Föstudagur 12.10.2012 - 20:11 - FB ummæli ()

Tveir heimar

Að friðarverðlaun Nobels falli Evrópusambandinu í skaut eru í alla staði merkileg tímamót. Á sama tíma og ESB hefur gengið erinda fjármálaaflanna kinnroðalaust undanfarna áratugi þá hlotnast þeim ein af virðulegustu viðurkenningum sem hægt er að fá. ESB hefur fórnað öllu fyrir fjármálaöflin, allt hefur verið gert til að þóknast þeim. Almenningur um alla Evrópu og sérstaklega í suður hlutanum hefur þurft að glíma við ógeðslan niðurskurð svo að fjármálaöflin fái sitt. Aukin fátækt, launaskerðing, niðurskurður í lífeyrisgreiðslum, atvinnuleysi hafa leitt til mikils ófriðar, mótmæla.

Það er ekki friðvænlegt í Evrópu í dag. Það er stöðugt boðað til mótmæla.

Lánadrottnar hagnast vel á styrjöldum. Vopnin eru sprengd í tætlur og hús og önnur mannvirki jöfnuð við jörðu. Síðan þarf að endurreisa allt aftur, með lánum. Balkan skagi, Írak, líbía og fleiri lönd hafa svalað vopnaframleiðendum á undanförnum árum. Ekki stöðvaði tilvist ESB slíka stríðshegðun.

Að mati stórfyrirtækja og lánadrottna er Evrópa orðin of dýr í rekstri. Kallast að vera ekki samkeppnishæfur. Þess vegna er röðin komin að Evrópu að verða láglaunavinnusvæði. Út á það gengur allur niðurskurður í suður Evrópu. Hann mun síðar koma til norður Evrópu allt í nafni samkeppnishæfni.

Það geisar styrjöld í Evrópu, Evrópusambandinu. Það er styrjöld á milli þeirra sem vilja jöfnuð, réttlæti og öryggi til að koma sér og sínum á legg. Hinn hópurinn eru þeir sem sætta sig aldrei við annað en hámarks gróða, annað er mistök. Framkvæmdavald ESB hefur verið í ákafur stuðningsaðili þess síðarnefnda.

Það er til marks um að í veröldinni eru til tveir heimar án snertipunkts að hópur einstaklinga telur að ESB  sé verðugt friðarverðlaunum Nobels. Það er greinilega mjög cosy á fyrsta farrými.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.10.2012 - 20:25 - FB ummæli ()

Hvað skiptir máli

Eins og Marinó rekur vel í bloggfærslu sinni þá var fjármálaöflunum gefið frítt spil fyrir og eftir hrun. Þau orsökuðu hrunið og hafa síðan notið forgangs að öllu leyti eftir hrun. Núverandi ríkisstjórn hefur verið auðsveipur þjónn þeirra. Ef fjórflokkurinn nær völdum eftir næstu kosningar mun hann skipa sér í lið með fjármálaöflunum og kjör almennings munu versna.

Slík staða er uppi víðsvegar um heim. Mjög margar ríkisstjórnir fátækari landa eru undir hælnum á fjármálaöflunum. Til að mynda fyrir hvern dollar sem kemur inn sem hjálp flæða 10 dollarar út í skattaskjól án þess að ríkisstjórnir geri neitt í því. Í Afríku er flæði fjármagns til skattaskjóla þrefalt á við skuldir Afríku. Ef Afríka gæti skattlagt þetta fjármagn þá yrði Afríka skuldlaus álfa og þróunarhjálp þar heyrði sögunni til.

Þess vegna er til mikils að vinna við að koma böndum á fjármálaöflin. Innan fjórflokksins er enginn vilji til þess. Kjósendur sem vilja breytingar verða því að treysta á ný framboð. Tvö framboð í dag hafa það kristalskýrt að flytja botnlausan gróða bankanna til almennings og að afnema verðtrygginguna, amk treysti ég ekki öðrum til þess. Þessi framboð eru Dögun og Samstaða en hún hefur núna haft mjög góðan landsfund þar sem öflug stjórn var kosin til að vinna að framgangi mála Samstöðu. Bæði þessi framboð eiga sér svipaðar rætur sem stundum er kölluð búsáhaldarbyltingin en er frekar tilvísun á einstaklinga sem fannst sér nóg boðið og stóðu upp. Aðrir þátttakendur í búsáhaldarbyltingunni voru sáttir við að þeirra flokkur náði kjöri vorið 2009 og hafa ekki sést síðan í baráttunni fyrir réttlæti.

Samkvæmt tölum frá Sameinuðu Þjóðunum þá deyja 1000 börn á klukkustund úr þorsta, hungri eða auðlæknanlegum sjúkdómum til að gróði fjármagnsaflanna sé óskertur. Ef fram heldur sem horfir munu örlög þessara barna verða örlög barna víðsvegar um heim og jafnvel í Evrópu. Gróðafíknin á sér engin takmörk og mannkynsagan er yfirfull af slíkum dæmum. Þess vegna er mikilvægt að spyrna við fótum.

Ísland er möguleiki. Við höfum áður gert óvenjulega hluti og er þá Icesave deilan eitt dæmi. Ef þeir flokkar sem vilja virkilega setja beislin á fjármagnsöflin og beita þeim almenningi til hagsbóta ná góðri kosningu næsta vor er í raun um tímamótaatburð að ræða. Allt í kringum okkur eru ríkisstjórnir að lúffa fyrir bankavaldinu. Afleiðingin þar er mikill niðurskurður á velferðakerfinu, fátækt og hungur.

Ábyrgðin er mikil. Þegar mið er tekið af okkar fátækustu meðborgurum sem deyja úr þorsta og hungri á hverjum degi er ekki mikið tilefni fyrir okkur að rífast eða sundra okkur til að ná settu marki. Kjósendur á Íslandi hafa möguleika á því að skapa fordæmi sem gæti hugsanlega haft veruleg áhrif á heimsvísu. Það er okkar að standa saman og kynna möguleikana af alúð fyrir kjósendum okkar. Við getum aldrei verið að þessu fyrir okkur sjálf, okkar er bara að sjá til þess að börn komist á legg.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 5.10.2012 - 21:30 - FB ummæli ()

Að koma sér upp á dekk

Ísland strandaði haustið 2008. Krafan um nýja stjórnarskrá fæddist í kjölfarið. Almenningi hafði ekki verið hleypt upp á dekk og margir vöruðu við siglingaleiðinni fyrir hrun en höfðu ekki erindi sem erfiði. Í fullkomnum heimi með beinu lýðræði hefðu farþegar á þriðja farrými ráðið ferðinni vegna fjölda og sennilega kynnt katlana minna. Áreksturinn hefði því orðið mýkri. Með sama lýðræðisfyrirkomulagi hefðu sjóprófin orðið öðruvísi.

Með sameiginlegu átaki þjóðfundar og stjórnlagaráðs hefur komið fram ný stjórnarskrá sem er málamiðlun margra sjónarmiða. Okkur er hleypt upp á dekk og núna fáum við að segja hvað okkur finnst en það er mikil breyting frá því sem áður var.

Það að okkur sé hleypt upp á dekk, að við fáum að segja skoðun okkar 20. október á væntanlegum ákvörðunum valdsins er ný og ógnvænleg staða fyrir valdið. Auk þess er í nýrri stjórnarskrá ákvæði sem gerir okkur á þriðja farrými kleyft að taka stjórnina ef 10% okkar sammælast um það.

Við getum að sjálfsögðu haldið áfram að skipta okkur ekki af því hvernig skútunni er stýrt. Við getum haldið áfram á þriðja farrými að eltast við sætustu stelpuna með þekktum afleiðingum. Betur sjá augu en auga og þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum þátt og gefum til kynna vilja okkar. Ef við viljum ekki nýta okkur þetta tækifæri verður erfitt að koma seinna og fara fram á aukið eða beint lýðræði, það verður varla tekið mark á okkur þá.

Við getum tekið þátt og verið virkir borgarar og sagt hvað okkur finnst. Mætum á kjörstað og kjósum 20. október!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.9.2012 - 23:05 - FB ummæli ()

Hverra er valdið og hvernig er það notað

Þegar fylgst er með forsetakosningunum í Bandaríkjunum þá virðist litlu skipta hvor verði forseti. Báðir flokkarnir eru sammála um að bjarga fjármálakerfinu á kosnað almennings, skaffa stórfyrirtækjum niðurgreitt vinnuafl, styðja Ísrela að kúga Palestínumenn og auka hernaðarmaskínu Bandaríkjanna um víða veröld. Ef þeir væru ósammála um eitthvað sem skiptir máli þá gætum við hugsanlega eytt tíma í þessa kosningabaráttu.

Í raun er svipaða sögu að segja frá öðrum löndum. Það virðist ekki skipta neinu höfuðmáli hverjir eru kosnir, stefnan breytist ekki. Nýkjörinn forseti í Frakklandi boðar nú mikinn niðurskurð á næstunni. Ef einhverjar vonir voru bundnar við að hann yrði á einhvern hátt öðruvísi, kannski soldið vinstri sinnaður eða stæði við kosningaloforðin þá eru þær vonir  óðum að minnka.

Við Íslendingar höfum einnig fengið að bragða á þessum rétti. Núverandi stjórnaflokkar voru mjög andsnúnir mörgu fyrir kosningar sem þeir hafa framkvæmt af elju eftir að þeir komust til valda.

Þar sem framkvæmd valdhafa gagnast oftast best fjármálaöflunum frekar en almenningi þá virðast fjármálaöflin hafa lokaorðið hvað svo sem við kjósum okkur. Þess vegna virðist svo vera að valdhafar í mörgum löndum séu strengjabrúður og alls ekki víst að þeir kunni því neitt vel en eiga engan annan valmöguleika í stöðunni.

Þess vegna eru aukin áhrif almennings mjög nauðsynleg á milli kosninga. Beint lýðræði ásamt því að geta knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar með gefst almennigi sá möguleiki að eiga lokaorðið frekar en fjármálaöflunum.

Þar sem núvernadi ríkisstjórn á Íslandi hefur þjónað fjármálaöflunum svo dyggilega að meira að segja formaður Vinstri grænna er hlaðinn medalíum m.a. frá AGS þá er fullt tilefni til að mæta á Austurvöll á miðvikudagskvöldið og koma sjónarmiðum þeirra á framfæri sem telja sig hafa verið sniðgegna eða gleymda. Ekki vil ég trúa því að allir séu sáttir við að medalíurnar verði bara pússaðar fyrir vorið og við kjósum þær aftur sem þær væru nýjar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.9.2012 - 23:40 - FB ummæli ()

Draghi, ríkisskuldabréf og Lissabon sáttmálinn

Seðlabanki Evrópu með Draghi í broddi fylkingar boðar til mikillar sóknar gegn kreppunni í Evrópu. Núna gæti virst að Draghi(Seðlabnkastjórinn) sé heitur og kominn með lausnina. Í sinni einföldustu mynd hljómar þetta svona; Seðlabanki Evrópu(SE) kaupir ríkisskuldabréf af viðkomandi ríkjum og þá á mun lægri vöxtum en einkabankarnir eru að fara fram á. Þetta virðist vera hreint samsæri gegn einkabönkunum í Evrópu af hálfu SE.

Þetta virkar ekki svona því að samkvæmt Lissabon sáttmálanum má SE ekki kaupa ríkiskuldabréf beint af ríkisstjórnum evrulandanna. Því verða löndin að gefa út sín ríkiskuldabréf áfram til einkabankanna en SE reynir að redda þeim á eftirmarkaði eða þannig sko…

Ríkisskuldabréf eru í raun bara lántaka ríkisstjórna hjá einkabönkum til að bæta þeim upp mismuninn á skattekjum og ríkisútgjöldum. Þegar bankar ”kaupa” ríkisskuldabréf af ríkissjóðum þá greiða þeir fyrir þau með peningum sem þeir búa til úr engu, bara smá vinna á lyklaborðinu. SE gæti alveg eins gert það sama fyrir evruríkin og þar með leyst þau undan oki einkabankanna, ef það væri leyft í Lissabon sáttmálanum. Þessi grein Lissabon sáttmálans veitir einkabönkum vald yfir gjörvöllu evrusvæðinu.

Það kom skýrt fram hjá Draghi að þeir sem vilja nýta sér nýjustu leið SE verða að fara í ”meðferð”. Meðferðinni er stjórnað af SE, ESBog AGS. Hún felst í niðurskurði og skattahækkunum sem koma niður á almenningi með hörmulegum afleiðingum en samtímis bjargar meðferðin bönkunum. Fyrirhuguð kaup SE á ríkisskuldabréfum evruríkja er bara tálbeita til að koma Spánverjum í meðferð.

Það er því ljóst að SE vinnur með aðstoð ESB og AGS að því að bjarga einkabönkunum en ekki að bæta kjör almennings. Að almenningur tapi alltaf þegar SE og ESB ætlar að bjarga þeim er klárt merki þess að hagsmunir almennings eru ekki ofarlega á dagskrá ESB/SE.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.8.2012 - 21:00 - FB ummæli ()

Hvíti hatturinn

Sú tenging er undarleg að það að þjóðin kaus Sjálfstæðismenn til valda að þá beri þjóðin ábyrgð á bankahruninu og þess vegna er það mátuleg refsing að þjást núna. Ykkur hefði verið nær að kjósa „mig“.  Þetta stef er alltaf leikið þegar núverandi stjórnvöld eru gagnrýnd. En hver kaus hvern? Eru þá bara fyrrverandi kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem þjást? Ég hef verið svo ógæfusamur að hafa aldrei kosið nokkra ríkisstjórn á Íslandi, ég hef semsagt alltaf kosið „vitlaust“. Samkvæmt því ætti ég ekki að finna fyrir kreppunni en geri það þó.

Hin fullyrðingin er þessi um rústabjörgunina. Öllum hefur ekki verið bjargað ennþá þvert á gefin kosningloforð vorið 2009. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt línurnar í samstarfi við valdhafa. Þessir tveir aðilar sammæltust um að ekki skyldi hjálpa skuldsettum heimilum með sérstökum hætti nema að því marki að bankar gætu sætt sig við aðgerðirnar. Frekar var mælt með dómstólaleiðinni sem nokkrir hafa farið. Þrátt fyrir hæstaréttadóma þá fara bankar ekki eftir honum. Þeir eru ríki í ríkinu. Þessi aðferðafræði á vanda skuldsettra heimila ver banka fyrst og fremst og er núverandi vinstri stjórn þóknanleg.

Þeim sem hefur verið bjargað eru sérvalin fyrirtæki og einstaklingar. Þar virðist eitthvað annað en hagsmunir hins breiða fjölda ráða ferðinni. Verðtryggingin var ekki tekin úr sambandi haustið 2008 og þar var komið til móts við lánadrottna(lífeyrissjóðina) svo þeir gætu betur fyllt á tómar hyrslur sínar eftir að hafa dansað með hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn innleiddi.

Hvers vegna þjást lánadrottnar ekki?  Hvers vegna er það bara almenningur sem á að þjást ef allir voru svo vitlausir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Það eina sem við viljum fá upp úr hvíta hattinum er réttlæti, er farið fram á of mikið?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.8.2012 - 21:47 - FB ummæli ()

Lilja, þjóðarvilji og stjórnarksrá

Að Lilja Mósesdóttir velji að vera ekki formaður Samstöðu hefur komið því til leiðar að sumir hafa sett niður penna til að rita grafskrift Samstöðu. Ef það eitt og sér dugir til þá er ekki mikið í íslenska pólitík spunnið. Að koma nýju stjórnmálaafli á kortið er meira en að segja það og væntanlega eru þingstörf talin full vinna. Mér finnst þetta bara ofur eðlilegt og skynsamlegt, hvers vegna ekki að kalla fleiri til starfa á þennan hátt í stað þess að hrekja alla af hólnum eins og gerist í fjórflokknum. Fjölmiðlamenn eru svo vanir því að gjöf skal gjalda að þegar stóllinn er gefinn eftir að hætti móður Theresu þá vita þeir ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Það er reyndar gaman að fylgjast með úrræðaleysinu hjá þeim sem hegðun hennar veldur.

Það er einföldun hjá Lilju að telja sig bera ábyrgð á fylgistapinu, það þarf meira til. Fjárskortur og fjölmiðlaleysi sem Lilja bendir réttilega á er stór orsakavaldur. Það virðist því vera sterk fylgni milli þess að hafa fjármagn og fylgi. Það bendir til þess að kjósendur séu ekki að leita sjálfir að upplýsingum um stefnu flokka heldur bíða þeir eftir því að auglýsingar sannfæri þá um hvað skuli kjósa.

Franska byltingin var öflug og blóðug. Megin ástæða hennar var fátækt og matarskortur(m.a. vegna eldgosa á Íslandi). Hungrið rak almenning áfram. Þrátt fyrir að Lilja sé ötull talsmaður þess að skuldir verði leiðréttar vilja skuldarar ekki kjósa hana. Á hún þá að bíða eftir því að þeir verði nægjanlega svangir?

Þetta bendir til þess að kjósendur lesi í mesta lagi fyrirsagnir. Í lýðræðis þjóðfélagi verður að gera meiri kröfur til almennings. Þegar kemur að kosningum verða menn að lesa sig til og taka upplýsta ákvörðun. Vandamálið er að stundum kjósa menn loforðalista sem er síðan svikinn. Þess vegna sömdu menn í frönsku byltingunni stjórnarskrá til að ná völdunum til almennings og það höfum við líka gert núna á Íslandi. Lúðvík 16 henti stjórnlagaráði á dyr til að koma í veg fyrir nýja stjórnarskrá en án árangurs. Á Íslandi reynir auðvaldið að lítillækka þá vinnu til að missa ekki völdin eins og Lúðvík 16.  Með nýrri stjórnarskrá er hægt að hafa einhverja stjórn á sviknum loforðum sem er ekki hægt með núverandi stjórnarskrá.

Sennilega er almenningi mikið kappsmál að valdafsal eigi sér stað frá elítunni til almennings til að koma í veg fyrir svikin kosningaloforð. Ný stjórnarskrá mun veita almenningi meiri völd. Því ber að styðja grunnhugsunina í nýrri stjórnarskrá að þjóðarvilji ráði för.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.8.2012 - 18:43 - FB ummæli ()

Kjör skuldara

Skuldin er ævaforn, meira en 5000 ára gömul og hefur því fylgt mannkyninu lengi. Þess vegna er komin reynsla fyrir því hvernig hún virkar. Hún hefur nokkur afbrigði en þegar kemur að skuldum fasteignaeigenda eða þjóða, talið í peningum, þá eru lánadrottnar oft ópersónulegar stofnanir sem innheimta án tillits til afleiðinga gjörða sinna.

Lánadrottnar hafa valdið sín megin. Lögin eru þeim í hag. Þeir hafa oft valdamikla aðila sér til aðstoðar við innheimtu; sýslumenn, lögreglumenn, ríkisstjórn eða þá alþjóðasamtök eins og AGS eða ESB þegar kemur að alþjóðlegum skuldum. Slagkrafturinn er mikill þegar margir leggjast á eitt.

Lánþegar fórna oft öllu til að standa í skilum. Heimilið er rústir einar, lífið er í henglum og stundum brestur það.

Saga skuldarinnar kennir okkur að ráð þeirra skuldsettu eru ekki mörg. Þrátt fyrir það er eitt víst að ef skuldarar reyna að fá leiðréttingu kjara sinna sem sundraður hópur verður enginn árangur. Hingað til hefur það eitt dugað að allir skuldarar sameinist ef eitthvað á að breytast.

Og þar stöndum við í dag, hvert í sínu horni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.8.2012 - 20:21 - FB ummæli ()

Íslenskum fyrirtækjum fórnað fyrir bankana

Víglundur Þorsteinsson kemur fram í dag með fréttatilkynningu og blaðamannafundi. Hann sakar bankakerfið um að hafa selt fyrirtæki hans í nokkrum pörtum því það hafi komið bankanum betur en að styrkja hann til að reka það sem eina heild. Þarna takast á kjör þess sem þiggur fé að láni og hins sem lánar. Lánadrottinn virðast geta gert hvað sem er við lántakendann þvert á lög landsins. Það er eingöngu hægt með samþykki núvernadi valdhafa. Þar sem núverandi stjórnarflokkar lýstu yfir stríði við bankaleynd, bankakerfið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir síðustu kosningar er augljóst að eitthvað hefur hnikast til.

Svo er að sjálfsögðu möguleiki að Víglundur sé að ljúga upp á bankann og stjórnvöld.

Það sem styður málflutning Víglundar er að hann líkist framvindu slíkra mála frá hruni. Húseigendur, eigendur lítilla til meðalstórra fyrirtækja hafa verið í sértækri meðferð hjá bönkunum með góðfúslegu leyfi stjórnvalda. Meðferðin snýst um að hámarka endurheimtur bankanna án tillits til afleiðinga fyrir lántakendur. Heyrst hefur að ein af ”afleiðingunum” fyrir starfsmenn bankanna séu bónusgreiðslur ef vel gengur. Stjórnvöld skrifuðu undir þessa áætlun, vitandi vits, sem AGS hannaði enda gæslumaður fjármagnseigenda. Þeir sem lásu Letter of Intent milli íslenskra stjórnvalda og AGS kemur þetta ekki á óvart. Kryddið í þessu er sérhagsmunagæsla þeirra sem eru ofaná þessa stundina og reyna að hrifsa til sín það sem til fellur.

Þeir sem þekktu til núverandi stjórnvalda fyrir valdatöku þeirra kemur ekki á óvart að kosningaloforðin hafi horfið þegar á reyndi. Spurningin er hvort kjósendum sé nokk sama og kjósi sömu svikaloforðin á ný eða hvort hugrekki sé til staðar að kjósa til forystu fólk sem er reiðubúið til róttækra breytinga, t.d. að manneskjan sé sett ofar hag bankanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.8.2012 - 19:20 - FB ummæli ()

Sofandi að feigðarósi

Þjóðríki geta ekki fjármagnað sig vegna þess að lánadrottnar krefjast það hárra vaxta að ekkert ríki getur staðið undir slíkum kröfum einkafyrirtækja um gróða. Þetta eru fréttirnar sem við heyrum daglega frá Evrópu. Vaxtarkrafan setur þjóðríki í greipar lánadrottna. Trjókan(SBE,EU,AGS) er sendiboði þeirra og setur þjóðríkjum reglurnar um niðurskurð og brunaútsölu á ríkisfyrirtækjum til lánadrottnanna. Verkáætlanir stóðust í Lettlandi og Grikklandi. Spánn er á áætlun og Ítalir horfa á fiskinn á dagblaðinu. Matsfyrirtækin hafa safnað okkur hinum saman á söfnunarstaðina þar sem við bíðum eftir næstu tómu lest.

Sérkennilegt hvað sagan endurtekur sig í sífellu.

Við gætum svo sem búið til peningana okkar sjálf en engum manni dettur það í hug, frekar er horft í hnakkann á næsta manni í röðinni inn í klefann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur