Þú og aðrir Alþingismenn hafið þessa greinargerð undir höndum.
Hingað til hefur EKKERT atriði í framangreindri greinargerð verið véfengt né hrakið. Hvorki af Alþingismönnum, né af þeim tugum fjölmiðlamanna sem einnig hafa fengið þessa greinargerð í hendur.
Niðurstaða greinargerðarinnar – sem studd er ítarlegum tölulegum staðreyndum – er eftirfarandi:
„Það er niðurstaða þessarar skýrslu að rannsóknarnefnd Alþingis hafi ekki kannað nægilega undirbúning og skipulag ákvarðana um breytingar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs sem áttu að taka gildi á árunum 2004 til 2007.
Allur undirbúningur ákvörðunartöku vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á opinbera húsnæðislánakerfinu miðuðu markvisst að því að valda eins litlum efnahagslegum áhrifum og nokkur kostur var og allt kapp var lagt á að vanda undirbúning og feril þessara breytinga.
Skýrslan sýnir að það voru róttækar breytingar á útlánareglum viðskiptabankanna sem settu þessar fyrirætlanir í uppnám og voru meginorsök víðtækrar hækkunar fasteignaverðs og þenslu efnahagslífsins sem stjórnvöld höfðu engin tök á að bregðast við.
Þær breytingar sem stjórnvöld gerðu á opinbera húsnæðiskerfinu í kjölfar þessa höfðu hverfandi áhrif á þróun efnahagsmála.
Niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis um að þær breytingar sem gerðar voru á útlánareglum Íbúðalánasjóðs árið 2004 hafi verið með stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna stenst því ekki gaumgæfilega skoðun.“
Enn og aftur. Ekkert hefur komið fram eftir birtingu greinargerðarinnar sem hrekur þessa niðurstöðu.
Ekkert.
Þá undrast ég að þú leyfir þér að setja eftirfarandi fram í opinberri grein:
„Alþingi hefur nú samþykkt að ríkissjóður geti lagt Íbúðalánasjóði til 33 milljarða og fyrir liggur að leggja þarf sjóðnum til aukið fjármagn á næsta ári. Þessi framlög eru ekki beinlínis heilbrigðisvottorð um starfsemi sjóðsins.“ (leturbreyting HM)
Þú veist það jafn vel og ég að 18 milljarðar af þessum 33 eru vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um nokkuð almenna niðurfærslu íbúðalána í 110%. Ef ríkisstjórnin hefði ekki ákveðið að fara í þá niðurfærslu, þá hefði ekki verið þörf á þessum 18 milljörðum. Það hefur bara ekkert með starfsemi Íbúðalánasjóðs fram að þessi að gera.
Þá veistu jafn vel og ég að ríkissjóður hefði alls ekki þurft að leggja þá 15 milljarða sem út af standa inn í Íbúðalánasjóð til viðbótar þeim rúmu 8 milljörðum sem eigið fé Íbúðalánasjóðs stendur í. Þvert á móti.
Þá hafa þingmenn – og þar á meðal þú – átt í miklum erfiðleikum með að rökstyðja þessa þörf. Vísa bara á samkomulag við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.
Staðreynd málsins er nefnilega sú að Íbúðalánasjóður er eina stóra fjármálastofnunin sem hélt velli í hruninu. Seðlabankinn varð meira að segja tæknilega gjaldþrota.
Þannig að ég get ekki skilið þessa setningu þína nema sem ósæmilegar dylgjur í garð starfsfólks Íbúðalánasjóðs.
Ég bíð reyndar enn eftir svari frá þér við eftirfarandi tölvupósti sem ég sendi þér á dögunum:
„Heil og sæl.
Nú þegar ekki hafa einu sinni verið færð rök fyrir því af hverju Íbúðalánasjóður þarf 33 milljarðar fjárframlag frá ríkinu – sýnist reyndar að 18 milljarðar séu ætlaðir vegna ákvörðunar ríkisvaldsins um niðurfærslu lána í 110% – sem byggir á þeirri sjálfstæðu ákvörðun til að létta með fjölskyldunum í landinu en ekki eiginlegri þörf sjóðsins vegna reksturs hans fram að þessu – hvað hefur þú fyrir þér í því þegar þú „óttast að fjárþörfin sé meiri?
Ég er búinn að fara fram og til baka yfir gögn Íbúðalánasjóðs og stöðu hans – og hvernig sem ég sný hlutunum þá finn ég engin rök fyrir því.
Það er því að þínum mati greinilega eitthvað sem mér yfirsést.
Getur þú bent mér á hvað það gæti verið?
Hverjar eru forsendur þínar fyrir að sjóðurinn þurfi í fyrsta lagi 33 milljarðar – í öðru lagi ennþá meira?
Kveðja
Hallur Magnússon„
Ég er hins vegar sammála þér í nauðsyn þess að gera óháða rannsókn á starfsemi sjóðsins í aðdraganda hrunsins.
Það er eina leiðin til að eyða ranghugmyndum og dylgjum um Íbúðalánasjóð og meintan hlut hans í fasteignabólunni og aðdraganda hrunsins, ranghugmyndum sem rötuðu meira að segja gagnrýnilaust inn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.
Vænti þess að skýrslan góða „Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004. Greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis“ og rannsókn sem Ríkisendurskoðunar gerði á fjárstýringu Íbúðalánasjóðs árið 2006 verði mikilvæg gögn í þeirri óháðu rannsókn.
En til að enda þetta á jákvæðu nótunum, þá er ég þér innilega sammála þegar þú segir að:
Hallur Magnússon
PS. langar að benda þér á nokkra pistla sem ég hef skrifað um þetta að undanförnu:
Af hverju stóð ÍLS af sér hrunið?
Sóknarfæri í ríkisstjórnartillögunum
15 milljarðar í Íbúðalánasjóð „af því bara“!
„Félagslegir“ vextir bara 0,08% lægri!
Óþarfa 33 milljarðar til Íbúðalánasjóðs?
Framsóknarmenn hafa sagt síðan 2004: „Ekki okkur að kenna heldur bönkunum“ og aðrir halda því gagnstæða fram m.a. bankarnir. Varla er við öðru að búast en að báðir málsaðilar reyni að verja hendur sínar og kannski guðsþakkarvert að þeir benda þó bara hver á annan. Vandinn er að hvorugur aðilinn nýtur þess trausts að menn trúi nokkru sem þeir halda fram.
Já; Hallur – – þörf ádrepa og efnislega rökstudd. Sigríður Ingibjörg og Stefán Benediktsson vilja sem minnst læra af þeirri ofanígjöf sem skýrsla RNA og innbúðargögn Umbótanefndar Samfylkingarinnar veita „morfískappræðustílnum“ og þrætuhjólfarinu. Éta upp rangfærslur um Íbúðalánasjóð – og reyna að skáka í því skjólinu að þannig verði hægt að skaða Framsóknarflokkinn „af því að hann sé í svo vondum málum að hann geti ekki varið sig“ – jafnvel upplognum atriðum – eins og lesa má af kommenti SB hér að ofan.
Þetta skaðar Íbúðalánasjóð og almenning í landinu – og orðræðan skánar ekki meðan þetta viðhorf og þetta sama lið situr í framsætinu hjá stjórnmálaflokkunum.
Háskalegra kann þó að vera að Þórarinn Pétursson fær stöðuhækkun hjá Seðlabankanum – eftir að hafa orðið margsinnis ber að rangfærslum um Íbúðalánasjóð – í skýrslum til RNA, til OECD og til AGS – og þá er jafnvel enn háskalegra að „hulduráðgjafar“ efnahags og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra spinna þennan sama þráð áfram – og virðast ætla að nýta hann í persónulegum hefndaraðgerðum – og koma höggi á Íbúðalánasjóð og ná sér með því niðri á Framasóknarflokknum . . . . .
Stefán.
Það var reyndar ekki fyrr en komið var langt fram á árið 2005 sem umræðan um þenslu haustsins 2004 fór af stað – og bankarnir hófu að benda á Íbúðalánasjóð.
Fjölmiðlar tóku gagnrýnilaust undir og skoðuðu aldrei staðreyndir málsins.
Bendi þér á að renna yfir skýrsluna sem vísað er til: „Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004. Greinargerð vegna Rannsóknarskýrslu Alþingis“.
Þú smelli bara á nafn skýrslunnar í bréfinu til Siggu.
Hingað til hefur ekkert af því sem þar kemur fram verið hrakið.
Hallur er þetta ekki einmitt málið að fá óháða rannsókn á íbúðalánasjóð til að fara yfir staðreyndir málsins.
Rannsóknarskýrslan er almennt talin hafa á réttu að standa og þeir sem hafa gagnrýnt hana eru settir undir sama þak.
Svona held ég að þingmenn og almenningur sjái þetta
Íbúðalánasjóður lánar á 1 veðrétt að hámarki um 20 milljónir. Miðað við almennt fasteignaverð þá ætti hann ekki að tapa miklu til lengri tíma. Hér þarf að skýra hlutina betur ef ekkert hefur farið úrskeiðis
SAS!
Það er akkúrat málið – að fá óháða rannsókn. Eins og ég segi í bréfinu til Siggu:
„Ég er hins vegar sammála þér í nauðsyn þess að gera óháða rannsókn á starfsemi sjóðsins í aðdraganda hrunsins.
Það er eina leiðin til að eyða ranghugmyndum og dylgjum um Íbúðalánasjóð og meintan hlut hans í fasteignabólunni og aðdraganda hrunsins, ranghugmyndum sem rötuðu meira að segja gagnrýnilaust inn í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.“
Ég lýsti strax yfir stuðningi við þá hugmynd.
Veit að Vigdís Hauksdóttir er sama sinnis þótt hún hafi ekki viljað vera með á áliti allsherjarnefndar ummálið – hún vill að tímabil rannsóknar sé lengri – fram yfir stofnun Íbúðalánasjóðs – og að í þá rannsókn verði tekin rannsókn á Byggingarsjóði verkamanna – sem var gjaldþrota sem nemur rúmum 30 milljörðum á núvirði. það var fyrir tíma Íbúðalánasjóðs.
En það er annað mál.
Hallur, þessi klisja að ÍLS sé ábyrgur fyrir útlánaþenslu bankanna er hin klassíska tilraun að reyna að endurtaka vittleysuna nógu oft þar til fólk er sannfært um að hún sé rétt. Að SII skuli taka þátt í þessari umræðu, fyrrverandi bankaráðsmaður hjá Seðlabanka Íslands, er alveg með ólíkindum. Kannski er hún að breiða yfir sínar syndir meðan hún sat í bankaráði SÍ, en það var jú á hennar vakt sem bankinn fór á hausinn. Einhvern veginn vill það gleymast.
En sannleikurinn hefur aldrei þvælst fyrir fólki sem hefur skemmtilegar sögur að segja.