Þriðjudagur 14.12.2010 - 08:43 - 2 ummæli

Tannálfa í grunnskólana!

Það vantar tannálfa í grunnskólann. Tannheilsu barnanna okkar hefur hrakað verulega á undanförnum árum. Við erum að upplifa það sama og ljósálfarnir í álfheimum í hinu frábæra barnaleikriti Benedikt búálfur. Þegar Tóti tannálfur var numinn á brott af svartálfum, þá fengu ljósálfarnir tannpínu.

Þegar ég var í grunnskóla þá var tannálfur í skólanum í gervi skólatannlæknis. Skólatannlæknirinn fylgdist með tannheilsu barnanna og gerði við tennurnar þegar þess þurfti.  Fyrir allmörgum árum var þessi tannálfur numinn á brott með kerfisbreytingum. Afleiðingarnar eru þær sömu í grunnskólanum og í álfheimum. Tannpína og verri tannheilsa barnanna okkar.

Það voru og eru góð og gild rök fyrir því að ríkisvaldið sjái ekki um tannviðgerðir í grunnskólanum með ríkisreknum tannlækni, heldur sjái tannlæknar hverrar fjölskyldu fyrir sig um eftirlit og tannviðgerðir skólabarna. Enda gert ráð fyrir að Tryggingastofnun taki þátt í þeim kostnaði.

Hins vegar er staðreyndin sú að við foreldrarnir höfum brugðist börnunum okkar með því að trassa að tryggja reglubundið tanneftirlit. Ekki hvað síst eftir að efnahagslífið hrundi, dýrtíð jókst og skattpíning fór upp úr öllu valdi.

Mánuðirnir og árin fjúka hjá og það gleymist að panta tannlæknatíma fyrir börnin þar til allir vakna upp við vondan draum – og slæma tannpínu og tannheilsu. Þá er rokið af stað, en skaðinn skeður.

Þótt ég sé ekki mikið fyrir forræðishyggju þá held ég að þegar um tannheilsu barnanna okkar er að ræða – þá verðum við að breyta um takt. 

Við eigum að fá tannálfa í formi tannfræðinga eða tannlækna inn í grunnskólana til að sjá um tanneftirlit og tannfræðslu. Slíkir tannálfar ættu að skoða öll grunnskólabörn reglubundið – og ef Karíus og Baktus eru að láta á sér kræla – þá vísi tannálfurinn í skólanum börnunum til fjölskyldutannlæknisins sem sjái um að fylla í holurnar þeirra og skola þeim félögum á haf út.

Og að sjálfsögðu á að greiða tannlækningar – og tannréttingar á börnum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þrátt fyrir erfiða stöðu ríkissjóðs. Tannvernd barna er fjárfesting til framtíðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Stefán Snævarr

    Hallur, vandamálið er ekki tannlæknaskortur heldur fyrirlitlegir rauðríkja-amerískir (ó)lifnaðarhættir, geðveikskennt gosþamb o.s.frv.

  • Hallur Magnússon

    … vandamálið er að fyrirlitlegir rauðríkja-amerískir (ó)lifnaðarhættir, geðveikskennt gosþamb o.s.frv. veldur tannskemdum – sem tannálfurinn verður að uppræta

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur