Fimmtudagur 09.12.2010 - 17:19 - 5 ummæli

Stórmenni undir dulnefni

Einn fylgifiskur hins dýrmæta málfrelsis okkar sem hefur náð nýjum víddum með tilkomu bloggsins og athugasemdakerfa þeim tengdum eru stórmenni sem tjá sig hægri vinstri í athugasemdadálkum bloggheima. Stundum er um að ræða málefnalegar athugasemdir og umræður nafnleysingjanna, en oftar standa þessi nafnlausu stórmenni fyrir órökstuddum dylgjum, skítkasti og rógi.

Sumir bloggarar hafa kosið að loka athugasemdakerfum sínum eftir að hafa orðið fyrir aðkasti þessara nafnlausu stórmenna sem ekki hafa dug í sér að standa fyrir máli sínu undir eigin nafni.

Ég held það sé engin þörf á því. Lesendur eru yfirleitt það vel gefnir að þeir sjá í gegnum skrif þessara nafnlausu stórmenna. Sérstaklega ef óskað er eftir rökstuðningi fyrir dylgjunum, rökstuðning sem hin nafnlausu stórmenni geta undantekningalítið ekki fært fyrir máli sínu.

Það er of stór fórn málfrelsis að gefa ekki kost á málefnalegri umræðu í athugasemdakerfum bloggsins. Því það er hin málefnalega umræða sem er undirstaða þess lýðræðissamfélags sem við viljum búa í.

Hin nafnlausu stórmenni eru óværa sem við verðum bara að lifa með. Fyrir hið dýrmæta málfrelsi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Valur B (áður Valsól)

    Hérna kemur ástæðan fyrir nafnleynd á á hún fullan rétt á sér:

    Svona vinnur FLokkurinn til að hafa og auka völd sín, lesið endilega og fræðist um hvernig kunningjasamfélagið og klíkuskapurinn verður til, það eina sem þeir þola ekki er nafnleynd, því nafnleyndin gerir fólki það kleyft að segja hug sinn án þess að missa vinnuna eða að þeim verði settir fóturinn fyrir dyrnar. Þetta á við hjá þeim sem koma frá litlum bæjarfélögum og þeim sem ekki eru inn á gafli hjá stjórnmálaflokkum eins og þú Hallur:

    „Flokksvélin mikla var í meginatriðum óbreytt: Reykjavík var skipt í 120 umdæmi og voru að jafnaði 5-10 fulltrúar í hverju þeirra (samtals 654 snemma árs 1957). Þeir skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna sinna og voru þær upplýsingar færðar í skrár í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins við Suðurgötu. Svo kappsamir voru þeir Baldvin [Tryggvason] og Birgir [Kjaran] að þeir þekktu fulltrúana nær alla með nafni og mundu jafnvel símanúmer þeirra. Á vinnustöðum kom öflugt trúnaðarmannakerfi einnig að gagni. Þar fylgdust sjálfstæðismenn með spjalli félaganna um daginn og veginn og komu sjónarmiðum þeirra í stjórnmálum á framfæri í Valhöll. Stefndi flokkurinn að því að hafa trúnaðarmenn í öllum fyrirtækjum með fleiri en tíu í starfsliði og skyldi sérhver þeirra vera „trúverðugur og dugandi maður“ (árið 1957 átti Sjálfstæðisflokkurinn 392 skráða trúnaðarmenn á vinnustöðum).“ Úr ævisögu Gunnars Thorodsen =>(Guðni Th Jóhannesson, 2010, bls. 260-261)

  • Hallur Magnússon

    Jæja gæskurinn.

    Þú lifir sem sagt ennþá í sjötta áratugnum!

    En án gríns!

    Man eftir mörgum ágætum athugasemdum frá þér sem Valsól – yfirleitt afar málefnalegum – þegar ég var á Moggablogginu. Við tókumst yfirleitt á um málefni og á málefnalegan hátt. Skítkast og ómálefnaleg innlegg frá þér ekki algeng – hafi þau yfir höfuð verið í þeim flokki.

    En það er ekki málefnaleg gagnrýni „nafnlausra stórmenna“ sem er að setja svartan blett á málfrelsið – heldur órökstuddar dylgjur og skítkast.

    Það eru órökstuddar dylgjunar og skítkastið sem er að setja svartan blett!

    Mitt innlegg nú er einmitt að þrátt fyrir „órökstuddar dylgjur og skítkast“ – þá verðum við að lifa við það. Málfrelsins vegna.

    Því fólk sér yfirleitt í gegnum slíkt – og tekur mark á málefnalegri gagnrýni og skoðanaskiptum – sem yfirleitt einkenndu þín innlegg – minnir mig.

    En tak k yrir málefnalegt innlegg!

  • Fínar pælingar Hallur.
    Sorglegt þjóðfélag ef fólk þorir ekki að gangast við sjálfu sér og skoðunum sínum og eða telur sig verða fyrir aðkasti eða útilokunum af einhverjum toga ef það gerir slíkt.
    Í svoleiðis systemi þýðir ekkert að kóa það leiðir bara til óbreytts ástands. Hitt er svo annað mál að vernd heimildarmanna fréttamanna þarf að tryggja sérstaklega ef því er að skipta en það eru allt aðrar forsendur fyrir slíku en t.d. í umræðum netinu. Nafnleysi á annars ágætum vef Eyjunnar finnst mér svakalegur galli sérstaklega þegar að einelti , ærumeiðingar, skítkast og dónaskap er ausið yfir menn og málefni – Er auðvitað ekki boðlegt í siðuðu samfélagi.
    Bkv Árni Guðmunds

  • Ég hef það fyrir reglu að taka ekki mark á nafnlausum ath.
    Kveðja að norðan.

  • Nafnlaus Heigull

    Það var rétt. Kom mér í faðm herra „I may not agree with what you say but I will defend to the death your right to say it“ 😉

    Ég er alveg sammála þessu, nafnleysingjar geta skapað víðari og betri umræðu en þeir geta líka skemmt hana með rógi og dylgjum og skítkasti, breidd umræðunnar virðist aukast með þeim og við fáum báðar öfgarnar.
    ég get reyndar alveg skilið suma sem eru nokkuð þekktir í samfélaginu að þeir loki á nafnleysingjana því að þeir bera ábyrgð á kommentakerfi sínu og þurfa að liggja yfir því ef þeir verða að ritskoða eitthvað vafasamt, fólk einfaldlega hefur ekki orku í þetta (egill helgason nennir þessu samt, hafi hann þökk fyrir metnaðinn)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur