Þjáningar fátækra hafa náð eyrum landsmanna liðna daga. Mörgum finnst holur hljómur í svörum ráðamanna. Þeim er vorkunn því þeir ráða í raun litlu. Stefna AGS er stefna íslenskra ráðamanna og þeirri stefnu fylgir vaxandi fátækt. Haustið 2010 söfnuðust þúsundir landsmanna á Austurvöll og mótmæltu stefnu ríkisstjórnarinnar. Mótmælin beindust gegn stefnu hennar og AGS í málefnum skuldsettra einstaklinga. Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til AGS skömmu fyrir mótmælin segist hún hafa lokið því sem fyrirhugað sé að gera fyrir skuldara og ekki verði gert meira fyrir þá. Annað gæti ógnað stöðuleika íslenska bankakerfisins. Í kjölfar mótmælanna var farið í sýndarvinnu sem lauk með því að íslenskar lánastofnanir sögðust ekki ætla að afskrifa skuldir. Ríkisstjórnin samþykkti þau málalok enda eru það bankastofnanir sem ráða.
Síðan þá hefur fátækum fjölgað og fleiri flutt úr landi. Fyrirtæki týna tölunni. Skuldir landsins aukast. Bankarnir blómstra enda er afgangurinn af atvinnulífinu, einstaklingum og stór hluti ríkissjóðs að fóðra bankana. Íslendingar segjast ekki vera óreiðumenn og borga að sjálfsögðu skuldir sínar jafnvel þó að hluti okkar verði eignalausir og fátækir.
Íslendingar framleiða fisk, ál, landbúnaðarvörur, þjónustu og ýmislegt annað.
Bankar framleiða peninga og hafa einkaleyfi á því. Þar sem peningar skipta nánast öllu máli í tilverunni fylgir þessu einkaleyfi mikil völd. Við sjáum líka að bæði hér heima og erlendis er enginn skortur hjá bönkum. Enn eru þeir í flottustu byggingunum og borga bónusa nú sem fyrr. Fyrir hrun lánuðu bankar mest til einkaaðila og þá fengu bankastjórar bónusa fyrir það. Eftir hrun hafa ríkissjóðir tekið við hlutverki lántakenda og fyrir það fá bankastjórar líka bónusa.
Það virðist sem afraksturinn af fiski, áli og öðru sem við framleiðum renni inn í bankakerfið.
Þess vegna ættum við öll að ræða um gildi skuldarinnar á tilveru okkar, hvað eru peningar og hver á að framleiða þá, við eða bankarnir.
Þar sem umræðan eftir mótmælin miklu haustið 2010 á Austurvelli snérist mest um það hvort að mótmælendur væru jeppaeigendur eða ekki náði umræðan aldrei dýpra en svo. Þökk sé mannvitsbrekkunum í samfélagi okkar.
Íslensk þjóð er ekkert betri eða verri en aðrar þjóðir. Mörg okkar höfðum bara svo miklar væntingar og þess vegna verða til vonbrigði. Við töldum að viðsýni og óvenjuhátt menntastig og greind myndi gera gæfumuninn, svipað og við héldum um útrásarvíkingana og bankamennina á sínum tíma. Eins og þeir voru bara venjulegir er þjóðin okkar líka bara ósköp venjuleg þjóð.
Fréttamiðlarnir segja okkur sögur af einstaklingum sem eiga ekki fyrir nauðþurftum og þeim hafi fjölgað mikið á undanförnum árum. Ok, til að svara stjórnarsinnum strax þá vitum við vel að slíkt var til þegar vinur ykkar Davíð Oddson var við stjórn en við héldum bara að vinstri menn væru vinir litla mannsins. Þrátt fyrir almenna borgarafundi með ráðherrum og fundi með Jóni Gnarr til að koma viðkomandi í skilning um hvað fátækt er í landi alsnægtanna gerist ekkert. Enn eru matargjafir og þiggjendur taldir í þúsundum.
Bankar og fjármálafyrirtæki hafa lagt hundruði fyrirtækja í rúst, fyrirtæki sem skópu atvinnu fyrir þúsundir. Ævistarf fólks gert að engu vegna hagsmuna banka, þjóðinni hafnað með góðfúslegu leyfi stjórnvalda. Sömu sögu er að segja af heimilum fólks, uppeldisstöðvum þeirra sem landið skulu erfa. Heimilin boðin upp og fjölskyldum hent út til að bjarga sér á eigin spýtur á berangri tilverunnar. Það voru stjórnvöld sem leyfðu bönkunum að gera Ísland gjaldþrota og sömu stjórnvöld hleypa hýenum bankakerfisins út á akurinn til að kroppa í hræin eftir bankahrunið.
Biskupinn segir okkur að vera góð við hvort annað og þreyja þorrann. Ef ég vissi ekki betur gæti ég haldið að hann hefði aldrei lesið Biblíuna. Jesús var byltingarsinni og gekk á móti straumnum, sennilega talinn skrítinn af stjórnvöldum þess tíma. Hann velti um borðum bankamanna þess tíma, eina skiptið sem Jesús sýndi af sér ofbeldi. Kristin kirkja ætti að stofna til mótmæla um hverja helgi vegna framferðis bankakerfisins í dag eða þó það væri ekki nema vegna þess sem Jesú sagði, það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður skuluð þið og þeim gjöra.
Sama gildir um þjóðina okkar. Hún ætti að mótmæla og gera byltingu. Ekki erum við sátt við að þúsundir þiggi matargjafir og sumir svelta. Er það í lagi að allt sé skorið niður, laun og velferð. Atvinnuleysi, fyrirtækjum rústað, fólksflótti til annarra landa, óhamingja, sorg og brostnar vonir. Allt til að bankakerfi lifi af. Er það kjarninn í stefnu núverandi vinstri stjórnar?
Er það ekki þannig að bankarnir búa til peninga úr engu og hafa einkarétt á því sem hinir hafa ekki. Er það ekki þess vegna sem þeir ráða öllu? Er ekki full þörf á því að hagfræðingar og allir fari að velta því fyrir sér hvað eru peningar og hvort þjóðin eigi ekki að búa þá til sjálf sér til hagsbótar en ekki bönkunum eins og það er í dag?
Vegna mikils atvinnuleysis er mikil harka hjá atvinnurekendum. Í Evrópu eru kröfur um meiri afköst og minni réttindi og helgast það í orðunum að verkamenn Evrópu þurfi að verða samkeppnishæfari en áður. Þá er sennilega verið að miða við ódýrt vinnuafl í Asíu. Með sívaxandi kreppu mun verða auðveldara að minnka þann kostnað sem launamenn eru í framleiðslu heimsins. Þessi staða mun sennilega valda átökum á milli hópa þegar harðnar á dalnum og þegar verulega fer að kreppa að munu mannskæð átök brjótast út. Ástandið í N-Afríku er dæmi um skort hjá hluta almennings sem hefur valdið átökum. Á Íslandi brúka menn ennþá bara munn og vonandi verður það ekki verra en svo.
Landsamband Íslenskra Útvegsmanna vill fara í fæting og ætlar sér kvótann með góðu eða illu. Stór hluti almennings á Íslandi er á annarri skoðun en LÍÚ. Á milli þessara tveggja aðila eru kjörnir fulltrúar og framkvæmdavaldið. Þar sem Steingrímur og Jóhanna hafa alltaf kosið á Alþingi hingað til með kvótaauðvaldinu væri það stílbrot ef þau færu að taka upp á einhverri nýlundu í þeim málum. LÍÚ hefur hingað til getað smalað öllum köttunum sínum í hús þegar þurfa þykir.
Mörgum er ljóst að það sem er að gerast í Lettlandi, Grikkland, Írlandi og Portúgal er yfirfærlsa á mistökum einkabanka yfir á skattgreiðendur. Þeir aðilar sem koma þessu í kring eru Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ásamt ríkisstjórnum í viðkomandi löndum. Fyrst er samþykkt að mistök einkabanka og skuldir séu á ábyrgð skattgreiðenda. Sú ákvörðun er tekin án aðkomu almennings. Til að skattgreiðendur hafi tök á að greiða skuldir einkabankanna þurfa viðkomandi ríkisstjórnir að taka stór lán sem eru síðan notuð til að setja inn í einkabankana í viðkomandi löndum þannig að einkabankarnir geti staðið í skilum og fari ekki á hausinn. Niðurstaðan lítur þannig út á yfirborðinu að einkabankinn heima hjá fólkinu fór ekki á hausinn (eins og það hefði verið eitthvað hræðilegt) vegna þess að einhver(ESB AGS) voru svo góðir að útvega pening. Í staðinn þurfa skattgreiðendur bara að borga meiri skatta, missa bætur, heilbrigðiskerfi, menntakerfi og ef um allt þrýtur að selja eigur ríkissins til lánadrottna.
Það voru nokkrir mjög stórir bankar í Evrópu sem lánuðu heimabönkunum á sínum tíma. Þeir vilja að sjálfsögðu fá lánin sín til baka. Þar sem heimabankarnir eru gjaldþrota þá þarf að finna aðra leið. Hún er sú að stóru bankarnir í Evrópu lána viðkomandi ríkisstjórnum peninga í gegnum ESB og AGS og peningarnir eru síðan settir inn í gjaldþrota heimabankana svo að þeir komist á lappirnar aftur og geti byrjað á nýjan leik sínu fjárhættuspili. Þeir sem borga lánin er almennir skattgreiðendur í viðkomandi löndum. Bankarnir fóru á hausinn vegna þess að þeir lánuðu eins og einginn væri morgundagurinn. Sanngjarnt?
Því er augljóst að einkabankar stjórna ESB og AGS og þessar ólýðræðsilegu stofnanir stjórna viðkomandi ríkisstjórnum. Því er einnig þannig farið á Íslandi. AGS stjórnar Steingrími og Jóhönnu. Hér setur AGS endurreisn bankanna í forgrunn og íslenskir skattgreiðenndur hafa þurft að borga hundruði milljarða til að bjarga bönkunum. Allt annað situr á hakanaum eða er skorið niður. Þegar hinn almenni starfsmaður er að spara í fyrirtækinu sem hann starfar í er hann í raun að spara fyrir bankana.
Til að skilja þetta betur er nauðsynlegt að loka augunum og ímynda sér tilveruna án banka. Þá værum við að stunda vöruskipti og í besta falli að skrifa upp á inneignarnótur. Þá væru allir að framleiða eitthvað og kæmu því í verð með vöruskiptum. Þá væri mun færri svangir eða fátækir því allir sem gætu framleitt eitthvað eða unnið hefðu ofaní síg og á. Öllum væri fært að koma afurð sinni í verð með vöruskiptum eða inneignarnótum. Það væru mjög litlar líkur á verðbólgu vegna þess að verðmæti belju gagnvart kind myndi sennilegast ekki breytast mikið. Þörf á mikilli skattheimtu væri ekki augljós eins og í dag.
Ef við opnum augun aftur sjáum við að heimurinn er á heljarþröm og við drauminn hefur bæst bankakerfi og peningar. Í sjálfu sér er ekkert rangt við banka, í Egyptalandi til forna voru kornskemmur bankar og menn áttu þar inneign í korni sem þeir gátu síðan selt til þriðja aðila. Ekkert rangt við það bara venjuleg viðskipti með verðmæti og einhver sem sinnti þeim.
Fyrir um þrjúhundruð árum fengu bankar einkaleyfi á því að búa til peninga. Það er svipað og þú gæfir einhverjum einkaleyfi á því að selja metra þ.e.a.s. eininguna metra. Inneignarnótan í sjálfu sér er verðlaus en verðmætin sem hún vísar til eru hin raunverulegu verðmæti. Peningar eru staðlaðar inneignarnótur. Peningar eru staðlaðar einingar á verðmæti. Peningar eru ávísun á verðmæti. Krónan er lögeyrir á Íslandi vegna þess að íslensk lög kveða svo á. Krónan hefur gildi á Íslandi vegna þess að hún er sköpuð með lögum. Það sem bönkum tókst var að fá einkaleyfi á því að gefa út inneignarnótur, þ.e. peninga og rukka fyrir það.
Segjum að öll laun á Íslandi væru greidd í fiski, segjum ýsu. Til þess að ýsan skemmist ekki er hún geymd í skemmu. Allir sem stunda viðskipti greiða með ýsu en til að vera ekki alltaf með ýsu í poka þegar farið er í Bónus þá skrifar maður ávísun á ýsurnar sínar í stóru skemmunni. Til hagræðingar hefur ríkið ákveðið að staðla ávísarnar á verðmætin og kalla þær krónur, þ.e.a.s. búa til pening. Þess vegna er peningur verðlaus, þeir eru bara ávísun á verðmæti. Kílógram er ávísun á þyngd, ég get átt 10 kílógrömma af ýsu, kílógrammið er verðlaust en ýsan ekki.
Í dag hafa bankar einkaleyfi á því að búa til mælieininguna peninga. Ef atvinnurekandi sem hefur Jón í vinnu hjá sér og atvinnurekandinn vill borga honum laun í formi peninga, krónum, en ekki einhverjum vörum, ýsu, þá verður atvinnurekandinn að fara í bankann og kaupa krónur til að borga Jóni laun. Atvinnurekandinn verður síðan að endurgreiða bankanum krónurnar auk vaxta. Atvinnurekendur gæti alveg eins skrifað á miða án nokkurs kostnaðar hvað vinna viðkomandi væri mikils virði í formi verðmæta því peningar eru bara eining á verðmæti eins og metrar eru eingng á lengd. Þess vegna er kostnaður þjóðfélaganna svona mikill, þess vegna er útseld vinna svona dýr og þess vegna erum við öll að borga svona mikla skatta.
Ef atvinnurekandinn greiddi Jóni laun sín með ákveðinni þyngd af ýsu, segjum að þeir hefðu komist að samkomulagi að vinnulaunin væru 100 kílógrömm af ýsu. Atvinnurekandinn á ýsu en í núverandi kerfi verður hann fyrst að fara í bankann og kaupa 100 kílógrömm, þ.e. eininguna. Þegar því er lokið getur hann greitt út launin, þ.e. 100 kílógrömm af ýsu.
Er ekki einhver til í að pæla í þessu? Ef við, fólkið, myndum útdeila peningum á milli okkar án auka kostnaðar þá yrði aftu lífvænlegt hér á jörðunni. Hvers vegna deyr fólk úr hungri í Afríku? Sú heimsálfa getur framleitt matvæli frekar en nokkur önnur, allir gætu haft nóg að býta og brenna. Það er skortur á peningum sem bankar hafa einkaleyfi á að framleiða sem veldur hungri, ekki skortur á mat.
Það rekst allt á hvurs annars horn í tilverunni þessa dagana. Kvótaauðvaldið skellti sér ofan á samninga aðila um kaup og kjör á Íslandi. Við viljum fransbrauð sögðu þeir félagarnir um árið en fengu tannbursta í staðinn. Kvótaauðvaldið er hlynnt frelsi til athafna sem afmarkast af fríu fransbrauði og banni á tannburstum. Ríkisstjórnin hefur óbeint gagn af þessu brölti kvótaauðvaldsins því á meðan er ekki samið um hækkun launa. Már Seðlabankastjóri sagði líka í dag að hækkun launa myndi setja efnahagsþróun á Íslandi í voða. Þess vegna er það bara fínt finnst elítunni að kvótaauðvaldið stöðvi samninga.
Það er eins og tilveran snúist bara um að hámarka getu hins opinbera til að dæla peningum inn í bankana eða að borga skuldir sem eru til komnar vegna þeirra. Samtímis má ekki lækka greiðslur almennings af lánum sínum til bankanna vegna þess hvað þeir standa tæpt. Almenningur á að borga eins mikið og hann getur. Allt eru þetta kunnulegar staðreyndir.
Síðan erum við í Frjálslynda flokknum að hvetja til þess að við veiðum meiri fisk. Sjávarútvegur er okkar fag, Íslendinga, og við vitum að ef við veiðum meiri fisk þá fáum við auknar tekjur öllum til hagsbóta. Þrátt fyrir það má það ekki eins vitlaust og það hljómar. Þau trúarbrögð sem stjórnvöld hafa aðhyllst hafa skilað okkur sífellt minni afla, hljómar ekki trúverðugt eða hvað?
Allir landsmenn vita að hægt er að afnema verðtrygginguna á stundinni, það er svipuð ákvörðun og að hætta að drekka. Það gerir maður ekki smá saman, maður hættir og tekst síðan á við þynkuna og tremmann. Sama elítan sem þolir ekki slorlykt vill halda í verðtrygginguna sér og sínum til hagsbóta.
Það rekst allt á hvurs annars horn í tilverunni hjá okkur. Við megum ekki veiða fisk því þá gæti fiskurinn dáið. Við megum ekki afnema verðtrygginguna því þá gæti einhver tapað. Við megum ekki tala um þær 1000 fjölskyldur sem þurfa gefins mat því þá gæti glansmynd vinstri stjórnarinnar skaddast. Ríkisstjórnina má ekki missa völdin því þá gæti Sjálfstæðisflokkurinn komist aftur til valda. Sá sem kyndir katlana hjá núverandi ríkisstjórn er Davíð Odsson eða réttara sagt hatrið á honum.
Samt sem áður veit almenningur nokkurn veginn hvað er til ráða. Bora og bursta. Það er augljóst að fjórflokkurinn hefur fengið næg tækifæri til að stjórna þessu landi. Við, almenningur, sem erum valdið, þurfum að bursta þetta lið í burtu og fylla síðan í holurnar. Þeir aðilar sem vilja breytingar, þeir sem hafa aðra framtíðarsýn en að örfáir aðilar eigi fiskinn okkar, að almenningur borgi lán alla æfi öðrum til hagsbóta og að tekjur almennings og ríkissjóðs renni nánast óskiptar oní hirslur bankanna verða að sameinast og breyta. Við verðum sem þjóð að kynna okkur málin, lesa og fræðast, skilja samhengi hlutanna. Þá er ekki hægt að lesa eingöngu hefðbundna fréttamiðla því þar er mötun á ákveðinni heimsmynd. Ef fólk vill breytingar þá verður sú breyting að hefjast í huga viðkomandi, fólk verður að leggja á sig vinnu við öflun á þekkingu en ekki að dotta fyrir framan fréttatíma RUV því þannig gerast bara ekki byltingar.
Bubbi skrifar grein á Pressuna í dag sem heitir „Stóru bankarnir eru skrímsli“. Þar rekur hann staðreyndir um banka sem hluti þjóðarinnar fær að kenna á . Hinn hlutinn lítur undan frekar en að reyna að skilja. Að lokum spyr Bubbi grundvallarspurningarinnar „Hvernig getum við almenningur knúið bankana til að þjónusta okkur af heiðarleika og sanngirni…? Spyr sá sem ekki veit?“
Ef við umorðum spurninguna og spyrjum hvers vegna hafa bankar öll völd í heiminum. Hvers vegna stjórna bankar viðbrögðum Obama eða ESB gagnvart skuldugum ríkjum eins og Írlandi og Grikklandi. Einfalda svarið er að allir skulda bönkunum peninga og maður á að sjálfsögðu að borga skuldir sínar..alltaf.
Ef við tækjum peningana í burtu og allir væru að stunda vöruskipti þá væri engin kreppa í dag. Auk þess væru bankar valdalausir því þeir væru ekki til. Þess vegna snýst kreppan um peninga og banka en ekki okkur hin því við kæmumst af án þeirra ef út í það væri farið.
Fyrir hrun bjuggu bankarnir til mikið af peningum, það kallaðist að auðvelt væri að fá lán. Eftir hrun eru lán innheimt og ekki ný lán gefin út og þess vegna hrundi allt og það var kallað að lánalínur hefðu lokast. Afleiðingin er að mjög lítið er af peningum í umferð. Einnig er niðurstaðan sú að peningar eru bara búnir til sem skuld eða lán af bönkum. Þrátt fyrir þessa breytingar á magni peninga í umferð er Bubbi enn að syngja og skapar þannig verðmæti, ég er enn að svæfa fólk á Landspítalanum og skapa þannig verðmæti. Það sem breyttist er að ég og Bubbi eigum erfitt með að skiptast á verðmætum sökum skorts á peningum. Ef ég og Bubbi ættum bara að stunda vöruskipti á milli okkar þá yrði Bubbi fljótt leiður á því að láta svæfa sig í hvert skipti og hann væri búinn að syngja fyrir mig eitt lag.
Bankar búa til peninga, stjórna magni þeirra og ákveða því þannig örlög okkar. Þar sem bankar eru sjálfstæðir hefur almenningur enga aðkomu að ákvörðunum þeirra. Ef opinber aðili með 100% gagnsæi skapaði og stjórnaði magni peninga í umferð hefði valdið færst frá bönkunum til okkar. Eftir sem áður væru bankar starfandi en vald þeirra væri þá í réttu hlutfalli við þjónustulund þeirra gagnvart okkur almenningi, því við hefðum valdið til að búa til peningana.
Það er mikið rætt stöðnun í þjóðfélaginu. Þá er aðallega átt við skort á atvinnu vegna skorts á verkefnum vegna skorts á lánsfé. Þar kemur umræðan um lánshæfismatið, ef það lækkar þá þarf ríkissjóður að greiða hærri vexti af lánum ef hann fær þá lán yfir höfuð. Þar sem ríkissjóður er svo stórskuldugur nú þegar telja margir, bæði matsfyrirtæki og einstaklingar að ekki sé hægt að bæta meiri skuldum á ríkissjóð.
Ef við könnum einstaka þætti þessarar jöfnu aðeins nánar. Það eru þrír þættir sem mynda jöfnuna. Í fyrsta lagi óleyst verkefni sem þarf að vinna, starfsmenn til að vinna verkið og að lokum peningar til að greiða laun og efniskostnað. Við getum verið sammála um það að enginn skortur er á óleystum verkefnum og margir eru atvinnulausir eða hafa flúið land þannig að nægjanlegt framboð er af vinnufúsum höndum. Það sem okkur skortir eru peningar. Ef peningar væru ekki til og við greiddum laun með vörum þá væri málið leyst. Einnig væri hægt að greiða laun með úttektarmiðum sem hið opinbera myndi gefa út. Þá gætu launamenn farið með miðana í Bónus og keypt sér í matinn. Síðan væri hægt að auka gildi úttektarmiðanna þannig að hægt væri að greiða skatta og útsvar með þeim.
Þar með væri íslenska ríkið að búa til peninga. Úttektarmiðarnir myndu virka sem peningar, úttektarmiðinn er mælikvarðinn á hversu mikla vinnu viðkomandi launamaður hefur innt af hendi. Úttektarmiðinn flytur síðan þau verðmæti sem felast í laununum, flytur þau út í búð þar sem verðmætin í vinnuframlaginu umbreytist í mjólk. Ef einhver heldur að um nýjung sé að ræða þá hefur slíkt verið gert áður. Í raun gerist þetta á hverjum einasta degi mörgum sinnum á dag þegar fólk notar peninga. Peningar eru í raun bara úttektarmiðar, eining á verðmæti, miðill til að flytja verðmæti frá einum stað til annars.
Úttektarmiða eða peninga er hægt að búa til án kostnaðar. Ef ríkið býr til peninga og byggir brú eða virkjun þá er jafnan okkar í raun leyst. Þeir sem selja efni í brúnna og þeir sem selja vinnu sína fá greitt fyrir sín verðmæti með peningum sem ríkið býr til. Viðkomandi aðilar fara síðan með peningana um allt þjóðfélagið og skapa tekjur fyrir aðra. Þar sem raunveruleg verðmæti eru sköpuð með þessum peningun verður ekki verðbólga.
Á þennan hátt gætum við leyst þá stöðunun sem ríkir. Vandamálið er skortur á peningum til að flytja verðmæti frá einum stað til annars. Verðmætin, efni í brú eða vinnulaun, eru nú þegar til staðar. Ef okkur tækist að leysa vandamál okkar á þennan hátt er þá nokkuð rangt við það að gera smá tilraun?
Stjórn Frjálslynda flokksins þakkar Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir frækna framgöngu hans í Icesave málinu. Frá upphafi hefur málsmeðferð stjórnvalda í Icesavemálinu verið með endemum s.s. að ætla að þröngva Icesavesamningnum ólesnum í gegnum Alþingi og geta ekki skýrt og varið af myndugleika málstað Íslendinga.
Sú ákvörðun forsetans að skjóta Icesavemálinu til þjóðarinnar verður vonandi til þess að núverandi ríkisstjórn og sömuleiðis ríkisstjórnir framtíðarinnar taki í auknum mæli ákvarðanir í samræmi við vilja þjóðarinnar.
Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesavesamninginn staðfestir að myndast hafi djúp gjá á milli þings og þjóðar. Meirihluti kjósenda greiddi atkvæði gegn því að taka á sig ótakmarkaða ábyrgð og kostnað vegna gallaðs regluverks Evrópusambandsins og misferla fjármálakerfisins. Nú ætti það að vera forgangsverkefni hjá þjóðkjörnum fulltrúum að brúa gjána svo landsmenn snúi bökum saman allir sem einn.
Barátta og sigur grasrótarsamtakanna Samstöðu þjóðar og Advice er merkilegur fyrir margra hluta sakir og ekki síst að þau öttu kappi við sterkustu öflin í þjóðfélaginu þ.e. leiðandi stjórnmálaflokka, sérfræðingaveldi og álitsgjafa flokkanna inn á fjölmiðlum, helstu fjölmiðla, Samtök atvinnulífsins og verklýðshreyfinguna.
Venjulegir kjósendur sögðu nei við boði valdastéttarinnar að játast undir ósanngjarnan samning.
Mikil barátta stendur um þessi ólíku sjónarmið um allan heim og þess vegna erum við Íslendingar ekkert eyland í umræðunni á heimsvísu. Ísland hefur nú tekið þá afstöðu að bankakerfið geti ekki gengið, að því vísu að almenningur borgi kostnaðinn vegna mistaka þess.
Núna er kosningabaráttunni að ljúka og úrslitin algjörlega á huldu enn þá. Það gerir lýðræðið svo spennandi. Það er í algjörri andstöðu við foringjaræðið sem ræður för í íslenskum stjórnmálum. Þar vilja menn helst hafa atkvæðin á hreinu áður en að fundur hefst. Afleiðingin af því er að almennir kjósendur hafa haft tilhneigingu til að fylgja foringjanum án mikillar umhugsunar. Oftar en ekki gert rök foringjans að sínum. Icesave hefur aftur á móti klofið foringa og flokka. Þetta hefur skapað meiri málefnavinnu á leið almennings að niðurstöðu í Icesave málinu. Það er einn af kostunum við Icesave málið.
Það er mjög líklegt að tilraunir einkabanka í Evrópu til að láta skattgreiðendur borga mistök sín muni halda áfram. Þess vegna er það mikill kostur að grundvallaratriðið í Icesave deilunni séu vel kunn íslenskum almenningi. Í Lettlandi, Grikklandi, Írlandi og Portúgal eru „Icesave“ mál í gangi. Þar hefur framkvæmdavald Evrópusambandsins ákveðið að almenningur taki á sig tap einkabanka. Það er gert án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu á vettvangi þjóðþinga né á þingi Evrópusambandsins eins og kemur skýrt fram í grein Evu Joly. Hugmyndafræðin á bak við þá stefnu tilheyrir ekki nokkurri hefðbundinni pólitískri stefnu sem við þekkjum. Michael Hudson fer vel í gegn um grundvöll græðgisvæðingarinnar sem þessi stefna byggir á í grein sem hann birti í dag.
Vinstri menn eru almennt á móti frjálshyggju hvort sem hún er gömul eða ný. Frjálshyggjumenn sem eru sannir í trúnni vilja frelsi bæði til athafna og ábyrgðar. Þess vegna tekur maður tapið sitt á sig en kemur því ekki yfir á aðra.
Þess vegna er það erfitt að koma þeim fyrir í hinu pólitíska litrófi sem vilja að skattgreiðendur taki á sig tap einkabanka.
Það sem framkvæmdavald ESB er að gera í dag er að fjármagna ríkissjóði skuldsettra ESB landa með lánum frá stærstu bönkum Frakklands og Þýskalands. Skuldir viðkomandi landa eru til komnar vegna gjaldþrota banka á heimamarkaði sem fengu lán á sínum tíma frá sömu bönkum. Þess vegna fá stóru bankarnir misheppnaða fjárfestingu sína endurgreidda frá ríkissjóðum viðkomandi landa, þ.e.a.s. það eru almennir skattgreiendur sem borga brúsann. Þar að auki þarf að læka laun, eftirlaun, skera niður velferðarþjónustu og selja eigur almennings til einkafyrirtækja.
Þessi pólitík hefur verið stunduð áratugum saman í þriðja heiminum og er kölluð nýlendupólitík. Núna er þessari pólitík þröngvað upp á vestrænar þjóðir í boði ESB. Það sem er vel þekkt frá þriðja heiminum eru tvö atriði. Mikil fátækt sem afleiðing og hitt að slíkri stefnu er ekki komið á koppinn nema með aðstoð undirgefinni og spilltri valdastétt í viðkomandi löndum.
Við verðum að hætta að refsa íslensku þjóðinni vegna þess að Davíð skautaði létt yfir andstæðinga sína á sínum tíma og snúa okkur að grundvallarmálum, prinsippum. Það er rangt að einkavæða gróðann og samtímis að ríkisvæða tapið. Þess vegna segjum við NEI við Icesave fyrir okkur. Við segjum samt NEI við Icesave fyrst og fremst fyrir þjakaðar vinaþjóðir okkar í ESB, allar þessar þjóðir þrá það að við stöndum með þeim vegna þess að við fáum tækifærið sem þær aldrei fengu.
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.