stuðlaði að því að landið hafnaði í gjaldþroti. Til að bæta gráu ofan á svart sendi VÍ frá sér skýrslu í júní 2008 þar sem þeir töldu hið opinbera of stórt og það ætti að draga sig saman með kerfisbundnum og markvissum hætti næsta áratug til að hleypa einkageiranum að sem framleiddi meiri verðmæti en hið opinbera. Svo kom október 2008 þar sem einkageirinn dró sjálfan sig og ríkið í faðm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins(sem var reyndar aðalheimild júnískýrslu VÍ) og ríkið varð fyrir vikið ennþá stærra.

Það sýnir mikið hugrekki og karakter hjá Viðskiptaráði að þeir séu komnir uppá dekk á nýjan leik. Nýjasti lyfseðillinn hljómar þannig í ræðu formanns á Viðskiptaþingi þann 12 febrúar s.l..

”Það er því afar brýnt að stjórnvöld leggi allt í sölurnar til að greiða fyrir afnámi hafta sem fyrst”.

Að afnema gjaldeyrishöftin getur endað með skelfingu. Íslenska krónan gæti fallið mjög mikið og þar með værum við að endurtaka hrunið frá 2008. Ekki vil ég trúa því að VÍ vilji að við leggjum svo mikið í sölurnar en óneitanlega hræða sporin.

Auk þess er hollt að hlusta á varnaðarorð hagfræðiprófessorsins Ha-Joon Chang um fáránleika frjálshyggjunnar í Silfri Egils. Hann varaði okkur við því að menn myndu koma fram í fyllingu tímans og krefjast þess að við afnæmum gjaldeyrishöftin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.2.2014 - 20:33 - FB ummæli ()

Icesave og aðrar bankabækur

Icesave dúkkaði upp aftur í fréttum dag. Nú vilja Hollendingar og Bretar sækja fé í Tryggingasjóð innustæðueigenda á Íslandi. Ég tel að grundvallarmisskilningur sé hér á ferðinni og kemur hann meðal annars fram í nafni sjóðsins hér á landi. Þessi misskilningur er reyndar ekkert sér íslenskur heldur alþjóðlegur.

Hefðbundnar bankabækur sem almenningur notar hjá bönkum kallast innlánsreikningar á íslensku. Þegar við leggjum peningana okkar inná bankabók í banka erum við að lána bankanum peningana okkar sbr. nafnið ”innlánsreikningur”. Upphæðin sem við sjáum í heimabankanum okkar er loforð bankans um að endurgreiða okkur lánið. Við fáum smá vexti hjá bankanum fyrir ómakið. Við erum þess vegna lánadrottnar í þessum viðskiptum og vorum fjármagnseigendur. Ef þú lánar einhverjum peningana þína þá hefur lántakandinn(þ.e. bankinn) fulla heimild til að nota peninga í það sem honum dettur til hugar. Þess vegna eru engir peningar inná bankabókinni þinni eingöngu loforð bankans um endurgreiðslu. Það er ekki hefð fyrir því að skattgreiðendur tryggi lánasamninga einkaaðila og á ekki heldur að vera í fyrrnefndum lánaviðskiptum milli banka og almennings.

Mun eðlilegra væri að lánendur bankanna leituðu til tryggingafélaga vegna lána sinna til bankanna. Vandamálið yrðu sennilega iðgjöldin því tryggingafélag myndi sjálfsagt kanna ferilskrá banka:

1637, 1720, 1772, 1792, 1796, 1813, 1819, 1825, 1837, 1847, 1857, 1866, 1873, 1884, 1890, 1893, 1896, 1901, 1907, 1910, 1929, 1973, 1980, 1983, 1987, 1989, 1990, 1992, 1994, 1997, 1998, 2001 og 2007.

Þetta eru helstu ártölin yfir bankakreppur og margar fleiri minni gerðust sem eru ekki taldar upp. Tel mjög ósennilegt að tryggingafélög vildu tryggja innlánsreikningana okkar nema fyrir himinhá iðgjöld. Að stuðla að því að hafa einhverskonar tryggingu á innlánum eins og stefnan er í mörgum löndum er eingöngu til að gefa almenningi falskt öryggi og bönkunum ábyrgðarleysi samanber íslensku bankakreppuna 2008.

Tvennt er augljóst að lánaviðskipti okkar til bankanna eru mjög ótrygg og hitt að bankar virðast hafa mjög sterka tilhneigingu til að valda kreppum. Lánar maður slíkum aðilum? Hvað er til ráða?

 

Bankakreppur:

BankingCrises.svg

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.2.2014 - 01:54 - FB ummæli ()

Öryrkjar eða sægreifar

Síminn hringdi heima hjá mér og kona, öryrki, einstæð móðir var á línunni. Ekki ein einasta króna til og það er bara sjöundi febrúar. Hvert leita ég og hvar fæ ég hjálp?

Konan mín ætlar að svara henni á morgun ef hún finnur merki um brauðmolahagfræðina í samfélagi okkar.

Samkvæmt nýlegri rannsókn Háskóla Íslands finnst öryrkjum að staða þeirra mætti vera betri. Samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi að frumkvæði Ríkisendurskoðunar er þessi skoðun þeirra dregin í efa að einhverju marki. Sumir eru að nýta sér kerfið án réttinda að mati Ríkisendurskoðunar. Samkvæmt því þá ræna bótaþegar frá okkur hinum þremur milljörðum.

Hagnaður Brims var næstum 4 milljarðar árið 2012 við nýtingu á auðlind okkar.

Hvers vegna finnst meirihluta Alþingis að það sé meiri pening að fá frá öryrkjum en sægreifum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.12.2013 - 23:42 - FB ummæli ()

Laun og verðbólga

Dramatíkin í dönsku þáttunum Dicte er ósvikin en til allra hamingju að mestu skáldskapur. Þegar fylgst er með skrifum verkalýðsforingja á Íslandi er mikil dramatík líka, sérstaklega um nýgerða kjarasamninga ASÍ. Þar sýnist sitt hverjum og mikið rætt um verðbólguna í því sambandi. Henni er kennt um margt og talin jafn slæm og Grýla. Það sem er ennþá verra er að almennum launamönnum á Íslandi er kennt um tilvist verðbólgunnar vegna launa sinna. Ef laun þeirra hækka þá eykst verðbólgan og étur upp launahækkun þeirra. Samkvæmt þessu eru launamenn heimskir a.m.k. ef tillit er tekið til auglýsinga ónefndra aðila.

Hvers vegna er verðbólga? Hvað er verðbólga?

Verðbólga er hækkun á ”vöruverði” milli tveggja tímapunkta. Vöruverðið er oftast ákveðið fyrirfram sem einhver ”karfa” af vörum sem eru viðmiðunin. Þegar þessi karfa hækkar í verði um t.d. 5% þá er verðbólgan sem sagt um 5% prósent.

Ef við gefum okkur að í ákveðnu ríki sé brauðverð það eina sem ákvarðar verðbólgu og þú ert bakari. Þú finnur fyrir auknum þrýstingi að hækka brauðverðið en villt koma í veg fyrir það. Bæði er það að þú vilt ekki lenda í verri samkeppnisaðstöðu með hærra brauðverði og einnig vilt þú ekki bera ábyrgð á því að verðbólgan aukist. Þess vegna sest þú niður og reynir að koma í veg fyrir að hækka brauðverðið. Þú ferð í gegnum kostnaðarliðina. Laun þín og annarra starfsmanna, hráefni, rafmagn, vatn, hitaveitu, húsaleigu, flutninga, skrifstofukostnað, auglýsingar og hagnað sem þú reynir að minnka. Þér tekst að lækka eitthvað af þessu og þeir sem selja þér leggja sitt af mörkum og lækka sinn hluta þangað til að hnífurinn kemur að beini. Síðan er ekki við neitt ráðið og þú verður að hækka brauðverð um 5% og allir aðrir bakarar verða að gera það líka. Þar með eykst  verðbólgan um 5% í þessu ríki.

Laun hafa vissulega áhrif og þess vegna er alltaf verið að tala um að hafa þau í algjöru lágmarki til að koma í veg fyrir hækkun verðbólgunnar.

Langflestir þessir aðilar sem taldir voru upp; bakarinn, launamennirnir, rafmagnsveitan, vatnsveitan, hitaveitan, flutningsfyrirtækin, leigjandinn, auglýsingarstofan og hráefnasalarnir hafa annan kostnað sameiginlegan sem er ekki nokkur vegur að minnka. Það er skuldin og fjármagnskostnaðurinn. Allir skulda þeir lánastofnunum(bönkum). Þar sem skuldin/fjármagnskostnaður eykst stöðugt og ekki fæst neinn afsláttur af henni þá er það skuldin sem er megin orsök verðbólgunnar en ekki launin. Öllum þykir sjálfsagt að launamenn veiti afslátt en alls ekki að bankarnir geri það sem væri mun áhrifaríkara.

Sumir telja að magn peninga í umferð hafi áhrif á verðbólgu. Þar sem sú stærð kom aldrei til álita hjá bakaranum okkar, þar sem sú stærð er ekki í jöfnunni sem ákvarðar brauðverðið sem veldur verðbólgunni, getur það ekki haft áhrif á verðbólguna. Enda gerir það það ekki. Aftur á móti er það skuldin, sem fyrr segir, sem ræður þar mestu um. Þar sem peningar eru búnir til sem skuld þá eykst skuldin alltaf um leið og peningar eru búnir til og þess vegna eykst verðbólgan.

Tvennt er á hreinu, laun almennings þurfa að hækka því peningar búnir til sem skuld valda verðbólgu og að enginn hagfræðingur viðurkennir það að peningar séu búnir til sem skuld sem hækkar verðbólgu.

Kannski ættum við bara að fara horfa aftur á dönsku þættina Dicte…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.12.2013 - 00:49 - FB ummæli ()

Stikkfrí

Sennilega eru Alþingiskosningarnar einn merkilegasti atburðurinn á s.l. ári, að minnsta kosti í pólitíkinni. Ég tók þátt í einu af nýju framboðunum(Dögun) en straumurinn var ekki til þeirra heldur fjórflokksins. Vinstri flokkarnir glötuðu besta tækifæri sínu til að sanna sig frá upphafi og þess vegna fór fylgið til Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins og þeir flokkar unnu stóran sigur s.l. vor. Sumir dæmdu kjósendur sem heimska en því er ég ósammála. Kjósendur telja einfaldlega að lausnir finnist innan fjórflokksins og þess vegna snýst þátttaka þeirra í kosningum um að velja á milli þeirra. Meðan lang flestir telja að fjórflokkurinn hafi lausnir er ekki von á breytingum sem skipta máli. Fylgið ferðast á milli fjórflokkanna og pólitíkin er keimlík og valdastéttin situr örugg í sínum sessi.

Þar sem fjórflokkurinn er gegnsýrður og stjórnað af valdastétt landsins eru kjósendur í raun að kjósa sama hópinn yfir sig aftur og aftur. Því miður er ekki víst að það dugi að kjósa framhjá fjórflokknum því völdin liggja ekki endilega innan veggja Alþingis. Ef kjósendur kjósa alltaf sama hópinn og þeir hafa engin raunveruleg völd þurfum við þá ekki að breyta til og kjósa frekar þá sem hafa völdin eða að endurvekja völd þeirra sem sitja á Alþingi.

Mörgum er ljóst að fjármálakerfið, bankarnir og stórfyrirtækin stjórna. Að aftengja þessi valdatengsl er mjög brýnt. Það sem gerir bankana sérstaklega valdamikla er að þeir búa til peningana fyrir almenning og opinbera aðila. Þessu verður að breyta. Peningaprentun er í raun fjórða valdið í lýðræðsisskipulagi okkar og það valdamesta. Að einkafyrirtæki sem kallast bankar hafi það vald er í algjörri andstöðu við hugsjónir lýðræðisins. Slíkt vald á heima hjá almenningi ef hann vill geta haft einhver áhrif á líf sitt og framtíð sína. Meðan síðasta orðið er alltaf hjá fjármála(banka)kerfinu er til lítils að kjósa einhverja pólitíska stefnu, hversu falleg sem hún er, til að lúta valdi þess. Framtíðin ber í skauti sér hægri stjórn, síðan vinstri stjórn eða kannski blandaða stjórn og ASÍ semur um kauphækkanir fyrir almenning eftir þörfum fjármálakerfisins.

Ef allur almenningur gerði sér grein fyrir tengslum stjórnmála og fjármálakerfisins þá yrði bylting. Að gera sér grein fyrir því að fjármála(banka)kerfið stjórnar í raun og að fjór(fimm)flokkurinn lítur stjórn þess kerfis án nokkurs umboðs myndi valda straumhvörfum. Sú einfalda staðreynd að börnin okkar eiga sér ekki góða framtíð myndi vekja marga. Þegar rætt er um að við verðum að verða samkeppnishæf er átt við að launakjör okkar nálgist það sem er lægst í heiminum. Það er framtíðarsýn þeirra sem stjórna fyrir börnin okkar. Allri stéttarbaráttu afa og ömmu verður sturtað niður með tölvuleikjum og sápuóperum nútímans.

Fixið er fjórflokkurinn, það er ekki heimska, það er fíkn í að vera stikkfrí.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.11.2013 - 19:56 - FB ummæli ()

Upprunamerking peninga

Það var til umræðu um daginn aðferð til að leysa skuldavanda heimilanna. Umræðan fór fram í þingnefnd með fulltrúm Seðlabanka Íslands, bankinn sem setti vextina sína afturábak á skuldir almennings um árið. Þeir sögðu að stofnun leiðréttingasjóðs hjá Seðlabankanum jafngilti seðlaprentun og buðust til að stafa ofaní okkur hverjar afleiðingarnar yrðu.

Við búum við stöðuga seðlaprentun af hálfu einkabankanna sem hefur verðtrygginguna/bólguna sem sérstakan Katalísator til að vélin gangi extra vel. Þannig að við erum öllu vön. Þess vegna ætti það ekki að skipta máli hver býr til þessa peninga, áhrif þeirra yrðu eins, eða hvað. Samkvæmt Seðlabankanum færi Ísland beinustu leið í ruslflokk hjá alþjóðlegum matsfyrirtækjum ef Seðlabanki Íslands myndi dirfast að prenta peninga. Ég er ekki grunlaus um að menn hafi fölnað samtímis og þeir sögðu frá þessu.

Það rifjaðist upp fyrir mér fréttaskot sem ég sá á netinu í tengslum við að alþjóðasamfélagið gekk á milli bols og höfuðs á Gaddafi heitnum. Hann var með seðlabanka sem bjó til peninga fyrir hann og hann ætlaði meira að segja að búa til nýjan afrískan gjaldmiðil, gull dínarinn. Allir sem vildu kaupa olíu af honum áttu að nota gull dínar en ekki dollara.

Ekki skrítið að þeir fölni í Seðlabankanum  en Sigmundur Davíð mun vonandi sýna það að hann er engin gunga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.10.2013 - 08:11 - FB ummæli ()

Fjármögnun Landspítalans

Fyrir hundrað árum söfnuðu íslenskar konur peningum fyrir nýjum spítala. Engin slík söfnun er í gangi og ríkiskassinn er í bullandi mínus. Staðan er algjörlega óþolandi á Landspítalanum og ef ekki rís ný bygging þá mun núverandi starfsemi hraka verulega hvað svo sem verður bætt í brestina. Á ögurstundu grípa menn til óvenjulegra aðgerða til að bjarga sér.

Peningar eru búnir til af tveimur aðilum í þjóðfélaginu. Seðlabanki Íslands býr til seðla og mynt og eru þeir peningar um 3% af öllum peningum í umferð. Aðrir peningar, þ.e. 97% peninga í umferð búa bankarnir til. Það er ekki þannig að bankarnir endurláni þá peninga sem við leggjum inn á bankabækur okkar því það myndi aldrei duga hagkerfinu. Þeir búa til nýja peninga sem ekki voru til áður. Ef þeir voru ekki til áður þá búa bankarnir til peninga úr engu og þannig er það. Eina leiðin fyrir banka til að búa til peninga er að lána þá, þ.e. einhver verður að skuldsetja sig svo bankarnir geti búið til peninga sem hagkerfið þarfnast til að vera starfhæft.

Ef bankarnir geta búið peninga úr engu þá getur ríkið gert það líka.

Það eru nokkur söguleg dæmi um slíkt. Abrham Lincoln leitaði til banka til að fjármagna þrælastríðið á sínum tíma. Vaxtaprósenta bankanna var mjög há og honum leist ekki á blikuna. Honum hafði verði kynnt þessi staðreynd að ef bankar geta búið til peninga úr engu þá getur hið opinbera gert það líka. Þess vegna bjó hann til sína dollara sjálfur sem voru ögn grænni á bakhliðinni en venjulegir dollarar, Greenbacks voru þeir kallaðir. Á þann hátt fjármagnaði hann þrælastríðið og að því loknu voru Norðurríkin skuldlaus því hans dollarar voru ekki búnir til sem skuld eins og bankapeningar eru. Suðurríkin voru aftur á móti að drukkna í skuldum.

Sem sagt ef við viljum nýjan Landspítala þá getum við byggt hann. Við höfum hráefni, mannafla og tækni. Þess vegna er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja bygginguna. Allt sem við getum greitt með íslenskum krónum greiðum við án skuldsetningar. Eftir því sem húsin rísa þá greiðum við fyrir þau með íslenskum krónum sem ríkið býr til.

 

“It is well that the people of the nation do not

 understand our banking and monetary system, for if

 they did, I believe there would be a revolution before tomorrow morning.“ 

 

─ Henry Ford

 

Ég veit að þið eruð full vantúar og teljið að síðuhöfundur sé létt bilaður en þetta er svona. Það er geggjað að einkafyrirtæki sem heita bankar hafi á því einkaleyfi að búa til peninga(fyrir utan seðla og mynt, 3%). Auk þess að þeir búi þá til sem skuld sem er að leggja allt í rúst. Skuldirnar eru hlekkjar nútímans. Þessu er hægt að breyta eins og öðrum mannanna verkum.

Fylgjum fordæmi Abrahams Lincolns og búum til okkar eigin peninga án skuldsetningar og þá getum við byggt Landspítala og átt hann síðan öll saman skuldlausan. Abraham Lincoln hafði í huga að halda þessu áfram en því miður var hann myrtur. Tökum upp þráðinn og klárum dæmið.

Gefum Abraham Lincoln orðið og hér er ein frábærasta ræða hans;

Lincoln’s Monetary Policy is included here in its entirety.

Monetary Policy (1865)

Money is the creature of law, and the creation of the original issue of money should be maintained as the exclusive monopoly of national government. Money possesses no value to the state other than that given to it by circulation.

Capital has its proper place and is entitled to every protection. The wages of men should be recognized in the structure of and in the social order as more important than the wages of money.

No duty is more imperative for the government than the duty it owes the people to furnish them with a sound and uniform currency, and of regulating the circulation of the medium of exchange so that labour will be protected from a vicious currency, and commerce will be facilitated by cheap and safe exchanges.

The available supply of gold and silver being wholly inadequate to permit the issuance of coins of intrinsic value or paper currency convertible into coin in the volume required to serve the needs of the People, some other basis for the issue of currency must be developed, and some means other than that of convertibility into coin must be developed to prevent undue fluctuation in the value of paper currency or any other substitute for money of intrinsic value that may come into use.

The monetary needs of increasing numbers of people advancing towards higher standards of living can and should be met by the government. Such needs can be met by the issue of national currency and credit through the operation of a national banking system. The circulation of a medium of exchange issued and backed by the government can be properly regulated and redundancy of issue avoided by withdrawing from circulation such amounts as may be necessary by taxation, re-deposit and otherwise. Government has the power to regulate the currency and credit of the nation.

Government should stand behind its currency and credit and the bank deposits of the nation. No individual should suffer a loss of money through depreciation or inflated currency or Bank bankruptcy.

Government, possessing the power to create and issue currency and credit as money and enjoying the right to withdraw both currency and credit from circulation by taxation and otherwise, need not and should not borrow capital at interest as a means of financing government work and public enterprise. The government should create, issue and circulate all the currency and credit needed to satisfy the spending power of the government and the buying power of consumers. The privilege of creating and issuing money is not only the supreme prerogative of government, but it is the government’s greatest creative opportunity.

By the adoption of these principles, the long-felt want for a uniform medium will be satisfied. The taxpayers will be saved immense sums of interest, discounts, and exchanges. The financing of all public enterprises, the maintenance of stable government and ordered progress, and the conduct of the Treasury will become matters of practical administration. The people can and will be furnished with a currency as safe as their own government. Money will cease to be the master and become the servant of humanity. Democracy will rise superior to the money power.

Abraham Lincoln, Senate document 23, Page 91. 1865.

 

Greinin var að hluta til birt i Morgunblaðinu 23/10 2013.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.10.2013 - 22:04 - FB ummæli ()

Hver stjórnar

Að skattleggja skilanefndir er árás á eignaréttinn. Að stöðva nauðungaruppboð er árás á eignaréttinn. Við vörðum eignaréttin(fyrir þá) þegar við endurreistum bankakerfið. Að leiðrétta skuldir fasteignaeigenda er sjálfsagt árás á eignarétt(þeirra) og að afnema verðtrygginguna er árás á framtíðar eignarétt lánadrottna okkar. Hlutverk núverandi stjórnvalda er að gera minnst lítið nema að halda skrílnum í skefjum svo eignanámið frá okkur til þeirra gangi óhindrað fyrir sig. Ef þau væru með okkur í liði væru þau búinn að redda þessu fyrir löngu.

Við höfum enga stjórn á kjörnum fulltrúum okkar. Við höfum engin verkfæri til að fá þá til að sinna hagsmunum okkar. Þeim er stjórnað af lánadrottnum. Fjármálakerfið með bankakerfið í broddi fylkingar stjórnar þeim sem  þjóðin kaus til að vinna fyrir sig. Þess vegna er það frumskilyrði ef við viljum hafa einhverja gleði af því að ræða mismunandi pólitískar stefnur að við losum þetta tangarhald. Meðan það er til staðar skiptir það ekki svo miklu máli hverja við veljum í stólana.

Tangarhaldið er skuldin. Að fulltrúar skattgreiðenda skyldu taka það í mál að leggja allar þessar álögur á almenning við endurreisn bankakerfisins veldur því að núverandi stjórnvöld telja sig ekki fær um að reka hér velferðarkerfi nema það sem snýr að kvótagreifum og lánastofnunum. Tangarhaldið er einnig einkaleyfi bankanna til að búa til peninga. Ef þeir neita að taka við ríkisskuldabréfi þá fær ríkið ekki peninga til að reka sig. Grikkir fengu að finna fyrir því þegar lánadrottnar kröfðust svo hárra vaxta(fyrir að búa til peninga úr engu) að Grikkir hrökkluðust í fang þríeykisins. Þríeykið þvingaði síðan Grikki að taka á sig skuldir til að greiða fyrir mistök bankakerfisins. Núna koma fréttir um að einn Háskólanna í Aþenu sé að loka vegna niðurskurðar. Saga Grikkja síðustu ár sýnir okkur einnig að litlu skiptir hverja þeir hafa valið í stólana, þríeykið sem fulltrúi lánadrottna ræður öllu.

Skuldsetningin sem þröngvað er upp á þjóðir þjónar sínum tilgangi. Ef rýnt er í örlög Grikkja er margt í vændum fyrir okkur og aðrar þjóðir í svipaðri stöðu s.s. sala ríkisfyrirtækja og að arður af auðlindum almennings fari í bankabækur stórfyrirtækja í skattaskjólum.

Er ekki kominn tími til að nema staðar gott fólk, huga að því sem sameinar okkur. Við hljótum að geta sameinast um að afnema völd fjármálakerfisins yfir kjörnum fulltrúum okkar. Vald fjármálakerfisins þarf að flytja aftur til kjörinna fulltrúa okkar því það er fjórða valdið í lýðræðisskipulagi okkar. Það ætti að gagnast öllum pólitískum stefnum því þá geta allir rekið sína pólitík án afskipta fjármálakerfisns. Það er einfaldlega of mikið í húfi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur