Ef menn vilja fá fram sannleikann í orsökum hruns efnahagslífsins á Íslandi þá er nauðsynlegt að gera ásamt öðru óháða úttekt á starfsemi Seðlabankans sem varð tæknilega gjaldþrota sem nemur um 270 milljörðum króna í kjölfar hrunsins. Já, í kjölfar hruns sem Seðlabankinn á miklu meiri sök á enn almenningur gerir sér grein fyrir.
Það er sérkennilegt að Allsherjarnefnd Alþingis hafi ekki lagt til slíka rannsókn á gjaldþrota Seðlabanka í ljósi þess að allsherjarnefnd Alþingis hefur lagt til við þingið að fram fari óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs – sem er eina alvöru fjármálastofnun landsins sem stóð af sér hrunið og er um þessar mundir með rúma 8 milljarða í eigið fé.
Að sjálfsögðu á að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóð sem útrásarvíkingarnir og fyrrum eigendur bankanna hafa – án rökstuðnings – sakað um að hafa verið stór áhrifavaldur í aðdraganda hrunsins.
Það er eina leiðin til hrekja órökstuddar dylgjur í garð sjóðsins.
Reyndar tóku viðhlægjendur útrásarvíkinganna og bankastjóranna í fjölmiðlum lengi vel undir þennan órökstudda söng – en látum það vera. Sannleikurinn mun væntanlega koma í ljós í kjölfar óháðrar rannsóknar á Íbúðalánasjóði.
Það er athyglisvert að einn helsti talsmaður slíkrar rannsóknar á Íbúðalánasjóði hefur verið Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur og núverandi alþingismaður sem á sínum tíma sat í stjórn Seðlabankans og var að líkindum valin framarlega á lista Samfylkingarinnar einmitt vegna þess að hún tók ábyrgð á gjörðum sínum og mistökum og sagði sig úr stjórn Seðlabankans í kjölfar hrunsins.
Ég sakna þess að Sigríður Ingibjörg skuli ekki hafa einnig farið fram á óháða rannsókn á hlut Seðlabankans í hruninu, því hún veit ósköp vel sem fyrrum meðlimur í stjórn Seðlabankans að Seðlabankinn lék lykilhlutverk í þeim mistökum sem gerð voru í hagstjórn íslenska ríkisins frá árinu 2003 þegar bankinn lækkaði bindiskyldu þá nýlega einkavæddu íslensku bankanna á versta tíma í hagsveiflunni og jók útlánagetu bankakerfisins um tugi milljarða á einn i nóttu.
Útlánagetu sem bankarnir nýttu sér haustið 2004 með því að dælda út nýjum ófjármögnuðum íbúðalánum á lágum vöxtum svo nam hundruðum milljarða króna með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði um tugi prósenta, verðbólga rauk upp og grunnur var lagður að algeru hruni íslensks efnahagslífs.
Það er náttúrlega hjákátlegt ef Ingibjörg Sigríður sem barist hefur fyrir óháðri úttekt á Íbúðalánasjóði – sem ég er henni sammála um að eigi að gera – berjist ekki fyrir sambærilegri úttekt á einum helsta sökudólgi hrunsins – Seðlabanka Íslands.
Ég þekki Sigríði Ingibjörgu og heiðarleika hennar það vel eftir áratugakynni að ástæða þess er ekki sú að hún vilji verja Seðlabankann og hafi eitthvað að fela sem fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn Seðlabankans – heldur er ástæðan einfaldlega sú að hún sem formaður þeirrar þingnefndar sem Íbúðalánasjóður heyrir undir – hefur fyrst og fremst verið að hugsa um Íbúðalánasjóð sem ekki varð gjaldþrota eins og bankarnir og Seðlabankinn – en ekki bankanna og Seðlabankann.
En ef hún ætlar að vera sjálfri sér samkvæm – þá mun hún óska eftir óháðri rannsókn í illa gjaldþrota Seðlabanka Íslands strax eftir helgi!
Já, þá gæti Sigríður Ingibjörg passandi beitt sér fyrir því að kannaðar yrðu þær ábendingar sem Gunnar Tómasson hefur komið með um að SÍ gegn betri vitund hafi heimilað bönkunum að skrá 2800 milljarða af gengistryggðum lánum sem eign í gjaldeyri.
Reyndar er ég með þá órökstuddu kenningu að starfsemi SÍ verði ekki rannsökuð einfaldlega vegna þess að stjórnsýslan óttast skaðbótakröfur á hendur ríki/SÍ vegna starfseminnar fyrir hrun.
Nokkuð til í þessu!
Tek undir að rannsóknar er þörf víða. Stundum einfaldlega til að hreinsa mannorð og slá á dylgjur, blekkingar og fordóma. Held samt að Hallur sé að misskilja gagnrýni á sjóðinn og áhrif hans sem hrunvald. ÍLS hafði sem slíkur ekkert með hækkun lánshlutfalls að gera. Það var pólitísk ákvörðun sem var tekin annars staðar. Sú ákvörðun var vitlaus á þeim tíma enda olía á þenslueldinn.
Margir samverkandi þættir, röð hagsstjórnarmistaka og pólitísk spilling í einkavæðingarferli leiddi okkur í bankahrun. Kreppan var hinsvegar á heimssvísu og gátum við ekki forðast hana sem slíka.
Kristinn Örn
Var ekki helsti glæpurinn eða heimskann að gera þessa 270 ma að skuld ríkissjóðs með okurvöxtum, þegar auðveldlega hefði verið hægt að láta einfalda bókhaldsfærslu duga?
Eða þá SPRON! Þar sat Guðmundur Hauksson og handmokaði peningum sparisjóðsins út í fyrirtæki sín og vina sinna, s.s., Exista og fleiri slík. Svona á milli þess sem hann lét dánarbú mömmu sinnar kaupa stofnhlutabréf og konuna sína selja sín eigin bréf – korteri áður en SPRON fór á markað.
Á markað með Sigurð Einarsson í Kaupþingi, einkavin Guðmundar, sem „svaramann“ gjörningsins!
Enn einn banksterinn og full verðugur rannsóknar.
Það er spurning hvort það væri ekki rétt að einmitt einhver annar en Sigríður ætti að hafa forgöngu um að rannsókn á SÍ fari fram, hún yrði tæpast talin óvilhöll í slíkri umræðu skiljanlega.