Sunnudagur 05.12.2010 - 13:18 - 9 ummæli

Afsökun Jóhönnu Sig. og Framsóknar

Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar bað þjóðina afsökunar á hlut Samfylkingarinnar í hruninu og þeim mistökum sem flokkurinn gerði í ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.
 
Jóhanna er maður af meiru að viðurkenna mistökin sem urðu þjóðinni dýrkeypt og biðjast afsökunar.
 
Með þessu er Jóhanna að feta í fótspor formanna Framsóknarflokksins sem einnig hafa beðist afsökunar vegna fyrri mistaka þess annars ágæta flokks.
Fyrst Jón Sigurðsson sem lýsti því yfir að ákvörðun fyrirrennara síns Halldórs Ásgrímssonar að setja Ísland á lista hinna viljugu ríkja í aðdraganda Íraksstríðsins hefði verið röng.

Jón Sigurðsson sem formaður Framsóknarflokksins bað íslensku þjóðinar afsökunar á þessum mistökum. Þetta var á fjölmennum miðstjórnarfundi og klapp Framsóknarmanna ætlaði aldrei að þagna. Enda var mikill meirihluti Framsóknarmanna á móti ákvörðun Halldórs og hvernig hún var tekin.

Þá Valgerður Sverrisdóttir formaður Framsóknarflokksins sem á flokksþingi í janúar 2009 bað þjóðina afsökunar á hlut Framsóknar í aðdraganda hrunsins. Það var einmitt á því flokksþingi sem Framsóknarmenn fyrstir allra gerðu upp mistök fortíðarinnar og fylgdu því eftir með því að skipta algerlega út flokksforystunni. Algerlega.

Með því að skipta út forystunni sýndu Framsóknarmenn ekki einungis iðrun sína í orði heldur einnig á borði. Slíkt hefur hvorki Samfylking né Sjálfstæðisflokkur gert. Formannsskipti í þeim flokkum voru vegna alvarlegra veikinda fyrrum formanna. Ekki vegna iðrunar.

Nú þegar Jóhanna biðst afsökunar fyrir hönd Samfylkingar eru gerendur í fyrrnefndri ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks enn á sviðinu. Jóhanna sjálf var ráðherra í ríkisstjórn. Undir hana heyrði Íbúðalánasjóður. Enda var hún í efnahagsteymi ríkisstjórnarinnar.

Össur Skarphéðinsson núverandi utanríkisráðherra var iðnaðarráðherra í ríkisstjórninni og steig hrunadansinn með forystu Sjálfstæðisflokksins síðustu klukkustundirnar þar sem Ingibjörg Sólrún var úr leik vegna veikinda.

Kristján L. Möller var samgönguráðherra og hélt því embætti þar til í haust. Kristján er enn þingmaður og ekkert fararsnið á honum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir var umhverfisráðherra og er nú formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Heldur ekkert farasnið á henni.

Sá eini sem tók einhverja ábyrgð er Björgvin G. Sigurðsson sem var viðskiptaráðherra í aðdraganda hrunsins og í hruninu. Hann hafði manndóm í sér að segja af sér ráðherraembætti. Hann hafði einnig manndóm til þess að hverfa af þingi meðan rannsóknarnefnd Alþingis fór yfir hrunið.

Björgvin G.  hefur aftur tekið sæti á Alþingi – enda af hverju ætti hann ekki að gera það á meðan allir aðrir ráðherrar Samfylkingarinnar í hrunadansstjórn Geirs Haarde sitja enn á Alþingi og jafnvel í ríkisstjórn!

Framsóknarflokkurinn fylgdi afsökunarbeiðninni eftir í verki. Mér finnst að sá ágæti flokkur eigi að njóta þess – en svo virðist ekki vera ef marka má umræðuna. Flokkurinn er sífellt gagnrýndur fyrir fyrri tíma – fyrir verk sem ráðherrar fyrri tíma stóðu fyrir – fólk sem hætt er í pólitík.

En enn og aftur. Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar er maður af meiru að viðurkenna mistök Samfylkingarinnar og biðjast afsökunar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Margrétj

    Við bíðum spennt eftir afsökun hennar á EIGIN verkum EFTIR hrun. Getuleysi, valdahroki og alger viðsnúningur og fyrirlitning hennar á vinstri hugsjóninni er svo stórtæk að annað eins hefur aldrei gerst í íslenskum stjórnmálum.
    Hún er af nákvæmlega sama kaliberi og Ingibjörg ´Sólrun.
    Vinstri mönnum er skömm að þessu lýðskrumi.

  • Maður saknar þess að sjá ekkert í þessu uppgjöri Samfylkingarinnar um tengsl flokksins við þau fyrirtæki og einstaklinga sem lengst gengu gagnvart fjármálakerfinu.
    Samfylkingin verður að gera upp sinn þátt gagnvart þessum aðilum til að trúverðugt geti heitið.

  • Og Halldór Ásgrímsson ykkar ástsæli, hefur hann beðist afsökunar?

  • Villi, er Halldór Ásgríms í einhverju embætti á vegum flokksins í dag?

  • .. . og kannski fyrrverandi formaður fjarlanefndar og fyrrverandi umhverfisráðherra. . 😉

  • Þvílík viðbjóðsleg hræsni í þessu stjórnmálapakki upp til hópa. Dettur einhverjum í hug að það sé einhver meining á bak við svona afsökun. Það er alveg skýrt að þetta spillingarlið finnur ekki til nokkurrar ábyrgðar af neinu tagi.
    Svo fyrir mér er bara ein skoðun,,,,,, BURT MEÐ ÞESSI ÓFÉTI
    ÚR ALÞINGI……

  • Hallur Magnússon

    Gísli minn.

    Formanni, varaformann og ritara fFramsóknarlokksins – sem skipa framskæmvæmdastjórn hans var skipt út á flokksþingi 2009. Allir ráðherrar Framsóknar hættu í pólitík – nema Siv.

    Finnst þér virkilega í hjarta þínu þetta saman að jafna við Samfylkingaráðherrana – sem allir eru enn á Alþingi og sumir enn í ríkisstjórn – nema Ingibjörg Sólrún sem hætti af heilsufarsástæðum?

  • Sæmundur

    Elsu karlinn,

    Halldór, Finnur, Óli Óla hafa en öll tök í flokknum. Þetta veist þú eins og við öll.
    Hvernig telur þú best að ná í ránsfengin frá þessum glæpa þjóðníðingum?

  • Hallur Magnússon

    Sæmundur.

    Óli Óla hefur ekki verið í Framsóknarflokknum – allavega ekki undanfarin 15 ár.

    Finnur hefur ekki komið nálægt flokknum í mörg ár.

    Halldór SNARHÆTTI þegar hann hætti. Hefur heldur ekki komið að flokknum síðar.

    Þannig er það nú.

    Elsku karlinn.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur