Mánudagur 13.12.2010 - 15:26 - 11 ummæli

Íslenskur landbúnaður umhverfismál í ESB

Íslenskt lambakjöt selst nú sem aldrei áður í útlöndum og það á afar góðu verði. Markaður í Evrópusambandinu fyrir íslenskt lambakjöt er miklu stærri en Íslendingar fá að anna. Ástæðan eru tæknilegar viðskiptahindranir Evópusambandsins í formi takmarkaðra innflutningskvóta fyrir íslenskt lambakjöt.
 
Vonandi mun Evrópusambandið auka verulega við innflutningskvóta Íslendinga á næstunni. En framtíðarlausnin er hins vegar algjört afnám tollaverndarinnar þegar Ísland gengur í Evrópusambandið.
 
Stóraukin sala á íslensku lambakjöti til útlanda að undanförnu styður það sem ég hef lengi haldið fram. Innganga Íslands í Evrópusambandið mun styrkja hefðbundinn íslenskan landbúnað.
 
Sauðfjárræktin mun blómstra sem aldrei fyrr og hin einstaka íslenska mjólk mun flæða í formi skyrs, smjörs og annarra mjólkurafurða inn á hinn stóra neytendamarkað sem lönd Evrópusambandsins er. Það eru nefnilega nægilega margir Evrópubúar sem vilja og geta keypt hágæða landbúnaðarvöru á háu verði.
 
Það eina sem þarf að tryggja er að hefðbundinn íslenskur landbúnaður haldist áfram sem hefðbundinn íslenskur landbúnaður. Þó með þeirri breytingu að íslenskir bændur geti lifað sómasamlegu lífi í stað þess hokurs og fátæktargildru sem íslensk stjórnvöld hafa skapað þeim á undanförnum árum.
 
Það er tiltölulega einföld leið að tryggja það í aðildarsamningum við Evrópusambandið. Við göngum frá samningum um íslenskan landbúnað á grundvelli umhverfismála en ekki á grundvelli landbúnaðarmála.
 
Við eigum að fara fram á að Evrópusambandið viðurkenni íslensku sauðkindina og íslenska kúastofninn sem einstaka dýrastofna – sem þeir eru – og á grundvelli þess að tryggja lífræna fjölbreytni og vernd dýrategunda – þá verði sú sérstaða íslenskra húsdýrastofna viðurkennd.
 
Leiðin til þess að viðhalda þeirri fjölbreytni er annars vegar að koma í veg fyrir innflutning nýrra fjárstofna og kúastofna og fá það viðurkennt að til þess við getum verndað íslensku sauðkindina, íslensku kúnna og ef út í það er farið íslenska hestinn og íslensku geitina, þá verði að tryggja áframhaldandi rekstur hefðbundins íslensks landbúnaðar í íslenskum byggðum. Fjölbreytileikanum verði ekki viðhaldið í genabönkum og húsdýragörðum.
 
Með slíkri vernd íslensks landbúnaðar er framtíð landbúnaðarins tryggð – enda eru neytendamarkaðir Evrópusambandsins nægilega stórir til að koma úrvals, hágæða landbúnaðarvöru íslenskri í verð á verði sem er að minnsta kosti sambærilegt við það verð sem við greiðum fyrir landbúnaðarvörurnar í dag.
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • þetta er það sama og ég hef sagt öllum sem vilja og ekki vilja heyra!

    við inngöngu í ESB verður markaðurinn fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir 300.000.000 manns, en ekki 300.000. og bónusinn er að við getum markaðssett afurðirnar sem „fritgående“ eins og Danir kalla það, og það þýðir að við getum haft íslensk verð áfram á þessu (þ.e.a.s. að selja þetta a.m.k. 30% of dýrt). Það eru nefnilega mikið af fólki í Evrópu sem myndi kaupa svona afurðir dýrum dómum.

  • Viljiði að lambakétið veri svo dýrt að Íslendingar geti ekki haldið jól heima vegna hangiketsskorts? Síðan verðiði að viðurkenna að skrifræðið sem fylgir styrkjakerfi landbúnaðar innan ESB er svo magnað að bændur munu þurfa að ráða sér endurskoðanda til að halda utanum búreikningana. Ef ekki þá kemur bara bakreikningur sem setur búin á vonarvöl.

    Finnar finna mjög fyrir þessu. Til að komast hjá bakreikningum vegna landbúnaðar reka Finnar ítarlegt og strangt eftirlitskerfi sem telur hvert sauðatað sem borið er á túnin og stækkun búa án leyfis er stranglega refsað. Haldiði að Íslenskir búskussar muni standa í fæturnar eftir inngöngu í ESB ef þeir þurfa að vinna samkvæmt reglugerðum. Það er óþarfi að nota spurningarmerki eftir þessa staðhæfingu.

  • Hallur Magnússon

    Gísli.

    Rökin þín gegn inngöngu eru þá að það sé ekki hægt því Íslendingar séu búskussar?

  • Á vegum bænda kom formaður finnskra bænda og var eldhress með reynsluna innan ESB. Væri ekki ráð að svara Halli, nafni?

  • stefán benediktsson

    „í stað þess hokurs og fátæktargildru sem íslensk stjórnvöld hafa skapað þeim á undanförnum árum“ Hallur vertu nú sanngjarn! „Íslensk stjórnvöld?“. Afkoma bænda er svo gersamlega í höndum þeirra sjálfra að skrifstofur samtakanna eru stærri en ráðuneytið, þeir safna sjálfir gögnum, deila sjálfir úr sjóðum, gefa út eigið málgagn og segja að ekki megi hreyfa við stjórnsýslulegri stöðu þeirra, en ESB hefur bent á alvarlega bresti í þessari stjórnsýslu með tilliti til almannahagsmuna. Löggjafinn hefur lengstum haft lítið um hokur bænda að segja.

  • Hallur Magnússon

    Stefán.
    Íslenskir bændur vinna á grunni íslenskra laga, reglugerða og samninga við ríkisvaldið.
    Stjórnsvöld bera ábyrgð á því – ekki satt?

  • Hallur Magnússon

    … en Stefán!

    Mér þykir svolítið skemmtilegt að þú taki til varna fyrir Halldór Blöndal og Guðna Ágústsson!

  • Gunni gamli

    Gleymist ekki aðalatriðið í málinu þegar rætt er um útflutning íslenskra landbúnaðarafurða.
    Söluverð er langt undir framleiðslukostnaði

  • Jón Halldór

    Þarna kemur Gunni inn á merkilegt atriði.
    Í fyrsta lagi er rétt hjá honum að söluverð er undir framleiðslukostnaði.
    Í annan stað fá Íslenskir bændur aðgang að styrkjum að landbúnaðarstyrkjum ESB, ef við göngum þar inn.
    Í þriðja lagi fá íslenskir bændur stærra markaðssvæði og eiga tækifæri til að efla framleiðsluna og auka þannig hagkvæmni.
    Í fjórða lagi er íslensk landbúnaðarvara og verður vonandi áfram vara sem er eftirsótt vegna hollustu og hreinleika og ætti að öllu eðlilegu að verðleggjast sem gæðavara.
    Í fimmta og síðasta lagi vona ég að bændur og landsmenn allir skoði þetta mál allt frá öllum hliðum, áður en endanleg afstaða til málsins er tekin.

  • Það er glórulaust að vera með útflutning á lambakjöti nema skilaverð dugi fyrir framleiðslukostnaði. Íslenskir skattgreiðendur eiga ekki að borga kjöt ofan í erlendan markað, nóg er að þurfa að niðurgreiða ofaní landsmenn sjálfa. Framleiðsla lambakjöts verður að vera í samræmi við innlenda eftirspur. Ég man vel eftir því þegar verið var að selja kjöt til Færeyja og Svíþjóðar í kringum 1980 og verð á þessum mörkuðum og í USA er ekkert betra en þá. Allt tal um að þetta séu svo fín verð að bölvað rugl.

  • Skúl Guðbjarnarson

    Ég er hjartanlega sammála þér Hallur.

    Við þurfum ekki annað en að líta á bleikjuútflutning til að sjá hvernig aðrar landúnaðargreinar myndu spjara sig við sömu aðstæður.

    Bleikja skilar háu verði vegna þess að hún er sjaldgæf lúxusvara.

    Bændur eru engir búskussar og ef þeir væru ekki í viðjum opinberrar stjórnsýslu og annara hafta, væru kjör þeirra betri.

    Ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskir bændur myndu markaðssetja sig með stæl í Evrópu og uppskera ríkulega eins og þeir eiga skilið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur