Þriðjudagur 21.12.2010 - 22:17 - 11 ummæli

Lúpínufasismi og skóg“ræktar“ofstæki!

Það er eitt að rækta upp landið í eðlilegu jafnvægi þar sem borin er virðing fyrir þeim sérstæða og viðkvæma hefðbundna íslenska lággróðri og fágætu birkiskógum sem fyrir eru. Annað að ryðjast óbeislað yfir íslenska náttúru með því að eitra fyrir henni með lúpínu og ganga á dýrmætt votlendi með illa ígrundaðri lerkirækt.

Það verður að vera eðlilegt jafnvægi. Það jafnvægi hefur ekki verið virt í íslenskri „landgræðslu“ og íslenskri „skógrækt“.

Lúpína á rétt á sér á einstaka stað. En lúpínufasistar hafa vaðið um landið eins og fílar í postúlínsbúð og lagt viðkvæma íslenska náttúru í rúst vítt og breitt. Í nafni „landgræðslu“ og „landræktar“.

Látum þetta vera.

En herferð lúpínufasista og skóg“ræktar“ofstækismanna í fjölmiðlum í garð eðlilegrar verndar íslenskrar náttúru og kröfu um eðlilegt jafnvægi í íslenskri náttúru sem reynt er að tryggja með nýrri löggjöf sem umhverfisráðherra hefur haft forgöngu um – segir allt sem segja þarf.

Umhverfisstofnun neyddist til að bregðast við með eftirfarandi yfirlýsingu:

„Það er ekki rétt að breytingar sem kveðið er á um í drögunum takmarki stórlega eða banni skógrækt hér á landi. Því var meðal annars haldið fram að óheimilt verði að gróðursetja öll helstu tré sem nýtt eru til skógræktar, mögulegri atvinnustarfsemi í skógrækt verði fórnað og að frelsi áhugafólks til að græða upp landið verði einnig takmarkað. Þá var fullyrt að öll helstu skógræktartré verði bönnuð. Þetta er rangt.

Í drögum að frumvarpinu segir að umhverfisráðherra geti ákveðið að dreifa megi tilteknum framandi lífverum án leyfis og birt verði skrá yfir þessar tegundir. Ætlunin er að helstu skógræktar- og landgræðslutegundir verði á þessum lista. Einnig getur ráðherra ákveðið að vissar lífverur megi flytja til landsins án leyfis og skal hann á sama hátt birta skrá yfir þær. Markmið með breytingum á lögunum er því síður en svo að takmarka stórlega eða banna skógrækt hér á landi. “

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Kristján Sveinsson

    Einu lúpínufasistarnir sem ég hef haft spurnir af hér eru þeir sem eyða tíma sínum í að drepa þessa dugmiklu jurt.

    Hvar er gengið á dýrmætt votlendi með illa ígrundaðri lerkirækt á Íslandi?

    Eins og þessar tillögur eru kynntar er ekki annað af þeim að ráða en ætlunin sé að leggja bann við því að öðrum lífsformum en einhverjum upphugsuðum landsnámslífverum verði gefin grið á Íslandi. Það kom svo seinna að ráðherra myndi af náð sinni gera lista um þau lífsform plöntukyns sem þyrmt yrði. Kannski væri þá ráð að hann yrði sýndur áður en lengra er haldið? Já og svo hyggst ráðherrann af stjórnvísi sinni útvega svo sem dúsíni ríkisstarfsmanna störf við leyfisveitingar til þeirra sem vildu rækta upp urinn mel eða blásin börð. Ekki er það nú öldungis ónýtt í skaðræðinu.

    Hvar er þetta „jafnvægi“ að finna sem svo brýnt er að varðveita. Á botni virkjunarlóna Framsóknarflokksins? Í nauðnöguðu landi kjósenda Framsóknar um allar sveitir og upp um afrétti? Í landbúnaðarstefnu Framsóknar?

    Er það ekki svo að allar þær plöntur sem vaxa á Íslandi þrífast líka annars staðar? Hvað segir það um sérstöðu íslensks gróðurfars? Hvað segir gróðureyðing undanfarinna alda og áratuga um sérstöðu íslensk gróðurfars og umgengni landsmanna við land sitt? Er svarið að brýn ástæða sé til að vinna gegn iðju þeirra sem vilja efla gróðurríkið með því að byggja upp snautt land með lúpínu eða öðrum öflugum uppgræðsluplöndum og rækta skóga til yndis og nytja?

  • Hallur Magnússon

    Kristján.

    Hvers vegna í ósköpunum ertu að flækja Framsóknaflokknum í málið? Veit ekki betur en að flokksmenn þessa annars ágæta flokks hafi unnið af alefli að lúpínuslysinu og skógræktarátökum – bæði illa og vel heppnuðum!

  • Tek heilshugar undir pistilinn. Lúpínan er vargur! Hún er falleg – ef hægt væri að halda henni á afmörkuðum svæðum sem virðist ómögulegt.

    Hef líka áhyggjur af fyrirhyggjulausri skógrækt eins og t.d. við Þingvallavatn á svæði milli Nesjavalla og Úlfljótsvatns svo dæmi sé tekið.

  • Það er víðar en á Íslandi sem menn hafa áhyggjur…

    http://www.bbc.co.uk/news/science-environment-12041943

  • „ganga á dýrmætt votlendi með illa ígrundaðri lerkirækt.“

    Spyr sá sem ekki veitt en grunar þó. Hefur votlendi ekki verið framræst til landbúnaðar og sauðfjárræktar? Ef votlendi er dýrmæt er þá ekki ráð að hætta ræsa fram landið og moka ofan í skóganna.

    Lyng gróður sem einkennir landið nú er í raun lokastig gróður eyðingar. Þegar forfeður okkar tóku við þessu landi sögðu þeir að það hefði verið skógi vaxið frá ströndu til fjalla. Það er skylda okkar að vinna landið sem næst því þega við tókum við því. Ef lúpinan er áfangi í því að ná landinu aftur þá hún þarfur þjónn.

    Andstaðan við lúpinuna virðist helst vera fagurfræðilegur, lyngið þykir fallegra. Þetta er hégómi og hindrun í því að endurheimta fyrri landgæði.

  • Þjóðmundur

    Það er prýði af lúpínunni, frekar hana en örfoka mela sem forfeður okkar sköpuðu.

  • Uni Gíslason

    Þeir sem tala um „lúpínufasisma“ eru ekki með nægilegan þroska til að ræða málin. Svo einfalt er það.

  • Þessi færsla hlýtur að vera satíra, sheesh.

  • Hallur Magnússon

    Uni.

    Gætir þú rökstutt þessa athugasemd þína?
    Ég er greinilega ekki nægilega þroskaður til að fatta hana.

    … og til lúpínutrúarfólks.

    Þið látið eins og lúpínunni sé einungis dreift á örfoka mela.

    Hafið þið ekkert gengið um í náttúrunni undanfarið?

  • Hallur, hvernig leit sú náttúra út áður en lúpínan kom þangað?
    Jú auðvitað getur allt farið í öfgar en lúpínan gengur hinsvegar ekki inn á vel gróið land. oft er hún innan vel gróins lands þar sem hún hefur vaxið upp á örfokamelum og klöppum. menn horfa síðan eins og þú á gróðurinn við hliðina á lúpínunni og álykta að allt undir henni hljóti að hafa verið eins gróður ríkt.

    Það er auðvitað hægt að fara í öfgar með allt, en lúpínan er eina jurtin sem af einhverri alvöru græðir upp landið og býr til jarðveg fyrir aðrar plöntur. sást vel í vor/sumar þegar þessi umhverfisráðherra sem þú styður með ráðum og dáðum framkvæmdi eitthvert mesta umhverfisslys seinni tíma á íslandi. hún lét spreyja kemískum eiturefnum á náttúruna þar sem lúpína óx. allur gróður drapst, tré, lyng, runnar, gras og mosi en lúpínan spratt aftur upp af fræjum.

    Hvað eftir annað heyrir maður og sér þar sem lúpínan hefur verið lengi að trjá gróður sprettur upp. hinsvegar sprettur lítið upp úr jarðvegnum ef engu er sáð eða að lúpínubreiðurnar séu langt frá frjókornasvæðum (vel grónu landi).

    Lúpína er langtíma verkefni í því að koma landinu næst „náttúrulega“ ástandi áður en menn hófu ofbeit og skógarhögg. 40% landsins á að vera gróðri vaxin eins og var við landnám en ekki 20% eins og er í dag.

    vil svo að lokum minna á að fyrir síðustu ísöld voru dádýr í íslenskum risafuruskógum. eitthvað sem umhverfisfasistar (og þá á ég við þá sem halda að eyðimerkur landslagið sé fagurt og vilja viðhalda) myndu hrylla við.

    Náttúran breytist með árum og öldum. ef menn vilja viðhalda einhverju einu ástandi eins og það var í kringum 1950, þá ætti að skjóta allar nýja fugla sem hingað koma með sömu rökum og banna ætti nýjar plöntur og ný tré.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur