Fimmtudagur 18.11.2010 - 22:42 - 2 ummæli

„Eruð þið alveg ómissandi?“

Það hefur komið mér á óvart hversu margir hafa haft fyrir því að nálgast mig til lýsa ánægju sinni með að ég hefði boðið mig fram til stjórnlagaþings og segjast ætla kjósa mig. Ég er iðulega stoppaður á götu eða við innkaupin af fólki sem ég jafnvel þekki ekki neitt og óskar mér góðs gengis.
 
 
Einn vinur minn sagði reyndar: „Hallur, kæri vin. Nú fæ ég loks tækifæri til að kjósa Framsóknarmann án þess að þurfa að kjósa Framsóknarflokkinn! Við ætlum að kjósa þig. Gangi þér vel.“
 
Mér þykir að sjálfsögðu afar vænt um þetta.
 
En þessi viðbrögð segja mér fleira. Þau segja mér að baráttumál mitt til margra ára – persónukjör – er rétta leiðin í íslenskum stjórnmálum. Kjósendur eiga að raða frambjóðendum í sæti í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna. Það dregur úr flokksræði.
Því miður heyktist Alþingi að breyta kosningalögum í þá átt fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þrátt fyrir loforð ríkisstjórnarinnar og loforð stjórnarandstöðunnar um stuðing við slíkt fyrirkomulag. Mögulega fyrir þrýsting sitjandi sveitarstjórnarmanna sem óttuðust lýðræðið. Hætt við að sumir nagi sig í handarbökin fyrir þau mistök.

En hvað um það.

Ég hef líka fengið neikvæð viðbrögð. Fyrst og fremst vegna þess að ég hef lengi haft áhuga á að hafa jákvæð áhrif á umhverfi mitt og samfélag og kaus að gera það með þátttöku í stjórnmálaflokki. Tók mér reyndar 12 ára hlé í virkri stjórnmálaþátttöku meðan ég starfaði sem embættismaður, en hef verið skráður í stjórnmálaflokk frá 22 ára aldri.

Mig langar að birta athugasemd sem ég fékk í athugasemdadálki við bloggið mitt:

„Getið þið stjórnmálamenn ekki látið þetta þing vera?? Eruð þið alveg ómissandi?“

Ég varð reyndar aðeins upp með mér yfir því að vera kallaður „stjórnmálamaður“ – enda einungis náð því að verða varaborgarfulltrúi á árunum 1996-2002. Annars bara kjaftfor fótgönguliði í flokki.

 

En þetta er sjónarmið sem á fullan rétt á sér.

En!

Lýðræðið felst í því að allir hafi sama rétt að bjóða sig fram. Ég hef ákveðið að nýta þann lýðræðislega rétt minn.

Þjóðin velur síðan milli þeirra sem bjóða sig fram í lýðræðislegum kosningum.

Í kosningum til stjórnlagaþings þá er atkvæðavægi algerlega jafnt. Eins og það ætti að vera í Alþingiskosningum. Einn maður, eitt atkvæði, jafnt vægi.

Þeir sem fá flest atkvæði verða kjörnir. Það er þjóðin sem velur þá í lýðræðislegum kosningum.

Ég ákvað að bjóða mig fram og leggja mig, mínar áherslur og mínar skoðanir í dóm þjóðarinnar. Jafnvel þótt ég hafi tekið þátt í starfi stjórnmálaflokks. Þjóðin hefur lýðræðislegt val um það hvort það telur kröftum mínum vel varið á stjórnlagaþingi. Það er þjóðin sem heild – en ekki einstakir gestir á bloggsíðu minni – sem ákveður hvort það sé rétt að hluti þeirra sem sitji á stjórnlagaþingi sé í stjórnmálaflokki eða ekki.

Það er lýðræði og ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem mér og öllum öðrum kjörgengum Íslendingum stóð til boða. Það er hins vegar að mínu mati aðför að lýðræðinu ef það á að meina hluta þjóðarinnar að bjíða sig fram. Því það er þjóðin sem velur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Enginn getur dregið í efa lýðræðislegan rétt þinn til að bjóða þig fram.

    En á sama hátt er sú skoðun fullgild að fulltrúar stjórnmálaflokka séu beinlínis óæskilegir á stjórnlagaþingi.

    Hafa Íslendingar ekki fengið nóg af „þekktu andlitunum“, valdaklíkum og flokksdindlum?

    Ég held það og vona.

  • Hallur Magnússon

    Rósa.

    Mikið rétt hjá þér.

    Sú skoðun er fullgild að fulltrúar stjórnmálaflokka séu beinlínis óæskilegir á stjórnlagaþingi.

    Ég er reyndar ekki fulltrúi stjórnmálaflokks í framboði – þótt ég hafi starfað í stjórnmálaflokki.

    En það er annað mál.

    Það er hins vegar þjóðarinnar að taka ákvörðun um það hverjir skuli sitja stjórnlagaþing. Það gerist í lýðræðislegum kosningum. Þannig á það að vera.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur