Sunnudagur 14.12.2014 - 00:26 - FB ummæli ()

Að velja sér landfesti kæri ráðherra

Læknaverkfallið leggst æ þyngra á sálina á mér. Ætlar Ríkisstjórnin virkilega að bíða þangað til að síðasti viðsemjandinn er fluttur héðan. Ég neita að trúa því. Ekki minnka áhyggjurnar þegar auglýsingar eru farnar að birtast á FB síðu lækna um laus störf í Skandinavíu, þ.e. það er runnið á blóðlyktina.

All margir læknar hafa haldið því fram að áramótin séu afgerandi í læknadeilunni. Ef ekki semst fyrir þau þá ákveði læknar að segja upp og flytja. Eins og ástandið er núna þá þarf ekki margar uppsagnir til að boltinn fari af stað því vont er að vinna núna en verður enn verra þegar fleiri fara. Nýútskrifaðir læknakandidatar ætla ekki að vinna á Íslandi heldur fara strax erlendis ef ekki semst. Það er veruleg blóðtaka, í raun erfitt að sjá fyrir sér að kerfið virki án þeirra.

Þegar maður horfir til baka þá er sú staða sem upp er komin í dag einstök og gjörsamlega galin. Á strit kynslóðanna og öll fjárfestingin að fara í súginn? Það virðist svo, því heilbrigðisráðherra sagði „að hann trúi því ekki að læknar muni segja upp“. Hann ætlar ekki að tryggja stöðuna með góðum samningi við lækna. Nei hann stólar á trú sína að ekkert fari úrskeiðis þrátt fyrir slæman eða engan samning. Öll hegðun valdhafanna er á sömu lund.

Það er þarna þar sem rökhugsun þeirra bregst eins og hjá strútnum. Margir læknar sögðu fyrir nokkrum árum að þeir færu aldrei í verkfall vegna launa sinna, það væri ekki samboðið læknastéttinni. Læknar eiga engan verkfallssjóð enda ætluðu þeir sér aldrei í verkfall. Þrátt fyrir þessa fortíð eru allir þessir læknar í dag í verkfalli og samstaðan er algjör. Réttlæting læknanna er ekki sjálf launin, réttlætingin er hvort læknar verði þátttakendur í heilbrigðiskerfinu til framtíðar eða ekki. Þeir vita að án þeirra verður ekki neitt heilbrigðiskerfi. Þess vegna berjast menn.

Kæri Kristján og Co, ekki stóla á að læknar segi ekki upp. Læknar eru komnir út á ystu nöf, þeir geta ekki lengur tekið þátt í þessu leikriti um að allt sé í lagi. Það er ekki hægt að reka heilbrigðiskerfið á fornri frægð, það sekkur núna og íslenskir læknar eru menn að meiru að standa upp og viðurkenna hið augljósa.

Ég ráðlegg þér því eindregið að tryggja landfestar, það er skylda þín.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.12.2014 - 21:57 - FB ummæli ()

Bjarni Ben og launaskriðið

Því er haldið fram að launakröfur almennt og sérstaklega lækna muni valda verðbólguskoti sem muni leggja efnahag ríkisins í rúst. Launahækkanir auka kostnað fyrirtækja og hækka þannig vöruverð sem síðan veldur verðbólgu. Verðbólgan hækkar skuldir allra sem eru með verðtryggðar skuldir.

Þeir sem eru tryggðir eru lánadrottnar.

Í raun er skuldin einn stærsti kostnaðarliðurinn í öllum rekstri og vex stöðugt og því mikilvægasti hvatinn að verðbólgu.  Þess vegna er áhrifaríkast að minnka skuldir til að minnka rekstarkostnað og vöruhækkanir. Allir sem stunda rekstur reyna að halda öllum kostnaði í lágmarki. Þeim verður þó örugglega ekkert ágengt með að fá skuldirnar lækkaðar, lánadrottnar veita ekki afslátt eftir að skrifað hefur verið undir. Þar sem skuldir rekstraraðila hækka sífellt vegna vaxtanna og verðtryggingarinnar eru skuldirnar það sem skapar verðhækkanir og þar með verðbólguna, jafnvel þó að engar launahækkanir kæmu til.

Ef skuldin bæri enga vexti og væri ekki verðtryggð þyrfti skuldarinn mun síður launahækkun, sá sem framleiðir hráefni þyrfti mun síður hækkun á vöruverði og sv. fr.. Að lokinni hringferðinni kæmi það í ljós að lánadrottnar þyrftu heldur ekki vexti því ekkert hefði hækkað. Þar sem nútímaþjóðfélag telur það eðlilegt að peningar tímgist eru vextir löglegir. Vextir eru kostnaður út um allt þjóðfélgið og veldur verðbólgu. Krafan um aukna þjóðarframleiðslu á hverju einasta ári er vegna vaxtakostnaðar þjóðfélagsins.

Spurningin er þess vegna hvort verkamaðurinn á að eiga möguleika á því að endar nái saman, hvort að læknirinn vilji flytja heim til Íslands að loknu námi eða þá að stjórnvöld vilji endilega leyfa peningum að tímgast stjórnlaust fyrir þá fáu á kostnað hinna mörgu. Jesús Kristur var að minnsta kosti ekki í neinum vafa og velti um borðum og var það eina skiptið sem hann beitti ofbeldi.

Kannski að Bjarni fyllist heilögum anda…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.12.2014 - 20:48 - FB ummæli ()

Því miður

Íslenskir læknar eru í verkfalli og það er nánast einsdæmi. Stór hluti almennings styður verkfallsaðgerðir þeirra, það er líka einsdæmi. Ef ekki finnst farsæl lausn á verkfalli lækna er mikil hætta á því að íslenska heilbrigðiskerfið bresti. Í dag virðast vera yfirgnæfandi líkur á því að það semjist ekki vegna þess að hið opinbera kemur ekki með neitt tilboð sem höfðar til lækna.

Réttlæting hjá læknum snýst ekki um að þeir séu illa launaðir miðað við þá sem hafa minna. Réttlætingin er framtíð heilbrigðiskerfisins á Íslandi, heilbrigðiskerfis sem þeir hafa haft trú á, heilbrigðiskerfis sem þeir lögðu á sig mikla vinnu til að mennta sig og að komast aftur heim til að þjóna. Góð laun í samræmi við menntun og ábyrgð. Góð laun svo að unga fólkið komi til baka úr sérnámi og taki við hlassinu af þeim eldri og færi inn nýja þekkingu. Hvoru tveggja er forsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi á Íslandi.

Íslenskir læknar hafa menntað sig á bestu háskólasjúkrahúsum í Evrópu og Ameríku án nokkurs kostnaðar fyrir íslenska ríkið. Sá kostnaður sem til hefur fallið hafa læknar staðið fyrir. Fá lönd hafa notið viðlíka vildarkjara þegar kemur að sérnámi lækna. Hvað þá að meirihluti sérfræðinga sæki menntun sína hjá stórum heimsþekktum háskólasjúkrahúsum, slíkt gerist ekki einu sinni í þeim löndum sem þeir sérmennta sig í.

Það er þess vegna sem ég óttast að ef læknastéttin upplifir höfnun núna af hálfu ríkisvaldsins að læknar muni sækja til þeirra landa sem þeir menntuðu sig í eða þeir yngri koma ekki heim úr sérnámi. Við höfnun munu íslenskir læknar ekki finnast þeir skulda Íslandi neitt og samtímis sem þeim er tekið opnum örmum erlendis er niðurstaðan nokkuð ljós, því miður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.11.2014 - 20:21 - FB ummæli ()

Er fiskur lausnin

Nýtt kvótafrumvarp er í smíðum og það sem hefur spurst út gerir það að verkum að menn setur hljóða. Það versta hugsanlega er að gerast. Meirihluti Alþingis er á valdi sérhagsmunaaðila sem vilja að kvótinn tilheyri fáum útvöldum. Hinn venjulegi Íslendingur er kominn svo langt frá uppruna sínum að hann tengir ekki fisk við auðlind og sér því ekki ástæðu til að krefjast réttar síns.

Ef arðurinn af sjávarútvegnum kæmi í hlut þjóðarinnar þá værum við ríkari en Norðmenn og þeir væru að flytja hingað. Það er ekki að gerast og mun alls ekki gerast ef nýjasta kvótafrumvarpið verður að lögum. Með því á að afhenda auðlindina okkar að eilífu auðmönnum til afraksturs að eigin geðþótta.

Fiskur er auðlind, auðlind allra Íslendinga en ekki bara fárra eins og staðan er í dag. Sjávarútvegurinn er að skila methagnaði og sum fyrirtækin mæla hagnað sinn í einum milljarði íslenkra króna á mánuði.

Ísland er á heljarþröm eftir að hafa tekið á sig mistök einkarekins bankakerfis sem fór á hausinn haustið 2008. Þörf þjóðarinnar er gríðarleg á að hagnaður sjávarútvegsins rati í ríkissjóð og verði nýttur til að byggja upp gott þjóðfélag fyrir okkur öll. Kvótagreifarnir safna auð okkar til sín meðan við gerum það mögulegt fyrir þá, það er nokkuð sjálfgefið. Það er bara okkar að berja í borðið og krefjast réttláts hlutar í eign okkar. Meðan við gerum það ekki breytist ástandið ekki.

Í raun eru það við sem erum lausnin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.11.2014 - 19:47 - FB ummæli ()

Hvar viljum við byggja upp heilbrigðiske

Hvar viljum við byggja upp heilbrigðiskerfið?

Núna er önnur verkfallslota lækna hafin. Skaðinn sem þeir valda er frestun á aðgerðum og göngudeildarmóttökum. Ekkert sem skaðar valdamenn en því meira almenning. Í raun skapar þessar aðgerðir sparnað og eykur líkurnar á hallalausum fjárlögum fyrir árið. Ekkert gæti glatt Vígdísi Hauks og Bjarna Ben meira.

Þetta fyrsta verkfall íslenskra lækna er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Læknar hafa venjulega viljað læðast með veggjum og ekki vekja athygli á sér þegar kemur að launakröfum. En núna er bleik brugðið. Jafnvel læknar sem áður sögðu að það væri ekki læknum sæmandi að fara í verkfall eru núna í fremstu víglínu.

Valdamenn hunsa kröfur lækna og ef þetta ”vesen” dregst á langinn munu lög líklega verða sett á lækna. Virðist sigur valdhafanna en þjóðin mun tapa. Því miður mun það þýða að ungir sérfræðingar munu ekki flytja heim og er það mjög slæmt því oft á tíðum vinna þeir 200% meðan þeir eru að koma sér fyrir svo þeir telja tvöfalt. Eldri skuldlitlir læknar munu minnka vinnu til að geta notið efri áranna með sínum nánustu. Læknar á miðjum aldri, sem eru hryggjarstykkið í starfseminni, vegna reynslu og vinnuframlags, munu hugsanlega flytja af landi brott.

Ábyrgð lækna er mikil. Þeir vita hvaða afleiðingar það mun hafa á heilbrigðiskerfið ef ekki mun koma til algjör viðhorfsbreyting hjá valdhöfum gagnvart kröfum heilbrigðisstarfólks. Þess vegna er verkfall þeirra nauðsyn.

Valdhafar hafa tvo kosti í stöðunni. Byggja upp gott heilbrigðiskerfi á Íslandi eða í útlöndum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.11.2014 - 22:22 - FB ummæli ()

Afrakstur auðlinda og skattaskjól

Starfsemi skattaskjóla hefur aukist mikið liðna áratugi. Skattaskjól hafa dreift úr sér um allan heim eins og hvert annað krabbamein. Þar fela einstaklingar og fyrirtæki ríkidæmi sitt og komast hjá því að greiða skatta. Þess vegna eykst skattbyrði þeirra sem eftir sitja og standa straum að rekstri samfélagsins. Að skjóta undan er glæpur gagnvart þeim sem borga.

Því hefur verið haldið fram að stórfyrirtæki sem starfa í Afríku sendi mest allan afraksturinn til skattaskjóla. Ef ríkisstjórnir í Afríku myndu eingöngu skattleggja þetta fjármagn með 30% skatti yrði heimsálfan Afríka skuldlaus og gæti seinna meir farið að senda peninga til að hjálpa fátækum Evrópubúum. Afríka er svo auðug af auðlindum að það hlýtur að vera heimsmet í heilaþvotti að allir trúa því að hún sé fátæk án þess að arðrán komi þar við sögu.

Er hugsanlegt að Ísland sé á pari við Afríku, erum við arðrænd? Eru íslenskir aðilar, fyrirtæki að senda skattskyldan pening til skattaskjóla? Þessu er hugsanlega hægt að fá svar við ef skattrannsóknarstjóri á Íslandi gæti keypt slíkar upplýsingar. Þessar upplýsingar eru til sölu hjá erlendum rannsóknarblaðamönnum. Þjóðverjar hafa keypt þessar upplýsingar og hagnast vel á því. Fjármálaráðherra okkar Bjarni Ben hefur ekki ennþá gefið grænt ljós á slíkt. Þess vegna vill Dögun leggja sitt af mörkum og nota hluta af því fjármagni sem það fær frá hinu opinbera til að styrkja hið opinbera, þ.e. skattrannsónarstjóra til að kaupa þessar upplýsingar.

 

Áramótaheit Dögunar

Áramótaheit Dögunar – Samþykkt landsfundar 8. nóvember 2014.

 

Skorað er á Alþingi að tryggja að fyrningarfrestir í málum sem snúa að skattaundanskotum til aflandsfélaga og skattaskjóla verði lengdir eins og þörf er, hluti mögulegra brota fyrnist um áramót 2014-2015 að óbreyttu.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, gefa hér með íslensku þjóðinni eftirfarandi áramótaheit:

 

Íslenska ríkinu/Alþingi er heimilt að veita  allt að 1/10 af framlagi ríkisins árið 2015, sem ætlað er að renni til starfsemi stjórnmálasamtakanna Dögunar, til embættis Skattrannsóknarstjóra, til kaupa á gögnum um fjármuni í erlendum skattaskjólum.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, skorar hér með á önnur stjórnmálasamtök eða flokka að taka þátt í þessu átaki og bjóða slíkt hið sama.

 

Formenn allra stjórnmálasamtaka og flokka sem fá framlag frá íslenska ríkinu fá senda þessa áskorun í ábyrgðarpósti. Dögun mun birta svörin jafnóðum og þau berast.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, býðst einnig til að halda utan um sjóð frjálsra fjárframlaga einstaklinga, lögaðila og fyrirtækja til að kaupa gögn um fjármuni í erlendum skattaskjólum. Þau framlög verða endurgreidd ef ekki reynist þörf fyrir þau eða gefin áfram samkvæmt beiðni gefanda.

 

Reikningurinn er hjá Sparisjóði strandamanna og er númer 1161-05-250244 á kennitölu Dögunar, 670209-1050.

 

Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 13.11.2014 - 18:39 - FB ummæli ()

Að skapa mótmæli

Nú hafa  tvenn mótmæli verið á Austurvelli tvo síðustu mánudaga. Fyrst var mikið fjölmenni en seinni mánudaginn 1500-2500 manns. Sjálfsagt einhverjum vonbrigði og öðrum gleðigjafi. Gagnrýnisraddir hafa bent á að málflutningurinn sé of mjúkur og ekki nægjanlega afdráttalaus. Sjálfsagt eitthvað til í því en ég er þó ekki viss. Núna á mánudaginn var niðurskurði í heilbrigðiskerfinu mótmælt og er það því bein gagnrýni á núverandi stefnu stjórnvalda. Þess vegna finnst mér erfitt að kvarta yfir þokukenndum málflutningi. Að fá 2000 manns á Austurvöll er að sjálfsögðu afrek.

Það sem ég tel meginhvata allra mótmæla er hvort almenningur telji þau borga sig eða ekki. Það er, munu mótmælin breyta einhverju, munu þau leiða til einhvers. Ef almenningur finnur þefinn af því að getað áorkað einhverju, beitt sínu lýðræðislega valdi og komið á stefnubreytingu hjá valdhöfum er hann til í tuskið, annars ekki. Almenningur er ekki vitlaus, hvers vegna að frjósa og fá blöðubólgu ef það breytir ekki neinu, þá er jafngott að fara bara í Kringluna.

Kúnstin er að skapa mótmæli um eitthvað sem mögulegt er að breyta með mótmælum og þá verður fjandinn laus.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 6.11.2014 - 21:01 - FB ummæli ()

”one way tickets”

Agnes Bragadóttir blaðamaður Morgunblaðsins gerir okkur það gustukaverk að koma kjarabaráttu lækna inná rétt spor stéttarbaráttu. Það rifjar upp að þegar við unglæknar fórum í eins dag verkfall um árið en þá sagði besti vinur Davíðs, þáverandi Fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson að við hefðum allir 800 þús á mánuði þegar enginn hafði meira en 500 þús. Elítan sér um sína hvort sem þeir kalla sig vinstir eða hægri. Skítlegt eðli er nothæft þegar hætta er á því að læknar brjóti múrinn og skapi fordæmi sem aðrir gætu nýtt sér.

Hið opinbera mun reyna að hækka laun lækna eins lítið og mögulegt er og þess vegna er PR starfið komið í gang. Allt of mikið er í húfi segir Seðlabankastjóri, sjálfur efnahagsstöðugleiki Íslands, segir gamli vinstri maðurinn Már sem sennilega var endurræstur í Basel. Nei verkamaðurinn skal ekki fá sinn hlut af framleiðslunni, enda hvað framleiða nú læknar hvort sem er?

Eftir Gúttóslaginn voru margir sárir og enginn lögreglumaður í Reykjavík ósár. Verkamenn hefðu þá nótt getað tekið völdin á Íslandi. Læknar hafa engan áhuga á slíku. Þeir vilja bara mannsæmandi laun, að sérfræðingar flytji ekki utan aftur, að ungir sérfræðingar komi heim og fylli í skörðin og geri það mögulegt að reka hér mjög góða heilbrigðisþjónustu.

Ef Agnes Braga vill endilega endurtaka Gúttóslaginn í þágu sinna umbjóðenda munu þau engöngu uppskera aukna sölu á ”one way  tickets” hjá Icelandair..frá Íslandi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 30.10.2014 - 19:53 - FB ummæli ()

Bók Margrétar-Útistöður

Ég er búinn að lesa bókina og finnst hún góð, meira að segja mjög góð. Frásögnin spannar mjög athyglisvert tímabil í sögu Íslands. Þjóðlífið var opið í báða enda og allt gat gerst. Sjaldan hefur verið jafn víðtæk gerjun í þjóðfélaginu. Margrét segir okkur listilega frá þætti sínum á löggjafarsamkundu okkar og pólitísku starfi sínu.
Það sem mér þótti athyglisverðast var frásögnin af stjórnarskrármálinu. Það var mikið rætt um nýja stjórnarskrá strax eftir hrunið. Hugmyndin var að auka vald almennings á kostnað kjörinna fulltrúa með nýrri stjórnarskrá. Með sameiginlegu átaki þeirra sem óttast aukin völd til almennings tókst að stöðva þessa tilraun. Þau öfl sem halda þjóðarauðnum í heljargreipum hefur því tekist að virkja hégómagirnd þingmanna fjórflokksins sem hafa ekki getað séð af völdum ”sínum”.
Almenningi hefði verið í lófa lagið að krefjast þess með mótmælum að nýja stjórnarskráin héldi lífi en gerði það ekki. Sjálfsagt margar ástæður fyrir því en aðallega að almeningur skynjaði ekki vitjunartíma sinn né vald sitt. Ef almenningur vill sinn réttláta skerf af þjóðarauðnum til að reka hér gott þjóðfélag fyrir alla verður hann að taka sig taki og hætta að gagnrýnislaust treysta fjórflokknum eins og Guði almáttugum.
Hvað um það ég get virkilega mælt með bók Margrétar og tel hana góða heimild um tímabilið sem um er fjallað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 14.10.2014 - 23:18 - FB ummæli ()

Réttlæti

100 manns eru á eyðieyju en bara 10 manns borða allan matinn.
Þegar horft er yfir sviðið hér á landi þá er erfitt að fyllast einhverri bjartsýni. Sífellt háværari kór kveður sér hljóðs og mælist til þess að gjaldeyrishöftunum verði lyft. Mestar líkur eru þá á öðru hruni ef mið er tekið af reynslu annarra þjóða. Skiptigengisleiðin er fær og minnkar skaða almennings en umboðsmenn almennings hafa ekki ljáð máls á henni ennþá. Því er líklegast að auðmenn muni græða mest á afléttingu gjaldeyrishaftanna og mætti halda að framkvæmdavaldið væri á prósentum hjá auðmönnum. Því miður eru flestir Alþingismenn strengjabrúður.
Annað stórt vandamál er að við höfum ekki efni á að reka velferðakerfið okkar og hvað þá að reisa nýjan spítala fyrir þjóðina. Á sama tíma er skattheimta á þá ríkustu minnkuð og jafnvel aukin á hina. Gróði bankanna og sjávarútvegsins er mikill. Hann dugar vel í gatið hjá ríkinu. Það er því réttlætismál að þjóðnýta þennan gróða. Hvernig getur maður annars réttlætt hann meðan fólk á ekki fyrir mat eða lyfjum og meðal Jóninn nær ekki endum saman í einu ríkasta landi heims.
Vigdís Hauks ætlar að skera niður hjá ríkinu til að auðmenn geti setið á friðarstóli með sinn gróða.
Það sem er þó sorglegast er að allt þetta óréttlæti er í boði íslensku þjóðarinnar sem kaus viðkomandi sjónarmið til valda.
Þegar þessi 90 sem fá ekkert að borða munu skilja samhengi hlutanna og upplifa vald sitt mun allt breytast á Íslandi. Á meðan það gerist ekki erum við ekki nægjanlega hungruð í réttlæti til að standa saman sem einn maður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Gunnar Skúli Ármannsson
Var læknir á Landspítalanum en starfa núna í Svíþjóð. Kvæntur og á fjögur börn, hund og átti kött. Fæddur dreifbýlismaður-Kópavoginum-flutti síðan til borgarinnar. Bjó um tíma á Patreksfirði og var við sérnám í Svíþjóð um níu ára skeið. Er virkur í  Dögun. Tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni síðan hún hófst. Er meðlimur attac samtakanna á Íslandi.
RSS straumur: RSS straumur