Sunnudagur 12.12.2010 - 17:02 - 10 ummæli

Handvömm rannsóknarnefndar Alþingis

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vegna Hrunsins er eitt allra merkasta plagg síðari tíma Íslandssögunnar. Rannsóknarnefndin vann ótrúlega gott og yfirgripsmikið starf.  Hins vegar er sá ljóður á annars merkri skýrslu sú handvömm rannsóknarnefndarinn að rannsaka ekki sjálfstætt Íbúðalánasjóð og aðgerðir sjóðsins á árunum 2003 – 2008.
 
Rannsóknarnefndinn féll í þá gryfju að taka upp gagnrýnilaust upplifun og hæpin framburð hagfræðings í Seðlabankanum um samskipti hans við ráðherra og Íbúðalánasjóð – án þess að bera framburðinn undir þá sem að málinu komu – hvað þá að kanna tölfræðilegar staðreyndir.
 
Þessi handvömm rannsóknarnefndarinnar er sérstaklega alvarleg í ljósi þess að Seðlabankinn – og fyrrgreindur hagfræðingur – gerðu alvarleg og afdrifarík mistök í hagsstjórninni á árunum 2003 og 2004 – og að Seðlabankinn var gersamlega ráðalaus þegar bankakerfið gerði hreina og klára atlögu við efnahagslífið með óheftum lánveitingum á niðurgreiddum vöxtum haustið 2004.
 
Vegna þessarar handvammar rannsóknarnefndar Alþingis og nánast órökstuddar, rangar ályktanir um Íbúðalánasjóð ákvað stjórn Íbúðalánasjóðs að láta vinna greinargerð um málið.
 
Ég tek mér það bessaleyfi að birta samantekt þeirrar skýrslu Íbúðalánasjóðs – og minni á að fram til þessa hefur enginn véfengt niðurstöðu skýrslunnar – sem er í höndum allra Alþingismanna og tuga fjölmiðlamanna.
 
Samantekt skýrslunnar er á bls. 4 – 5.  Slóðin á skýrsluna er hér.
 
„Áhrif breytinga á úlánafyrirkomulag Íbúðalánasjóðs árið 2004 eru stórlega ofmetin í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Innleiðing 90% lána og hófleg hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs er ekki sá áhrifavaldur á þróun fasteignaverðs til verulegrar hækkunar og þenslu í íslensku efnahagslífi sem haldið er fram í skýrslunni.
 
Á sama hátt eru áhrif skyndilegrar og kröftugrar innkomu bankakerfisins í ágústmánuði 2004 inn á íbúðalánamarkaðinn stórlega vanmetin. Bankarnir innleiddu á einni nóttu nánast óheft 80% – 100% íbúðalán og á fjórum síðustu mánuðum ársins 2004 veittu bankarnir ný íbúðalán að fjárhæð samtals rúmlega 115 milljörðum króna.
 
Rannsóknarnefnd Alþings vegna efnahagshrunsins gagnrýnir í skýrslu sinni stjórnvöld fyrir þær breytingar sem gerðar voru á útlánum Íbúðalánasjóðs árið 2004. Nefndin átelur meint aðgerðarleysi stjórnvalda og telur að stjórnvöld hafi ekki sinnt aðvörunum um möguleg efnahagsleg áhrif aðgerðanna og telur að breytingarnar hafi leitt til stórhækkaðs fasteignaverðs og aukið á þenslu.
 
Gagnstætt því sem haldið er fram í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis var brugðist við ábendingum um þensluáhrif breytinga á hámarkslánshlutfalli og hámarkslánum Íbúðalánsjóð, enda alla tíð lögð áhersla á að svokölluð 90% lán ógnuðu ekki efnislegum stöðugleika.
 
Áætlanir stjórnvalda um hóflega innleiðingu hækkunar hámarkslána og lánshlutfalls í áföngum þar sem meginþungi innleiðingarinnar skyldi verða í kjölfar stóriðjuframkvæmda urðu að engu þegar bankarnir hófu í ágúst 2004 að lána íbúðalán á áður óþekktum kjörum, án hámarks eða annarra takmarkandi skilyrða og fyrir allt að 100% af markaðsvirði eigna.
 
Eftir innkomu bankanna og þá gegndarlausu hækkun á fasteignaverði sem kom í kjölfarið og það áður en almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs voru heimiluð, hafði það enga efnahagslega þýðingu að heimila ekki hóflega hækkun á hámarksláni og bíða með innleiðingu 90% lána til ársins 2007.
 
Hækkun á fasteignaverði og mikil þensla á fasteignamarkaði var fyrst og fremst tilkomin vegna óheftra íbúðalána bankakerfisins. Íbúðalán Íbúðalánasjóðs höfðu þar takmörkuð áhrif þar sem íbúakaupendur höfðu aðgang að ótakmörkuðum íbúðalánum bankanna án hámarkslánsfjárhæðar eða annarra takmarkandi skilyrða á svipuðum vöxtum og með mun hærra lánshlutfalli en Íbúðalánasjóður bauð.
 
Hækkun hámarksláns Íbúðalánasjóðs úr 9,7 milljónum í upphafi árs 2004 í 11,5 milljónir í október og síðan í 15,4 milljónir í desember 2004 þegar heimild til almennra 90% lána Íbúðalánasjóðs fékkst skipti því litlu máli efnahagslega séð.
 
Íslenskir bankar höfðu nánast ekki verið sýnilegir á íslenskum íbúðalánamarkaði fyrr en í lok ágústmánaðar 2004. Í ágúst 2004 veittu bankarnir 9 íbúðalán samtals að fjárhæð tæplega 90 milljónir króna.
 
Tímabilið september til desember 2004 áður en Íbúðalánasjóði var heimilað að veita almenn 90% lán voru mánaðarleg útlán bankanna að meðaltali um 30 milljarðar króna og urðu alls 115,5 milljarðar frá ágústmánuði fram að áramótum. Þetta leiddi til stórhækkaðs fasteignaverðs á þessu tímabili og óhóflegrar þenslu á fasteignamarkaði og í efnahagslífinu.
 
 Markaðshlutdeild nýrra íbúðalána bankanna gagnvart Íbúðalánasjóði fór úr 2% í ágúst 2004 í 77% í september og um 88% í október og nóvember.
 
Á sama tíma drógust heildarútlán Íbúðalánasjóðs saman um 38,3 milljarða og samtals um 80 milljarða ári eftir innkomu bankanna og höfðu lækkað um rúma 100 milljarða þegar heildarútlán Íbúðalánasjóðs hættu að lækka á vormánuðum 2006.
 
Sökin á þenslu á fasteignamarkaði liggur því nánast alfarið í innkomu bankanna á íbúðalánamarkað en ekki í útlánum Íbúðalánasjóði eins og má skilja af skýrslu rannsóknarefndar Alþingis.
 
Raunvextir á almennum íbúðalánum hafa frá upphafi húsbréfakerfisins verið ákvarðaðir á markaði en ekki með ákvörðunum stjórnvalda. Það er því misskilningur að Íbúðalánasjóður hafi lækkað raunvexti við breytingu á útlánum Íbúðalánasjóðs úr húsbréfakerfi í peningalán.
 
Ferli vaxtalækkunar á íbúðalánum hófst síðari hluta árs 2001 löngu áður en ákvarðanir stjórnvalda um breytingar á fyrirkomulagi útlána voru teknar. Vaxtalækkanir á lánum Íbúðalánasjóðs árið 2004 og 2005 hefðu orðið verulegar þótt húsbréfakerfið hefði ekki verið lagt niður. Stjórnvöld gátu á engan hátt komið í veg fyrir slíkar vaxtalækkanir með sértækum aðgerðum þar sem raunvextirnir ákvörðuðust á markaði hvort sem um var að ræða húsbréfakerfið eða hin nýju peningalán Íbúðalánasjóðs.
 
Við breytingu á útlánum Íbúðalánasjóðs 1. júlí 2004 þegar húsbréfakerfið og viðbótalánakerfið var aflagt féll hlutfall 90% lána Íbúðalánasjóðs úr 48% af fjölda lána fyrri part ársins í 16% af fjölda lána síðari hluta ársins. Það var því veruleg fækkun á 90% lánum á því tímabili sem fasteignaverð tók stökk í kjölfar innkomu bankanna á íbúðalánamarkað.
 
Íbúðalánasjóði var veitt heimild til almennra 90% lána 6. desember 2004. Þá höfðu bankarnir verið í rúma 3 mánuði á íbúðalánamarkaðim, lánað um 90 milljarða og höfðu náð 88% markaðshlutdeild gagnvart Íbúðalánasjóði í nýjum útlánum.
 
Þótt Íbúðalánasjóður hefði fengið heimild til 90% lána í desember 2004 þá lánaði sjóðurinn einungis 40 eiginleg almenn 90% lán á höfuðborgarsvæði allt árið 2005. Ljóst er því að 90% lán Íbúðalánasjóðs ollu ekki verðhækkunum á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu árið 2005.
 
Það er því ekki unnt að kenna almennum 90% íbúðalánum Íbúðalánasjóðs um hækkun fasteignaverðs og þenslu í efnahagslífinu.“ 
 
 
 
 
  

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Kannski ekki handvömm, frekar að r-nefndin benti á að rannsóknarmörk hennar næði til takmarkaðra þátta hrunsins og hvatti til að aðrir þættir yrðu skoðaðir td. sparisjóðirnir. Auðvitað á að skoða íbúðarlánasjóð og reyndar fleiri þætti fyrir árið 2006.

  • Þetta er ljóta framsóknarsteypan og ekki í fyrsta skipti frá Halli. Íbúðalánasjóður fjármagnaði hluta af útlánum banka og sparisjóða, gríðarlega fjárhæð og tók þannig þátt í æðinu. Hallur kýs að líta alveg fram hjá því.

  • Hallur Magnússon

    Sverrir.

    Ef samantekt byggð á tölulegum staðreyndum og skýrum tímalínum er „framsóknarsteypa“ þá verður að hafa það.

    Það vekur athygli mína að þú hrekur ekki eitt einasta atriði. Enda erfitt fyrir þig eins og aðra:)

    Hins vegar gleymi ég engu í fjárstýringu Íbúðalánasjóðs – þótt rannsóknarnefndin hafi ekki kannað hana í kjölinn frekar en annað er varðar sjóðinn.

    Íbúðalánasjóður sat upp með tugi milljarðar vegna uppgreiðslna eldri lána. Sú fjárhæð var allt of há svo unnt væri að endurlána hana.

    Þessa fjárhæð varð sjóðurinn að ávaxta.

    Því fjárfesti Íbúðalánasjóður í skuldabréfasafni Landsbankands og Sparisjóða – skuldasafni sem var verðtryggð, voru til langs tíma og með veði í íbúðarhúsnæði.

    Um var að ræða ÞEGAR LÁNUÐ LÁN með veði í fasteign – en hvert fasteignaveðbréf aldrei hærra en 26 milljónir.

    Hin leiðin hefði verið að leggja peningana inn í Seðlabankann á lægri vöxtum. Þar hefðu peningarnir stoppa stutt – þeir hefðu farið daginn eftir inn á millibanakamarkað og inn í bankana og þaðan til viðskiptavina bankanna í formi útlána – en á lægri vöxtum!

    Hagnaður Íbúðalánasjóðs á því að fjárfesta í þegar lánuðum lánum bankanna umfram það að leggja peningana inn í Seðlabankann hefur verið rúmir 10 milljarðar fram að þessu.

    Svo því sé til haga haldið – þá leituðu stjórnendur Íbúðalánasjóðs eftir leiðum til að koma þessum peningum út úr íselnsku efnahagslífi til að slá á þenslu – en það var ekki hægt.

    Það að leggja peningana inn í Seðlabankanna – hefði engu breyt efnahagslega – en Íbúðalánsjóður tapað 10 milljörðum.

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Þetta er ágæt samantekt svo langt sem hún nær en mér finnst samt skautað fram hjá einu mikilvægu atriði. Þarna er lögð áhersla á að Íbúðalánasjóði verði ekki kennt um þensluna sem skapaðist á húsnæðismarkaðnum vegna þess að 90% lán sjóðsins hafi ekki tekið gildi fyrr en nokkrum mánuðum eftir að bankarnir komu inn á markaðinn með enn hærri lán. En hér er ekki tekið tillit til þess að það var búið að boða lánahækkun Íbúðalánasjóðs löngu áður og ekki ólíklegt að það hafi verið bönkunum hvati til að fara inn á þennan markað og yfirbjóða. Mér finnst sem sagt augljóst að áhrif af hækkun lána Íbúðalánasjóðs er ekki hægt að reikna bara frá þeim degi þegar hún tók gildi – áhrifin koma fram miklu fyrr. Það er ekki hægt að hvítþvo sjóðinn (eða auðvitað ekki sjóðinn, heldur stjórnmálamennina sem ákváðu að hækka lánin til að fá atkvæði út á það) svona auðveldlega.

  • Hallur Magnússon

    Eins og fram kemur í meginmáli skýrslunnar hafði þeim áætlunum verið frestað strax um áramótin 2003/2004.

    Það vissu forsvarsmenn bankanna.

    Ekki gleyma því heldur að bankarnir höfðu ekki verið á þessum markaði – markaðshlutdeild þeirra innan við 5% – þangað til í september 2004.

    Bankarnir fóru ekki að nota þessa röksemdafærslu fyrr en vorið 2005 – þegar þeir voru gagnrýndir fyrir útlánaþensluna. Fyrr ekki – enda um eftiráskýringu þeirra að ræða.

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Það dregur samt ekki úr ábyrgðarleysi þeirra sem lofuðu þessu í kosningabaráttu.

  • Hallur Magnússon

    Eiríkur.

    Hvaða ábyrgðarleysi var það árið 2003 að lofa 90% lánum til kaupa á hóflegu húsnæði í takt við efnahagslegar forsendur – þegar helmingur allra lána Íbúðalánasjóðs var þá þegar 90% – vegna viðbótalánakerfisins og leiguíbúðalána?

    Innleiðing almennra 90% lána í áföngum árin 2006 og 2007 hefði að óbreyttu haft óveruleg efnahagsleg áhrif.

    Það var óheft innkoma bankanna án hámarkslána – og sem lánuðu ekki einungis til kaupa og byggingu á húsnæði – heldur óheft svo fremi sem til staðar var veðrými – sem sett allt á hvolf.

    90% lánin skipta bara engu í því samhengi.

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Ja, Geir Haarde taldi þetta a.m.k. ábyrgðarleysi þótt hann léti sig hafa það til að halda völdum:

    „Auðvitað var ljóst að [Kárahnjúkavirkjun] mundi hafa þensluáhrif, sérstaklega fyrir austan, og það sem ég vitna til í minni landsfundarræðu, sem var vitnað í hérna áðan, er það að ef það er hægt að saka okkur um einhver mistök í hagstjórninni varðandi þetta, þá er það ekki það að hafa ráðist í þessa virkjun því hún var mjög nauðsynleg og á eftir að vera hér mikil stoð í framtíðinni í efnahagslífi, heldur það að hafa farið í aðra hluti við hliðina á sem ekki voru heppilegir og ekki voru rétt tímasettir, hækkun á lánum Íbúðalánasjóðs, lækkun vaxta hjá Íbúðalánasjóði, þetta voru hrein mistök og því miður verður maður að viðurkenna hreinskilnislega að um þetta hafði maður náttúrlega miklar efasemdir, en um þetta var samið við ríkisstjórnarmyndunina 2003 og ef það hefði ekki verið gert þá hefði sú ríkisstjórn ekki verið mynduð. Þetta er nú bara svona er hluti af veruleika stjórnmálamannsins að stundum þarf að taka tillit til þessa atriðis.“ (Bls. 124 í 1. bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis).

  • Hallur Magnússon

    Ekki gleyma því að Geir Haarde varð fyrir allnokkru aðkasti fyrir áhrif skattalækkunartillagna Sjálfstæðisflokksins og neikvæð áhrif þeirra á efnahagslífið.

    Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins tók hann undir eftiráskýringar bankanna – til að verja sjálfan sig.

    Hann virðist ekki hafa verið betur inn í málunum en að fara rangt með um staðreyndir þess sem raunverulega gerðist árið 2004.

    Staðreynd málsins er – andstætt því sem Geir segir – að raunvextir hjá ÍLS lækkuðu ekki við breytinguna 1. júlí 2004 -heldur hækkuðu þeir.

    Vaxtalækkunarferlið fór af stað árið 2001 – og hafði ekkert með breytingarnar hjá ÍLS að gera. Hins vegar hafði snarlækkun vaxta bankanna og óheft útlán þeirra skelfileg áhrif.

    Þú ættir – Eiríkur – að lesa greinargerðina sem ég vísa í.

    Í samantektinni hér að ofan segir réttilega:

    „Raunvextir á almennum íbúðalánum hafa frá upphafi húsbréfakerfisins verið ákvarðaðir á markaði en ekki með ákvörðunum stjórnvalda. Það er því misskilningur að Íbúðalánasjóður hafi lækkað raunvexti við breytingu á útlánum Íbúðalánasjóðs úr húsbréfakerfi í peningalán.

    Ferli vaxtalækkunar á íbúðalánum hófst síðari hluta árs 2001 löngu áður en ákvarðanir stjórnvalda um breytingar á fyrirkomulagi útlána voru teknar. Vaxtalækkanir á lánum Íbúðalánasjóðs árið 2004 og 2005 hefðu orðið verulegar þótt húsbréfakerfið hefði ekki verið lagt niður. Stjórnvöld gátu á engan hátt komið í veg fyrir slíkar vaxtalækkanir með sértækum aðgerðum þar sem raunvextirnir ákvörðuðust á markaði hvort sem um var að ræða húsbréfakerfið eða hin nýju peningalán Íbúðalánasjóðs.“

  • Eiríkur Rögnvaldsson

    Já, ég renndi nú yfir greinargerðina. Ég hef hvorki tíma né forsendur til að leggjast í röksemdafærsluna og get þar af leiðandi hvorki tekið undir hana né hafnað, en auðvitað verður að taka tillit til þess að þetta er ekki hlutlaus greinargerð, heldur eins konar varnarviðbrögð Íbúðalánasjóðs við skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Það táknar auðvitað ekki að greinargerðin sé röng, en það verður samt að skoða hana í þessu ljósi. Og ég sé ekki að Geir nefni 1. júlí 2004. Það sem ég hafði eftir honum er ekki af landsfundi Sjálfstæðisflokksins heldur úr yfirheyrslum hjá Rannsóknarnefndinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur