Sunnudagur 31.3.2013 - 17:25 - FB ummæli ()

” There is no alternative (TINA)”

Stundum hefur maður heyrt talað um ”realpolitik”. Það er pólitík sem inniheldur minna af hugmyndafræði og siðferðilegum vangaveltum og meira af raunsæi. Stundum er Tony Blair nefndur til sögunnar og þá í þeim tilgangi að styrkja slíka stefnu. Þessa pólitík hafa sócíaldemókratar tileinkað sér í sínum málflutningi. Gagnsemi þessarar pólitíkur er af tvennum toga. Hægt er að tala niður til allra hugsjónamanna og telja þá til óraunsæismanna og hitt að auðveldara var fyrir kratana að samsama sig með Thatcher þegar hún sagði að ”There is no alternative (TINA)”.

Í raun er tekist á um þessar áherslur í pólitík dagsins. Realpolitk stefnir á íhaldsemi með litlum breytingum nema í þágu fjármálaaflanna. Að ætla sér að afnema vertrygginguna, leiðrétta forsendubrestinn, lögleiða lágmarksframfærslu, virða náttúruna, bjarga auðlindum, breyta stjórn fiskveiða og koma á réttlæti flokkast undir óraunsæi. Oft talað um ”lýðskrum”. Þessi síbylja um realpolitik/TINA gefur þjónum fjármagnsins þau forréttindi að þurfa ekki að rökstyðja  skoðanir sínar heldur dugar að vísa í að við hin séum óraunsæ/lýðskrumarar og þeir ástundi realpolitik. Sú mikla ábyrgð sem felst í realpolitik er að kúga samborgarana í þágu forréttindahópanna. Hugsjónrafólk er í þeirri stöðu að þurfa að afsanna TINA-þvættinginn.

Hvaða raunsæi felst í afskriftum á skuldum auðstéttarinnar, milljörðum, eða þá fullri innistæðutryggingu ríka fólksins haustið 2008, þar og þá voru til nægir fjármunir og ekkert óraunsæi á ferðinni, bara realpolitik.

Ef fjórflokkurinn kemst til valda aftur á næsta kjörtímabili er mikil hætta á því að Íslandi verði stjórnað í þágu fjármagnsins næstu fjögur árin eins og síðastliðin fjögur ár. Snjóhengjan losuð á kostnað skattgreiðenda, lánadrottnar reki fólk af heimilum sínum, auðlindir í eigu stórfyrirtækja, kvótagreifar sitji að öllum hagnaði sjávarútvegsins og íslenska krónan í frjálsu falli.

Að kjósa fjórflokkinn eða Bjarta framtíð er ekki valmöguleiki fyrir þá sem vilja breytingar. Þeir verða að kjósa eitthvað annað og get ég mælt með Dögun og hvet alla til að kynna sér þann valkost.

Almenningur verður að gera sér grein fyrir að TINA var fundið upp til að þagga niður í breytingaröflunum og viðhalda völdum fjármagnsins, ef þú ert sáttur við það þá kýst þú fjórflokkinn og Bjarta framtíð, annars okkur hin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.3.2013 - 22:17 - FB ummæli ()

Valmöguleikar á páskum

Íslensk þjóð hefur sjaldan haft meiri möguleika en í dag. Hægt er að kjósa gamla fjórflokkinn og viðhengið Bjarta framtíð til að gulltryggja áframhaldandi pólitík um að halda völdum valdanna vegna. Hins vegar er möguleiki á því að kjósa ný framboð sem lofa því að vinna fyrir almenning og afneita tengslum við sérhagsmunaaðila. Öll framboð þurfa að komast yfir 5% þröskuldinn og er það gömul staðreynd. Af þeim sökum hafa margir unnið að því að sameina alla sem vilja raunverulegar breytingar á Íslandi allt frá hruni haustið 2008. Árangurinn af þeirri vinnu hefur orðið andstaða markmiðsins og í stað eins framboðs höfum við mörg framboð. Við höfum Dögun, Pírata, Lýðræðsivaktina og Hægri græna sem eru komin á landsvísu. Flokkur heimilanna er í fæðingu og síðan sérframboð í kjördæmum. Samstaða var á tímabili á leið í framboð en helltist úr lestinni.

Klofningurinn orsakast bæði af mönnum og málefnum.

Mikil vinna hefur átt sér stað við sameiningu margra hópa undanfarin tvö ár og afraksturinn af því var stofnun Dögunar fyrir ári síðan. Þar innanborðs eru Hreyfingin, Borgarahreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn, fulltrúar úr stjórnlagaráði og margt annað gott fólk. Því miður vildi Lilja Mósesdóttir ekki koma með okkur í Dögun. Síðan klofnaði Birgitta inn í Pírata og Lýður fór og stofnaði Lýðræðisvaktina.

Það sem er einkennandi er að mörgum finnst nauðsynlegt að prófa upp á sitt einsdæmi hvort þeir komist á flug án annarra. Ef það gengur ekki eftir eru menn frekar reiðubúnir til að vinna saman. Stundum gerast góðir hlutir hægt og betra er seint en aldrei, eða þannig sko.

Best væri að geta afnumið 5% þröskuldinn strax í dag og allir gætu komið sínum frambjóðendum á Alþingi þannig að öll flóra mannlífsins ætti sína fulltrúa þar. Þar sem það er ekki raunveruleikinn þá hefði fólk átt að vinna meira og betur að því að standa saman. Að afneita þeim gömlu sannindum að sameinuð stöndum við og sundruð föllum við ber því vott um óskhyggju sér til handa. Sú óskhyggja virðist ekki ætla að ganga eftir. Hin skýringin á því að menn bjóða fram sér er kannski sú að viðkomandi aðilar telji sinn kost svo einstakann að þeir falli frekar með sæmd um 5% þröskuldinn en að sameinast öðrum. Orsökin fyrir slíkri hugsun er sennilega sú að menn séu frekar að þessu fyrir einhverja aðra en þjóðina.

Eftir að núverandi þrælar fjármálaflanna og annarra sérhagsmunaaðila á Alþingi Íslendinga nánast migu yfir íslenska kjósendur og lýðræðisvitund almennings á lokadögum þingsins þá hafa margir hrokkið í kút. Þá fara kjósendur að leita að nýjum möguleikum og þá kemur fram krafan um sameiningu hjá nýjum framboðum. Það segir sig sjálft að ef viljum hnekkja valdi valdaklíkunnar á Alþingi verðum við að sameinast á einn eða annan hátt til að nýta atkvæðin. Við erum allmörg sem höfum unnið að slíku s.l. fjögur ár og að fá stuðning núna frá stórum hópi kjósenda er ekki verra, spurningin er hvort það dugar. Hugsanlegt er að nýta sér fordæmi frá kosningunum frá 1967 þar sem atkvæði voru samnýtt milli flokka. Að ætla sér að stofna eitt nýtt framboð er ekki raunhæft vegna tímaskorts.

Það var þess vegna sem við hófumst handa við þetta fyrir nokkrum árum en Íslendingar virðast alltaf gera allt á elleftu stundu.

Athyglisvert verður að lesa frásagnir framtíðarinnar um frammistöðu spakvitringa dagsins í dag.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.3.2013 - 23:15 - FB ummæli ()

Skelfilegt uppnám…uppnámsstaða

Uppnám: 1) Glundroði, 2) Eignarnám, 3) Tefla peði í uppnám.

Breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur þingmanns(héðan í frá kölluð Magga refur) hefur valdið miklum usla í dag. Hún gerir breytingartillögu við formannafrumvarp þremenninganna frá Dunkirk.

Fjölmiðlar landsins telja tangarsókn Margrétar valda uppnámi. Spurningin er hvaða skilning þeir leggja í orðið uppnám. Sem góðir greinendur eiga þeir sjálfsagt við eftirfarandi skýringu á orðinu að tefla peði í opinn dauðann/uppnámsstaða.

Það mun verða mjög spennandi að fylgjast með hversu ríka þörf þeir þingmenn sem hafa stutt stjórnarskrárfrumvarpið hafa á næstu dögum að gera grein fyrir atkvæði sínu við breytingartillögu Margrétar. Vissar grunsemdir eru þó að þeir verði hreinlega orðlausir.

Þjóðin bíður og leggur við hlustir

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.3.2013 - 21:37 - FB ummæli ()

Hver á að borga

Að leiðrétta forsendubrestinn vegna glæpsamlegrar hegðunar fjármálaflanna í samvinnu við meðvirk stjórnvöld mætir andstöðu. Hver á að borga spyrja menn. Íbúðalánasjóður sem hefur lánað mikið af verðtryggðum lánum mun eingöngu koma vel út ef allir standa í skilum. Þar sem það hefur ekki verið reyndin og væntanlega munu fleiri ekki geta staðið undir afborgunum stefnir í að aföllin þar verði mikil sem muni síðan lenda á skattgreiðendum. Er þá ekki skynsamlegra að ná samkomulagi um minnkun á greiðslubyrði og ÍLS fái afganginn að minnsta kosti.

Umræðan er því miður sú að ÍLS tapi peningum eingöngu ef forsendubresturinn verður leiðréttur, það sé eina leiðin til þess að ÍLS tapi peningum. Þess vegna verðum við að hafna leiðréttingunni til að vernda skattborgarana segja úrtölumenn. Eins og fyrr segir þá tapast fé núna og mun halda áfram og góð afkoma sjóðsins byggir á því að flest allir séu í skilum og svo er ekki.

Meðan orðræðan er á þennan veg frá meirihluta kjörinna fulltrúa okkar á Alþingi er þar hvorki hollusta við illa setta samborgara né skynsemina. Að fylgja þessari stefnu er kostnaðarsamasti valmöguleikinn fyrir skattgreiðendur.

Skuldir sem ekki er hægt að borga verða ekki greiddar, alveg sama hvað menn berja hausnum oft við steininn. Mun skynsamlegra er að semja um lækkun skulda til að gera fólki kleift að standa í skilum. Að auki er það réttlætismál.

Að framkvæma almenna leiðréttingu húsnæðislána er eitt af aðal stefnumálum Dögunar og er þess vegna í kjarnastefnu okkar.

„Öflugar aðgerðir í þágu heimila
Leysa verður skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skal lausna á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána. Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest og að vextir í landinu verði hóflegir“.

Sjá: http://www.xdogun.is/kjarnastefnur/

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 8.3.2013 - 17:54 - FB ummæli ()

Vorpróf

Það er ekki mikið traust sem við berum til valdhafanna í þessu landi. Einnig grunum við þá um græsku. Slíkt ástand er skelfilegt. Leyndarhyggjan er mikil og eingöngu innmúraðir vita helstu plottin.

Verður kvótafrumvarpið samþykkt og nýrri stjórnarskrá hent út.

Verða vogunarsjóðir á fóðrum hjá íslenskri þjóð, sú sama sem skapar gróða bankanna.

Þarna inní valdinu stendur þeim alveg á sama um útburð einstaklinga af heimilum sínum.

Er nægt fé hjá gjaldþrota þjóð í gæluverkefni eins og enginn sé morgundagurinn?

Ætla þeir að selja Landsvirkjun?

Ætla þeir að lyfta gjaldeyrishöftunum og rústa því þjóðfélagi sem við þekkjum, endanlega.

Mun íslenskt þjóðríki hverfa vegna innri fúa eins og Róm forðum daga?

 

Margir á Íslandi eiga þann draum að breyta spilltu þjóðfélagi til hins betra og kjarninn í þeirri hugmynd var að koma fjórflokknum frá völdum og eða hlutleysa áhrif hans sem mest og auka völd almennings. Allir þeir sem deila þessum draumi með sér verða núna að mæta á völlinn og af fullri alvöru taka á honum stóra sínum svo það takist í næstu kosningum. Samtakamátturinn verður því settur í vorpróf 27. apríl n.k..

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.3.2013 - 17:17 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin okkar

Ég tel að margir geti verið því sammála að ferli nýju stjórnarskrárinnar okkar hafi verið lýðræðislegt eins og framast var unnt. Að minnsta kosti var hún ekki samin einhvers staðar af fámennum hópi út í horni. Ég hefði sjálfsagt skrifað sjálfur aðeins öðruvisi stjórnarskrá en það er allt önnur ella.

Mér finnst eindreginn vilji hjá þjóðinni að þessi tillaga að stjórnarskrá verði samþykkt á Alþingi og komi síðan til kasta þjóðarinnar, að fella eða samþykkja. Þingmenn eru að grípa inní þennan feril, þeir eru að setja sig í dómarasætið og ákveða hvað sé best fyrir þjóðina. Réttara sagt eru þeir að aðlaga ferli stjórnarskrárinnar að þingsköpum. Ef það þarf svo mikinn tíma til að þess að rökræða vilja þjóðarinnar verður bara að fresta þinglokum. Auk þess má takmarka ræðutímann.

Við erum mörg hver sem viljum nýja stjórnarskrá til þess að takmarka völd ykkar á Alþingi og auka völd almennings. Þið sem strandaglópar hrunsins lofuðuð okkur nýrri stjórnarksrá til að fá stólana aftur, þið fenguð þá útá þau loforð. Það verður ekki endurtekið.

Ég veit að þetta er endurtekning en kæru þingmenn, vald ykkar kemur frá þjóðinni en ekki LÍÚ eða bönkunum, reynið að skilja það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.3.2013 - 18:58 - FB ummæli ()

Að kjósa sér framtíð

Íslenska þjóðin er að upplifa merkilega tíma. Bankakerfið hrundi haustið 2008 í kjölfar glórulausrar heimsku allra þeirra sem að komu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sér til þess að afgangurinn af efnahagslífinu blæði til að koma í veg fyrir að lánadrottnar tapi of miklu. Sterkasta vinstri stjórn sögunnar á Íslandi, pökkuð með loforðum um bættan hag almennings, beisli á AGS, uppstokkun á kvótakerfinu og nýja stjórnarskrá svíkur almenning blygðunarlaust.

Það var hámark óskhyggjunnar að halda að þaulsetnir þingmenn hefðu haft einhvern áhuga á því að skerða völd sín með nýrri stjórnarskrá en samt..

Til marks um lítinn áhuga á skoðun almennings á að festa illræmt kvótakerfi enn frekar í sessi. Núna eiga þeir að fá kvóta í 20 ár en ekki bara eitt. Það er augljóst hverjir hafa áhrif á ráðherrana, að minnsta kosti ekki almenningur.

Ef fjórflokkurinn verður kosinn aftur á þing þá er ljóst að hagsmunaaðilar eins og LÍÚ og bankarnir munu eiga greiðan aðgang að framkvæmda- og löggjafarvaldinu eins og áður. Þá munu gjörðir Alþingis ekki endurspegla vilja almennings. Viljum við það aftur eða viljum við breytingar?

Viljum við áframhaldandi útburð fólks af heimilum sínum, gjaldþrot, fátækt, skerðingu hjá öldruðum og öryrkjum. Viljum við gáleysislega meðferð gjaldeyrishafta samfara þóknun við vogunarsjóði með nýju hruni? Viljum við áframhaldandi hrun velferðarkerfisins svo hægt sé að fóðra bankana?

Ef við endurnýjum umboð fjórflokksins í næstu kosningum þá munum við bara fá meira af því sem við höfum fengið hingað til eftir hrun. Að halda annað er óskhyggja. Er það það sem við viljum?

Kjósendur eiga annan valmöguleika og hann er Dögun. Kynnið ykkur stefnu okkar þannig að þið takið upplýsta ákvörðun á kjördag. Það fylgir mikil ábyrgð að kjósa. Ef við gefum fjórflokknum frí á næsta kjörtímabili þá gætum við öll upplifað enn merkilegri tíma á Íslandi en ella.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 22.2.2013 - 21:51 - FB ummæli ()

Kjarkur

Ef Dögun fengi hreinan meirihluta á Alþingi, hvað myndum við þá gera. Þá hefðum við enga afsökun. Það er í raun ekki neitt vandmál því að þeir sem eru í framboði fyrir Dögun þyrstir í að koma á réttlæti á Íslandi. Hvort hægt sé að flokka hugsjónir okkar í einhvern –isma skiptir okkur ekki máli, það er himinhrópandi skortur á réttlæti sem dregur okkur áfram.

Fjármálavaldið er mikil áskorun. Undir þennan hatt getum við sett alla þá sem lána peninga; banka, lífeyrissjóði, Íbúðarlánasjóð og sparisjóði. Auk þess eru allir sem eru skuldlausir og jafnvel eiga einhverja sjóði á bók eða í öðru formi hluti af fjármálavaldinu. Ástæðan er sú að þeirra hagsmunir fara saman með fjármálavaldinu. Þeir vilja alveg jafn mikið ávaxta pund sitt eins og lánadrottnarnir í þjóðfélaginu. Þess vegna er þjóðin klofin. Þess vegna vil ég vekja athygli á því að þeir sem standa upp og tala um sanngirni til handa lánadrottnum eða einhvern meðalveg til að halda friðinn eru sjálfsagt í sömu sporum og þeir þ.e. lánadrottnanna.

Það er enginn friður til staðar, lánadrottnar sögðu lántakendum stríð á hendur haustið 2008 og það geisar enn, bendi bara á þetta ef einhver hefur misst af því. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að skuldir almennings aukast sífellt vegna verðtryggingarinnar og samfara minnkandi kaupmætti þá getur þetta aldrei endað vel.

Dögun hefur tekið afstöðu og tekur hagsmuni lántakenda fram yfir hagsmuni lánadrottna, bara svo því sé haldið til haga. Úr kjarnastefnu Dögunar:

”Öflugar aðgerðir í þágu heimila
Leysa verður skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skal lausna á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána. Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest og að vextir í landinu verði hóflegir”.

Við ætlum að afnema verðtrygginguna og það snarlega. Við ætlum að vaða í almennar leiðréttingar lána þeirra sem lentu verst í hruninu. Því miður hafa margir orðið gjaldþrota og flúið land og þau sár verða ekki bætt með peningum.

Við í Dögun höfum skýra stefnu í málefnum lántakenda og munum því ekki hika við að taka slaginn. Slagkraftur okkar fer algjörlega eftir því fylgi sem við fáum. Það er því í höndum kjósenda hversu mikið við munum koma til leiðar á næsta kjörtímabili.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.2.2013 - 22:17 - FB ummæli ()

Það er annar möguleiki í stöðunni

Dögun er nýtt stjórnmálaafl á Íslandi. Kjarnastefna Dögunar segir mikið um áherslumál okkar. Við viljum afnema verðtrygginguna, leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna og framkvæma uppstokkun á stjórn fiskveiða á Íslandi. Einnig viljum við raunverulegar lýðræðisumbætur í formi nýrrar stjórnarskár(sjá kjarnastefnu Dögunar).

Því er haldið að okkur að ekki sé um neinn annan möguleika að ræða í stöðunni en að skera niður og auka skatta til að friðþægja bönkum og öðrum lánadrottnum. Það er reynt að kreista sem mest út úr okkur fyrir fjármálavaldið. Það hefur þær afleiðingar að efnahagskerfið á Íslandi fer í frost því mjög margir verða að spara til að komast af.

Fjármálavaldið er með yfirburðastöðu gagnvart almenningi eins og dæmin sanna. Lánadrottnar hafa ýmsa möguleika í stöðunni til að bjarga sér. Gjaldþrota bankakerfi gekk beint í ríkiskassann og dæla hefur þurft með jöfnu millibili peningum í Íbúðarlánasjóð og önnur fyrirtæki og stofnanir. Þrátt fyrir þessar gjafir af hendi almennings er gengið fram af mikilli hörku gegn lántakendum. Uppboð, fátækt og landflótti segir sína sögu.

Dögun telur að nú sé komið að skuldsettum almenningi að fá fyrirgreiðslu sem dugar. Ekkert hálfkák því það hjálpar ekki neinum. Verðtrygginguna verður að afnema. Almenna leiðréttingu lána(sjá aðferðafræði) verður að framkvæma ef friðinn skal halda í þessu landi. Einnig verðum við að setja þak á vexti húsnæðislána.

Almenningur hefur setið á hakanum lengi og ekki síst eftir hrun. Við í Dögun ætlum að breyta. Við ætlum að verja fólkið í landinu og standa með almenningi. Nú stendur almenningur frammi fyrir því að teysta nýju framboði eða gömlu flokkunum.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.2.2013 - 00:04 - FB ummæli ()

Verðtryggingin og mannréttindi þegnanna

Núna er hart tekist á um verðtrygginguna. Elvira(Maria Elvira Mendez-Pinedo, prófessors í Evrópurétti við Háskóla Íslands) hefur fært mjög sterk rök fyrir ólögmæti hennar á Íslandi. Hún hefur fengið röksemdir frá sérfræðingum hjá framkvæmdastjórn ESB sem styrkja skoðun hennar. Eins og venjulega á Íslandi er málið afgreitt í íslenskum miðlum með áliti íslenskra lögmanna sem hljóta vita meir, eða mest ef því er að skipta.

Í raun er um sjálfstæðisbaráttu hluta almennings gegn fjármálavaldinu að ræða. Það sorglega er að þeir sem eru skuldlausir eða nánast svo fylkja sér um fjármálavaldið þrátt fyrir að það sé búið að hafa af þeim stórpening án stoðar í lögum. Almenningur hefur eingöngu leið dómstóla til að farið sé að lögum, löggjafarvaldið hefur algjörlega brugðist þrátt fyrir fögur loforð á fjögurra ára fresti.

Þegar fræðimenn vilja vegna þekkingar sinnar á bókinni ekki afnema verðtrygginu heldur viðhalda henni í einu eða öðru formi má spyrja sig hvort almenningur eða bókin sé mikilvægari. Þegar fræðasamfélagið vill ekki halla hlut aðila er þá ekki verið að taka undir málstað lögbrjóta? Það má draga í efa að fjárfesting almennings í háskólum sé að borga sig.

Verðtryggingin leggur fjárskuldbindingar á lántakandann til framtíðar þar sem heildarskuld eða afborganir eru í algjörri óvissu. Samsvarandi væri að vera dæmdur í fangelsi þar sem fjöldi svipuhögga eða lengd fangelsisvistarinnar réðist af verði bensíns eða áfengis. Þess vegna getur enginn sem er andsnúinn mannréttindarbrotum eða hlynntur réttinum til að lifa með reisn verið stuðningsmaður verðtryggingarinnar í nokkurri mynd.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur