Mánudagur 20.12.2010 - 22:41 - 12 ummæli

Þegar bankarnir stálu jólunum!

Jólin 2004 hafði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu rokið upp úr öllu valdi á fjórum mánuðum. Það var í boði bankanna.
 
Alþingi hefur nú ákveðið að láta gera óháða rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs og meðal annars meint áhrif sjóðsins á hækkun húsnæðisverðs og þenslu haustið 2004. Slík rannsókn er afar mikilvæg til þess að hrekja þær rangfærslur sem gengið hafa um Íbúðalánasjóð og rötuðu alla leið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 
 
Gagnstætt því sem margir hafa haldið fram og rannsóknarnefnd Alþingis kokgleypti án rannsóknar þá var það innkoma bankanna á íbúðalánamarkað og gegndarlaus útlán þeirra til heimila sem var meginástæða stórhækkunar á húsnæðisverði og þenslu frá því í ágúst 2004 fram á árið 2008.  
 
Ekki Íbúðalánasjóður og þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulagi og útlánareglum hans enda varð sprengingin í húsnæðisverðinu eftir að bankarnir komu inn á markaðinn og áður en hin svokölluðu almennu 90% lán Íbúðalánasjóðs voru heimiluð. 
 
Þetta má sjá á myndinni hér að neðan:
 
Guli hlutinn sýnir það tímabil sem bankarnir voru á íbúðalánamarkaði. 
 
Eins og sést þá tekur húsnæðisverð stökk í kjölfar þess að bankarnir hefja að lána íbúðalán og hefur það hækkað umtalsvert áður en Íbúðalánasjóður fær heimild til 90 lána.

Reyndar höfðu 90% lán Íbúðalánasjóðs engin áhrif á verðlag íbúða á höfuðborgarsvæðinu þar sem sjóðurinn veitti einungis nokkra tugi slíkra lána þar.

Þótt rannsóknarnefnd Alþingis haldi fram að breytingar á lánafyrirkomulagi Íbúðalánasjóðs hafi verið orsök þeirrar miklu þenslu sem varð á fasteignamarkaði og í efnahagslífinu á síðari hluta ársins 2004 og allt fram á árið 2008, þá var greiningardeild KB banka á annarri skoðun í desember 2004 eins og eftirfarandi tilvitnun í frétt á Stöð 2 staðfestir:

„Fasteignaverð hefur aldrei hækkað jafnhratt á höfuðborgarsvæðinu og undanfarna þrjá mánuði. Verðið hefði hins vegar lækkað eða staðið í stað ef íbúðalán bankanna hefðu ekki komið til, að mati greiningardeildar KB-banka…“
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Íslendingur.

    Já .. það er hægt að fegra hlutina á hina ýmsu vegu.

    íbúðarlánasjóður gat lánað bönkunum á betri vöxtum en hann lánaði einstaklingum þannig einstaklingarnir fóru í bankana og tóku lánin frá íbúðarlánasjóði í gegnum bankana. Er það ekki rétt ??
    Er það kannski bara lygi.

  • Svona fer þegar horft er stíft í gegn um flokksgleraugun Hallur. Er ekki ráð að bíða eftir niðurstöðum rannsóknar?

  • Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Lýðskrum og ábyrgðaleysi Framsóknarflokksins var algjör á þessum tíma. Og í stað þess að taka þá á málinu af ábyrgð og festu, þegar bankarnir komu inn á markaðinn, þá var Íbúðalánasjóður settur á fullt í samkeppni við bankana allt í nafni kosningaloforðs flokksins. Þetta er staðreynd málsins.

  • Hallur Magnússon

    Íslendingur.

    Þetta er ekki allskostar rétt. Bankarnir höfðu lánaðr um 130 milljarðar á stuttum tíma og uppgreiðslur orðið miklar hjá Íbúðalánasjóði. Sjóðurinn varð að fjárfesta það fé – þar til hann gæti nýtt féð til að greiða af fjármögnunarbréfum sínum.

    Í desembermánuði 2004 – eftir verðbólusprenginguna – gerði Íbúðalánasjóður lánasamning við Landsbankann og sparisjóðin – ekki Kaupþing og Íslandsbanka – og keypti þegar lánuð fasteignatryggð þessara aðilja. ÞEGAR LÁNUÐ.

    Þau bréf voru verðtryggð, langtímalán – sem var nákvæmlega það sem ÍLS þurfti fjárstýringar sinnar vegna.

    Hin leiðin fyrir ÍLS hefði verið að leggja peningana inn í Seðlabankanna á mun lægri vöxtum. Þaðan hefðu peningarnir farið beint inn á millibankamarkað og bankarnir allir geta tekið fjármunina að láni.

    Efnahagsleg áhrifin hefðu orðið þau sömu – en ÍLS orðið af 10 – 15 milljörðum í vaxtatekjur.

    Sverrir.

    Í fyrsta lagi er ég ekki í flokki – og í öðru lagi þá hefur þetta ekkert með flokksgleraugu að gera. Þetta eru tölulegar og tímaklegar staðreyndir – sem rannsóknarnefnd Alþingis skoðaði ekki!

    Við skulum bíða eftir niðurstöðu rannsóknarinnar. Rannsóknarnefndin getur ekki komist að annarri niðurstöðu um tímaröð og tölulegar staðreyndir 🙂

    Það er það sem er svo gott við rannsóknina – hún leiðréttir þann misskilning sem hefur verið í gangi um langt skeið.

    Ingvar.

    Þetta er hreinlega rangt hjá þér. Það var tekið af málinu af ábyrgð og festu. Íbúðalánasjóður var ekki í samkeppni við einn eða neinn. Sjóðurinn vann eftir fyrirliggjandi lögum og reglugerðum – og samningi um Evrópska efnahagssvæðið – sem varð til þess að sjóðurinn GAT EKKI HÆKKAÐ VAXTAÁLAG TIL AÐ HÆKKA VEXTI! Vaxtaákvörðunin var gagnsæ – og reyndar það litka svigrúm sem sjóðurinn hafði til að hafa áhrif á vaxtastigið VAR NÝTT TIL HÆKKUNAR VAXTA!

    Reyndar – gagnstætt því sem sumir hafa haldið fram, – þamt. Geir Haarde – þá HÆKKUÐU RAUNVEXTIR útlána ÍLS í kjölfar breytinga á sjóðnum. Breytingarnar urðu þegar 2 ára vaxtalækkunarferli húsbréfa stöðvaðist og raunvextir Íbúðalánasjóðs tóku að hækka á ný.

    Hins vega rmunaði verulega um helmingslækkun á vöxtum bankanna. Þar er orsök þenslunnar.

  • Hallur Magnússon

    Ingvar.

    Ekki heldur gleyma því að um áramótin 2003/2004 – 8 mánuðum áður en bankarnir komu inn á markaðinn – þá hafði félagsmálaráðherra sent út yfirlýsingu um að innleiðing almennra 90% lána yrði frestað – og ákvörðun um slík lán yrði tekin þegar lægi fyrir niðurstaða ESA um lögmæti lánanna. Sú niðurstaða kom 10 dögum áður en bankarnir komu inn á markaðinn.

    Bankarnir vissu vel að innleiðing 90% lána var á ís – og að henni yrði frestað fram yfir þensluskot vegna Kárahnjúka.

    Það hentaði bara ekki bönkunum – og stjórnvöld – sem fengu heimild Alþingis um 90% lánin í desember 2004 – 4 mánuðum eftir innkomu bankanna – ákváðu að innleiða þau strax – enda engin efnahagsleg rök fyrir að geyma það eftir innkomu bankanna og þá þenslu og hækkun húsnæðisverðs sem sú innkoma hafði þegar valdið!

    Enda var hámarkslán ÍLS svo lágt að einungis örfáir tugir 90% lána voru lánuð á höfuðborgarsvæðinu. Lán til minni íbúða voru nánast öll gegnum bankana.

  • „Þegar bankarnir stálu framtíðinni“ væri meira við hæfi. Takk fyrir góðan pistil.
    Kveðja að norðan.

  • Þú misskilur um margt gagnrýni rannsóknarnefndar Alþingis. Hún er sú að það hafi verið með mestu hagstjórnarmistökum, að víkka út útlánaheimildir ÍLS, á sama tíma og útlán bankanna voru að eiga sér stað. Íbúðamarkaðurinn – sem byggði á verðtryggðum skuldum – hleypti verðbólgunni af stað þar sem hann er mældur inn í neysluvísitöluna, engar skuldir voru borgaðar niður á meðan þetta gekk yfir heldur nánast eingögnu verðbætur. Það er ágætis viðmið á það hvort markaðurinn er í jafnvægi eða ekki, ef geta til þess að greiða niður skuldir er fyrir hendi. Deilan um tímasetningar í þessu samhengi er deila um aukaatriði, en ekki aðalatriði.

    „Það hentaði bara ekki bönkunum – og stjórnvöld – sem fengu heimild Alþingis um 90% lánin í desember 2004 – 4 mánuðum eftir innkomu bankanna – ákváðu að innleiða þau strax – enda engin efnahagsleg rök fyrir að geyma það eftir innkomu bankanna og þá þenslu og hækkun húsnæðisverðs sem sú innkoma hafði þegar valdið!“ segir þú.

    Þetta eru rangar ályktanir hjá þér. Það voru einmitt mikil og rík efnahagsleg rök fyrir því að bregðast við með þveröfugum hætti, sleppa því að uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins og draga úr útlánum og bregðast við með aðgerðum til að draga úr þenslu og ofhitnun. Einmitt vegna þess að það voru augljós merki um að húsnæðismarkaðurinn væri að ofhitna.

    Þetta voru mikil hagstjórnarmistök, einmitt vegna þess aðgerðir í þá átt, að hefta frekar útlán ÍLS til íbúðakaupa, hefði verið rökrétt aðgerð til að sporna við mestu ofhitnun hagkerfis í sögunni og senda þau skilaboð út, að stjórnvöld vissu eitthvað hvað var að gerast. En það var auðvitað ekki raunin hjá yfirráðuneyti ÍLS fremur en öðrum ráðuneytum og stofnunum. Þau virtust frekar hlusta á Félag fasteignasala, sem ruglaði tóma þvælu um markaðinn og „nútímavæðingu“ hans með meiri útlánum.

    Svo er annað: Sú hugmynd að lána fólki fé á niðurgreiddum vöxtum til að kaupa húsnæði er í uppnámi á heimsvísu eftir hamfarirnar. Kannski þarf að endurskoða hana frá grunni, og spyrja: Gengur þetta yfir höfuð upp, sérstaklega með verðbólguskapandi gjaldmiðil og verðtryggðar skuldir?

    Annað varðandi ÍLS. Hvers vegna var milljörðum af fé ÍLS eytt í að kaupa skuldatryggingar á Kaupþing og hver óskaði eftir þeim kaupum? Hvaða hagsmuni hafði ÍLS af þeim kaupum? Þessi viðskipti eru meðal þeirra sem leiddu til þess að sjóðurinn uppfyllir ekki skilyrði um eigið fé og þarf yfir 30 milljarða frá ríkinu til að uppfylla skilyrði um starfsemi hans.

    kv
    MH

  • Hallur Magnússon

    MH.

    Ég er ekki að misskilja Rannsóknarnefnd Alþingis.

    Hluti skýrslunnar sem sneri að ÍLS var ótrúleg handvömm – enda rannsakaði nefndin málið nákvæmlega ekki neitt – heldur kokgleypti greinargerð hagfræðings úr Seðlabankanum gagnrýnilaust og eftiráskýringar Geirs Haarde!

    Kjarni málsins er að 90% lánin urðu aldrei 90% lán – þótt formlega hafi fengist heimild fyrir þeim í desember 2004. Enfahagsleg áhrif þeirra VORU ENGIN á höfðuborgarsvæðinu – auk þess sem útlán ÍLS drógust verulega saman – og með því að hækka EKKI hámarkslán ÍLS var EINMITT brugðist við að draga enn frekar úr útlánum sjóðsins.

    Ekki gleyma að markaðshlutdeild bankanna gagnvart ÍLS fór úr 2% í ágúst 2004 í nær 90% í september 2004 – janúar 2005 – og var yfir 80% fram á sumar 2005!

    Ég sé að þú hefur skilning á hagfræði – en hefur greinilega ekki kynnt þér tölfræðilegu gögnin.

    Það er rétt hjá þér að EF útlán ÍLS hefðu haft einhver áhrif á fasteignaverð – þá væri kenning þín rétt!

    Vandamálið var náttúrlega aðgerðarleysi >Seðlabankans – sem hækkaði ekki bindiskyldu – til að hefta útlánaþenslu bankanna.

    MH.

    Ég get ekki svarað fyrir því af hverju hluta þeirra lausafjármuna Íbúðalánasjóðs fóru í viðskipti með skuldaatryggingar Kaupþings. Það var eftir að ég hætti í sjóðnum. En þau viðskipti hlupu ekki á milljörðum eins og þú gefur í skyn – heldur voru þau klink miðað við heildar lausafé sjóðsins sem ávaxta þurfti.

    Hins vegar verður að hafa það í huga að Íbúðalánasjóður verður að hafa á lausu fé til að standa undir afborgunum af fjármögnunarbréfum sínum 6 mánuði fram í tímann. Það fé þarf að ávaxta á meðan. ÍLS gerði það með því að dreifa lausafénu um íslenska bankakerfið á það sem talið var vera traust skammtímafjárfesting.

    Stærsti skellur ÍLS var vegna innlána í Straum – sem var með AAA í lánshæfismat – 26% CAD – og hæstu vextina! Allir töldu þá fyritæki afar traust – traustara en flestir á markaði á Íslandi.

    Ekki gleyma því að heilt bankakerfi fór á hausinn – og ÍLS var einmitt með laudafé sitt í „öruggri“ ávöxtun þar!

    Þrátt fyrir skellinn stóð sjóðurinn af sér hrunið – eina stóra fjármálastofnunin á Íslandi – meira að segja Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota.

    Aðeins með niðurgreiddu lánin. það er rétt að bankarnir niðrugreiddu íbúðalánin sín – en ÍLS gerði – og það ekki. Lán ÍLS eru fjámögnuð með skuldabréfaútboðum og endurlánum með þeirri ávöxtunarkröfu sem kemur úr útboðinu að viðbættu álagi.

    Hins vegar voru lán í gamla félagslega húsnæðiskerfinu niðurgreidd. Það endaði með rúmlega 30 milljarða gjaldþroti að núvirði 1998.

    MH

    Það er líka rangt að Íbúðalánasjóður þurfi 30 milljarðar til að uppfylla skilyrði fyrir starfsemi sjóðsins.

    18 milljarðar eru vegna ákvörðunar stjórnvalda um niðurfærslu lána í 110% – 15 milljarðar er til að upp fylla langtímamarkmiði um 5% CAD hlutfall sjóðsins. Sú fjárveiting var alls ekki nauðsynleg – heldur ákvörðun stjórnvalda stjórnvalda.

    Deutsche Bank ráðlagði að CAD hlutfallið yrði 2,5% – en vegna þrýstings frá fjármálaráðuneyti var ákveðið að hafa LANGTÍMAMARKMIÐ sjóðsíns 5% í CAD. Röksemdafærslan fyrir því var að með því væri minni líkur á að ríkissjóður þyrfti að leggja sjóðnum til fé til að standa undir afborgunum af íbúðabréfum !!!!!!

    Það er engin hætta á greiðslufalli ÍLS á næstu misserum – og innspýtingin því óþörf. En ef stjórnvöld vilja gera þetta – þá er það náttúrelga þægilegra fyrir sjóðinn!

    En takk fyrir gott innlegg!

  • I. „En þau viðskipti hlupu ekki á milljörðum eins og þú gefur í skyn – heldur voru þau klink miðað við heildar lausafé sjóðsins sem ávaxta þurfti.“ Þetta segir þú.

    „Stærstan hluta tapsins í síðasta ársuppgjöri má rekja til viðskipta Íbúðalánasjóðs með skuldatryggingar Kaupþings seint á árinu 2007. Á þeim viðskiptum einum tapaði sjóðurinn sex milljörðum króna en í stefndi að hann myndi tapa 9,2 milljörðum. Starfsmönnum Straums-Burðaráss tókst hins vegar að lágmarka skaðann við uppgjör bréfanna. Létu Straumsmenn betri endurheimtur skila sér beint til viðskiptavinarins, í þessu tilviki Íbúðalánasjóðs. Með því að gefa það eftir tóku stjórnendur Íbúðalánasjóðs þá ákvörðun að leggja peninga á innlánsreikning Straums. Það var á þeim tíma sem Straum vantaði lausafé við þrengingar eftir fall bankanna.“

    Þetta kom fram í Viðskiptablaðinu í febrúar á þessu ári. Athyglisvert að ÍLS sér bullandi kauptækifæri í lok árs 2007, þegar álagið rauk upp með falli hlutabréfamarkaðins og Gnúps, eins af stærstu hluthöfum Kaupþings. Þú getur eflaust hringt eitt símtal og skýrt þetta. Þetta lítur ekki vel út, var óumdeilanlega óskynsamlegt og skaðlegt fyrir eigendur ÍLS, skattgreiðendur. Og skaðinn var upp á milljarða en ekki neitt klink. Aftur: Hver ákvað þetta, hvers vegna og að ósk hvers? Var einhver Framsóknarmaður í Kaupþingi sem þekkti einhvern Framsóknarmann í ÍLS?

    II. ÍLS er með ríkisábyrgð. Í henni felst niðurgreiðsla á allri lánastarfsemi, sér í lagi sem felst að grunni til í sölu á verðtryggðum skuldum til lífeyrissjóða. Undirliggjandi í allri starfsemi ÍLS er eitthvað huglægt slagorð um að allir hafi rétt á því að taka lán og kaupa íbúð. Málið er að einmitt þessi hugsun er í uppnámi á heimsvísu. Það var það sem ég átti við. Fannie Mae og Freddie Mac voru líka með falska ríkisábyrgð. Hún var fölsk að því leyti, að traustið til þeirra var mikið meira en efni stóðu til og þar blindaði ríkisábyrgðin mönnum sýn. Kjörin sem viðskiptavinum buðust voru að þessi leyti niðurgreidd, miðað við raunverulega áhættu sem fylgdi starfseminni. Þetta snýst um að lána fólki fé sem getur greitt það til baka. Þegar lánað er til 20 eða 40 ára, verðtryggt, í minnsta og versta gjaldmiðli heims – sem beinlínis skapar verðbólgu með því að veikjast og styrkjast eins og korktappi í ólgusjó – þá er um mikla áhættu að ræða. Þannig finnst mér að eigi að meðhöndla þessa lánastarfsemi, fremur en að leggja sjóðnum til fé annað slagið þegar afskrifa þarf skuldir viðskiptavina, vegna að þess að lánin reyndust áhættumeiri en talið var í upphafi.

    III. Ég er ósammála þér í þessu: „Það er rétt hjá þér að EF útlán ÍLS hefðu haft einhver áhrif á fasteignaverð – þá væri kenning þín rétt!“

    Útlán ÍLS, þó lítil hafi verið í samanburði við ófreskjubankanna, þá voru þau hluti af markaðnum. Ekki síst þegar heildarhluti allra útistandandi lána er skoðaður. En ef menn trúa því, að stjórnvöld geti ekki haft áhrif á hagstjórn í gegnum útlánastofnanir sínar, þá er það auðvitað valid skoðun. Ég held einmitt að það hefði átt að stíga miklu fastar á allar bremsur sem stjórnvöld höfðu til að senda rétt skilaboð út á markaðinn. Bankarnir hefðu eflaust ekki stoppað, en að minnsta kosti hefði menn geta sagt: við reyndum hvað við gátum.
    kv
    MH

  • Hallur Magnússon

    I.

    Viðskiptablaðið hefur ekki alltaf verið besta heimildin um málefni Íbúðalánasjóðs. Viðskipti Íbúðalánasjóðs við Straum og Kaupþings voru ekki nema að hluta vegna skuldatrygginga.

    Ekki að ég ætli að verja þau viðskipti per se.

    Eins og ég sagði áður – þetta er eftir að ég hætti í sjóðnum.

    Væntanlega hefur sviðsstjóri fjárstýringarsviðs ákveðið þau viðskipti – enda yfirmaður fjárstýringar. Veit ekki til þess að hann sé Framsóknarmaður frekar en aðrir sviðsstjórar Íbúðalánasjóðs.

    Þetta mun væntanlega allt koma upp á yfirborðið við rannsóknina á ÍLS.

    II.

    Íbúðalánasjóður ber ríkisábyrgð. Það er rétt. En sú ríkisábyrgð er ekki niðurgreiðsla.

    Ekki gleyma því að góð vaxtakjör ÍLS hafa ekki einungis byggt á ríkisábyrgðinni – heldur því örugga og dreifða greiðsluflæði sem felst í því að sjóðurinn er með mjög dreifð lán og lágt veðhlutfall í tugþúsunda fasteignum landsmanna þar sem sjóðurinn er á 1. veðrétti.

    Lán ÍLS hafa alls ekki reynst áhættusamari en talið var. Þvert á móti. Hins vegar gerir ákvörðun stjórnvalda um niðurfærslu lána í 110% af núverandi verðmati eigna – hvort sem um greiðslufall eða greiðslufall ekki er um að ræða – það að verkum að sjóðurinn mun afskrifa milljarða sem han hefði annars ekki þurft að afskrifa. það er sértæk stjórnvaldsákvörðun – og þess vegna leggur ríkið til 18 milljarða.

    Sammála þér með ónýta gjaldmiðilinn.

    III.

    Hefur þú skoðað tölulegar staðreyndir um útlán ÍLS?

    Heldur þú virkilega að ef hámraksláni ÍLS hafi verið haldið í 10 milljónum – í stað þess að fara í 14,9 þegar allir bankar buðu 80%-100% af MARKAÐSVIRÐi eignar – og óheft hámarskslán – að það hefði skipt einhverju máli?

    Ertu búinn að gleyma því að lán Íbúðalánasjóðs voru takmörkuð við brunabótamat – sem var langt undir markaðsvirði á höfuðborgarsvæðinu – þegar bankarnir lánuðu eftir markaðsverði?

    Ef það hefði verið gert – þá hefðu lán ÍLS sem fyrst og fremst voru hófleg g lán á landsbyggðinni á þessum tíma – ekki verið sá grunnur sem hann varð til að koma í veg fyrir gjaldþrot sjóðsins í kjölfar aðfarar bankanna.

    Þú segir: „Bankarnir hefðu eflaust ekki stoppað, en að minnsta kosti hefði menn geta sagt: við reyndum hvað við gátum.“

    Hvar sætum við þá núna?

    Jú, með jafn gjaldþrota banka, sömu efnahagslegu áhrif og illa gjaldþrota Íbúðalánasjóð!

  • Hallur Magnússon

    Svona í lokin MH.

    Af hverju í ósköpunum hafið þið á Viðskiptablaðinu í gegnum tíðina ekki kynnt ykkur betur raunveruleg töluleg gögn um rekstur Íbúðalánasjóð áður en þið missið ykkur í hæpin skrif?

    Ég veit þið eruð á móti ríkisrekstri – og það er sjónarmið sem á fullkomlega rétt á sér – en þið hafið mjög oft verið í besta falli á hálum ís í umfjöllun ykkar um sjóðinn!

    Tala nú ekki um í slúðurdálkunum!

    Þú veist það náttúrlega – en mér hefur á stundum þótt þetta sérsakt.

    Sérstaklega þegar þið hafið valið að horfa fram hjá gögnum sem þið hafið haft undir höndum – en valið að nota ekki því það hentaði ekki ykkar missjón?

  • Til áréttingar, þá erum við sammála um þessi mál að langstærstum hluta. Ég hef alltaf verið sammála þér um að bankarnir bera mesta ábyrgð á húsnæðismarkaðsþenslunni. En svo virðumst við ekki vera sammála um þetta að öllu leyti. Það er bara fínt.

    Fín skoðanaskipti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur