Sunnudagur 20.5.2012 - 22:16 - FB ummæli ()

Rót vandans

Á morgun ætlar velferðarráðherra að kynna nýja húsnæðisstefnu. Það virðist sem bóta og styrkjakerfið verði stokkað upp á einhvern hátt. Hið opinbera hefur styrkt almenning svo hann hafi þak yfir höfuðið og mun halda því áfram með þessari nýju húsnæðisstefnu. Kannski verður áherslum breytt innan styrkjakerfisins.

Allir vita að baráttan er á milli kaupgetu og útgjalda. Á meðan heilsan leyfir er unnið eins mikið og nokkur kostur er og oftast samtímis er dregið úr öllum hugsanlegum kostnaði. Formúlan dugar ekki alltaf og því flytur hið opinbera hluta af útgjöldum einstaklinga(skattggreiðslum) yfir í tekjuhliðina(sennilega hjá sömu einstaklingum) í formi húsnæðisstyrkja. Megin hugsunin er að einstaklingar missi ekki húsnæði sitt, þ.e.a.s. að menn geti staðið í skilum á afborgunum lána eða þá húsaleigu sem að stofni til fer til afborgana lána.

Þeir sem hafa sparað vita að hægt er spara allt nema afborganir af lánum, þar mæta einstaklingar ofjarli sínum. Þess vegna kemur ríkið til skjalanna og hjálpar. Með öðrum orðum ríkið, þ.e. skattgreiðendur aðstoða sjálfa sig til að lánadrottnar fái alltaf sitt. Skuldin og hvernig hún varð til er meginorsök vandamálsins en hefur sennilega ekki verið greind neitt nánar í vinnu hópsins. Lánadrottnar njóta þess að búa í fríríki og vera ósnertanlegir, a.m.k þorir enginn í þá.

Á facebókar síðu sinni fjallar Gunnar Tómasson um skuldavandann almennt í heiminum og segir meðal annars eftirfarandi um ástæðu þess að hann leysist ekki: “And if you have not identified the problem – and you cannot do that with modern monetary economics – when you cannot identify your problem, you cannot design a solution for it. You must know what your are talking about, and they don’t.”

Gunnar er ljónskarpur hagfræðingur og skilur vandamálið við sköpun skuldarinnar. Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur einnig fjallað nokkuð um það. Ekki minnist ég þess að neinn hagfræðingur sem er búsettur hér á Íslandi hafi mikinn áhuga á sköpunarsögu skuldarinnar. Þeir eru þó ekki einir á báti því Paul Krugmann var rekinn á gat um daginn í þessum fræðum. Ef hagfræðingar og þess vegna aðrir leggðu nokkra vinnu við greiningu hennar finndu þeir eflaust þá lausn sem fólgin er í þeirri sögu.

Rót vandans er gallað fjármála og peningakerfi. Það eitt að taka valdið frá einkabönkum til að búa til peninga með skuldsetningu myndi gera gæfumuninn. Þá gætum við gleymt þessum eilífu millifærslum á tekjum okkar ofaní vasa lánadrottna.

 

 

 

25. grein

1. Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. 2. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 20.5.2012 - 00:17 - FB ummæli ()

Það gengur bara betur næst

Það er spurningin um hvort spurningarnar séu nógu vel úr garði gerðar til að öll sjónarmið komi fram. Þá er ég að velta fyrir mér spuringunum sem koma fram í þingsályktunartillögu stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar um drög að nýrri stjórnarskrá. Svarið er að svo er ekki. Til að svo megi vera þurfa spurningarnar að vera mun fleiri og jafnvel þarf að spyrja út í flest allar ef ekki allar greinar á drögum að nýrri stjórnarksrá. Ég taldi bara að við værum að hefja ferli að smíði nýrrar stjórnarkrár og það væri góð byrjun að spyrja þjóðina þessara spurninga til að byrja með. Samfara því vænti ég að fram fari mikil umræða í þjóðfélaginu. En það er augljóst að ég hef misskilið hlutina illilega.

Það virðist sem að margir þingmenn telji að það verði bundinn einhver endahnútur á alla umræðu eða hugsanlegar breytingar á drögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnaskrá að lokinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um drögin. Að drögin fari þá í einhvern óæskilegan og óafturkræfan feril, þ.e.a.s að þau verði óbreytt að stjórnarkrá. Þingmenn hafa þess vegna kappkostað að tjá skoðanir sínar hvernig þeim finnist stjórnarkráin eigi að vera. Margir þingmenn hafa líka komið fram með breytingartillögur sem innihalda sjálfsagt margt gott. Ég taldi bara að allir Þingmenn kæmu síðan að því á seinni stigum að smíða endanlega stjórnarskrá sem síðan nýtt þing þyrfti líka að samþykkja. Sá ekki beint ástæðuna til að gera ágreining núna eða þá að ganga að enn einum drögunum dauðum.

Það má sjálfsagt rökræða lengi um meintan misskilning en eitt er augljóst að þeir einu sem virkilega græða á því ástandi sem núna er á Alþingi eru spunameistararnir. Þjóðin er klofin í herðar niður í einu af sínum stóru búsáhaldarkröfum, þ.e. auknum völdum. Það verður mjög sérkennilegt ef þjóðin situr heima þegar Alþingi gerir svo lítið að leita ráða hjá henni. Það er í raun engum einum um að kenna, við létum bara leika á okkur enn eina ferðina enn.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.5.2012 - 00:38 - FB ummæli ()

Prófkvíði Alþingismanna

Ég var að byrja í sumarfríi í dag og fátt er betra, milli hefðbundinna heimilsverka, en að hlusta á beina útsendingu frá Alþingi. Ein af þingnefndum Alþingis Íslendinga hefur dottið það í hug að spyrja íslensku þjóðina nokkurra spurninga um drög að stjórnarskrá sem unnin hefur verið af fólki sem þjóðin kaus til þess verks á sínum tíma. Spurningarnar eru eftirfarandi:

1. Vilt þú að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá

eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga?

Merktu í reitinn fyrir framan þann valmöguleika sem þú kýst.

  • Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá

eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.

  • Nei, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri

stjórnarskrá.

  • Tek ekki afstöðu.

 

2. Einnig ertu beðin(n) um að svara nokkrum efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá.

Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði Já -Nei -Tek ekki afstöðu

 

1. náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?

2. ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?

3. persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

4. ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

5. ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera?

  • 10%
  • 15%
  • 20%

 

Það er virðingavert þegar háttvirt Alþingi gerir svo lítið að spyrja pöpulinn hvað honum finnst. Það er í raun stílbrot og virðist fara fyrir brjóstið á mörgum.

Við vitum öll sem könnumst aðeins við söguna að öfl innan fjórflokksins ætla aldrei að breyta núverandi stjórnarskrá. Auk þess eru sumir þingmenn haldnir þeim misskilningi að þeir séu sérvaldir af almættinu til að semja stjórnarskrá. Svipað heilkenni og sumir kóngar þjáðust af hér á öldum áður. Í stjórnarskrá eru verklagsreglur þjóðarinnar um hvað Alþingismönnum er leyfilegt eða ekki. Venjulega semja nemarnir ekki skólareglurnar.

 

Umræðan virðist snúast mikið um hvernig þjóðin muni svara þessum spurningum. Það er í raun bara ein lausn til á því vandamáli og það er að vinna úr prófsvörunum þegar prófinu er lokið. Frekari umræða á hinu háa Alþingi mun aldrei færa okkur neitt nær svarinu.

 

Það sem er verra er að mörgum þingmanninum er það hulin ráðgáta hvernig almenningur á að geta skilið spurningarnar. Ef almenningur skilur ekki þessar spurningar mun hann að sjálfsögðu eiga erfitt með að svara þeim. Hver er svo sem sjálfum sér næstur en þrátt fyrir að ég sé rétt tæplega meðalgreindur þá tel ég mig bæði skilja og vera færan um að svara þessum spurningum.

 

Eftir að hafa hlustað í dag á umræðuna virðist ótti þingmannanna við það að við götum á prófinu og svörum rangt vera raunverulegur því þeir ræða það aftur og aftur og aftur. Ég ráðlegg þeim þó eindregið að láta slag standa og síðan að nota sumarið til að vinna bót á kvíðaröskun sinni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 3.5.2012 - 19:56 - FB ummæli ()

Auður og auðlindir

Nýlendustefna er ekki ný á nálinni. Öllum hugsandi mönnum má vera ljóst að Kínverjar eru að nota auð sinn til að nema land sem víðast. Að leigja land til 40 ára er ekkert annað en að samþykkja nýlendustefnu stórveldis. Hlutafélag er hægt að kaupa seinna í ró og næði, í pörtum eða í heilu lagi. Þegar ísinn er brotinn er auðvelt að halda áfram á sömu braut og þá verður ekki mikið eftir handa okkur Íslendingum, okkur sem eigum landið.

Auður Kínverja er skapaður með hefðbundunum kapítalískum aðferðum og almennu arðráni, auk vinnuþrælabúða(sweat shops). Þess vegna er það svo einkar passandi að vinstri Ríkisstjórn á Íslandi með verkalýðsfrömuði í fararbroddi kokgleypi blóðpeninga fólksins sem neytt var í ánuð til að eiga í sig og á, án þess svo mikið að svelgjast á.

Núverandi Ríkisstjórn virðist mjög umhugað um að tryggja auðvaldinu aðgang að auðlindum okkar til allt að 40 ára. Sjávarauðlindin á einnig að vera kvótagreifum aðgengileg án ónæðis í 20 eða 40 ár.

HS orka og sú auðlind á Reykjanesinu sem við höfum skapað og þróað sjálf er smám saman að renna okkur úr greipum beint fyrir framan augun á vinstri ríkisstjórninni okkar.

En annar þjóðarauður sem fólgin er í fasteignum landsmanna hefur ríkisstjórnin leyft lánastofnunum að soga til sín.

Sömu sögu er að segja um mannauðinn sem flýr land en samtímis lækka atvinnuleysistölur valdstjórninni til frama.

Hugsjónir þeirra hafa glumið í eyrum okkar árum og áratugum saman; verkalýðurinn, þjóðin og landið okkar. Hvenær seldu þeir sig eða var þeim aldrei alvara?

Almenningur verður að ná áttum og takmarka með öllum ráðum gerræðislegt framferði spilltrar valdstéttar á Íslandi. Nýtt þing og nýja stjórnarskrá ekki seinna en í dag!

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.5.2012 - 12:35 - FB ummæli ()

Að blunda í fleti fjármagnsins

Það er sérkennilegt að hlusta á umræðuna um vanda heimilanna á Íslandi.

Það er ljóst að margir eru að greiða mun hærra hlutfall af tekjum sínum í afborganir af skuldum en áður. Auk þess er fjöldi fólks sem getur ekki staðið í skilum. Að stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir því að á meðan lánastofnanir ryksuga til sín kaupmátt almennings verður engin endurreisn á Íslandi, ekki nema að vinstri stjórnin ætli að leggja slíkt alfarið á ríka og skuldlausa fólkið í landinu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem er talsmaður lánadrottna og fjármagnseiganda bannaði almenna niðurfærslu skulda á Íslandi. Seðlabanki Íslands er Konni hans og því í raun ómarktækur í umræðunni. AGS vildi að hver og einn færi í mál við allt og alla til að ná fram rétti sínum. Nokkuð trygg aðferð til að koma í veg fyrir sátt í þjóðfélaginu. Núverandi ríkistjórn hefur verið svo upptekin við að fylgja ráðum sjóðsins á liðnum árum að erfitt getur verið að greina að þessa tvo hópa.

Haustið 2010 eftir stóru tunnumótmælin var sest niður með íslenskum lánadrottnum undir skugga AGS. Lánadrottnarnir kváðu síðan upp sinn dóm að ekki væri hægt að gera meira fyrir skuldsettan almenning í landinu, annað en að halda áfram að rukka hann eða hirða af honum eigur hans. Ríkisstjórnin tók þetta gott og gilt og gerði meira að segja fyrrnefndan rökstuðning að sínum.

Núna fyrirhugar ríkisstjórnin að auka aðstoð til þeirra hópa sem eiga erfiðast með að standa í skilum. Hugsunin er að auka barnabætur, vaxtabætur og fleira í svipuðum dúr. Hugsunin virðist góð en er í raun bara aðgerð stjórnvalda til að auðvelda fólki að millifæra kaupmátt sinn til lánadrottna með aðstoð skattgreiðenda.

Fjármunum sem varið er í endurgreiðslu skulda til lánadrottna er ekki varið til uppbyggingar þjóðfélagsins og skuldir sem ekki er geta til að endurgreiða verða ekki greiddar, þannig er það bara. Þess vegna verður að skera skuldirnar niður til að hjólin fari aftur að snúast. Sá háttur hefur alltaf verið hafður á þegar fyrirtæki eru endurskipulögð. Lánadrottnar verða að taka á sig hluta af kostnaðinum við uppbygginuna. Sá sem lánar er ekki stikk frí og sérstaklega ekki sá sem keypti lánin á útsölu frá gömlu bönkunum.

Það sem er einna sérkennilegast við umræðuna um skuldavanda heimilanna er að hún sýnir að það sem gerðist vorið 2009 eftir vel heppnaða Búsáhaldarbyltingu á Íslandi var að Vinstri grænir lögðust í volgt fletið við hlið Samfylkingarinnar og fjármálaaflanna í nýrri ríkisstjórn í stað Sjálfstæðisflokksins. Auk þess er það ljóst að lánadrottnar eiga síðasta orðið og ráða því för en ekki kjörnir fulltrúar okkar. Þessu verður að breyta en verður ekki auðvelt, það þarf kosningar og nýja þingmenn, þingmenn sem ætla sér ekki í flet fjármagnsins.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.4.2012 - 17:44 - FB ummæli ()

Íslensk catastroika

Núverandi ríkisstjórnarflokkar lofuðu kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar að færa stærstu auðlind þjóðarinnar, sjávarútveginn, frá völdum einkafyrirtækjum til alls almennings. Loforðin hljóðuðu upp á jafnan aðgang að auðlindinni og að þjóðin hefði fullt og óskorað vald yfir nýtingunni og afrakstrinum. Þetta hefur verið svikið með því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi um stjórn fiskveiða. Það frumvarp mun afhenda auðlindina fámennum hópi í 20 ár og jafnvel enn lengur með sjálfvirkum hætti, í stað eins árs í senn eins og það er núna.

Við þekkjum sögu einkavæðingarinnar; Margaret Thacher i Bretlandi, Boris Jeltsin í Rússlandi, einkavæðinguna í Austur Þýskalandi. Við heyrum auk þess skelfilegar sögur núna frá fyrirhuguðum einkavæðingum í Grikklandi. Auðlindir, almenningsfyrirtæki og gersemar almennings eru seldar á brunaútsölu til að lítill hluti þjóðarinnar geti makað krókinn. Þannig hefur saga sjávarútvegsins einnig verið undanfarna áratugi á Íslandi.

Alltaf hefur þessari nýfrjálshyggju verið troðið ofaní kokið á þjóðum með valdi. Sjaldnast hefur almenningur samþykkt slíkt fyrirkomulag þegjandi og hljóðalaust. Vegna skorts á lýðræðislegum aðferðum hefur valdbeiting verið umtalsverð. Við á Íslandi gætum haft einstakt tækifæri til að virkja lýðræðið og forðast valdbeitingu. Með því að skrifa undir undirskriftarsöfnun Dögunar gegn núverandi frumvarpi myndast þrýstingur sem getur komið í veg fyrir enn eina einkavæðinguna á auðlind almennings hér í heimi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.4.2012 - 04:34 - FB ummæli ()

Hver er bróðir minn

Reykjavík 25. apríl 2012

Til þingmanna

Við undirrituð skorum á ykkur að sýna Grikkjum samkennd og setja saman þingsályktunartillögu um að Alþingi Íslendinga lýsi yfir stuðningi við grísku þjóðina sem líður fyrir aðför fjármálaaflanna.

Það er löngu orðið tímabært að þjóðþingin í Evrópu bregðist við neyðarhrópum grísks almennings; neyð þjóðar sem stafar af aðgerðum fjármálakerfisins. Ykkur til upplýsingar viljum við vísa í tvær góðar heimildir um aðdragandann og ástandið í Grikklandi:

1) Grein tónskáldsins Mikis Theodorakis “The Truth about Greece” þar sem hann rekur það sem máli skiptir til að skilja stöðu Grikkja í dag.

2) Heimildamynd blaðakonunnar Alexandra Pascalidou, Vad är det för fel på grekerna? (Hvaða vandamál hrjáir Grikki?) um síversnandi aðstæður almennings sem eru tilkomnar fyrir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af grískum stjórnvöldum að kröfu fjármálaaflanna.

Þögn þjóðþinga Evrópu sem hafa daufheyrst við neyðarhrópum grísks almennings er skammarleg. Þess vegna viljum við höfða til samkenndar ykkar þingmanna um að bregðast við kalli hans og leggja fram og samþykkja þingsályktunartillögu þar sem Alþingi Íslendinga fordæmir aðgerðir fjármálaaflanna gegn Grikkjum.

Undirskriftir:

Anna Ólafsdóttir Björnsson, tölvunarfræðingur

Árni Þór Þorgeirsson

Ásthildur Sveinsdóttir, þýðandi

Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi

Elín Oddgeirsdóttir

Elinborg Kristín Kristjánsdóttir, háskólanemi

Fanney Kristbjarnardóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur

Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur

Helga Þórðardóttir, kennari

Héðinn Björnsson, jarðeðlisfræðingur

Hjalti Hrafn Hafþórsson

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

Jón Jósef Bjarnason, ráðgjafi

Jón Þórisson

Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari

Valdís Steinarsdóttir, skyndihjálparleiðbeinandi

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 20.4.2012 - 20:14 - FB ummæli ()

Skuldin og stjórnarksráin

Skuldin getur verið driffjöður áframhaldandi kreppu almenningi til skelfingar samtímis sem hún er auðlegð lánadrottna. Þess vegna er mikilvægt að skilgreina hverra hagsmuna á að gæta.

Íslendingar og margar aðrar þjóðir hafa upplifað sérstaka tíma á liðnum árum. Það er nánast ofrávíkjanleg krafa lánadrottna að allar skuldir skulu greiddar að fullu. Vandamálið við þá kröfu í núverandi árferði er að hún gerir illt verra.

Þær tekjur sem fara í endurgreiðslu skulda lama hagkerfið því ekki verður til ný framleiðsla né kaupmáttur til að endurreisa efnahag landa í kreppu. Það sem einkennir núverandi kreppu er að ósanngjarnar kröfur lánadrottna ráða ferðinni. Lánadrottnum hefur tekist að ná völdum meðal lýðræðsilegra kjörinna fulltrúa fólksins. Áður fyrr voru skuldir afskrifaðar til koma hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik en ekki í dag.

Harka lánadrottna í dag er eftirtektarverð. Þeir virðast ekki á neinn hátt blikna við þær hörmungar sem þeir skapa. Þeir geta sætt sig við að fólk verði atvinnulaust, eignalaust og eigi varla til hnífs og skeiðar. Þeir virðast jafnvel ekki gera sér grein fyrir því að meðferðin sem þeir bjóða upp á getur gengið að efnahagskerfinu dauðu.

Þegar Þjóðríki verða skuldsett kemur krafan um sölu auðlinda. Íslenskir lánadrottnar standa svo vel að búið er að bankavæða okkar aðal auðlind sjávarútveginn. Hann er svo skuldsettur að það eru bankarnir sem segja til um hvort breyta eigi fyrirkomulagi sjávarútvegsins. Í þessu dæmi kristallast barátta hins opinbera og einkalánadrottna um að hirða arðinn af auðlindinni. Bankarnir vilja fá sínar vaxtagreiðslur en almenningur skattgreiðslur. Best væri að afskrifa skuldirnar svo almenningur hefði tök á því að fá arð af auðlindinni. Á mörgum öðrum sviðum er búið að drekkja fyrirtækjum og einstaklingum í skuldum svo að afrakstur vinnu þeirra lendir sem afborganir til banka en ekki sem aukinn kaupmáttur sem myndi endurreisa hrunið þjóðfélag.

Vinstri stjórnin var með yfirráð yfir þremur stærstu bönkunum á Íslandi og hefði því getað hagrætt skuldastöðu þjóðfélagsins sem hefði endurspeglast í aukinni hamingju og kaupmætti. Það sýndi sig að stjórnin var leppur lánadrottna því hún stóð fyrir nýrri einkavæðingu á tveimur af þremur bankanna.

Til að breyta stöðu lántakandans þarf að fjarlægja völd lánadrottna yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúm almennings. Völd bankanna felast fyrst og fremst í því að þeir framleiða peningana fyrir okkur og því er framkvæmda- og löggjafavaldið háð þeim. Upplifun margra er að það skipti litlu máli að kjósa nýja valdhafa því það séu alltaf lánadrottnarninr sem eigi síðasta orðið.

Ef valdið til að búa til peninga er falið hinu opinbera sem verður að sæta eftirliti almennings þá munu bankar umbreytast úr lokuðum reykfylltum stofnunum í venjuleg  fyrirtæki sem við munum geta ráðið við. Að vera eitthvað að kroppa í þá er harla gagnslaust eins og sagan ber með sér. Þess í stað þarf að breyta grundvellinum að valdi þeirra.

Þess vegna verðum við að færa almenningi  meiri völd en bara það að kjósa á fjögurra ára fresti, m.a. með því að klára nýja stjórnarskrá. Að auka völd almennings og setja valdhöfunum auknar skorður er nauðsynlegt og auk þess skipta 300.000 þúsund manns með raunverulegt vald meira máli en einhverjir þingmenn með takmarkað vald.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 8.4.2012 - 22:54 - FB ummæli ()

Ég leik mér ekki við deppur…

Ég hef oft velt fyrir mér þessum spurningum Rakelar:
„Hvers vegna hefur almenningur ekki brugðist við með afgerandi hætti? Hvers vegna hefur hann ekki flykkt sér betur á bak við þá fáu sem hafa barist fyrir hann á undanförnum árum? Hvers vegna brýtur hann sig niður í fylkingar gegn hagsmunum sjálfs sín? Hvers vegna treystir hann enn þá á sundurlyndisraddir, falsspámenn og málsvara hvers kyns forréttindahópa? “
Lilja Mósesdóttir spyr á FB síðu sinni.

Þegar stórt er spurt er ekki laust við að tungan þvælist í munninum og fátt verði um góð svör en ég ákvað samt að reyna.

Áhugaleysi almennings er skiljanlegt en er að engu síður slæmt. Almenningur kýs aftur og aftur. Nýfrjálshyggju stjórnir Davíðs keyrðu landið í þrot og ekki tók betra við þegar ”vinstri” stjórnin tók við 2009. Almenningi finnst hann hafi ekki áhrif og því tilgangslaust að skipta sér af. Röng niðurstaða því í raun ætti almenningur að taka enn meiri þátt. Spunameistarar sjá til þess að almenningur fylgist með málum sem skipta ekki máli og þreyta almenning þannig að hann hættir að fylgjast með ”þrasinu”.

Reyndar er það alveg rétt niðurstaða hjá almenningi að kjörnir fulltrúar hafa í raun engin völd. Það eru peningaöflin sem hafa völdin.

Auk þess hefur mikið verið gert til að draga athygli almennings frá pólitískri umræðu. Það er gert með sjónvarpsglápi á sápur og íþróttaviðburðum sem skila engu öðru en drunga og síþreytu(ópíum fyrir fólkið).

Skortur á samstöðu milli hópa virðist vera reglan en hitt. Sundurlyndið einangrast ekki við Ísland heldur er vel þekkt út um allan heim. Algengt er að stefna sé mótuð af litlum hópum og hún talin vera stóri sannleikur og lítill afsláttur gefinn ef til hugsanlegs samstarfs kemur. Stundum eru sterkir einstaklingar sem vilja ekki missa forustuhlutverkið til einshvers annars. Andstæðingunum( 4flokknum) tekst stundum að sverta einhvern hópinn og þannig gera öðrum ókleift að vinna með honum jafnvel þó að engin fótur sé fyrir ásökunum. Einstaklingar innan hvers hóps hafa oft skoðanir á öðrum einstaklingum innan annarra hópa, skoðanir sem oft eru byggðar á misskilningi eða fordómum og koma því í veg fyrir að menn ræði saman. Ef hóparnir settust bara niður og ræddu saman myndi mjög mörg þessara vandamála leysast og koma til leiðar meiri samvinnu. Sjálfsagt er um einhverja spéhræðslu að ræða eða þá að menn óttast að þeim verði hafnað. Til að slíkar umræður milli aðila öðlist eitthvert vægi þurfa þær að vera formlegar. Að reyna eitthvað hvísl á göngum er ekki gæfulegt.

Að ekki sé meiri áhugi á sameiningu gefur sterklega til kynna að ekki sé fullur skilningur innan hópanna hversu mikilvægt sé að sameinast. Þrátt fyrir að öllum ætti að vera ljóst að sameinuð sigrum við og sundruð föllum við, þá virðist sem innihald þessara orða sé ekki öllum ljós því annars væri ekkert sundurlyndi. Auk þess er möguleiki að allir hugsi sem svo að aðrir eigi að sameinast ”mínum” hópi. Grunnurinn að þeirri hugsun er sennilega sá að ég sé merkilegri en aðrir, sú hugsun er röng og um leið slæmt vegarnesti út í lífið. Kannski vilja einhverjir ekki sameiningu því þeir vilja ekki að baráttan beri sigur því þeim finnst svo gaman í baráttunni-hvað veit maður?

Þegar gluggað er í söguna verður maður ekki bjartsýnn. Hitler fékk góða styrki frá peningamönnum og m.a. frá Ford í Detroit. Lenin og Trosky fengu líka peningasummu, stundum talað um kistu fulla af peningum sem þeir tóku með sér í lestina til Rússlands. Á hinum endanum virðist sem byltingar verði ekki fyrr en stærsti hluti almennings sé glorsoltinn, þ.e. þá er það hungurtilfinningin sem sameinar menn og það eina sem hópurinn skilur sem sameiningartákn. Hljómar ekki mjög intellegent.

Þess vegna virðast vera tveir pólar á byltingum, mútufé eða hungur. Þeir sem reyna peningalausir að höfða til skynseminnar hjá almenningi sem ekki er glorsoltinn ná illa árangri. Almenningur vill gjarnan að nýju sem og gömlu flokkarnir leysi vandamálin fyrir sig en að einhver djúp vitræn umræða verði og að almenningur hópist í pólitískt starf virðist ekki gerast.

Vangaveltur Lilju eru mjög mikilvægar og margir velta þeim fyrir sér bæði hér heima sem og annar staðar. Fjármálaöflin nýta sér allt sundurlyndi til að deila og drottna. Skoðanamyndandi áróður þeirra í skjóli fjármagns gerir þeim kleift að halda röngum upplýsingum að fólki, halda réttum upplýsingum frá fólki þ.e. að móta skoðanir fjöldans. Fjármálaöflin eiga oft stóra fjölmiðla í þessum tilgangi. Gegn þessu ofurafli fjármagnsins er eingöngu til ein lausn og það er raunveruleg samstaða allra þeirra sem vilja breyta núverandi kerfi almenningi til hagsbóta.

 

…þegar ég var fimm ára gutti vildi stelpa leika við mig, ég snéri upp á mig og svaraði með þjósti, ég leik mér ekki við deppur, mikið var það nú gott að ég klikkaði á þessari sannfæringu minni..

 

Grein Rakelar.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.4.2012 - 12:07 - FB ummæli ()

Titanic og stjórnarskráin

Núna er byrjað að endursýna kvikmyndina Titanic og núna fáum við að njóta hennar í þrívídd. Það er margt merkilegt við þessa sögu, þ.e.a.s. af skipinu, ástarsagan er krydd í tilveruna fyrir áhorfendur. Þrátt fyrir að vandað hafi verið til smíði skipsins og öll hönnun verið góð þá er það á endanum ákvörðun eins manns, skipstjórans sem ræður úrslitum. Sennilega var það hann sem ákvað hraðann sem gerði áreksturinn við ísjakann svo banvænan.

Næsta sumar ætlar íslenska þjóðin að kjósa sér forseta. Einn mann eða konu sem ræður öllu um hvernig viðkomandi bregst við þeim hættum sem steðja að íslenskri þjóð. Sumir frambjóðendur segjast ætla að láta stýrimennina ráða för en aðrir ætla að spyrja alla um borð hvað þeim finnst. Ef skipstjórinn hefði spurt farþegana hvort þeir vildu sigla hægt og af öryggi frekar en að slá met hefðu þeir mjög sennilega valið öruggari kostinn. Þar sem þeir voru allir um borð í sama skipinu og voru bundnir órjúfanlegum böndum örlögum farkostsins þá eru allar líkur á því að þeir hefðu valið af skynsemi. Þar sem allir eru a sama skipinu, þar sem allir eiga jafnmikið undir því að ná höfn þá er í raun fáranlegt að undanskilja einhverjar ákvaðanir frá hópnum.

Margar þjóðir og ekki síst við Íslendingar eigum okkar breisku minningar af foringjaræði. Tveir menn, yfir kaffibolla, settu alla íslensku þjóðina í stríð við írösku þjóðina á fölskum forsendum og Hitler réðst á allan heiminn, sennilega yfir dísætum riesling sem fraus árið áður. Faríserarnir Steingrímur og Jóhanna, í skiptum fyrir ráðherralífeyri, matreiddu þjóð sína í kjaft bankaelítu heimsins í heilögu samsæri með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Beint lýðræði hefði hafnað öllum þessum kostum.

Þeir sem vistuðust á þriðja farrými á Titanic voru senniega ekki með hugann við þjóðaratkvæðagreiðslu um jöfnun kjara á skipinu. Þrátt fyrir það höfðu þeir fullan hug á því að bæta kjör sín og þá sennilega með því að vinna sig upp með tímanum. Þar sem hönnun á þeim viðmiðum og gildum sem réðu för voru ákveðin af fámennum hópi vissu þeir á þriðja farrými ekki að það voru engir björgunarbátar fyrir þá.  Þess vegna skiptir tíminn máli. Opin og lýðræðisleg umræða hefði komið í veg fyrir skort á björgunarbátum. Er það ekki grundvöllurinn fyrir gagnrýni Landsdóms og þjóðarinnar á framgöngu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í aðdraganda hrunsins. Þau voru, eins og Titanic, á hraðferð til New York í Öryggisráðið á fyrsta farrými og gáfu ekki gaum að úrræðum fyrir okkur á því þriðja.

Í raun var það stjórnandi skipafélagsins Ismay og eigandinn J.P.Morgan sem ákváðu hraðann en skipstjórinn hlýddi. Risabankinn J.P Morgan Chase var síðan 96 árum síðar ráðgefandi íslenskum seðlabanka í aðdraganda kreppunnar og eins og sagan vill endurtekur sig í sífellu enduðum við líka á ísjaka.

Núna hefur íslenska þjóðin verið í sjóprófum síðan 2008.

Í hundruðum greina og bloggskrifa hafa orsök og afleiðingar verið greindar. Lausnirnar ljósar enda vandamálið nokkuð einfalt. Meðan fyrsta farrými ræður breytist ekkert og því er það algjör forsenda fyrir framgangi þeirra umbóta sem er þörf á,  að ná völdum. Almenningur þarf að ná völdum. Þess vegna verður fjórflokkurinn að gefa eftir völdin til okkar.

Að einbeita sér að einhverjum öðrum markmiðum er tímasóun.

Snilld fyrsta farrýmisins er að skipta ”almenningi” í annað og þriðja farrými til að sundra honum.

Staða íslensk almennings er einstök í dag og setur því auknar skyldur á herðar honum. Við fengum tækifæri til að semja nýja stjórnarskrá sem eykur vald almennings og kemur auðlindunum í óskipta eigu okkar allra. Engin önnur þjóð í heimi hefur þennan möguleika. Ef við sameinumst um að koma völdunum í hendur þjóðarinnar höfum við gefið tóninn, við höfum þá gefið orðinu lýðræði merkingu á nýjan leik. Þegar þjóðin fær verkfærið skapast áhugi og ástríða fyrir siglingaleiðinni. Þá mun þjóðin ákveða kjör sín gagnvart lánastofnunum, útdeilingu á nýtingu auðlinda auk þess að innleiða réttlæti og siðvæðingu allra farrýma. Í því felst að hafna leiðsögn sérhagsmunaaðila fyrsta farrýmis og hleypa þjóðinni að stýrinu. Sú byltingakennda nýbreytni mun umheimurinn taka eftir hjá lítilli þjóð. Margir erlendir borgarar fylgjast með veikburða tilraun okkar og bíða því spenntir eftir hvernig við spilum úr spilunum. Sú staða eykur svo um munar ábyrgð okkar.

Að láta eiganda og stjórnaformann segja skipstjóranum fyrir verkum nú sem fyrr mun enda á næsta ísjaka. Hvernig væri að skrifa söguna frekar en að endurtaka hana í sífellu, höfum við hugrekki til þess?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur