Miðvikudagur 08.12.2010 - 16:39 - Rita ummæli

Af hverju stóð ÍLS af sér hrunið?

Það er rannsóknarefni að Íbúðalánasjóður hafi staðið af sér hrunið á meðan allir stóru bankarnir urðu gjaldþrota sem og flest fjármálafyrirtækin og meira að segja Seðlabankinn sem varð tæknilega gjaldþrota!

Enda er áhugi hjá Alþingismönnum að gera óháða úttekt á Íbúðalánasjóði og rekstri hans.

Reyndar gerði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluathugun á Íbúðalánasjóði árið 2006 þar sem sjónum var sérstaklega beint að fjárstýringu sjóðsins í kjölfar árásar bankanna á Íbúðalánasjóð haustið 2004 og 2005.  Niðurstaða þeirrar úttektar var  að rekstur sjóðsins á árunum 2003 til 2006 var í takt við lög og reglugerðir og að fjárstýring sjóðsins væri eðlileg og innan þess ramma sem sjóðnum var settur af löggjafarvaldinu, ráðuneyti og Fjármálareftirliti.

En sumir Alþingismenn telja Ríkisendurskoðun greinilega ekki óháða.

Það er jákvætt fyrir Íbúðalánasjóð og þá sem komið hafa að rekstri sjóðsins undanfarinn áratug að gerð verði óháð úttekt á sjóðnum og áhrifum hans á samfélagið. Svo fremi sem sú úttekt verði óháð en ekki pólitísk.

Starfsmenn og stjórnendur sjóðsins hafa nefnilega um langt árabil setið undir órökstuddum dylgjum af ýmsu tagi. Dylgjum sem reyndar hefur oftast verið hraktar, en einhverra hluta vegna hefur dylgjunum verið haldið á lofti í fjölmiðlum og á forsíðum blaða en minna farið fyrir því þegar dylgjurnar hafa verið hraktar með staðreyndum:

Það sem er nokkuð ljóst að komi út úr óháðri rannsókn verður væntanlega meðal annars:

Staðfesting á því að Íbúðalánasjóður hafði minnst með þenslu og fasteignabóluna haustið 2004 og árið 2005 að gera.  Sökin sé nær alfarið bankannana

Staðreyndir um þetta tímabil má meðal annars lesa í skýrslunni  “Aðdragandi, innleiðing og áhrif breytinga á útlánum Íbúðalánasjóðs 2004.” Smellið á heiti skýrslunnar til að lesa.

Staðfesting á fyrrnefndri niðurstöðu Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluathugun 2006 þar sem staðfest var að fjárstýring sjóðsins væri eðlileg.

Væntanlega mun til viðbótar koma fram að viðbrögð sjóðsins á þessu tímabili sé grunnur þess að Íbúðalánasjóður stóð af sér hrunið nánast einn alvöru fjármálastofnanna.

Staðfesting á því að það lausafé sjóðsins sem var til ávöxtunar í bönkum og fjármálafyrirtækjum við hrun fjármálakerfisins var annars vegar eðlilegt lausafé sem sjóðurinn þarf að hafa til reiðu til að standa undir afborgunum af fjármögnunarbréfum Íbúðalánasjóðs 6 mánuði fram í tímann, að kröfu lánshæfismatsfyrirtækjanna og í takt við eðlilega fjárstýringu og hins vegar fé sem sjóðurinn fékk úr reglubundnu fjármögnunarútboði og þörf var að ávaxta í skammtímaávöxtun þar til það var afgreitt til viðskiptavina sjóðsins í formi útlána.

Þá er ljóst að tap sjóðsins vegna lána til leiguíbúða verði rannsakað. Líkleg niðurstaða vegna þess er:

Staðfesting á því að Íbúðalánasjóður hafi lánað of mikið til byggingar leiguíbúða í  fjölbýlishúsum á Austurlandi, en að sjóðurinn hafi starfað í einu og öllu á grunni laga og reglugerða við úthlutun lánsvilyrða og  á grunni jafnræðisreglu ekki haft stöðu til að gera upp á milli leigufélaga sem stóðu að byggingu húsnæðisins þar sem umsóknir þeirra voru studd greiningu einstakra sveitarfélaga á húsnæðisþörf.

Mögulega munu koma fram einhverjir smávægilegir hnökrar og einstaka vafamál í rekstri sjóðsins eins og alltaf þegar gerðar eru heildstæðar stjórnsýsluúttektir á fyrirtækjum og stofnunum. Úr þeim væntanlega unnið í umbótarferfli innan sjóðsins eins og gert hefur verið reglulega innan sjóðsins allt frá stofnun hans.

Enn og aftur.

Það er rannsóknarefni að Íbúðalánasjóður hafi staðið a sér hrunið á meðan allir stóru bankarnir urðu gjaldþrota, flest fjármálafyrirtækin og meira segja Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur