Föstudagur 26.8.2011 - 21:30 - FB ummæli ()

Hver er sinnar gæfu smiður

Peningar eru búnir til af bönkunum, þeir hafa einkaleyfi á því. Þeir geta búið til eins mikið af þeim og þeim sýnist. Þess vegna er ekki skrítið að þeir ráði öllu. Bankarnir stjórna þess vegna ríkisstjórninni og öllu heila klabbinu.

Á netinu má finna óteljandi sögur um hrakfarir einstaklinga í samskiptum sínum við lánastofnanir. Í töflum Seðlabankans og annarra stofnana má finna sívaxandi skuldasöfnun heimila, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga. Mikill fjöldi gjaldþrota, atvinnulausra og brottfluttra segir sömu sögu. Lánastofnanir draga til sín síðasta lífsneista lántakenda eða þá eigur þeirra ef þeir gefa upp öndina. Bæði lífið og lífsstarfið verður eign bankanna.

Þetta geta bankarnir vegna þess að þeir hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar og rukka þá til baka með vöxtum. Þeir búa til peningana úr engu. Meðan við leyfum þeim þetta munu þeir fegnir halda áfram að græða á tá og fingri. Það skiptir þá engu máli hvort þeim leyfist þetta undir vinstri eða hægri stjórn því meðan stjórnmálamenn láta að stjórn geta þeir blóðmjólkað almenning.

Það eina sem er ekki fyrirséð í þessari jöfnu erum við.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort við ætlum að halda áfram að deila innbyrðis eins og gladiotorarnir/skylmingaþrælarnir í Rómaveldi, ætlum við svo að bíða eftir fingri elítunnar, er það umbun okkar í lífinu? Sameiginlegir hagsmunir gladiotaranna var frelsi. Meðan þeir höfðu ekki frelsi skipti pólitísk sýn þeirra engu máli. Sem þrælar voru þeir alltaf skylmingaþrælar elítunnar.

Sem þrælar skuldarinnar erum við gladiotorar/skylmingaþrælar nútímans. Elítan/bankarnir setja fingurinn upp eða niður, borga eða afskriftir. Ætlum við að dansa með eða?

Við eigum val og í því felst ábyrgð okkar. Ætlum við að vera skemmtun elítunnar sem skylmingaþrælar því sú leið er einföld og viðurkennd?  Ætlum við að breyta, bylta og hætta að vera skylmingaþrælar elítunnar, eitthvað sem er öðruvðísi, ekki viðurkennt og veldur því að fingurinn vísar niður.

Er fingur elítunnar upp eða niður meira virði en frelsi okkar?

Við verðum að standa saman. Að vera flottasti Guðmundurinn í hringleikjahúsinu snýst bara um fingur elítunnar. Að hafa skoðanir á því hvort við klæðumst bláum eða rauðum skikkjum í hringleikjahúsinu breytir engu um frelsi okkar gagnvart þrældómi skuldarinnar. Lánadrottnarnir eru litblindir hvort eða er.

Við verðum að standa saman því þá erum við ósigrandi. Að loknum sigri getum við farið í litgreiningu, en ekki fyrr. Þræll er alltaf þræll hverju svo sem hann klæðist.

Ábyrgð okkar er mikil og hún einkennist af því hvort við sjáum okkur sem hóp manna sem vill breytingu, byltinu. Hún einkennist af því hvort okkur tekst að starfa saman að því markmiði að verða frjáls til þess að geta síðar meir skipst á skoðunum sem frjálsir einstaklingar.

Núna virðumst við flest vera upptekin að stúta hvert öðru innan veggja hringleikjahússins með tilliti til ímyndaðs litrófs, til ævarandi skemmtunar fyrir litblinda elítuna í stúkunni.

Sá á kvölina sem á völina..

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.8.2011 - 19:17 - FB ummæli ()

Það segir sig sjálft..

Það er skelfilegt að hlusta og lesa hvað merkir aðilar, hagfræðingar eða ráðherrar, segja um fjármögnun. Rætt er um að það hversu auðvelt eða erfitt er að fjármagna hitt eða þetta. Það er eins og enginn geri sér grein fyrir því að peningar eru ávísun á verðmæti. Hvort slíkir fjármunir beri einhverja rentur á í raun ekki að skipta máli. Ef menn skilja hvað hlutirnir snúast um þá koma verðmætin fyrst og síðan skapast þörf fyrir fjármagn. Meðan menn vilja trúa því að fjármagnið komi fyrst þá munu þeir sem stjórna magni fjármagns stjórna ferðinni, það segir sig sjálft. Ef þeir sem geta framleitt verðmæti stjórna ferðinni þá munu þeir stjórna ferðinni en í dag sitja þeir aðgerðalausir vegna þess að þeir sem stjórna magni fjármagns stjórna.

Bankar stjórna magni fjármagns og því stjórna þeir, það segir sig sjálft.

Meðan venjulegur Jónsson, venjulegur hagfræðingur eða venjulegur ráðherra veit ekkki hvað peningar eru þá eru bankarnir í góðum málum. Slík afneitun eða fákunnátta er forsenda bankaveldisins. Því er í raun ekki við bankana að sakast, þeir nýta sína möguleika en ábyrgðin liggur hjá fræðasamfélaginu sem fjallar um hagfræði sem veit ekki einu sinni hvað peningar eru, Það segir sig sjálft, eða hvað?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.8.2011 - 17:51 - FB ummæli ()

Við vitum það

Það er sérkennilegt að allir vita sannleikann en hlaupa í hringinn í kringum hann eins og köttur í kringum heitan graut. Þegar eru til margar svartar lýsingar á framferði banka og innheimtustofnana. Við vitum öll að þær stofnanir ganga fram af algjöru miskunnarleysi til að fullnægja eigendum sínum. Við vitum að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fulltrúi innheimtustofnana eða lánadrottna heimsins. Við vitum að AGS stjórnar á Íslandi og allt verður gert til að íslenska þjóðin geti sett eins mikla fjármuni til lánadrottna án tillits til afleiðinga. Þess vegna verður allt íslenska hagkerfið stillt af á þann hátt að allur kostnaður(velferð) verður skorin niður, skattar og álögur hækkaðar til að bankarnir fái sitt. Við vitum að Steingrímur og Jóhanna ætla að fylgja þessari stefnu út í ystu æsar. Við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn heldur sér til hlés vegna þess að Steingrímur fylgir stefnu hans af alúð.

Þrátt fyrir að við vitum allt þetta þá erum við voða kurteis. Björn Zoega mótmælir í rituðu máli en þrátt fyrir það fær hann nettar ávítur frá Birni Val sem er dúkkan hans Steingríms búktalara. Reyndar dregur Björn Valur aðeins í land á yfirborðinu í nýjum pistli í dag. Hjúkrunarfélagið semur ályktun gegn niðurskurðinum, líka kurteis mótmæli. Það sem Björn Valur segir má túlka sem hugsanir ríkisstjórnarinnar og reyndar koma þær skýrt fram í orðum Velferðaráðherra.

Valdhafarnir ætla að sinna þörfum bankanna á kostnað velferðamálanna hvað svo sem það mun kosta. Kröfur bankanna er löglegar og réttmætar að mati valdhafanna á Íslandi. Kröfur almennings um gott velferðarkerfi eru ekki lögmætar né réttmætar því eins og Velferðaráðherrann segir þá kemur það ekki að sök þó heilbrigðiskerfið versni því við höfum það svo andsk.. gott nú þegar.

Við vitum þetta allt svo mæta vel. Við vitum líka að nöldur mun ekki breyta neinu. Valdhafarnir vita það líka og þess vegna vita þeir að þeir eiga leikinn.

Við vitum að við verðum að ógna, við vitum að við verðum að setja úrslitakosti sem hafa það í för með sér að valdhöfunum finnist það skárri kostur að fylgja okkar fyrirmælum frekar en bankanna.

Við vitum að bylting er eina svarið,, en við þorum það ekki. Þangað til breytist ekkert okkur í hag.

Ef almenningur vill betri kjör þá verður hann að tjalda á Austurvelli í stórum hópum í langan tíma þangað til valdstéttin sér sitt ofvænna og áttar sig á því að það erum við sem erum valdið,

í raun byggist framtíð okkar og barnanna okkar á því að við föttum það líka.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 15.8.2011 - 18:47 - FB ummæli ()

Eða hvað Björn Valur

Björn Valur Gíslason tjáir sig á Smugunni í dag um fjármál heilbrigðiskerfisins. Björn Valur vill reka heilbrigðiskerfið með minni fjármunum en nú er gert. Björn Zoega andmælir því á heimasíðu Landspítalans. Björn Valur er ósáttur við skoðanir Björns Zoega. Björn Valur telur að endurskipuleggja megi heilbrigðiskerfið þannig að meiri þjónusta fáist fyrir jafnmikið eða minna fé.

Hingað til hafa starfsmenn Landspítalans lagt nótt við dag að kreista eins mikið út úr sjálfum sér og þeim tækjum og tólum sem þau hafa til umráða. Þess vegna hafa hugmyndir stjórnvalda um frekari niðurskurð ekki vakið mikla kátínu. Vandamálið hefur verið að sjá einhver raunveruleikatengsl við tilveruna í hugmyndum Björns Vals og companí. Hugsanlegt er að okkur skjátlist en enn sem komið er þá sjáum við ekki sama ljós og Björn Valur.

Það sem er áberandi er að ljós Björns Vals er að draga úr kostnaði hins opinbera í þeim tilgangi að skattgreiðendur geti dælt fjármunum sínum óhindrað inn í banka, sparisjóði, tryggingafélög og aðra kröfuhafa. Kröfuhafar er sú tegund sem núverandi valdhafar á Íslandi óttast mest af öllu.

Þegar brjóstvörn verkamannsins á Íslandi er orðin hlaupatík auðvaldsins er fokið í flest skjól og tími  kominn til að stokka upp á fleiri stöðum en í heilbrigðiskerfinu, eða hvað Björn Valur?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 13.8.2011 - 21:53 - FB ummæli ()

Skortur á jarðsprengjum

Það er mjög sérkennilegt að skynja jarðsprengjubelti, reyna að varast það og samtímis horfa á fjöldann ganga beint af augum og springa í tætlur.

Það er í raun mun sérkennilegra að fá ekki hljómgrunn fyrir því að það sé kerfislæg villa að framleiða jarðsprengjubelti og þurfa að hlusta á það sem stóra sannleik í sífellu að það hafi verið mistök viðkomandi að stíga á sprengjuna.

Að fylgjast með mönnum rökræða sig dimmbláa eða skærrauða, um að það skipti máli hvernig jarðsprengjunum sé best raðað upp í tilverunni, er sorglegt. Framleiðandi jarðsprengnanna heldur mjög gjarnan lífi í slíkri umræðu því þá ræða menn mun síður um að sprengjur springa.

Að liggja í grasinu í leti er forréttindi. Sá blái telur það verðskuldað en ég veit að það er að mestu byggt á hagstæðum aðstæðum og heppni. Að reisa kennisetningu um hamingju fjöldans á slíkum forsendum, aðstæðum og heppni, er dæmt til að mistakast eins og dæmin sýna.

Sá rauði væri líklegur til að draga þá ályktun að fjármagni væri ekki dreift nægjanlega jafnt. Sú forsenda gerir ráð fyrir því að einhver, kannski ég, hafi of mikið og því beri að fjarlægja ákveðin hluta af mínum auð til þeirra sem hafa minna. Viss yfirborðsgljái fylgir þessari kenningu en þrátt fyrir það er hún röng í eðli sínu. Sá blái telur hins vegar að dreifingin gerist sjálfkrafa með einhverri guðlegri forsjón markaðarins.

Þessi kenning gengur út frá þeirri forsendu að auðævi heimsins séu takmörk sett og því þurfi að skammta. Skortshugtakið er sterkasta vopn þeirra sem vilja stjórna heiminum og virðist eiga sér greiða leið inn í vitund fólks. Ástæðan er sennilega sú að lang flestir þekkja skort í einhverri mynd. Til að þessi kenning haldi vatni þarf fyrst að sýna fram á raunverulegan skort.

Það sem skiptir máli er að skilja að fyrst framleiðum við verðmæti. Til þess notum við hráefni, vinnuafl og tækni. Þar sem enginn skortur er á þessum þáttum er ekki um neinn raunverulegan skort að ræða. Þegar verðmætin hafa verið sköpuð notum við pennga til að koma verðmætunum áfram um þjóðfélagið.

Eins er íslenskum verktaka farið, hann hefur allt til alls til að framleiða verðmæti, engan skort en er samt stopp. Afríski bóndinn með frjósama jörð og allt til alls, hann er líka stopp þrátt fyrir engan augljósan skort til að getað hafið framleiðslu á mat.

Það sem þessa framkvæmdamenn skortir eru peningar. Bankar framleiða peninga og við þurfum að taka þá að láni og endurrgreiða með striti okkar. Ef peningar eru ekki lánaðir út í þjóðfélagi er öll framleiðsla stopp. Ef við samþykkjum skort á peningum þá getum við samþykkt kenninguna um að auðæfin hrynji af borðum duglega fólksins eða þá að við setjum upp kerfi sem jafnar út skortinn.

Bankar sem hafa einkaleyfi og einokun á því að búa til peninga ráða því hversu mikið af peningum eru til. Bankar geta því búið til skort á peningum. Það er því bönkum til hagsbóta ef helstu stjórnmálakenningar og hagfræðikenningar viðurkenna skortshugtakið sem yfirguðlegt óbreytanlegt ástand. Á meðan enginn véfengir tilurð skortsins heldur sætta sig við hann þá sigla bankarnir án þess að skeyta á skeri. Þess vegna stendur bönkum hvorki ógn af hægri né vinstri stjórnmálakenningum. Það sem hefur gerst eftir að kreppan hófst 2007 hefur sýnt okkur að það hefur ekki skipt nokkru máli hvernig leiðtogar almenningins hafa skilgreint sig pólitískt því þeir hafa alltaf farið að vilja bankanna.

Jörðin okkar getur framfleitt okkur öllum svo vel sé og þó að við værum snöggtum fleiri. Það er enginn skortur á hráefni, vinnuafli, tækni né kunnáttu. Til að framleiða verðmæti þarf ekkert annað en hráefni, vinnuafl, tækni og kunnáttu og þar er engan skort að sjá.

Meðan bankar stjórna peningamyndun stjórna þeir allri framleiðslu í heiminum með skorti á peningum. (PENINGAR OG STJÓRNARSKRÁ 15 06 2011)

Meðan kennisetningar helstu stjórnmálastefna veraldarinnar, vinstri, hægri eða miðja, hafna ekki einkaleyfi banka á því að búa til peningana okkar þá mun ekkert breytast til batnaðar. Á meðan stjórnmálamenn halda áfram að rífast um hvernig við röðum upp jarðsprengjum í stað þess að véfengja tilurð þeirra munu kreppur og fátækt halda áfram að vera til staðar.

Meðan bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar þá stjórna þeir þeim sem við kjósum til að stjórna fyrir okkur. Ef við tökum valdið til að búa til peninga  til okkar frá bönkunum getum við kannski farið að rífast um pólitík af einhverju viti. Auk þess mun afríski bóndinn geta framleitt mat og síðan þarf hann peninga til að versla með sína framleiðslu en ekki öfugt. Þá mun afríska barnið með útstæða magann hætta að mæta á sjónvarpsskjáinn með jöfnu millibili.

Eigum við að hætta að rífast um isma og að núa hvort öðru um nasirnar af mistökum okkar isma til að skapa hamingju fyrir fjöldann. Eigum við að hætta að nöldra yfir Steingrími og Jóhönnu sem eru bara strengjabrúður bankanna og það dregur bara athyglina frá sjálfum bönkunum. Eigum við að átta okkur á því að enginn núverandi stjórnmálaflokkur hefur getu né þroska til að breyta ástandinu fyrir okkur. Eigum við að hætta að vera í einhverju ákveðnu liði sem hefur þá aukaverkun að við hugsum ekki sjálfstætt. Eigum við að sættast á að vinna að því að útrýma valdi bankanna yfir tilveru okkar, eigum við að sameinast um að verða frjáls svo við getum farið að rökræða um lífið og tilveruna í stað þess að vera að stöðugt að telja fallna félaga.

Ábyrgðin er mikil.

Það er dauðans alvara ef pólitík gengur út á það að taka skortstöðu eða ekki á jarðsprengjum

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 10.8.2011 - 22:38 - FB ummæli ()

Samsleikjur elítunnar

Óeirðirnar í Englandi eru um margt lærdómsríkar. Þeir sem hafa kynnt sér málin vel, hafa jafnvel búið í viðkomandi hverfum áratugum saman, kenna um fátækt. Fátækt sem gengur í erfðir, atvinnuleysi sem erfist frá kynslóð til kynslóðar. Ungir einstaklingar sem ekki hafa getað menntað sig og hafa enga von um atvinnu um alla framtíð. Algjört vonleysi og algjört tilbreytingarleysi í tilverunni, ekkert að gera og ekkert hægt að kaupa vegna fátæktar þrátt fyrir allar auglýsingarnar í miðlunum.

Það getur munað 10 árum eða meira í lífslíkum einstaklinga eftir hverfum í London. Það er meiri munur en á milli þróaðra og vanþróaðra ríkja. Þess vegna búa í London bæði þróaðar og vanþróaðar þjóðir. Þess vegna er það augljóst að mikil misskipting er í Englandi.

Auk þess er umtöluð meðferð lögreglunnar á ekki-hvítum í þessum hverfum í London. Í Brixton í London urðu mikil læti fyrir 30 árum og niðurstaða rannsóknar eftir þau læti sýndu fram á óeðlilegt framferði lögreglunnar og að mikil fátækt hafi orsakað lætin. Þess vegna er hægt að fullyrða að enginn hefur lært neitt af fyrri reynslu eða ekki viljað læra neitt.

Niðurstaðan er sú að til all langs tíma hefur ekki-hvítum og fátækum verið mismunað í London. Þessi hópur hefur ekki haft eitt né neitt að gera, enga möguleika á menntun né atvinnu og þegar lögreglan niðurlægir og stöðvar einstaklinga í sífellu eins og gert var við gyðinga í Þriðja Ríkinu á sínum tíma þá er það ekki undarlegt að mönnum finnst sér misboðið.

Ef tekið er tillit til þessara þátta er það nokkuð ljóst hvers vegna allt fer í bál og brand.

Það sem varpar stórum skugga á þessi læti í Englandi er að vonleysið er svo algjört að fólk fera að brenna hús og bíla, ræna, saklausa samfélagsþegna sem hafa ekkert til saka unnið.

Þess vegna ætti fréttaflutningur af látunum í Englandi að einkennast af því að ríkur minnihluti Englendinga hefði komið í veg fyrir eðlilegan framgang ungs fólks af erlendu bergi brotið til mennta og atvinnu. Þess vegna ætti kastljósið að beinast að ríku blórabögglunum sem hafa dregið að sér auð á kostnað annarra borgara í ríkinu Englandi. Niðurstaðan yrði sú að lítið hefði breyst frá dögum kónga og drottninga sem réðu öllu og hirðin eða samsleikjurnar nutu góðs af. Hinir gátu átt sig eða verið hengdir almenningi til skemmtunar.

Á ekki fréttaflutningur að tileinka sér hjartslátt samfélagsins, hlusta og nema?

Þannig séð hefur ekkert breyst því í stað henginga er lögreglunni sigað á pöpilinn og almenningur situr fastur við flatskjáinn sér til skemmtunar. Þá var það talið lögbrot að andmæla kónginum en í dag þá telja stóru fjölmiðlarnir okkur trú um að einstaklingar sem eiga sér enga von, enga framtíð séu óþjóðalýður, ræningjar eða eitthvað þaðan af verra. Samtímis eru blórabögglarnir, ríku auðsugurnar, talin saklaus fórnalömb eins og vesalings kóngurinn forðum daga. Stóru fjölmiðlarnir gefa okkur kolranga mynd af raunveruleikanum vissum hópum þjóðfélagsins til hagsbótar og öðrum til vamsa.

Síendurtekin uppþot um víða veröld segja okkur að stórir hópar almennings hafa það svo skítt að þeir eru reiðubúnir til að ráðast á annað fólk og skemma eigur þeirra. Viðkomandi einstaklingar gera sér fulla grein fyrir því að þeir geta aldrei unnið þá orustu en vonleysið er svo algjört að engu skiptir, það virðist skipta öllu máli að deyja ekki án vitundar heimsins.

Að uppþotin eru síendurtekin segir okkur að orustunni er ekki lokið og þeir sem uppþotin beinast gegn hafi hingað til haft sigur.

Fjölmiðlarnir ljúga að okkur til að almenningur um víða veröld geri ekki uppþot um allan heim. Það virðist skipta fjölmiðlamenn meira máli að skapa ró en að vera rödd réttlætisins. Það gagnast ekki bágstöddu fólki víðsvegar um heiminn heldur ríkum einstaklingum. Þess vegna eru fjölmiðlar og fréttamenn taglhnýtingar elítu heimsins. Ömurlegt hlutskipti þegar hugsað er til þess að fréttamennska á að vera fjórða valdið og rödd almennings. Því er það augljóst að elítan á fjölmiðlana í dag með húð og hári.

Hvernig er hægt að fjalla um fátækt og enga framtíð einstaklinga án þess að benda á það samtímis að aðrir vita ekki aura sinna tal?

Ef maður á á hættu að vera sagt upp störfum sem fréttamaður er það auðvelt.

Eða er nóg að fá að baða sig í ljósi þeirra sem eiga sviðið í augnablikinu, geta skálað í kokteilum með rétttrúuðum?

Hinir ríku, um 10% prósent jarðarbúa sem eiga 85% alls auðs á jörðinni hafa völd í hlutfalli við það, a.m.k. þegar kemur að peningum. Aftur á móti eru hinir kúguðu mun fleiri og ef þeir skynja samtakamátt sinn þá er þeim ekkert ómögulegt. Þess vegna er þáttur fjölmiðlanna svona mikilvægur, að sundra almenningi og mata hann með tilbúnum lygum. Ef fréttamenn myndu draga fram réttar staðreyndir um kjör fátækra og kjör ríkra og samhengið þar á milli myndi það valda friðsömum mótmælum sem myndu leiða til réttlætis. Þá áhættu forðast bæði fjölmiðlamenn og rík elíta heimsins því þá gæti þau mist spón úr aski sínum.

Á Íslandi hefur núverandi ríkisstjórn lagt elítunni lið. Með flekklausu samtarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, með fullkomnu umburðarlyndi gagnvart kröfuhöfum á kostnað skuldsets almennings, með niðurskurði og skattahækkunum til að endurgreiða með skattfé almennings fyrir misheppnuð veðmál bankakerfisins fyrir hrun hefur núverandi ríkisstjórn stillt sér við hlið elítunnar gegn almenningi. Fjölmiðlastéttin á íslandi hefur að stærstum hluta gert slíkt hið sama.

Biðraðir eftir mat er einkenni á misskiptingu á Íslandi. Brátt mun vaxa úr grasi kynslóð sem á sér enga von um framtíð á Íslandi þökk sé að núverandi ríkisstjórn, með samþykki almennings, gerði núverandi ríkisstjórn lyfseðil nýfrjálshyggjupostulanna hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að sínum. Að RÚV og aðrir fjölmiðlar skynjuðu ekki sitt hlutverk sem útvörð manngildis og mannréttinda gerir þetta mögulegt.

Ef einhver af þessum þungaviktaraðilum; hinir ríku, ríkisstjórnin, almenningur, fjölmiðlar, myndu einhverju sinni upplifa sig sem manneskju, mennska, ekki sem dýr sem slefar við kjötbita, og nema staðar og standa upp og segja NEI, þetta er ekki réttlæti, þetta er rangt.

Þá væri björninn unninn!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.8.2011 - 19:08 - FB ummæli ()

Önnur heimsmynd er valkostur

Það er hugsanleg að íslenka þjóðin sé að rumska. Það gætir sívaxandi óánægju og vantrú á fjórflokkinn. Það er þessi tilfinning; þeir og við. Það er klofningur, það er engin tiltrú á því að stjórnmálastéttin geti breytt neinu þó hún vildi.

Sú tilfinning hefur heltekið London núna. Mikil ólæti er afrakstur áralangrar kúgunar og niðurlægingar fátækra. Fátækir í Englandi hafa verið sviptir síðustu voninni um að þeir eigi sér einhverja framtíð, að þeir eigi sér viðreisnar von. Þess vegna er engu að tapa, mannorðið er ekki þess virði að hengja á það viðeigandi hegðun. Það er jafnvel betra ef það er hlustað á mann í viðtali í sjónvarpinu og ef allt um þrýtur þá  mun lögreglan að minnsta kosti hlusta þegar hún yfirheyrir mann fyrir að hafa kveikt í tveggja hæða strætó. Eyðileggingin á eigum annarra er á engan hátt hægt að réttlæta en er einkenni á algjöru vonleysi og uppgjöf einstaklingsins, í raun dýrsleg hegðun.

Þetta er margendurtekið ferli í mannkynssögunni. Það verða ekki mótmæli fyrr en flest öll sund eru lokuð, þangað til telja einstaklingar sér trú um að hlutirnir muni sennilega batna. Þetta kerfi er innbyggt í öll dýr, þegar þau eru að lokum afkróuð ráðast þau gegn óvininum óhað líkunum fyrir því að sigra orustuna.

Ég hélt bara að menn væru ekki dýr, eða þannig sko.

Ef horft er yfir sviðið er það ljóst að bankar og aðrir „kröfuhafar“ ætla sér að fá eins mikið og nokkur kostur er út úr almenningi. Tekjur, lífeyri og ef það dugar ekki þá eru eigur viðkomandi teknar. Vesturlandabúar telja að þar verði numið staðar. Þegar framvinda bankaveldisins er könnuð hjá fátækum þjóðum þá er það augljóst að auðlindir og lífsviðurværi er líka tekið upp í skuldir. Þess vegna sjáum við börn vera að engjast sundur og saman af þorst og deyja síðan. Eingöngu til þess að kröfuhafar fái sitt. Þess vegna eru kröfuhafar dýr og sjá engan mun á Vesturlandabúa sem má kreista einhver penní úr eða Afríkubúa. Munurinn á viðbrögðunum gegn kröfuhöfum felst í því að Afríkubúinn er svo vannærður að hann getur ekki mótmælt.

Ef stjórnvöld, þingmenn, ráðeherrar og öll valdaelítan er á bandi kröfuhafa eða banka þá er ekki skrítið að þessi tilfinning læðist að almenningi að það séu þeir og við. Þetta má glöggt sjá í viðbrögðum ESB sem hugsar eingöngu um þarfir bankanna þrátt fyrir að bandalagið hafi einhverju sinni verið stofnað umhverfis fagrar hugsjónir. Einnig mun Obama ekki skattlegja þá ríku heldur draga úr aðstoð við þá sem minna mega sín.

Þess vegna er baráttan milli okkar og þeirra. Þeir eru 10% allra í heiminum og eiga 85% af öllum auð heimsins. Þeir búa ekki í neinu einu landi og tengja sig ekki við neitt eitt land. Þeirra markmið er að halda í auð sinn og auka hann. Bak við flatskjái skreytta tölum og línuritum finnst engin samfélagleg ábyrgð eða sorg vegna andláts barns úr þorsta sem foreldrarnir höfðu gert svo miklar væntingar til, jafnvel dreymt um barnabarn. Meðan við veltum því fyrir okkur í hvaða menntaskóla barnið okkar á að fara í þá leita foreldrar þyrsta barnsins að einhverjum brunni með einhverjum vatnsdropa í, upp á líf og dauða.

Erum við ekki bara líka dýr eins og kröfuhafinn, ef við gleymum þyrsta barninu getum við gleymt okkur á bak við flatskjáinn okkar, eins og kröfuhafinn.

Það er ljóst að baráttan er á milli okkar og þeirra, þeir eru samhentir en við sundruð.

Sum okkar eru svo vannærð að við getum ekki lyft höfði frá jörðu.

Sum okkar eru svo yfirnærð að öll hugsunin situr í maganum.

Sum okkar erum svo föst í frjálshyggjudraumnum að ef til vill munum við verða líka rík eins og hinir, og best að rugga ekki bátnum.

Sum okkar viljum ekki vita neitt og gleymum okkur í afþreyingu og búðarrápi.

Sum okkar teljum okkur trú um að okkar menn stjórni og muni redda málunum þó þeir hafi ekki gert það síðast er þeir voru við stjórn.

Sum okkar teljum okkur trú um að okkar menn muni komast næst að og redda málunum þó þeir hafi ekki gert það síðast er þeir voru við stjórn.

Sum okkar geta ekki unnið með neinum öðrum en sjálfum sér því enginn annar en við höfum á réttu að standa.

Sum okkar halda að einhver annar muni redda málunum eins og t.d. ESB, AGS, Össur eða einhver annar stóri bróðir.

Hin forríka elíta sem hefur stjórnað heiminum með skuldsetningu almennings og ríkissjóða hefur ekki fyrrst við að telja endurgreiðslur mikilvægari en líf og heilsu almennings. Það er ekkert sem bendir til þess að það muni breytast. Þess vegna munu mótmælin í London verða barin niður. Okkur mun verða talin trú um að venjulegt fólk í London hafi allt í einu fengið þá flugu í höfuðið upp úr þurru að brenna hús og bíla. Þannig hefur það alltaf verið.

Hagfræðin er í sjálfu sér sáraeinföld, hvers vegna þessar skuldir,hvernig urðu þær til,  hver skuldar,  og getur einhver borgað skuldirnar. Það getur engan veginn staðist að almenningur sem á ekkert skuldi svona mikið, eða hvað?

Eina vonin er að þessi sundurlausa hjörð kúgaðra einstaklinga sameinist um víða veröld og sameinist um að knésteja viðkomandi valdaelítu með góðu eða illu. Önnur heimsmynd er valkostur en það er undir okkur komið hvort við veljum hana.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.8.2011 - 11:13 - FB ummæli ()

Hvort hefur Ögmundur efni á göngum eða bönkum

Ögmundur ráðherra sagðist ekki getað grafið ný Norðfjarðargöng vegna þess að hann skorti peninga. Ef hann hefði sagt að hann gæti ekki grafið göngin vegna þess að hann hefði ekki skóflur þá hefðu margir talið hann svolítið klikk-ekki satt?

Ögmundur hefur allt til alls til að grafa göng, s.s. mannafla, tækni, tól og kunnáttu. Auk þess bíður fjallið á sínum stað. Þrátt fyrir að allt sé til staðar verður Ögmundur að sýna algjört valdaleysi sitt með þeim orðum að hann hafi ekki peninga til að grafa göng.

Skófla er verkfæri og það eru peningar líka. Skófla getur flutt mold, sand eða gull frá einum stað til annars. Þ.e.a.s. skófla getur flutt verðmæti frá einum stað til annars. Peningar gera það líka.

Ef bóndinn kemur með mjólkina sína í mjólkurbúið og þarf síðan að kaupa fóður fyrir kýrnar sínar í annarri búð þarf hann að geta flutt verðmæti mólkurunnar til fóðursalans. Ef sá sem selur fóðrið vantar mjólk gætu þeir framkvæmt vöruskipti en það er ósennilegt að fóðursalinn geti drukkið alla mjólkina frá öllum bændunum í sveitinni. Þess vegna notum við peninga. Peningar eru skóflur sem flytja verðmæti frá einum stað til annars. Auk þess eru peningar eining fyrir verðmæti eins og metrar eru eining fyrir lengd. Einnig getum við geymt verðmæti í skóflunni/peningum til seinni nota.

Það sem er nauðsynlegt að skilja er að fyrst framleiðum við verðmæti og þegar við höfum gert það skapast þörf fyrir peninga. Ef við þurfum ekki að moka eða grafa er engin þörf fyrir skóflur. Þegar verðmætin hafa verið mynduð búum við til peninga til að meta, flytja eða geyma verðmætin.

Verðmætin eru fógin í því sem skóflan flytur og hún getur gert það margsinnis. Skóflan er ekki verðmætin. Það sama á við um peninga.

Þess vegna þarf Ögmundur ekki skóflu nema hann ætli að grafa Norðfjarðargöng. Þess vegna þarf Ögmundur ekki peninga fyrr en hann er búinn að skapa verðmæti, t.d. Norðfjarðargöng. Þar sem peningar væru skilgreindir rétt myndi verktakinn fyrst búa til verðmætin, Norðfjarðargöng, og síðan myndi Ögmundur skaffa verktakanum skóflur/peninga til að flytja þá verðmætasköpun um þjóðfélagið. Hvernig ætti verktakinn annars að geta keypt sér mjólk í Bónus. Ögmundur myndi búa til þessa peninga á kostnaðarverði, og þar sem peningar eru að mestu rafrænir væri það nánast úr engu.

Sjálfsagt finnst þér þetta geggjað hjá mér.

Það sem er þó virkilega geggjað er að bankarnir gera þetta á hverjum degi og rukka fyrir það.

Í dag verður almenningur að fá skóflurnar/peningana að láni hjá bönkum. Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga. Verðmiðinn á skóflum/peningum tekur mið af hversu mikil verðmæti skóflan/peningarnir flytja. Ef ég fæ skóflu/peninga sem geta flutt 1000 krónur frá einum stað til annars þarf ég að lofa að borga bankanum 1000 krónur til baka auk vaxta. Þess vegna þarf ég að vinna fyrst fyrir 1000 krónunum til bankans og síðan þarf ég að vinna til að eiga ofan í mig og mína. Þar sem Ögmundur þarf líka að fá peninga/skóflur að láni hjá bankakerfinu þarf hann að skattlega þjóðina til að geta borgað bönkunum til baka peninga sem þeir bjuggu til úr engu.

Peningar eru verkfæri eins og skóflur og bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peningana okkar. Ögmundur hefur ekkert með það að gera og þess vegna getur hann ekki grafið göng til Neskaupsstaðar frá Eskifirði. Þess vegna situr hann og stendur eins og bönkunum þóknast. Þess vegna skiptir engu máli hvaða pólitíska skoðun hann hefur því hann getur ekki gert neitt nema bankarnir samþykki að lána honum peninga. Núna er staðan slík að hann getur ekki tekið meiri lán vegna þess að ríkissjóður er svo skuldsettur. Ástæðan er að megnið af skatttekjum okkar hefur farið í að endurreisa bankakerfið og stór hluti fer í að borga vexti af skuldunum við bankakerfið. Þess vegna stjórnar bankakerfið Íslandi en ekki kjörnir fulltrúar almennings.

Það er rætt um víða veröld hvort við höfum efni á hinu eða þessu og þá er spjótunum venjulega beint að velferðarmálum. Aftur á móti er stærsti kostnaður tilverunnar greiðsla allra til bankakerfisins fyrir afnot af verkfærinu peningum sem þeir hafa einokun á að búa til. Hvort höfum við efni á velferðarmálum eða að halda uppi bankakerfi sem býr til peninga úr engu og meira að segja lætur okkar borga dýru verði fyrir.

Bölvun peningasköpunar sem skuld blasir við öllum sem fylgjast með og vonandi mun Sigtúnsmaðurinn Ögmundur Jónasson sjá ljósið og skilja samhengi hlutanna.

Peningagaldur—The Money Scam

PENINGAR OG STJÓRNARSKRÁ 15 06 2011

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 3.8.2011 - 22:07 - FB ummæli ()

Fyrir hverju börðust afi og amma

Stráin nuddast varla saman í logninu. Sólin skín og vermir húðina, þorstanum er svalað með hreinu ómenguðu vatni. Dóttirin kallar frá sjónum, pabbi sjáðu, það er frí og allir njóta. Konan ofhitnar og fleygir sér í sjóinn til kælingar, nokkur öldugangur en ekki meiri umhverfisspjöll að sinni. Áratuga barátta foreldra okkar og foreldra þeirra endurspeglast í tilveru okkar. Sumarfrí á launum, heilsugæsla frá getnaði til grafar. Kallast sósíalískt eða sósíaldemókratískt kerfi. Byggir á sameiginlegri ábyrgð hópsins á einstaklingunum. Allir borga í pottinn án nokkurrar vissu um endurgreiðslu. Eingöngu vissan um að ef eitthvað bjátar á þá er til öryggisnet sem tekur af manni fallið.

Þessa dagana er gerð gangskör í því að afnema þetta kerfi. Sagt er að viðkomandi kerfi í mörgum löndum séu svo skuldum vafið að skera þurfi burt allann óþarfa til að standa í skilum við skuldir landanna.  Afleiðingin er mikill niðurskurður á launum, eftirlaunum og mikið atvinnuleysi. Einkavæða þurfi heilbrigðiskerfið þannig að eingöngu þeir sem eru með platínu Visa fái þjónustu. Ríkissjóðir verða að selja auðlindir og aðrar eigur sínar á brunaútsölu. Öll barátta afa og ömmu fyrir bættum hag hverfur ofaní hyldýpi skuldarinnar.

Skuldirnar eru skuldir bankakerfisins sem ríkissjóðir margra landa hafa verið neyddar til að taka á sig. Þetta eru ekki skuldir vegna flatskjárkaupa einstaklinga eða velferðakerfisins.

Reynt hefur verið að bjarga skuldum Grikklands með neyðarpökkum. Við venjulegar aðstæður þegar fyrirtæki fara á hausinn eru þau endurskipulögð sem hefur í för með sér afskriftir á skuldum þannig að fyrirtækin komist á fætur á ný. Í tilfelli Grikklands og fleiri landa hefur sú leið verið bönnuð. Sagt er að þau skulu borga með þjóðartekjum sínum fyrir allann glæfraskap bankanna. Hljómar ósanngjarnt.

Vandamálið eru afleiðuviðskipti bankakerfisins. Afleiður eru veðmál um hvort eitthvað hækki eða lækki í verði. Það veit enginn hversu miklar afleiður leynast í gríska hagkerfinu, hvað þá hinna landanna í Evrópu. Vesalings Trichet forseti Seðlabanka Evrópu hefur ekki hugmynd um magn afleiða innan evrópsks hagkerfis. Þess vegna má ekki setja Grikki né aðra í þrot því þá þarf að kryfja líkið og þá gæti komið í ljós að ekki nokkur einasta stofnun í veröldinni á fjármuni til að borga allar afleiðurnar. Þess vegna finnst þeim betra að láta skrokkinn rotna lifandi í þeirri fáranlegu von að vandamálið gufi upp einhvern daginn. Það mun í sjálfu sér gerast ef þriðja heimstyrjöldin skellur á.

Heimurinn er í gíslingu Grikkja því ef þeir verða settir í þrot vellur ófögnuðirinn fram og leggur helstu ríki heimsins að velli. Afleiðuviðskiptin eru afrakstur óheftrar bankastarfsemi um víða veröld. Í stað þess að taka í lurginn á unglingnum þá sitja og standa stjórnmálamenn eins og bankamönnum þóknast. Margir segja að „the banks own the place“. Þess vegna er heimurinn gíslar bankanna.

Sú staðreynd að í mörgum löndum eru vinstri stjórninr í dag, stjórnmálaflokkar sem eiga uppruna sinn í baráttu afa og ömmu, baráttu fyrir öryggi og jöfnuði, í dag gera þessar vinstri stjórnir nákvæmlega eins og bankarnir segja þeim að gera. Afi og amma létu berja sig í plokkfisk til að koma á réttlæti en í dag þá eru arftakar afa og ömmu gólftuskur afkomenda þeirra sem þau hjónakornin börðust gegn. Þess vegna er það klám þegar Steingrímur kallar sig vinstri mann. Að telja það til bóta að hægri maður komist til valda flokkast undir ranghugmyndir. „The banks own the place“.

Um allan heim skynjar almenningur að stjórnmálamenn eru taglhnýtingar bankakerfisins og það  skiptir engu máli hvernig þeir litgreina sig. Þess vegna eru mótmæli víðsvegar. Meira að segja í Ísrael eru mótmæli gegn nýfrjálshyggjunni, það kallast nú að bölva í kirkjunni. Bandaríkjamenn eru líka að fara að mótmæla og ætla að setjast á Wall Street þann 17. september og krafan verður einföld og skýr „It’s time for DEMOCRACY NOT CORPORATOCRACY, we’re doomed without it“.

Baráttan í dag snýst um okkur, lýðræðið okkar gegn bönkum, fjármálavaldi og stórfyritækjum. Í raun bara ný nöfn á kóngum vs almúga. Upp úr sauð í Frakklandi á sínum tíma eftir langar og myrkar aldir. Munum við sjá bankana stjórna öllu næstu aldir þangað til upp úr síður seint og um síðir eða munum við sem menntaðir og upplýstir einstaklingar drulluhalast út á torg og stræti og gefa óyggjandi til kynna hvar valdið liggur. Er til of mikils mælst að allir geti legið og hlustað á stráin nuddast saman í logninu eða á það bara að vera á færi örfárra.

Þitt er valið. Er hægt að sameinast um að standa saman sem einn maður, bara núna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.7.2011 - 20:13 - FB ummæli ()

Skal seðja þorsta barnsins eða bankanna

Hvað vill venjulegur Jónsson gera hér á Jörðinni meðan hann lifir. Hann vill eignast fjölskyldu, konu og börn. Skapa þeim trygga umgjörð og uppeldi. Til þess þarf hann vinnu og möguleika. Móðirin vill skapa fjölskyldunni hreiður, athvarf og uppeldisstöð. Stað til að hefja vegferðina út í lífið. Venjulegur Jónsson eða frú Jónsson vilja hvorki vera til trafala né trufla líf annarra. Þetta er sameiginlegt markmið flestra sem stofna fjölskyldu.

Austur-Afríkubúar hrynja núna niður úr hungri og þorsta. Vesturlandabúar safna krónum til að lengja dauðastríð þeirra. Fátæku lönd heimsins borga mun meira í afborganir af lánum til hinna ríku Vesturlanda en þau fá í þróunaraðstoð. Afborganirnar ganga til ríkra banka á Vesturlöndum. Fátækir Vesturlandabúar senda peninga til fátæku landanna svo þau geti borgað ríku bönkunum á Vesturlöndum skuldir sínar. Bankarnir mjólka alla. Ef skuldir fátæku þjóðanna væru afskrifaðar þá myndu ríkir bankar fá minna og venjulegur Jónsson í Afríku gæti þá séð fjölskyldu sinni farborða og þyrfti ekki horfa upp á barnið sitt deyja úr þorsta.

Grikkir verða að selja eyjar, ríkisfyrirtæki og sætta sig við kauplækkanir og skerðingu á heilbrigðiðs- og félagskerfinu til að bankar fái allar sínar skuldir endurgreiddar. Sömu sögu má segja um Spánverja, Portúgali, Íra og Ítali. Næstir í röðinni eru Frakkar og Þjóðverjar. Bandaríkjamenn og dollarinn eru í andarslitunum. Samtímis gellur í Steingrími J. Sigfússyni á Íslandi að Íslendingar munu borga allar sínar skuldir, sannur vikapiltur bankaveldissins.

Síðan munu Vesturlandabúar frekar borga skuldir sínar til bankanna en að gefa börnunum sínum vatn að drekka vegna þess að Steingrímar þeirra hafa sagt að svo skuli það vera.

Venjulegur Jónsson vill bara koma börnum sínum á legg í friði við allt og alla.

Hvað veldur að svo verður ekki?

Ef allir vilja bara koma sínum börnum í flughæft ástand úr hreiðrinu en það tekst ekki þá er einhver staðar pottur brotinn eða hvað? Hvað er það sem stöðvar einlægan ásetning „ allra“.

Peningar og skuldir er svarið.

Hver vill sitja atvinnulaus hálfa ævina, geta ekki framfleitt sér og sínum. Hver vill horfa á barnið sitt deyja úr hungri og þorsta. Það er allt til staðar. Hugmyndir, vinnuafl, verkefni og hráefni. Bara að setja starfsemina af stað. Peninga skortir og hvað eru þessir peningar eiginlega.

Bankar hafa einkaleyfi á því að búa til peninga. Peningar eru eining fyrir verðmæti. Peningar eru miðill fyrir verðmæti. Peningar eru geymsla fyrir verðmæti. Peningar eru verkfæri til að gera okkur lífið einfaldara. Peningar eru ávísun á verðmæti. Verðmætin koma fyrst og síðan peningar því þeir eru ávísun á verðmæti sem eru til staðar. Þessu hefur verið snúið við í núverandi kerfi. Fyrst þurfum við peninga frá bönkunum og þurfum að setja verðmæti okkar sem pant svo við fáum lánaða peninga hjá bönkunum. Síðan getum við framleitt verðmæti. Þess vegna eru peningar flöskustútuinn í framleiðslu í dag, ekki mannafli eða hráefni.

Megin kostnaðurinn við framleiðslu verðmæta er ekki hráefni, mannafli og laun heldur kostnaðurinn við að skaffa sér peninga. Peningar eru eining eins og metrar. Væri það ekki geggjað að fara í banka og skuldsetja sig um hundrað metra til að geta síðan keypt hundrað metra af timbri. Ef bankinn myndi síðan ekki lána mér hundrað metra þá gæti ég ekki keypt hundrað metra af timbri þó timbrið væri til. Timbrið er til, ég er til og reiðubúinn að smíða úr því en bankinn vill ekki lána mér eininguna metra. Sama gildir um eininguna krónur sem er eining fyrir verðmæti.

Afríkubúinn sem vill bara ala önn fyrir sér og sínum í friði við allt og alla, hann getur allt, hann hefur allt til þess að gera það nema peninga, einingu yfir verðmæti. Fyrir honum er það svipað og að geta ekki gefið barninu sínu vatn að drekka vegna þess að einhver einkastofnun, banki, hefur einkaleyfi á einingunni lítrum. Til að gefa barninu sínu einn lítra af vatni þarf hann fyrst að fá lánaðann lítrann, eininguna, hjá bankanum. Vatnið er til staðar en þar sem bankinn neitar honum um lán á einingunni lítrum og bankinn hefur einkaleyfi á einingunni Lítrum þá deyr barnið hans úr þorsta.

Lítri, metri eða króna. Þetta eru allt einingar og miðill fyrir viðkomandi hluti.

Einokun á þessum einingum skapar einum auð og öðrum dauða.

Er það réttlæti?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur