Þriðjudagur 07.12.2010 - 21:31 - 5 ummæli

15 milljarðar í ÍLS „af því bara“!

Það hafa enn ekki komið fram haldbær rök fyrir því af hverju ríkisstjórnin vill leggja Íbúðalánasjóði til 15 milljarða af þeim 33 milljörðum sem fjárlaganefnd hefur samykkt að renni til sjóðsins.
 
Rökin fyrir 18 milljörðum af 33 milljörðunum eru sú að það sé kostnaður við að færa niður lán í 110% af fasteignamati íbúða.
 
Gott og vel. Það eru rök.
 
En það hafa engin rök verið færð fyrir því af hverju verið sé að bæta hinum 15 milljörðunum við þá 8,7 milljarðar eigið fé sem sjóðurinn hafði yfir að ráða um mitt ár. Að vísu er bent á að reglugerð geri ráð fyrir að langtímamarkmið Íbúðalánasjóðs sé að eiginfjárhlutfall skuli vera 5% í CAD.
 
Það er ekki skylda – heldur langtímamarkmið!
 
 
Ef þingmönnum og ríkisstjórn líður svona illa að langtímamarkmiði í reglugerð sé ekki náð – þá er einfalt að breyta reglugerð – í stað þess að henda milljörðum inn í sjóðinn að óþörfu.
 
Þótt reglugerð um fjárstýringu Íbúðalánasjóðs geri ráð fyrir að langtímamarkmið sjóðsins sé að eiginfjárhlutfall sé 5 CAD, þá er engin sérstök fjárhagsleg ástæða til þess að halda því marki. Reglugerðin kveður á um að CAD hlutfall sé tvisvar sinnum hærra en sérfræðingar Deutsche Bank töldu að þyrfti þegar breytingar voru gerðar á fjármögnunarfyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs árið 2004.
 
Deutsche Bank taldi æskilegt að eiginfjárhlutfallið væri 2,5% CAD til lengri tíma, en að kröfu fjármálaráðuneytisins var langtímamarkmið í reglugerð haft 5% CAD til að minnka líkurnar á að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til fé til að standa undir skuldbindingum sínum.
 
Því skýtur það skökku við nú þegar við þurfum að velta hverri krónu fyrir okkur að fjármálaráðuneytið vilji leggja Íbúðalánasjóði til 15 milljarða umfram þá 18 sem menn segja að þurfi vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar um niðurfærlu lána – eingöngu til að ná markmiði um CAD hlutfall sem sett var til að koma í veg fyrir að það þyrfti að leggja sjóðnum til fé úr ríkissjóði!
 
Við skulum hafa í huga að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs var 2,1% CAD við 6 mánaða uppgjör í sumar – örlítið lægra en ráðlegging Deutsche Bank.
 
Staðreyndin er sú að sjálfu sér ekkert sem krefst þess að eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs sé jákvætt meðan sjóðurinn nýtur ríkisábyrgðar, þótt staða og kjör sjóðsins styrkist eftir því sem eiginfjárhlutfall er hærra. Það eina sem þarf að tryggja er að sjóðurinn geti staðið undir afborgunum af fjármögnunarbréfum sínum. Ekkert bendir til þess að greiðslufall sé framundan hjá Íbúðalánasjóði.
 
Það versta í málinu er þó að þingmenn og ríkisstjórn vita ekki af hverju þeir standa í þessu og hafa ekki fært fyrir því rök – þótt á þá hafi verið gengið!
 
Halló!
 
15 milljarðar „af því bara“!
 
Er í lagi með þetta lið?
 
VIÐBÓT:
 
Mér hefur verið bent „af hverju“ verið sé að veita óþarfa 15 milljörðum til Íbúðalánsjóðs.
 
Ástæðan er sú að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vill það!
 
Af því bara!
 
Eftirfarandi er tekið af vef Íbúðalánasjóðs:
 
„Breytingatillögur við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010 eru nú til umræðu í fjárlaganefnd Alþingis, sem og í félags- og tryggingamálanefnd. Í frumvarpinu er m.a. heimilað að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða króna. Með því er stefnt að því aðeiginfjárstaða sjóðsins geti orðið allt að 5% af áhættugrunni sjóðsins við árslok 2011. Þessi
eiginfjáraukning sjóðsins er í samræmi við viljayfirlýsingu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda frá september 2010, en þar er gert ráð fyrir að eiginfjáraukningu til Íbúðalánasjóðs verði lokið fyrir árslok 2010.

Eigið fé sjóðsins skv. árshlutauppgjöri 2010 var jákvætt um 8,4 milljarða króna sem þýðir að eiginfjárhlutfall hans var 2,1%, en langtímamarkmið sjóðsins skv. reglugerð 544/2004 er að hafa hlutfallið yfir 5%.

Til að ná langtímamarkmiði sínu um 5% eiginfjárhlutfall í árslok 2011 er ljóst að ríkissjóður þarf að leggja Íbúðalánasjóði til aukið eigið fé. Sem stendur er verið að undirbúa aðgerðir til aðstoðar þeim heimilum í landinu sem eru í greiðsluerfiðleikum. Þessar aðgerðir munu hafa áhrif á áætlaðar afskriftir lána og þar með á eiginfjárþörf sjóðsins.“

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Eru þessir 15 ekki bara eitthvað sem þið bjugguð til í uppsveiflunni – bara til að vera með!

  • Sæmundur

    Eru menn ekki að undirbúa sig undir að raunskrá fasteignaverð sem þið hækkuðu upp úr öllu valdi þegar þið gerðust heildsölubanki og fóruð í óforskammaðar lánveitingar til banka sem svo aftur lánuðu almenningi og lágum vöxtu og upp fór verðið.

    Sjóðurinn þarf líka að skila til baka til lánþega ofteknum vöxtum. Það verður gert á næsta ári því þetta samfélag okkar þolir ekki þetta óréttlæti.

    Það gengur ekki að predika að það megi stela frá fólki bara ef það á smá eigiðfé eða getur borgað.

  • Sjóðurinn er orðinn að eitruð peði eftir langvinna stjórnun Guðmundar „góða“.

    Guðmundur hafði þvílíka kosti til að bera að eftir að hann sótti um forstöðuna þurfti ekki að líta á aðra umsækjendur.

    Í umsækjendahópi bar hann af öðrum eins og gull af eiri að mati framsóknarmanna sem réðu með leyfi Sjálfstæðisflokksins.

  • Hallur Magnússon

    Flóki.

    Það þarg EKKI þessa 15 milljarða í Íbúðalánasjóð. Allavega hafa engin haldbær rök komið fram fyrir því – enda vekur það athygli að Íbúðalánasjóður var eina alvöru fjármálastofnunin sem stóð af sér hrunið. Meira að segja Seðlabankinn fór tæknilega á hausinn.

    Sæmundur.
    Fyrst – ekki vinn ég í Íbúðalánasjóði – svo það sé á hreinu.

    En Íbúðalánasjóður er og hefur ekki verið heildsölubanki.

    Íbúðalánasjóður átti minnstan þátt í fasteignabólunni – það voru bankarnir. Það liggur skýrt fyrir.

    Þá hefur vaxtaálag sjóðsins verið afar hóflegt – enda taka útlán mið af fjármögnunarkosnaði – sem er sá lægsti á markaði hverju sinni.

    Sverrir.

    Sterk staða Íbúðalánasjóðs sýnir einmitt að Guðmundur „góði“ var rétti maðurinn í djobbið.

  • Getur verið að sjóðurinn fái lán á skárri kjörum með hærra eiginfjárhlutfall? Hann þarf væntanlega að taka einhver lán í framtíðinni.

    Getur verið að þingmenn og erlendar lánastofnanir telji nóg komið af gjaldþrotum fyrirtækja með ríkisábyrgð? Það sé betra fyrir skuldaraeinkunin ríkissjóðs að geta sýnt fram á gott eiginfjárhlutfall fjárfrekra ríkis(ábyrgðar)fyrirtækja?

    Þetta er það sem mér dettur í hug en það er grátlegt ef þingmenn eru að afgreiða fjárlög með risaútgjaldapóstum án þess að hafa velt fyrir sér hvers vegna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur