Laugardagur 9.2.2013 - 21:18 - FB ummæli ()

Hver skuldar hverjum hvað…

Það eru tvö blogg í dag á Eyjunni sem eru sérstaklega eftirtektarverð og nauðsynlegt að hugleiða þau nánar. Það eru blogg Þórs Saari og Friðriks Jónssonar. Þeir nálgast málið frá aðeins ólíkum vinklum en samnefnarinn er orðið ósjálfbært. Skuldastaða Íslands er ósjálfbær. Peningamyndun á Íslandi er umfram verðmætasköpun og er ósjálfbær. Niðurstaðan er einföld, landið er gjaldþrota og við því þarf að bregðast af yfirvegun og ábyrgð. Þeir kalla báðir eftir slíkum viðbrögðum valdhafa.

Þeir Þór og Friðrik ættu í raun að fá mikil viðbrögð, fólk ætti að safnast saman á götum úti og ræða málin. Slíkt gerist ekki og núverandi Ríkisstjórn vísar öllu slíku tali frá sér. Raunveruleikinn er of alvarlegur til að fólk treysti sér til að horfast í augu við hann. Innan Dögunar er reynt að horfast í augu við vandann og  finna lausnir. Við sjáum miklar hættur framundan og viljum undirbúa okkur sem best til að mæta þeim.

Ég hef ekki séð aðra stjórnmálaflokka viðurkenna þessa alvarlegu stöðu sem við erum í né að þeir séu með lausnir á vandanum.

Almenningur virðist reiðubúinn til að halla sér að þeim sem boða blóm í haga og forðast að ræða um gjaldþrota land. Við bitum á öngul nýfrjálshyggjunnar í boði Davíðs og có, ekki einu sinni heldur endurtekið. Nú verður almenningur að sýna ábyrgð, setjast niður, hugleiða og kynna sér málin. Um er að ræða sjálfstæði landsins því land sem er ofurselt skuldunautum sínum er ekki frjálst. Við sjáum það glögglega hvernig lánadrottnar fara með Grikki, Spánverja, Portúgali og Íra. Ætlum við okkur að fara sömu leið?

Við erum sjálfstætt land, Icesave kenndi okkur að við getum sagt nei. Við verðum að henda af okkur skuldum sem gera okkur að þrælum og endursemja um afganginn. Við verðum að gera ráðstafanir sem duga til þess að fólk vilji búa hér áfram. Við verðum því að hafa hugrekki til að segja við fjárfesta; þið græðið ekki alltaf, stundum borga fjárfestingar sig ekki, ykkur gengur bara betur næst, sorry.

Til þess þarf hugrekki og 110% hollustu við þjóðina og það er það sem við í Dögun erum reiðubúin að bjóða upp á.

Ps. Það er eitt sem sundrar okkur sem þjóð, sumir halda að þeir skuldi ekki neitt og vilja ekki styðja þá sem skulda. Raunin er sú að þjóðin öll skuldar of mikið og þarf því að standa saman, það er eina leiðin.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 31.1.2013 - 19:00 - FB ummæli ()

Fá bara hjúkrunarfræðingar úrslitakosti

Sjúkrahús eru starfrækt fyrir sjúklinga og árangurinn metinn hversu stór hluti þeirra kemst aftur út; lifandi, lítt skaðaður eða fær friðsælt andlát.

Íslenska Ríkisstjórnin hefur gert hjúkrunarfræðingum tilboð og er það kallað úrslitakostir samkvæmt fréttum. Einhvern veginn fæ ég það á tilfinninguna að tilboðið sé ekki gott en vonandi hef ég rangt fyrir mér. Ef grunsemdir mínar eru réttar þá er voðinn vís.

Vel mönnuð sjúkrahús af hjúkrunarfræðingum sýna betri árangur en þau sem eru undirmönnuð. Það eru því meiri líkur að lifa af ef maður lendir á sjúkrahúsi sem er vel mannað af hjúkrunarfræðingum. Þess vegna vill svo til að þessir úrslitakostir til hjúkrunarfræðinga geta allt eins verið úrslitakostir sjúklinganna á Landspítalanum. Það má vera að núverandi Ríkisstjórn geri ekki ráð fyrir morgundeginum en ég geri það. Ég vil ekki detta inn á illa mannaðan Landspítala, ég vil ekki hljóta skaða vegna þess að menn skáru við nögl, vegna heimsku.

Ríkisstjórn sem ólm vildi borga Icesave.

Menn máttu vita það í ljósi sögunnar að fylgja ráðum AGS gæti orðið þjóðinni skeinuhætt. Að telja það skyldu sína að fullnægja þörfum gjaldþrota bankakerfis bendir til brenglaðs verðmætamats. Ef peningar væru í rúmunum á Landspítalanum myndi þá Ríkisstjórnin bregðast öðru vísi við, eða hvað?

Eða eigum við bara að fara að velja fjalirnar í kistuna áður en við leggjumst inn?

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 29.1.2013 - 19:03 - FB ummæli ()

Er líf eftir Icesave

Nú er dómur fallinn hjá EFTA dómstólnum um Icesave og okkur í vil. Þá er ég að meina þjóðinni en ekki valdhöfunum, því það var þjóðin sem vildi þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki valdahafarnir.

Í sögulegu samhengi þegar kemur að þessum tveimur þjóðum, Bretum og Hollendingum, ættum við Íslendingar að standa á útkíkkinu og fylgjast með hvort herskip hennar hátignar birtist á sjóndeildarhringnum. Þau eru þekkt fyrir það að koma vilja sínum fram þrátt fyrir að hafa lag á því að tapa öllum Þorskastríðum gegn okkur.

Núna hefur íslenska þjóðin snurfusað bókhaldið nokkuð hjá ríkissjóði en þrátt fyrir það er nokkuð langt í land. Af útgjöldum ríkissjóðs fara um 20% í vexti vegna skulda sem til komu vegna bankahrunsins. Endursemja verður um skuldir landsins til að hér sé búandi fyrir almenning. Afnema verðtrygginguna, leiðrétta lán skuldugra heimila. Koma bleika fílnum úr smjörinu í ísskápnum, þ.e. lífeyrissjóðunum. Breyta sköttum svo almenningur geti tekið á hjólum atvinnulífssins. Afgreiða snjóhengjuna landinu til gagns, það gegnur bara betur næst verðum við að segja við fjárfesta, sorry.

p.s.

Ný stjórnarskrá setur þetta allt saman frekar í hendurnar á okkur, almenningi. Ekki slæmt eða hvað? Nú vitum við að við vitum betur.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki gert neitt í þessa veru, Bé og Dé jafnmikið. Hér þarf ný tök og nýja kústa. Dögun ætlar sér allt þetta sem talið er upp hér að ofan. Eina spurningin er hvort kjósendur hafa hugrekki til að breyta, þeirra er ákvörðunin eins og í Icesave.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.1.2013 - 18:56 - FB ummæli ()

Lýðræði og peningar

Framleiðsla peninga hefur verið aðeins í umræðunni. Frosti Sigurjónsson hefur rætt það nokkuð og er með heimasíðu um efnið. Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram á Alþingi tillögu um að kanna hvort heppilegast sé að einkabankar framleiði peningana okkar eða ekki.

Ég tel að stór hluti almennings sé ekki að átta sig á því hvað um er rætt og alls ekki margir fræðimenn. Til að von sé til að breyta kerfinu þarf það að breytast.

Bankar gegna tvöföldu hlutverki, þeir taka við peningum almennings og lána síðan út peninga. Hitt hlutverkið er að bankar búa til nýja peninga samtímis og þeir lána þá. Þannig stjórna bankar hversu mikið er af peningum í umferð á hverjum tíma. Hugmyndir umbótasinna er að svifta bankana möguleikanum á því að búa til nýja peninga og færa það hlutverk alfarið til stjórnvalda. Þá er að minnsta kosti kominn einhver lýðræðisbragur á peningamyndun, einhver ábyrgð gagnvart valdhöfum landsins, þ.e. almenningi, hversu mikið af peningum er búið til á hverjum tíma. Auk þess yrði peningamyndun tengd hagsmunum almennings en ekki gróðaþörf bankakerfisins. Að treysta fjölþjóðlegum einkafyrirtækjum, bönkum, til að ákvarað peningamagn í umferð er vægast sagt galin hugmynd. Því til rökstuðnings má nefna helstu kreppur á liðnum árum sem orsakast fyrst og fremst af of mikilli peningamyndun(bóla) og síðan af allt of lítilli peningamyndun(kreppa) sem einkabankar bera alla ábyrgð á því þeir búa til 97% af öllum peningum. Bara til að nefna helstu ártölin; 1720, 1772, 1792, 1796, 1813, 1819, 1825, 1837, 1847, 1857, 1866, 1873, 1884, 1890, 1893, 1896, 1901, 1907, 1910, 1929, 1973, 1980, 1983, 1987, 1989, 1990, 1992, 1994, 1997, 1998, 2001 og 2007. Því er það augljóst að bönkum er ekki treystandi fyrir þessu valdi og hitt að opinberir aðilar þurfa að leggja sig veruleg fram til að standa sig ver(1923 starfaði þýski seðlabankinn nánast sem einkabanki).

Bankar taka við peningum almennings og eru þeir lagðir inn á innlánsreikninga. Það sem gerist í raun er að almenningur lánar bankanum peningana sína og bankinn getur gert það sem honum sýnist með þá. Það sem almenningur sér í heimabankanum í tölvunni sinni er loforð bankans að endurgreiða lánið. Afleiðingarnar af þessu eru eftirfarandi: Almenningur er lánadrottin gagnvart bönkunum og því er um að ræða lánaviðskipti milli tveggja einkaaðila og þess vegna á hið opinbera ekki að tryggja það á neinn hátt með skattfé almennings. Þar sem um lánaviðskipti er að ræða og það er hagfræðileg staðreynd að ekki öll lánaviðskipti borga sig þá geta menn tapað á þeim. Að allar skuldir skuli greiddar er ekki hagfræði heldur trúabragðafræði. Einnig getur bankinn fjárfest í gereyðingavopnum eða klámiðnaði án þess að almennignur hafi neitt um það að segja. Það sem er mikilvægt að skilja er að ef almenningur vill geyma peninga sína í banka verður hann að leigja bankahólf og læsa peningana sína þar, það er eina leiðin í dag til að geyma peninga á tryggan hátt og geta síðan dregið bankann til ábyrgðar ef hólfið er tómt einn góðan veðurdag.

Margir trúa því að ef banki lánar út peninga þá noti hann innistæður sem eru til staðar í bankanum. Þar sem enginn hefur séð innistæðu sína lækka vegna þess að bankinn hafi lánað út peninga þeirra og inneign almennings er mun lægri en öll útlánastarfsemi bankakerfisins þá er bankakerfið að lána peninga sem voru ekki til áður. Þess vegna er það þannig að það eru búnir til nýir peningar þegar bankinn lánar. Þar sem þeir voru ekki til áður þá eru þeir búnir til úr engu. Bankinn slær bara á lyklaborðið og býr til peningana.

Sem sagt þegar þú leggur peningana þína inn í bankann þinn þá ertu að lána honum peningana þína. Bankinn býr til peninga úr engu. Auk þess hefur bankakerfið einkaleyfi á því að búa til peninga. Hið opinbera býr bara til seðla og mynt en það er um 3% af öllum peningum í umferð.

Ef við breytum kerfinu í það sem fólk heldur og trúir að það sé þá erum við komin vel áleiðis. Ef bankar verða skyldaðir til að geyma peningana okkar og eingöngu leyft að lána út peninga sem þeim hefur verið treyst fyrir af öðrum, þ.e. 100% bindiskylda, þá höfum við tekið valdið til að búa til peninga frá einkafyrirtækjum, þ.e. bönkunum. Við færum það vald til hins opinbera.

Samtímis verða þeir sem leggja inn peningana sína inná bankareikning að taka afstöðu til þess hvort þeir samþykki að bankinn láni þá öðrum. Þeir varkáru velja sjálfsagt að bankinn geymi þá en hinir eru til í áhættu. Þá áhættu væri hægt að takmarka við ákveðna upphæð og auk þess skilgreina í hverju væri fjárfest. Því væri um mun gagnsærra kerfi að ræða.

Til að tryggja öryggi innláns þá væru bankarnir skyldugir til að leggja innlán allra inn á reikninga sem væru í vörslu Fjármálaráðuneytisins. Þegar banki veitti lán þá færi millifærslan frá einum reikingi til annars innan Fjármálaráðuneytisins. Hlutverk bankans væri að kanna greiðslugetu viðkomandi lántaka og bera ábyrgð á henni. Á þennan hátt væru einkabankar sviftir þeim hlunnindum að búa til peninga en slíkt yrði fært alfarið til hins opinbera.

Eini aðilinn í þjóðfélaginu sem gæti búið til nýja peninga væri hið opinbera.

Þar sem einkabankar búa til peninga úr engu í dag og græða á því er það engin kúnst að samþykkja það að hið opinbera geri það öllum til hagsbóta. Þeir sem setja sig upp á móti því eru þá augljóslega að hygla fjölþjóða einkafyrirtækjum, þ.e. bönkum.

Hið opinbera gæti þá búið til peninga án skuldsetningar. Það myndi greiða fyrir alla þjónustu og framkvæmdir á vegum hins opinbera með skuldlausum peningum. Þannig væri peningum komið í umferð. Að taka tillit til hagvaxtar yrði hið opinbera að framleiða nægjanlega mikið af peningum til að sá hagvöxtur gæti átt sér stað. Með skynsamlegri stjórnun á peningamagni myndu bólur og kreppur heyra sögunni til. Hið opinbera gæti því rekið sína þjónustu án kostnaðar fyrir almenning og þar með myndu skuldir hins opinbera lækka og þar með skattar.

Peningar sem eru búnir til af bankakerfinu í dag eru búnir til sem skuld, við bankakerfið. Ef ríkið býr til peningana án skuldsetningar þá verður þjóðfélagið án slíkrar skuldsetningar. Þess vegna munu allir þeir sem njóta góðs af skuldlausum peningingum auka verðmætasköpun þjóðfélagsins. Hingað til hefur sú verðmætasköpun farið til bankanna en ekki fólksins.

Þeir sem velta mikið fyrir sér lýðræði eða stjórnarskrám ættu núna að skynja það að valdið í lýðræðisþjóðfélagi er ekki skipt í þrennt. Hefðbundin skipting er löggjafa-, framkvæmda- og dómsvald. Það sem við höfum upplifað eftir að bankakreppan skall á okkur 2007 er að bankavaldið er sterkast og segir löggjafar- og framkvæmdavaldinu fyrir verkum. Skýringin er sú að valdið til að búa til peninga er sterkasta valdið innan lýðræsðisskipulags okkar. Það tilheyrir bankakerfinu í dag og hefur gert það s.l. 300 ár. Það stjórnar. Þar með er það orðið fjórða valdið innan lýðræðsisskipulags okkar og það valdamesta. Af þeirri einföldu staðreynd að það er valdamest þá á það að tilheyra almenningi því samkvæmt lýðræðishugsjóninni þá á almenningur að hafa völdin.

Allir þeir sem vilja að lýðræði sé til staðar, allir þeir sem vilja að þjóðgfélögum sé stjórnað á lýðræðislegan hátt, allir þeir sem vilja að valdið sé almennings og lýðræði sé í raun virkt þeir vilja líka að peningamyndun sé í höndum almennings. Að hið opinbera búi til peninga er mikilvægasta lýðræðisumbótin og án þess er allt annað hljóm eða popúlismi. Til hvers lýðræði ef bankarnir stjórna hvort eða er?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.1.2013 - 18:52 - FB ummæli ()

Skuldafjötrar eða Dögun

Það er þannig að þegar maður er ríkur og vel staðsettur í þjóðfélaginu þá þarf maður ekki að hrópa til að fá vilja sínum framgengt. Nokkur símtöl og málið er leyst. Gagnvart þessu afli stendur almenningur sem virðist ekki geta sameinast um nokkurn skapaðan hlut. Eina leiðin til að brjóta á bak aftur vald sérhagsmunahópanna í íslensku þjóðfélagi er að almenningur sameinist sem einn maður. Það virðist all nokkur spölur í að það takist.

Sundruð þjóð ætti þó að vita það á þessum tímapunkti að það er fullreynt að treysta fjórflokknum fyrir atkvæðum sínum. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar og loforð þá hefur flest allt verið svikið. Bönkum og fjármagnseigendum hefur verið bjargað á kostnað almennings og velferðakerfinu rústað. Hugsanlegt greiðsluþrot íslenska ríkisins blasir við á næstu árum. Þessum ”árangri” verður pakkað ínn í gjafaumbúðir og síðan seldur íslenskri alþýðu í krafti fjármagns.

Meðan skuldastaða Íslands var ekki jafn afleit skipti það minna máli hvernig kjósendur kusu. Í næstu Alþingiskosningum er mun meira í húfi. Ef illa tekst til með snjóhengju og gjadleyrishöft eða uppgjör við lánadrottna er hætta á því að Ísland lendi í skuldaánauð. Þá verðum við meðhöndlaðir eins og Grikkir, allt sem þjóðin á verður selt hæstbjóðenda. Þá verðum við þjóð án auðlinda.

Dögun er nýtt stjórnmálaafl sem mun bjóða fram í næstu Alþingiskosningum. Liðsmenn Dögunnar eru vel meðvitaðir um stöðu þessara mála. Endursemja þarf um skuldir þjóðarinnar, setja bremsu á útstreymi fjármagns með sköttum og/eða taka upp nýkrónu. Forða verður þjóðinni frá því að lenda enn dýpra í skuldafeninu því hún mun missa sjálfstæði sitt ef lánadrottnar ráða hér öllu. Við í Dögun reynum að höfða til skynsemi þjóðarinnar og vonandi tekst það því við þurfum verulegt fylgi til að koma áhersluatriðum okkar áfram. Ef ekki þá verður Ísland enn ein endurtekningin í skuldasögu heimsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.1.2013 - 21:01 - FB ummæli ()

Það sem er í askana látið..

Var í Portúgal um daginn og hitti fólk frá ýmsum löndum. Hef verið á ýmsum fundum í Evrópu og það sem mest er spurt um er nýja stjórnarskráin okkar Íslendinga. Evrópubúum finnst fáranlegt að valdið, Alþingi, skuli hafa eitthvað um stjórnrskrána að segja. Hef þurft að útskýra fyrir þeim ferlið og að hópur þingmanna er að sinna skyldum sínum við auðvaldið og er með öllum ráðum að koma í veg fyrir að ný stjórnarskrá líti dagsins ljós.

Stjórnarskrá snýst um það að setja valdinu skorður og því líkar það illa og berst þess vegna gegn þjóð sinni, að sjálfsögðu. Þeir Evrópubúar sem ég hef hitt á fundum mínum eru grænir af öfund út í nýju stjórnarskránna okkar og bíða spenntir eftir niðurtöðu. Ef íslenska þjóðin sigrar þá mun það verða byr í seglin fyrir álíka umbætur á lýðræðislegum réttindum almennings innan Evrópu. Eitt sterkasta ákallið í Evrópu í dag er aukið lýðræði því upplifun flestra er að bankarnir og stórfyrirtækin stjórni öllu en almenningur blæðir.

Lýðræðisleg réttindi eru mikilvæg og aukið vald almennings skapar réttlæti til framtíðar. Samtímis þurfa að koma til pólitískar hugsjónir og ákvarðanir til að rétta hlut þeirra sem farið hafa halloka. Dögun er nýtt stjórnmálaafl á Íslandi og sameinar þessa valmöguleika. Dögun berst fyrir auknum réttindum borgaranna og að ný stjórnarskrá fái brautargengi. Samtímis þarf að gera grundvallarbreytingar á lánamálum landsmanna. Afnema verður verðtrygginguna og leiðrétta lán þeirra sem veðjuðu ekki á kreppuna. Útrýma verður fátækt hvað sem það kostar og skapa börnum örugg upvaxtarskilyrði. Það er vel hugsanlegt að það hafi í för með sér skertan hlut lánadrottna. Ef kapítalistarnir eru ekki sáttir verður alltaf möguleiki að nýta sér nýja stjórnaskrá og fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 29.12.2012 - 23:45 - FB ummæli ()

Verðtrygginguna burt

Verðtryggingin hefur komið lántakendum illa á liðnum árum. Eftir hrun hafa margir farið illa og sumir misst allt sitt á báli verðtryggingarinnar. Þessi skaðsemi verðtryggingarinnar á hagi einstaklinga gerir hana óréttláta því það getur ekki verið tilgangur okkar með kerfi sem við höfum búið til að það valdi ómældum hörmungum í lífi fólks. Þá er betra að afskrá fyrirbærið.

Verðtryggingin veitir lánveitendum mikið öryggi í lánaviðskiptum og þar með stuðlar að auknum lánveitingum. Þegar kreppir að verður skellurinn stærri og verri að leiðrétta. Þar með er hún óhagstæð út frá þjóðhagslegu tilliti.

Dögun er nýtt stjórnmálaafl sem ætlar að bjóða fram í næstu Alþingiskosningum hefur á stefnuskrá sinni að afnema verðtrygginguna. Til að undirstrika alvöru málsins þá segir í kjarnastefnunni;

Öflugar aðgerðir í þágu heimila
Leysa verður skuldavanda heimilanna með róttækum hætti og bæta aðstöðumun almennings gagnvart fjármálavaldinu. Leita skal lausna á forsendum lántakandans frekar en lánveitandans. Við viljum tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána. Þá viljum við að lágmarks framfærsluviðmið verði lögfest og að vextir í landinu verði hóflegir.”

Kjósendur ættu ekki að vera í neinum vafa hver afstaða okkar er í þessu máli og ekki verður möguleiki fyrir okkur að skorast undan þessu loforði ef við fáum vald til að framfylgja þessari stefnu okkar. Sérstaða okkar sést auk þess í því að við leggjum meiri áheyrsla á að gæta hagsmuna lántakandans frekar en lánveitandans og má öruggleg telja það nýmæli ef miðað er við árin eftir hrun.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.12.2012 - 23:09 - FB ummæli ()

Dögun

Jólaveislan hefur þau áhrif að hneppa þarf upp tölunni á buxunum til að veita spikinu meira rými. Samtímis er huganum beint til þeirra sem eiga ekki við slík vandamál að stríða. Fjöldi einstaklinga eiga ekki jól eins og við, eiga jafnvel ekki buxur. Ég man þá tíð þegar mér fannst ég ríkur að eiga buxur til skiptanna því sumir félaga minna urðu að sitja á kolli og bíða eftir að móðir þeirra þvæði þeirra einu buxur.

Jóhannes Skírari sagði að sá sem ætti tvennt af einhverju skyldi gefa annað til fátækra. Pólitískar stefnur hafa oft gengið út á slík sjónarmið þ.e. að deila auðæfum milli hópa.   Við höfum horft upp á auðsöfnun þeirra ríkustu á síðustu áratugum. Samtímis hafa tök þeirra á lýðræðislegum stofnunum okkar aukist. Veröldin er fjær jöfnuði í dag en áður. Viðurkenning á skorti er næring bæði fyrir kapitalista og kommúnista og allra þar á milli, en er einhver skortur í raun? Það er enginn skortur en það er ekki rétt gefið.

Dögun er stjórnmálaafl sem er í mótun þessa dagana og ætlar að bjóða fram í næstu Alþingiskosningum. Um er að ræða byltingarkennt afl sem vill breytingar. Við keppumst við að finna lausnir á þeim vandamálum sem blasa við okkur Íslendingum. Mikil vinna hefur fylgt því markmiði enda ekki auðvelt verkefni.

Við viljum afnema verðtrygginguna og teljum hana orsök verðbólgunnar og ábyrgðalausrar útlánastarfsemi. Við viljum leiðrétta kjör lántakenda sem hafa farið verulega halloka frá hruni. Við viljum réttlæti og jöfnuð í sjávarútvegsmálum, afnema kvótakerfið, allan fisk á markað og að allir hafi jafnan rétt til að veiða.

Við ætlum okkur ekki að verða bókstafir í sögubókum, við ætlum að skapa söguna því við ætlum okkur að breyta. Þess vegna þurfum við hugrakka kjósendur sem eru tilbúnir að treysta Dögun. Við þurfum 32 þingmenn því annars mun ekki mikið breytast ef fjórflokkurinn lifir.

Markmiðið  er ekki vellandi spik heldur að allir eigi buxur til skiptanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.12.2012 - 01:16 - FB ummæli ()

Lilja hættir

Lilja Mósesdóttir gefur ekki kost á sér til frekari þingsetu, þ.e. hún ætlar ekki í framboð í næstu kosningum. Sumir munu sjálfsagt lýsa yfir ánægju sinni og aðrir koma með einhverjar fræðilegar skýringar á hinu og þessu sem skýrt gæti þessa ákvörðun. Ákvörðunin er einfaldlega sorgleg en um leið skynsamleg.

Sorgin felst í því að við Búsáhaldarbyltinguna vöknuðu vonir um nýja og breytta tíma, um réttlæti. Elíta landsins hefur af ósérhlífini og einurð þvælst fyrir með þeim árangri að Lilja sér ekki lengur meirihluta fyrir því réttlæti sem hún flutti með sér inn af Austurvelli inn á Alþingi. Skynsemin felst í því að ekki er hægt endalaust að verjast úrtölum, vantrausti og tími til að hvíla sig.

Lilja getur vel við unað því hún hefur hreyft við mörgu og margar af hugmyndum hennar lifa áfram.

Takk fyrir samstarfið á liðnum árum Lilja og farnist þér vel á nýjum vettvangi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.11.2012 - 23:47 - FB ummæli ()

Tilgangur baráttunnar

Innan Evrópu fer fram mikil barátta. Hún snýst um hvort almenningur hafi völdin eða bankastofnanir. Hvort framkvæmdavald ESB láti að stjórn bankananna eða almennings. Sama barátta fer fram á Íslandi. Ég er í miklu sambandi við margskonar hópa sem berjast fyrir því í Evrópu að breyta ESB í verkfæri almennings en ekki banka eins og það er í dag. Ef grasrótarhópum innan Evrópu og verkalýðsfélögum verður vel ágengt þá gæti margt breyst til batnaðar. Þá yrði bönkum gert að taka sínu tapi sjálfir en leggja það ekki á herðar skattgreiðenda, eins og á Íslandi. Mikil umræða er um hvort hlutverk seðlabanka sé ekki misskilið, þeir ættu mun frekar að veita þjóðríkjum fjármuni, annað hvort án skuldar eða á núll prósent vöxtum til að viðhalda velferð og öðrum hlutverkum hins opinbera. Ef fram heldur sem horfir með vaxandi kúgun og niðurskurði á kjörum almennings í Evrópu mun upp úr sjóða fyrr en síðar með miklum skaða.

Íslensk grasrót á mikla möguleika á heimsvísu. Margir í Evrópu horfa til okkar vegna þjóðaratkvæðagreiðslanna um Icesave og endursköpunar nýrrar stjórnarskrár. Hvorutveggja finnst þeim mjög merkilegt. Ef íslensk grasrót og ný framboð byggð á henni myndu gera sér grein fyrir alþjóðegu mikilvægi sínu væri kannski minna um nöldur. Ef okkur tækist að knésetja fjórflokkinn sem hlýtur að vera fyrsta verkefnið er mikið unnið. Þar með væri grasrótin komin inn á þing með góðan meirihluta. Þá yrði unnið að byltingarkenndum áformum. Algjörri uppstokkun á fjármálkerfinu, kvótakerfinu, afnámi veðrtryggingar, leiðréttingu skulda, lágmarkframfærslu og öðrum málum sem snerta almenning. Ný stjórnrskrá flyti með sem ykju völd almennings verulega. Til þess verðum við að standa saman og styðja hvort annað og allar okkar aðgerðir verða að miða að því að koma á breytingum en ekki bara einhverjum einstaklingum á þing.

Við megum ekki gleyma rótinni og til hvers við fórum af stað að öðrum kosti verðu byltingin innflutt eins og annað Cocoa Puffs.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur