Fimmtudagur 23.7.2015 - 22:32 - FB ummæli ()

Nýtt Evrópusamband

Átökin milli Evrópusambandsins og Grikklands velta upp áleitnum spurningum. Öllum er ljóst að Grikkir voru svínbeygðir til að sættast á hörðustu skilmála síðan 2010. Syriza fór í þennan leiðangur með það að leiðarljósi að ná pólitískri lausn það er að mannleg gildi, mannréttindi og virðing fyrir öðrum yrði ofaná. Þannig að Grikkir gætu staðið í skilum og byggt upp samfélagið samtímis. Þeir trúðu á sameiginlega evrópska menningu sem ætti að finnast í Evrópusambandinu. Í því fólust mistök þeirra.

Þess í stað var fullveldið afnumið í Grikklandi og fært undir stjórn teknókrata. Allar eigur gríska ríkisins voru fluttar í sjóð sem ákveður hvort og hvernig þær verða seldar. Stofnunin Hellenic Statistical Authority mun ákveða afgang af grískum fjárlögum-eftir beinum fyrirmælum Trjókunnar- en ekki ákveðið af þjóðkjörnum fulltrúum á þingi. Til að hámarka niðurlægingu Syriza þá munu fulltrúar Trjókunnar hittast í Aþenu til að ráða ráðum sínum. Tsipras forsætisráðherra Grikkja hafði lofað grísku þjóðinni að það myndi aldrei gerast aftur.

Ein megin hugsunin að baki Evrópusambandinu er sú trú að teknókrötum/bankamönnum sé mun betur treystandi fyrir fjármálum en stjórnmálamönnum. Hægt sé að setja reglur og ramma sem síðan er hægt að stjórna fólki með. Þessi trú varð ofaná í átökunum milli Evrópusambandsins og Grikkja. Trúin á sameiginleg viðmið og menningu varð undir. Það ætti því öllum að vera ljóst í dag að fjármagnsöflin stjórna Evrópusambandinu en ekki stjórnmálin.

Töluverð hætta er á því að Evrópusambandið í núverandi mynd líði undir lok. Vonandi mun fæðast nýtt lýðræðislegt Evrópusamband þar sem áhrif almennings verða í forgrunni. Girt verði fyrir stjórnun fjármálaaflanna á Evrópusambandinu úr reykfylltum bakherbergjum Seðlabanka og annarra peningastofnana, þ.e. Evrópusamband fyrir fólkið en ekki fyrir fjármagnið. Þá mun Evrópusambandið  hætta að rústa þjóðríkjum eftir pöntun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.7.2015 - 21:23 - FB ummæli ()

”Hér veldur hver á heldur”

Sigríður Á Andersen alþingismaður, lögfræðingur og Sjálfstæðismaður skrifar grein í Fréttablaðið um deilu hjúkrunarfrðæðinga við ríkið. Hún skilur óánægju hjúkrunarfræðinga og þar með uppsagnir þeirra. Lausn hennar á lánleysi hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu er að fyrirtæki í einkarekstri veiti ríkinu samkeppni. Þar með muni kjör hjúkrunarfræðinga sem vilja vinna hjá ríkinu batna.

Margvísleg hjúkrun er rekin með mismunandi rekstrarformum á Íslandi og gengur ágætlega. Aftur á móti er rekin einstök hjúkrun á Landspítalanum. Það hljómar hjá Sigríði að hjúkrunarfræðingur sem starfar við æðahnútaaðgerð í einkarekstri út í bæ sem ef til vill hefur hærri laun en hjúkrunarfræðingur sem starfar við hjartaaðgerð á Landspítalanum muni hækka laun þess síðarnefnda á forsendum samkeppni.

Til þess að sanna þessa kenningu eru Sjálfstæðismenn reiðubúnir til að svelta ríkisreksturinn og niðurlægja hjúkrunarfræðinga Landspítalans með því að setja lög á verkfall þeirra og síðan að skammta þeim launahækkanir með sérstökum gerðardómi. Halda því svo fram að starfsemi sem er ekki til í einkarekstri út í bæ veiti samkeppni við Landspítalann er rugl. Samkeppnin er frá sjúkrahúsum í nágrannalöndunum sem veita samskonar hjúkrun og á Landspítalanum og í þeirri samkeppni eru Sjálfstæðismenn hins frjálsa markaðs með allt niður um sig.

Það má vel vera að hjúkrunarfræðingur fái betri laun í einkarekstri við minni háttar aðgerðir úti í bæ, það má vel vera að hjúkrunarfræðingur sem starfar á vegum einkafyrirtækis og selur sig sem verktaka til Landspítalans fái hærri laun. Allur þessi tilbúningur er bara til að reyna að sanna kenningu sem margsinnis hefur afsannað sig sem leið til hagsældar fyrir fjöldann. Hvar er metnaður Sjálfstæðismanna gagnvart sjúklingum Landspítalans, sjúklingum sem eru einstakir, eru hvergi annar staðar í heilbrigðiskerfinu og geta hvergi annars staðar verið og geta því ekki varið sig fyrir niðurskurði pilsfaldakapitalistanna í Sjálfstæðisflokknum með því að leita þjónustu annars staðar á forsendum þessarar helvítis samkeppni sem á að bæta allan andskotann.

Landspítalinn gínir ekki yfir einu né neinu, hann sinnir sérhæfðri hjúkrun sem er ekki til annars staðar á landinu.

Að fjöldi íslenskra hjúkrunafræðinga sé á förum frá Íslandi er sönnun þess að Kristján Þór og Sigríður hafa orðið undir í samkeppninni margumtöluðu, skömmin er þeirra en skaðinn er sjúklinga Landspítalans. Þvílíkur minnisvarði um fólk með normalgreind sem er blindað af hagsmunum og kreddum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.6.2015 - 23:27 - FB ummæli ()

Samhengi hlutanna

Það er einhvernvegin erfitt að grípa það samhengi sem deila hjúkrunarfræðinga og BHM er komin í. Það eru langflestir sammála um að viðkomandi stéttir séu nauðsynlegar og mjög mikilvægar. Aftur á móti er ekki vilji til þess að greiða þeim kaup sem er þeim að skapi eða heldur þeim á Íslandi. Hræðslan við verðbólguna dregur úr stuðningi við þessar stéttir og svo eru hinir sem eru abró. Ég á mjög erfitt með að samþykkja það að stjórnvöld séu svo heimsk að halda að konur eigi að vera á lægri launum, bara vegna þess að þær séu konur. Kannski eru þau svo heimsk eða þau reikna kalt út að þau komist upp með þessa stefnu sína.

Mér er nokk sama um þessa verðbólguspá enda hafa skuldir mun meiri áhrif á verðbólgu en laun einstakra hópa. Ég er líka eigingjarn. Þegar við eldumst þurfum við sennilega meira á heilbrigðiskerfinu að halda og ég eldist eins og aðrir. Ég veit að sjúkrahús sem eru vel mönnuð með ánægðum vel menntuðum hjúkrunarafræðingum ná betri árangri og hafa lægri dánartíðni. Þar vil ég liggja sem sjúklingur. Ég vil ekki vera á sjúkrahúsum sem eru illa mönnuð með óánægðum hjúkrunarfræðingum þar sem tíðni aukaverkana, mistaka og dánartíðnin er hærri.

Ef menn vilja ná besta mögulega árangri innan heilbrigðiskerfisins verða menn að greiða uppsett verð. Síðan geta menn haft allar mögulegar skoðanir á því en það breytir ekki samhenginu á milli árangurs og kostnaðar. Auk þess er framleiðsla heilbrigðiskerfisin ekki núll, því gleyma menn oft í ummræðunni.

Eina vitræna samhengið sem ég fæ út úr þessari kjaradeilu er að ríkinu finnst að fjölmennar kvennastéttir geti étið það sem úti frýs. Það þjónar bara engan veginn hagsmunum sjúklinga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.6.2015 - 22:10 - FB ummæli ()

Gríman er fallin

Var að horfa á Kastljós kvöldsins og umræðuna um ”vel heppnaða” einkavæðingu á sjúkrahóteli Landspítalans. Upplifun spítalans er að hann hafi keypt köttinn í sekknum en fulltrúar einkavæðingarinnar mótmæla og gera lítið úr athugasemdum opinberra eftirlitsaðila. Þessi staða er ekki ný því fjölmörg dæmi eru um afeinkavæðingu víðsvegar um heiminn vegna misheppnaðrar einkavæðingar.

Þar á undan var ég að lesa um uppsagnir opinberra starfsmanna, BHM og hjúkrunarfræðinga, og nokkur uppsagnarbréf þeirra. Það er vel þekkt staðreynd að margir innan Sjálfstæðisflokksins vilja einkavæða heilbrigðiskerfið. Auk þess er það þekkt aðferð að svelta opinbera þjónustu svo það sé auðveldara að einkavæða hana síðar.

Spurningin er hvort hér sé um þaulskipulagða aðför að velferðakerfinu að ræða eða að þau fatti hreinlega ekki að viðkomandi opinberir starfsmenn skipta máli og án þeirra virkar ekki þjónustan við almenning(og líka kjósendur þeirra).

Held að þau hugsi ekki svo mikið um það meðan þau græða á plottinu.

Gríman féll í raun fyrir löngu en það er komið að okkur að ákveða hvernig samfélag við viljum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.6.2015 - 22:02 - FB ummæli ()

Atvinnuþref

Það stendur til að stöðva verkföll BHM og hjúkrunarfræðinga með lagasetningu. Þar er annar deiluaðilinn í kjaradeilunni að beita hinn ofríki og valdnýðslu. Bjarni Ben lýsti nýlega hrifningu sinni af Margaret Thatcher enda var hún vön að stöðva verkföll með öllum tiltækum ráðum. Af ræðu BB á þingi í dag gat maður skilið það svo að hjúkrunarfræðingum hefði verið boðið vel en óskir þeirra um leiðréttingu með tilliti til annarra stétta með sambærilega menntun væri of stór biti fyrir ríkið. Það vill svo til að sá biti er lang sennilegast leiðrétting á launum hjúkrunarfræðinga með tilliti til þess að þeir eru flestir kvenkyns, þ.e. til jafns við karlastéttir sem þær bera sig saman við.

Það rímar mjög illa við 100 ára hátíðina sem halda á vegna kosningaréttar kvenna.

Það rímar mjög illa við þá skattaafslætti sem BB hefur barist fyrir á þingi, þeir afslættir eru margfallt stærri en sá kostnaður sem sátt við hjúkrunarfræðinga/BHM felur í sér. Það eru til peningar fyrir þessu.

Því miður stefnir í stórslys. Lagafrumvarpið ber með sér að gerðadómur á að skammta laun samkvæmt forskrift sem mun aldrei skapa sátt og því er það einboðið að hjúkrunarfræðingar séu á förum. Það mun valda keðjuverkun því illa mannaðar stofnanir fæla aðrar stéttir frá, td lækna því góð almenn mönnun er hluti af góðu vinnuumhverfi og þá duga nýir kjarasamningar við lækna ekki mikið. Heilbrigðisstofnanir sem eru illa mannaðar hafa hærri dánartíðni en vel mannaðar. Þetta útspil ríkisstjórnarinnar gæti því reynst banvænt. Bara að þingmenn hafi það í huga, takk fyrir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.6.2015 - 00:41 - FB ummæli ()

Hur svårt kan det vara..

Segja Svíarnir þegar einföld mál þvælast fyrir mönnum. Að skipa sáttanefnd í verkfalli opinberra starfsmanna er dæmi um slíkt. Forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifaði grein á netið 2012 sem heitir ”sanngjörn krafa hjúkrunarfræðinga”. Þar tekur hann undir allar kröfur hjúkrunarfræðinga og það svo rösklega að sennilega væri hann tilvalinn fulltrúi í samninganefnd hjúkrunarfræðinga.

Þess vegna getum við fullyrt að ekki skortir skilning á kröfum hjúkrunarfræðinga hjá æðstu mönnum þjóðfélagsins. Sennilegasta skýringin á tregðu þeirra til að semja við hjúkrunarfæðinga er að þeir hafi ekki innsýn á afleiðingar þess að ná ekki samningi við hjúkrunarfræðinga.

Skortur á innsæi getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir marga aðra.

Rannsóknir sýna að vel mönnuð sjúkrahús af hjúkrunarfræðingum hafa lægri dánartíðni og lægri tíðni af aukaverkunum. Sjúkrahús sem eru verr mönnuð hafa verri niðurstöðu að þessu leyti. Af því leiðir að þeir stjórnmálamenn sem stuðla að því að hjúkrunarfræðingar segi upp vegna lélegra kjarasamninga hafa áhrif. Sú pólitík hefur bein áhrif á árangur Landspítalans. Ef ákvarðanir stjórnmálamanna valda undirmönnun á Landspítalanum mun árangur versna á Landspítalanum og dánartíðni aukast.

Þess vegna skiptir það miklu máli fyrir sjúklinga Landsspítalans hvaða skilaboð og fyrirmæli Forsætis- og Fjármálaráðherra gefa sínum mönnum í kjaradeilunni við hjúkrunarfræðinga.

Skoðun þeirra á því hvað ”konur” sem sinna sjúklingum eiga að hafa í kaup getur skilið milli feigs og ófeigs. Þannig er það bara.

Hur svårt kan det vara…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 1.6.2015 - 19:17 - FB ummæli ()

”ég tala ekki við stelpur”

Hjúkrunarfræðingar eru í verkfalli. Aðferð viðsemjanda í kjaraviðræðunum er ábyrgðarlaus því mikilvægara er að knésetja stéttina en að tryggja landsmönnum góða þjónustu. Fyrst er ein mikilvægasta starfsstétt landsins ”dissuð”. Við tölum ekki við ykkur fyrr en búið er að semja við launamenn á almenna markaðnum. Þetta er ekki bara rangt heldur glæpur gagnvart notendum heilbrigðisþjónustunnar þ.e. að láta þá bíða meðan eitthvað PR stríð er í gangi.

Þegar samið hafði verið við almenna markaðinn þá kemur ríkið með tilboð til hjúkrunarfræðinga sem þeir vissu að yrði hafnað og viðræðum var slitið, að sjálfsögðu. Sjálfsagt var það hluti af planinu.

Núna er hótað lagasetningu á verkfall hjúkrunarfræðinga.

Þegar ég var fimm ára svaraði ég nágrannastelpu sem vildi leika við mig að ég talaði ekki við stelpur. Það tók mig reyndar ekki nema nokkrar klukkustundur að skipta um skoðun. Síðan þá hef ég unnið með hjúkrunarfræðingum í áratugi sem eru flestar kvenkyns. Ég veit að stétt hjúkrunarfræðinga er ein af mikilvægustu stéttum landsins. Hægt væri að skrifa mikið um fórnfúst starf þeirra til að halda kerfinu gangandi og sértstaklega eftir hrunið 2008 sem núverandi ríkisstjórnaflokkar lögðu grunninn að á sínum tíma.

Sem fimm ára gutta tel ég að mér hafi verið vorkunn en að hið opinbera sé á sama stað og ég var fimm ára er ótækt.

Hið opinbera verður að taka sig taki. Menn verða að setjast niður og koma með tilboð sem leiðir til samnings. Flestir landsmenn vilja að hjúkrunarfræðingar fái góðan samning sem fyrst svo heilbrigðiskerfið fari að virka. Hjúkrunarfræðingar hafa flestir unnið á Norðurlöndum í einhvern tíma á starfsferli sínum og skortur er þar á hjúkrunarfræðingum og því hætta á að þeir flytji héðan. Það er óásættanleg hegðun hjá ríkinu að lengja verkfall hjúkrunarfræðinga að nauðsynjalausu og þar með stuðla að niðurbroti heilbrigðiskerfis sem nú þegar er illa farið eftir niðurskurð liðinna áratuga.

NursesMakeDifferences

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.5.2015 - 01:08 - FB ummæli ()

Að hafa áhrif

Á Íslandi er lítill hópur einstaklinga sem hefur keypt sér meirihluta þingfylgi og eitt dagblað að auki. Þetta eru þeir sem hafa fengið réttinn til að veiða fiskinn okkar. Þeir hafa grætt stórkostlega og sett megnið af þeim gróða í eigin vasa og smávegis hjá þeim sem þeir vilja að fylgi sér að málum. Til stóð að semja nýja Stjórnarskrá þar sem almenningur fengi að kjósa sjálfur um hvernig hann vildi að hlutunum yrði háttað. Þessari stjórnaskrá var rænt frá þjóðinni á lokametrunum.

Nýtt makrílfrumvarp mun færa sama hópnum mikil auðævi. Auk þess skapa fordæmi fyrir sex ára kvótareglu sem lið í því að þjóðin missi auðlindina endanlega til fárra útvaldra. Það er hugsanlegt að forsetinn muni hafna þessum lögum ef við setjum nægjanlegan þrýsting á hann.

Á síðunni þjóðareign gefst okkur möguleiki á því að mótmæla ofríki kvótaauðvaldsins. Krafan er mjög hógvær. Bara að vísa kvótafrumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einfaldur og sjálfsagður lýðræðislegur réttur okkar. Hann er stórhættulegur sérhagsmunaaðilunum því þá gæti almenningur orðið upplýstur um það gjörspillta fyrirkomulag sem hér viðgengst. Hér takast á sérhagsmunir og almannahagsmunir.

Ég skora á alla að standa með sjálfum sér og skrifa undir þessa hógværu kröfu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 2.5.2015 - 16:40 - FB ummæli ()

Afhendum Landspítalanum makrílkvótann

Ríkisstjórnin ætlar að afhenda sjö kennitölum 95% prósent af makrílkvóta landsmanna og hinum 5 prósentunum ætlar hún að deila til flokksgæðinga . Verðmæti þessa makrílkvóta er talið vera um það bil 150 milljarðar. Þessi fyrirtæki og einstaklingar þurfa ekki að borga eina krónu fyrir aðgang að auðlind okkar. Vissulega hafa þeir flestir borgað ríkulega í kosningasjóði flokkanna en þeir peningar fara ekki í velferðarkerfið. Hvernig væri að ríkisstjórnin sæi að sér og afhenti frekar Landspítalanum makrílkvótann. Landspítalinn gæti þá leigt veiðiheimildir til útgerða. Spítalinn fengi arðinn af leigunni. Þannig gæti Landspítalinn fengið um það bil 10 milljarða á ári. Fyrir alla þessa peninga gætum við bjargað mörgum mannslífum og við værum ekki lengi að því að byggja nýjan spítala með þessum hætti.

Eigum við ekki að gefa okkur sjálfum okkar eigin auðlind frekar en fáum útvöldum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 29.4.2015 - 18:52 - FB ummæli ()

Palli er EKKI einn í heiminum

Páll Jóhann Pálsson þingmaður Landsambands Íslenskra Útvegsmanna segist ætla að sitja hjá við afgreiðslu makrílsfrumvarpið. Það er frumvarp sem afhendir nokkrum útvöldum makrílinn okkar og arðinn einnig. Það er sem sagt verið að arðræna okkur, þ.e. þjóðina. Mér er nokk sama hvað hann Palli kýs. Hann og félagar hans í LÍÚ standa ekki með þeim sem ná ekki endum saman eða geta ekki leyst út lyfin sín vegna fátæktar. Palli mun hvort eð er kalla inn varamann til að kjósa fyrir sig ef LÍÚ krefst þess.

Það er þessi algjöra firring á aðstæðum samborgaranna sem einkennir yfirstéttina, eins og í sögunni um smákökurnar í Frakklandi. Að moka gróða í eigin vasa heltekur hugann svo algörlega að ekkert annað kemst að. Hvaðan réttlætingin kemur er erfitt að segja. Er til réttlæting á botnlausum gróða í eigin vasa meðan aðrir eiga ekki fyrir mat?

Eini rétturinn sem við eigum sem manneskjur er að valda ekki öðrum vandræðum.

Vandamálið er að fjórflokkurinn er á spena LÍÚ. Björt framtíð virðist hlaupa á eftir LÍÚ. Píratar sem njóta mikilla vinsælda hafa allt of fáa þingmenn núna. Þess vegna stefnir í að Þingheimur muni samþykkja nýtt og aukið arðrán á almenningi með makrílfrumvarpinu.

Ætlum við virkilega að láta kvótagreifana arðræna okkur sem nemur hálfum Landspítala á ári án þess að við grípum til aðgerða?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur