Mánudagur 06.12.2010 - 09:18 - 3 ummæli

Sóknarfæri í ríkisstjórnartillögum

Það er sóknarfæri í því samkomulagi sem ríkisstjórnin og aðiljar í fjármálakerfinu gerðu fyrir helgi um aðgerðir vegna greiðsluvanda heimilanna þótt það sé óþægilega mikið til í því hjá leiðarahöfundi Moggans í morgun þegar hann segir: „“Aðgerðir“ ríkisstjórnarinnar voru ekki í umbúðum, þær fólust í umbúðum um ekki neitt…“.
 
Það er rétt sem Mogginn ýjar að – samkomulagið er fyrst og fremst samkomulagsrammi um aðgerðir sem þegar voru í gangi hjá fjármálafyrirtækjunum.
 
En það að ríkisstjórnin og fjármálakerfið formgeri þær aðgerðir í undirrituðu samkomulagi hefur gildi út af fyrir sig. Þá má ekki gleyma að með samkomulaginu er Íbúðalánasjóður formlega kominn að borðinu og mun taka þátt í að færa skuldir yfirveðsettra heimila niður 110% af fasteignamati.
 
Reyndar er lítill hluti lána ÍLS á höfuðborgarsvæðinu yfir fasteignamatsmörkum þar sem hámarkslán sjóðsins var það lágt að það náði sjaldnast hámarkslánshlutfalli sjóðsins. Aftur á móti er yfirveðsetning algengara út á landi þar sem fasteignaverð er og var það lágt að hámarkslán náði hámarkslánshlutfalli. En á móti á landsbyggðinni um mun lægri fjárhæðir að ræða.
 
Það skiptir máli að fjölskyldum sé tryggð niðurfærsla lána í 110% svo fremi sem það dugi til þess að tekjur heimilisins standi undir afborgunum af slíkri greiðslubyrði.
 
Það er reyndar rétt að með slíkri niðurfærslu er ríkisstjórnin og fjármálafyrirtækin ekki að leggja til alfarið „nýtt“ fé, heldur er um að ræða að stórum hluta fjármuni sem þegar voru fjármálafyrirtækjunum tapaðir.
 
En með aðgerðarammanum er komið í veg fyrir að fjármálafyrirtækin gangi að fjölskyldunum með nauðungarsölu, eignist húsnæðið og afskrifi tap sitt í kjölfarið. Þess í stað halda fjölskyldurnar húsnæði sínu.
 
Hins vegar eru gefnar falsvonir í samkomulaginu. Gefið er í skyn að lífeyrissjóðirnir geti lækkað stofnkostnað „félagslegs“ húsnæðis með kaupum á sérstökum fjármögnunarbréfum Íbúðalánasjóðs.
 
Staðreynd málsins er sú að með óbreyttum lögum geta lífeyrissjóðirnir ekki veitt Íbúðalánasjóði lán á lægri vöxtum en 3,5% – sem eru nánast sömu vextir og sjóðurinn fjármagnar almenn útlán sín um þessar mundir.
 
Þá má ekki gleyma að ríkisstjórnin hyggst auka við vaxtabætur sem kemur heimilunum til góða og svo mun ríkisstjórnin „… beita sér fyrir því að framlög ríkisins til húsaleigubóta verði ekki skert á næsta ári.„!!!
 
Reyndar er gagnrýnivert að ríkisstjórnin hafi ekki notað tækifærið og endurhannað húsnæðisbótakerfið frá grunni. En vonandi gengur hún í það mál á næsta ári. Meira um nýtt húsnæðisbótakerfi síðar.
 
En eins og áður segir er sóknartækifæri í samkomulaginu svo fremi sem ríkisstjórnin nýti nú tækifærið og útfæri rammann á skynsamlegan hátt. Ég mun kynna félagsmálaráðherra tillögur mínar í þá átt og geymi því að kynna þær á opinberum vettvangi.
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • 110% niðurfærslan miðar ekki endilega við fasteignamat heldur annaðhvort fasteignamat eða verðmæti fasteignar „hvort sem er hærra“. Það er því ljóst að 110% viðmiðið verður alltaf hærri tala en verðmæti eignarinnar sem þýðir neikvætt eigið fé sem þýðir aftur engin hvati fyrir fólk að taka slaginn. Ég held að það sé rétt hjá Lilju Mósesd að fólk sem er með yfirveðsettar eignar eftir að „úrræðin“ eru komin til framkvæmda muni ákveða að fara í þrot í umvörpum.

  • átti auðvitað að vera „í unnvörpum“ hér að ofan.

  • Ekki má gleyma því að forsætisráðherra hefur lýst því yfir að ekki verði um frekari niðurfellingar að ræða. Þar af leiðandi ætti staðan að vera nokkuð ljós.

    Verst að lýðskrumshreyfingin heldur áfram að bulla og útdeila falsvonum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur