Miðvikudagur 16.2.2011 - 21:55 - FB ummæli ()

Íslenskir skósólar

Icesave var samþykkt og leggjast því 26 milljarðar við útgjöld ríkissjóðs á þessu ári. Stuðningsmönnum samningsins er því ekkert að vanbúnaði að finna leiðir til að fjármagna kostnaðinn.

Nú þarf forseti okkar að velta því fyrir sér hvort hann setur Icesave í hendur þjóðarinnar. Ég tel það mjög æskilegt. Það sem skiptir mestu máli er ef þjóðin samþykkir samninginn þá er ekki hægt að kvarta yfir skorti á lýðræði né skamma neinn nema þjóðina. Auk þess er það mikilvægt að þjóðin sjálf velti kostum og göllum samningsins fyrir sér. Það er allt of algengt að almenningur velti þessu lítið fyrir sér en slík hegðun var megin orsök hrunsins 2008.

Reyndar hefur bankahrunið og eftirleikur þess opinberað fyrir okkur almenningi hvað valdhafarnir eru fúnir og spilltir. Það er ein helsta skýringin á almennu áhugaleysi almennings á stjórnmálum. Hver hefði til að mynda trúað því að Ögmundur hefði svo gaman af því að vera ráðherra að hann samþykkir ekki bara Icesave heldur þegir líka þunnu hljóði bæði um AGS og Magma.

Að auki bera erlendir fréttamenn í mig sögur af skjálfandi íslenskum blaðamönnum sem þora ekki að gagnrýna nokkurn skapaðan hlut sem gæti ógnað atvinnuöryggi þeirra.

Það er ekki skrítið að Evrópusambandið nái alltaf sínum bestu samningum við önnur ríki þegar þau eru á hnjánum. En það svíður þó mest undan íslensku skósólunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.2.2011 - 20:41 - FB ummæli ()

Afrakstur heilaþvotts lánadrottna

Umræðan um Icesave skuldina hefði getað orðið mun betri og dýpri. Umræðan hefði mun frekar átt að snúast um eðli, sögu og afleiðingar skulda. Að velta fyrir sér hvað er skuld og hvort við eigum að greiða viðkomandi skuld og lang mikilvægast hvort við getum borgað skuldina. Slík umræða hefði getað fært okkur nær jöfnuði á heimsvísu. Því miður hefur umræðan snúist mest um hvernig við munum borga skuldina.

Að krefjast þess að almennir skattgreiðendur fórni framtíðartekjum og eignum sínum til að greiða skuld sem einkabanki framkallaði er rangt og fengi aldrei staðist fyrir dómi. Sennilegast yrði málinu vísað frá sökum skorts á brotlegu athæfi íslenskra skattgreiðenda. Innst inni eru flestir sammála þessu því réttlætiskennd flestra er svipuð.

Mörg fátæk ríki í dag eru fátæk sökum skulda. Lánadrottnar eru oft á tíðum þau lönd og það Evrópusamband sem vill að við greiðum Icesave. Fyrir þeim væri það stílbrot ef við samþykktum ekki skuldina eins og hefð er fyrir hjá fyrrum nýlendum þeirra. Það sem gerir Icesave sögulegt í þessum samanburði er að Íslendingar hafa möguleika á að kjósa um skuldina og þar með möguleika á að hafna henni. Fátæk lönd heimsbyggðarinnar sem eru að kafna í skuldum ríku landanna hafa aldrei haft möguleika á slíku. Það sem gerir Icesave enn sögulegra er að vinstrið á Íslandi sem barist hefur fyrir afnámi fátæktar um allan heim úr klóm heimskapitalismans vill endilega að íslenskir skattgreiðendur fari sömu leið og fátækir þjáningabræður þeirra út um allan heim.

Þess vegna er umræðan um Icesave brengluð. Vinstri menn ættu eðli málsins samkvæmt að vera að berjast með lítilmagnanum gegn ósvífnum pilsfaldakapitalistum. Það sem afhýðir sósíalisma af heilabúi vinstri manna í dag er ESB umsókn Íslands. Það sem einkennir flesta stuðningsmenn Icesave er að þeir eru stuðningsmenn ESB. Það er mjög líklegt að öll þjóðin segði nei við Icesave ef við hefðum aldrei sótt um ESB.

Þess vegna snýst Icesave um ESB aðild og umræðan markast af því. Þegar Icesave skuldin er orðin að staðreynd gerist í raun tvennt. Í fyrst lagi verður Icesave komið upp á borðið og er orðin raunveruleg skuld sem þarf að takast á við með fjárlagagerð á Alþingi Íslendinga. Hitt er og er bein afleiðing af því fyrra er að þá er Icesave skuldin orðin líkkistunagli fullveldis ríkisins Íslands. Það sem verra er að með samþykki Icesave skuldarinnar á Alþingi Íslendinga eru vinstri menn að svifta fátæka meðbræður okkar um allan heim þeirri von sem vaknaði í brjósti þeirra með andstöðu okkar við Icesave. Þeirri von að fordæmi okkar gæti leyst þá undan skuldahlekkjum þeirra.

Þess vegna hefði umræðan um Icesave átt að snúast um eðli, sögu og afleiðingar skulda.

Því er nefnilega þannig farið að þau lönd sem sitja í skuldasúpu og geta ekki brauðfætt þegna sína af þeim sökum tóku á sig skuld sem virtist lítil og jafnvel viðráðanleg í upphafi. Höfnum Icesave öllum til hagsbóta, nema lánadrottnum og stuðningmönnum þeirra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.2.2011 - 23:17 - FB ummæli ()

Erum við eyland

Icesave er aftur komið á dagskrá og mun í næstu viku verða afgreitt frá Alþingi. Sem fyrr er komin fram netsíða til að safna undirskriftum gegn Icesave, kjosum.is. Aðstandendur síðunnar munu kynna síðuna á mánudagsmorguninn kl 11. Sennilega verður Alþingi búið að samþykkja Icesave sólahring síðar, mönnum liggur á.

Ólafur Margeirsson hagfræðingur bendir á að Icesave auki skuldabyrði ríkissjóðs úr 90% af landsframleiðslu í 130%. Svo mikil skuldabyrði getur enginn ríkissjóður staðið undir nema hann fari til umboðsmanns skuldara, þ.e. Parísaklúbbsins eða þá verði í gjörgæslu AGS í áratugi eins og Haítí eða Egyptaland.

Ef þessi gáfaða og vel menntaða þjóð sem er svo nettengd að hún getur aflað sér allra upplýsinga samþykkir Icesave verður svo að vera. Þá verður maður að kyngja stolti sínu og viðurkenna að þessi einstaka þjóð er alveg eins og allar aðrar. Sagan kennir okkur að þjóðir í okkar stöðu láta traðka á sér í 20-30 ár og síðan springur blaðran. Argentína, Chile og Egyptaland sem dæmi. Í millitíðinn er öllum auðlindum rænt af viðkomandi þjóð og hún skilin eftir skuldum vafin.

Kannski er til of mikils mælst að við verðum undantekningin sem sannar regluna, en það má þó reyna.  Ef við samþykkjum Icesave erum við ekki bara að bregðast börnunum okkar og skilja þau eftir í skuldasúpu, við erum einnig að bregðast öllum þeim fjölmörgu þjóðum sem eygðu von í baráttu sinni við ósvífna lánadrottna. Skilaboð Íslendinga til umheimsins munu verða þau að nægjanlega margir Íslendingar séu í liði með lánadrottnum heimsins, vegna þess að við þorðum ekki annað. Þar með höfum við lagt okkar af mörkum til að skuldir þjóða munu aldrei verða afskrifaðar. Þar með mun skuldin halda áfram að myrða 22 þúsund börn á dag.

Við erum ekki eyland ef einhver hélt það.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.2.2011 - 01:14 - FB ummæli ()

Það klikkaði eitthvað.. en hvað

Það eina sem sem raunverulega hefur áunnist hjá valdhöfum Íslands eftir kreppu er að bæta stóreignaeigendum tap sitt á innistæðum. Ef markið hefði verið sett við 5 milljónir á bankabók hefðu 98% af innistæðueigendum verið bættur skaðinn að fullu og eingöngu fyrir brot af þeim fjármunum sem varið var og er í þessum aðgerðum. Núverandi ríkisstjórn heldur áfram að bæta stóreignamönnum innistæður sínar. Að draga slíkt í efa mætir engum skilningi hjá núverandi stjórnvöldum, þau telja þessa aðgerð sjálfsagða. Aftur á móti er það ómögulegt að mæta vanda venjulegs skuldugs Íslendings.

Svipaða sögu er hægt að segja af kvótaruglinu, þar samþykktu ýmsir í núvernadi ríkisstjórn á sínum tíma að færa hagnaðinn af fiskveiðiauðlindinni til fárra útvaldra á kostnað almennings. Virkjanir og álbræðslur skila engum hagnaði til almennings í landinu nema að ríkið fær smá skatttekjur. Á sama tíma vill hluti þjóðarinnar ganga í ESB sem er samhæfingarmiðstöð stórfyrirtækja í Evrópu svo hagnaðurinn lendi örugglega ekki í vasa almennings. Það kemur ekki á óvart að núverandi ríkisstjórn Íslands finni sig heima í slíkum klúbbi þegar mið er tekið af hegðun ríkisstjórnarinnar gagnvart almenningi á Íslandi.

Almenningur er upptekin við að draga sér björg í bú gerir sér ekki grein fyrir samhengi hlutanna. Aftur á móti er framtaksleysi blaðamanna með eindæmum. Ef blaðamenn segðu frá því endurtekið að almenningur sé hlunnfarinn af stjórnvöldum þá væri sennilega byltingarástand í þjóðfélaginu. Það geta blaðamenn ekki tekið ábyrgð á og því er betra að stunda kranablaðamennsku til að halda friðinn aðeins lengur. Egypsk blaðakona kom í viðtal á RUV um daginn og bað heiminn afsökunar á kranablaðamennsku sinni á liðnum árum. Sjálfsagt hefur hún hagnast eitthvað af þeirri iðju en þegar almenningur ógnaði stöðugleikanum skipti hún um lið, betra að vera í vinningsliðinu. Þannig er kranablaðamennska, ákkúrat ekkert frumkvæði, bara að baða sig í ljósi fræga fólksins.

Þar sem stóreignamenn hagnast undir stjórn AGS og Steingríms sætir það furðu að almenningur fylli ekki götur og torg eins og í Egyptalndi. Mubarak hagnaðist vel í samfloti sínu með AGS og þjóðin þjáðist að sama skapi. Þegar Egyptar stóðu upp þá var um 40% þjóðarinna við eða undir fátækramörkum. Sjálfsagt þurfum við að bíða eftir slíkri stöðu áður en að eitthvað gerist á Íslandi. Það er mjög sorglegt þar sem við erum svo klár, menntuð og nettengd.

Fátækt, misskipting og eignaupptaka mun aukast á Íslandi og þegar einn af fangelsisstjórunum fer í ímyndunarherferð(Landsbankinn) er geggjunin fullkomnuð. Blaðamönnum finnst ekkert athugavert við ástandið en samlandar þeirra sem eru ósammála flytja úr landi. Þegar ríkisstjórnin og blaðamannastéttin virðir fyrir sér vígvöllinn þegar fram líða stundir, flesta flúna og hina sára, þá kannski munu þau hugsa, tja.. það klikkaðai eitthvað..en hvað??

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.2.2011 - 00:23 - FB ummæli ()

Spéhræðsla og aumingjaskapur

Fulltrúar almennings á Íslandi hafa í hyggju að samþykkja Icesave. Ástæðan virðist vera spéhræðsla við að mæta nýlenduþjóðunum fyrir framan dómara og tala máli þjóðarinnar. Það virðist öllu til fórnandi til að koma í veg fyrir það, jafnvel að skuldsetja íslenskan almenning fyrir mistök einkabanka. Þar að auki eru vöflur á fulltrúm þjóðarinnar við að spyrja hana álits á þeim byrðum sem á að leggja á þjóðina.

Það sem gerir allt málið sérlega lúsugt er að eitthvert kjötbein hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið fyrir sína fyrirgreiðslu. Sjálfsagt er það kvótamálið. Þar sem Jóhanna hefur í þrígang á sínum ferli lagt atkvæði sitt á þingi á altari kvótagreifanna verður það henni ekki erfitt í fjórða sinn. Hvað verður um Vg er vandi að spá.

Það virðist sem EB sinnar úr öllum flokkum séu að sameinast á þingi og því mun í raun ekki vera þörf á stjórnarskiptum. ESB sinnar í öllum flokkum munu sameinast um að samþykkja hvaðeina sem kemur okkur sem fyrst inn í ESB. Þess vegna má ekki spyrja þjóðina um Icesave né fara með Icesave fyrir dómstóla. Brussel skiptir meira máli en Ísland, svo einfalt er það. Ef örlög Lettlands, Ungverjalands, Írlands og Grikklands innan ESB vekur ekki upp neinar efasemdir í brjósti ESB sinna er úr vöndu að ráða. Þá hlýtur að vera um trúarsetningu að ræða frekar en rökhugsun.

Bankar Evrópu blóðmjólka almenning, alveg eins og verið er að gera á Íslandi í dag. Öll fyrrnefnd lönd eru að greiða fyrir sitt „Icesave“ með skattahækkunum og niðurskurði í velferðarmálum. Að vera í ESB hjálpar þeim akkúrat ekki neitt, það er verra ef eitthvað er. Núverandi valdhafar á Íslandi, þeir þingmenn sem samþykkja Icesave, eru að stilla sér upp með bönkunum gegn almenningi. Það má klæða hollustu þeirra við fjármálaöflin með ýmsum málskrúða en þau eru fyrst og fremst að ráðast á almenning, almenning sem treysti þeim til að vernda sig gegn viðkomandi öflum. Þeir þingmenn sem samþykkja kröfur banka og fjármálaafla sætta sig við að almenningur líði skort, launalækkanir, gjaldþrot, upplausn heimila, atvinnumissi og landflótta.

Að tengja saman þá hugsun að standa ekki fyrir máli þjóðar sinnar í þeim tilgangi að komast frekar inn í ESB þar sem öllum á að líða svo vel í framtíðinni, eftir að bankarnir hafa fengið allt sitt strax, eftir að þjóðin hefur þurft að leggjast á hnén til að eiga ofnaí sig og á, er ekkert annað en svik við almenning en um leið ástarjátning til bankaelítunnar sem öllu ræður.

Að krefjast þess að almenningur samþykki mél bankanna með eða án þjóðaratkvæðagreiðslu er í raun á jaðri skynseminnar. Einhver tíman verðum við að sjá samhengi hlutanna og segja hingað og ekki lengra en án samstöðu tekst okkur ekki að forða okkur frá því að vera múlbundnir þrælar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 5.2.2011 - 00:25 - FB ummæli ()

Bankakerfi-fyrir hvern

Landsbankamenn eru komnir af stað í herferð til að bæta ímynd sína. Telja til nýjar siðareglur og ætla sér að ávinna sér traust hjá almenningi. Það verður að viðurkennast að þeir ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Reyndar hafa þeir það með sér að almenningur hefur oftast gullfiskaminni og er sennilega byrjaður að gleyma því að bankakerfið lagði íslenskt þjóðfélag í rúst haustið 2008. Bankakerfið hefur það sem yfirlýst markmið að ávaxta pund viðskiptavina sinna sem kemur óneitanlega úr vasa skuldara, svona millifærslustofnun sem græðir á öllu saman. Þess vegna græða þeir meira eftir því sem við töpum meiru.

Margar sögur hefur maður heyrt af fólki í baráttu sinni við bankakerfið. Sjaldan eru þær fallegar eða til eftirbreytni. Það er nokkuð ljóst að hrun bankakerfisins hefur valdið mikilli þjáningu hjá mörgum landsmönnum. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur og tekur við stjórn Íslands haustið 2008 er eitt meginverkefni hans að endurreisa gjaldþrota bankakerfi. Þór Saari nefnir í ræðu á Alþingi að Steingrímur hafi sett 87 milljarða í ýmsar fjármálastofnanir;  26 milljarða í VBS, 12 milljarða í Sjóvá, 20 milljarða í Saga-Capital, 6 milljarða í Askar-Capital, 5 milljarða í Byr, 14 milljarða í Sparisjóð Keflavíkur og væntanlega 3,5 milljarða í  Byggðastofnun. Einnig settum við meira en 100 milljarða í stóru bankana þrjá. Skuldir ríkissjóðs eru að mestu til komnar vegna gjaldþrota banka og fjármálastofnana. Þess vegna eru Íslendingar að upplifa niðurskurð, skattahækkanir, gjaldþrot og atvinnuleysi.

Bankar og fjármálastofnanir eru ekki hluti af raunhagkerfinu, þeir framleiða ekki vörur sem skapa verðmæti né gjaldeyri. Þeir eru milliliður sem er kostnaður á raunhagkerfinu og minnkar því framleiðni þess. Þess vegna finnst mér að þeir ættu að vera hógværir og þakklátir fyrir að fá að rækja sitt hlutverk. Því minna sem fer fyrir þeim því meira mun raunhagkerfið skila til þjóðarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.1.2011 - 22:20 - FB ummæli ()

Elítan á prikinu

Vihjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness mætti til sáttasemjara með fulltrúum verkamanna s.l. föstudag. Fyrir fundinn höfðu forystumenn þriggja stéttafélaga, sem áttu fulltrúa í samninganefnd verkamanna á fundinum, haft samband við atvinnurekendur og tjáð þeim að viðkomandi fulltrúar væru ekki með umboð frá þeim. Það fellur síðan í hlut fulltrúa atvinnurekenda að tilkynna Vilhjálmi og félögum á fyrrnefndum fundi að hluti samninganefndarinnar sé umboðslaus.

Krókaleiðirnar vekja furðu. Hvers vegna var viðkomandi fulltrúum í samninganefndinni ekki tjáð þetta beint. Hvers vegna hringja forystumenn verkalýðsfélaga til atvinnurekenda og láta þá segja frá þessu á fundinum. Eru samskipti forystumanna verkalýðsfélaganna auðveldari við forystumenn atvinnurekenda en sína eigin baráttufélaga? Geta forystumenn verkalýðsfélaga ákveðið einir í samráði við atvinnurekendur að sparka trúnaðarmönnum sem starfsmenn viðkomandi fyrirtækja hafa kosið til að flytja fram kröfugerð sína?

Fyrir utan DV og heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness hef ég ekki getað fundið fréttir af þessari uppákomu. Ég tel viðkomandi atburð stórfrétt en hvar eru blaðamenn Íslands?

Er ekki full þörf á því að ræða þessi mál á opinberum vettvangi nánar. Eigum við að trúa því að ASÍ sé komið í kattasmölunafélag Jóhönnu, eru þá Jóhanna, Steingrímur, Gylfi og Vilhjálmur í Samtökum atvinnurekenda og LíÚ öll í sama félaginu. Hvers vegna hrærir Ögmundur BSRB maður ekki í þessum innyflum, missti hann sleifina?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 29.1.2011 - 00:26 - FB ummæli ()

Enginn er spámaður í sínu heimalandi

Það eru læti við sunnanvert Miðjarðarhaf. Í kvöld brenna hús í Kæró, almenningur hlýðir ekki útgöngubanni né öðrum fyrirmælum. Hef ekki orðið var við að nokkur íslenskur einstaklingur í valdastétt landsins okkar hafi tjáð sig um að almenningur í Egyptalandi sé að brjóta 100. greinina í hegningarlögunum þeirra í Egyptalandi. Almenningur í Egyptalandi beitir þó mun meiri óhlýðni og valdi miðað við níu menningana okkar. Egypsku níu menningarnir eru þúsund sinnum fleiri miðað við höfðatölu. Það er augljóst að almenningur í Egyptalandi er með ofbeldi gegn valdstjórninni, stefnir að valdaráni og ógnar sjálfstæði egypska þingsins.Tel fulla ástæðu, til að gæta samræmis í málflutningi, að íslensk stjórnvöld taki afstöðu með egypskri valdastétt og fordæmi lögbrot almennings í Egyptalandi.

Það er ekki eðlismunur á togstreitunni á Íslandi og Túnis eða Egyptalandi. Á báðum stöðum eru spillt stjórnvöld sem hygla sér og sínum. Minni bara á kvótann og bankana. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stjórnar efnahg allra þessara þriggja ríkja gegnum auðsveipa valdstétt. Í Túnis og Egyptalandi hafa niðurgreiðslur á mat verið minnkaðar eða afnumdar samfara hækkandi heimsmarkaðsverði. Einnig hafa viðkomandi ríkisstjórnir hækkað skatta á almenning. Þegar maður les viljayfirlýsingar Íslands, Túnis og Egyptalands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er nánast enginn munur.

Þegar almenningur átti ekki fyrir mat í Túnis gerði hann uppreisn. Á Íslandi sjáum við allan kostnað við framfærslu hækka og skattar einnig. Lítill hluti íslensku þjóðarinnar á ekki fyrir mat. Á sama tíma fjölgar þeim á íslandi sem verða mjög ríkir og það á einnig við um Túnis og Egyptaland. Arabalöndin hafa verið undi hæl AGS margfalt lengur en við og það skýrir þann stigsmun sem er á milli okkar og þeirra. Ef fram heldur sem horfir mun íslenskur almenningur gera uppreisn eftir u.þ.b. 20 ár.

Á meðan munum við fordæma Mubarak og telja okkur trú um að við séum ekki í hjólfari alþjóðlegs peningavalds eins og „vesalings“ arabalöndin fyrir botni Miðjarahafs.

Kannski ætti maður að skreppa til Kæró og grýta grjóti, aldrei að vita nema maður fengið klapp á bakið frá íslenskum stjórnvöldum, loksins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 23.1.2011 - 00:06 - FB ummæli ()

Er sundruð framtíð valkostur

Þegar Vilhjálmur Birgisson formaður verkalýsðfélagsins á Akranesi stendur á fætur og gengur frá samfloti verkalýðsfélaganna gerir maður sér grein fyrir því að það hefur orðið hópslys. Fjölmiðlar kalla það klofning en hið rétta er að þeir sem lifa af hverfa af vettvangi.

Þræðir samspillingar verkalýðsforystu, samtaka atvinnulífsins og framkvæmdavaldsins eru augljósir. ASÍ getur eingöngu farið fram á að lægstu laun nái 200 þús króna markinu árið 2014 ef framkvæmdavaldið lætur það eiga sig að ákvarða lágmarksframfærslu.

Áframhaldandi launaskerðingar, niðurskurður á velferðarkerfinu, gjaldþrot og skattahækkanir eru ráðstafanir gerðar til að greiða skuldir einkabanka. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur línurnar og auðsveip valdastétt landsins framkvæmir.

Hluti þjóðarinnar telur að núverandi efnahagsráðstafanir séu réttar og styður því stjórnvöld. Til að samþykkja þau sjónarmið er nauðsynlegt að líta framhjá þeim staðreyndum að fjöldi manns á ekki fyrir mat, margir orðnir eignalausir og mikil kostnaðaraukning orðið við að framfleyta sér.

Almenningur stendur frammi fyrir sameinaðri valdastétt. Sameining hennar varð svo augljós þegar svokallaðir vinstri flokkar komust til valda og ekkert breyttist. Sama spillingin og leyndin. Almenningur situr eftir sem áður uppi með svarta Pétur og valdastéttin ver sig eins og ekkert hafi í skorist.

Almenningur er ráðvilltur og óánægður. Valdhöfum gengur vel að afvegaleiða og sundra almenningi. Auk þess virðist það vera mjög ríkt í þjóðarsálinni að verða sér ekki til skammar. Að tjá skoðanir sínar í opinberum miðlum eða mæta á mótmæli virðist vera hluti af því.

Fjórflokkurinn er ekki að skapa réttlátt samfélag þrátt fyrir loforð um hið gagnstæða og nægan tíma til að koma því í framkvæmd. Almenningur vill raunverulega fulltrúa fyrir sig á Alþingi. Þeir sem deila þeirri sannfæringu að stefna núverandi valdhafa sé röng gagnvart almenningi og að fjórflokkurinn hafi það megin hlutverk að varðveita hlunnindi sérhagsmunahópa þurfa að sameinast.

Sú andstaða sem er til staðar í þjóðfélaginu er sundruð. Það gagnast fjórflokknum og þá sérstaklega þar sem almenningur sér viðkomandi andstöðu ekki sem valkost sökum sundrungar. Það er mikill ábyrgðarhlutur hjá viðkomandi andstöðu að viðhalda núverandi valdastétt vegna skorts á nægjanlegum vilja til að sameinast. Fólk eins og Vilhjálmur sér spillinguna og bregst við. Þessir einstaklingar sem standa upp í hárinu á elítunni eiga sér bakland víðsvegar í þjóðfélaginu. Það er í raun samfélagsleg skylda allra sem telja sig standa með almenningi að sameinast sem kröftugt afl gegn valdastéttinni sem rígheldur dauðahaldi í forréttindi sín. Sundruð andstaða er ávísun á óbreytt ástand.

Er ekki tímabært að setjast niður og ræða málin?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 21.1.2011 - 22:08 - FB ummæli ()

Að þjófstarta byltingu

Við lestur á sögu annarra þjóða sem lent hafa í svipuðum raunum og við má læra margt. Þrátt fyrir það erum við að endurtaka söguna. Bæði reynsla og rannsóknir sýna fram á að þau úrræði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitir auka á vanda almennings. Þar að auki viðgangast sérkennileg viðskipti í skjóli leyndar sem enda með því að fámenn elíta situr að mest öllum auðnum. Mikil misskipting kemur fram og óánægður almenningur er kúgaður til hlýðni. Kjörnir lygarar halda völdum. Sagan segir okkur einnig að þegar almenningur á ekki neitt, má ekki neitt og skuldar allt, þá verður bylting eins og í Túnis um daginn.

Níu Íslendingar voru komnir nokkuð lengra í lestrinum en aðrir Íslendingar og skildu samhengi hlutanna. Þau höfðu skynjað við lestur sögunnar að samruni Alþingis og elítunnar var nánast fullkomnaður. Alþingi hafði breyst í verkfæri elítusérhagsmunahópanna í þjóðfélaginu og auk þess stillt sér upp á milli þeirra og okkar, þeim í hag. Hugmyndin var að fara inn í grenið og minna á tilvist almennings og að núverandi fyrirkomulag væri komið fram yfir síðasta söludag.

Sagan kennir okkur einnig að valdhafar refsa mjög grimmilega minnstu uppþotum til að senda rétt skilaboð til almennings. Það má ekki undir neinum kringumstæðum senda þau skilaboð út í samfélagið að stjórnkerfið sé veikt. Réttarhöldin í vikunni sýna okkur að samruni Alþingis og elítunnar hefur ekki gliðnað frá hruni og er enn eitt dæmið um að ekkert hefur breyst.

Níumenningarnir þjófstörtuðu og það er víst alltaf glæpur. Reyndar vildi þjóðin á þeim tíma breytingu eða byltingu. Það voru mörg þúsund Íslendingar sem vildu róttækar breytingar og þar liggur hin raunverulega hætta að mati valdsins. Það er nöturlegt að fylgjast með kjölturökkunum gangast upp í hlutverki sínu í þágu valdhafanna. Níumenningarnir eru bara víti til varnar fyrir okkur hin.

Hugmyndin með þrískiptingu valds er að vald spillir og það sé betra að valdið sé ekki á einni og sömu hendi. Nú kemur til kasta dómstólanna í þessu máli og mun þar tilfinnigagreind skipta meira máli en utanbókarlærdómur á bókstaf laganna. Það má ætla að hugmyndasmiðir hins þrískipta valds hafi gert ráð fyrir þeim eiginleikum dómsvaldsins.

Almenningur hefur kynnt sér sögu annarra þjóða af kappi síðan níumenningarnir heimsóttu Alþingi. Þar af leiðandi er hætta á því að enn fleiri skilji samhengi hlutanna. Ef allir þættir hins þrískipta valds eru komnir í eina sæng er hætt við að þjóðin upplifi sem hún eigi ekki neitt, megi ekki neitt og skuldi allt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur