Þriðjudagur 18.01.2011 - 12:36 - 5 ummæli

Þegar gullinu rigndi

Það er einungis í ævintýrunum sem gulli rignir yfir almúgan. Slíkt ævintýri gekk yfir þjóðina haustið 2004 þegar gulldrengirnir í viðskiptabönkunum ákváðu á einni nóttu að bjóða fasteignaeigendum og íbúðakaupendum takmarkalaus íbúðalán á helmingi lægri vöxtum en áður hafði tíðkast. Fram að þeim tíma hafði það verið jafn líklegt að almenningur gæti kreist mjólk úr grjóti og að kreista fasteignatryggð lán úr banka á svipuðum kjörum og íbúðalán Íbúðalánasjóðs.

Það má segja að gullinu hafi rignt yfir íslenska fasteignaeigendur og íslenska fasteignakaupendur. Bankarnir sem lánuðu einungis 90 milljónir í fasteignalán í ágústmánuði 2004 lánuðu um 30 milljarða í september og lánuðu alls 115 milljarða síðustu 4 mánuði ársins.  Á sama tíma hélt Íbúðalánasjóður áfram hóflegum lánveitingum sínum – sem ekki voru nema brot af því gullregni sem flóði úr bönkunum.

Það er athyglisvert að skoða myndrænt þetta gullregn í formi fasteignatryggðra lána í íslenskum krónum:

Bankarnir dældu úr fasteignalánum og settu efnahagslífið á hvolf

Eins og glöggt má sjá þá fylltist efnahagslífið af  nýju fjármagni akkúrat á þeim tíma sem síst skyldi vegna þeirrar þenslu sem þegar var fyrir í efnahagslífinu vegna stóriðjuframkvæmda á Grundartanga og á Austurlandi.  Stjórnvöld höfðu einmitt í hyggju að fresta rýmkun lánsréttar íbúðalána Íbúðalánasjóðs fram á síðari hluta ársins 2006 og fyrri hluta ársins 2007 vegna efnahagsástandsins.  En gulldrengirnir í bönkunum töldu sig ekki þurfa að taka tillit til slíks heldur dældu út fasteignatryggðum lánum,  stórhækkuðu íbúðaverð, margfölduðu neyslugetu almennings og settu efnahagslífið á hvolf.

Við súpum seyðið af því núnar. Gullið sem rigndi reyndist glópagull og gulldrengirnar sem fjölmiðlar hömpuðu gagnrýnilaust eru nú færðir lúpulegir til yfirheyrslna vegna meintra efnahagsbrota. Fallnir útrásarvíkingar og gagnrýnilaus samúð fjölmiðla fokin út í veður og vind.

Eftir situr almenningur með gullklumpana um hálsinn eins og myllusteina – og lífskjörin hrunin.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir og þess augljósa sem lesa má útúr framangreindu línuriti –  að óheft íbúðalán bankakerfisins settu efnahagslífið á hvolf – þá eru ennþá einstaka stjórnmálamaður og einstaka fjölmiðlamaður sem trúir á goðsögn gulldrengjanna um að Íbúðalánasjóður og hófleg lán hans hafi verið orsök þenslunnar og efnahagshrunsins.  Meira að segja rannsóknarnefnd Alþingis féll í þá gryfju – þótt fulltrúar í rannsóknarnefndinni viti það núna að þeir gerðu alvarleg mistök í skýrslunni og að þenslan var fyrst og fremst vegna hömlulausra útlána bankakerfisins frá því í september 2004 og fram á árið 2008.

Við fyrstu sýn mætti halda að bankarnir hefðu dregið sig út af íbúðalánamarkaði á árinu 2007 og 2008.  Svo var reyndar ekki,. En í stað þess að lána fasteignakaupendum verðtryggð lán í íslenskum krónum – þá tóku þeir að lána íbúðalán sem tóku mið af gengi erlendra gjaldmiðla.  Afleiðing þess var að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu sem hafði verið stöðugt um skeið – rauk upp að nýju og hélst hátt allt þar til efnahagshrunið gekk yfir – í boði bankanna.

Þessa útlánaþróun má sjá í eftirfarandi mynd.

Gjaldeyrislán bankanna tóku við af verðtryggðum íbúðalánum þeirra á árinu 2007 og 2008. Sú innkoma ýtti aftur undir þenslu á fasteignamarkaði.

Að lokum er vert að bera saman verðþróun á íbúðamarkaði á höfuðborgarsvæðinu og tímasetningar í gullregni bankanna – fyrst í formi verðtryggðra lána  í september  2004 – og síðar í gjaldeyristryggðum lánum árið 2007.

Óhef útlán bankanna olli hækkun íbúðaverðs haustið 2004 og vorið 2005. Aftur hækkaði verð þegar bankarnir hófu að lána gengistryggð lán til íbúðakaupa. Síðan kom hrunið einnig í boði bankanna.

Er einhver sem telur enn að innkoma bankanna með óheft íbúðalán hafi EKKI verið ástæða þenslunnar á fasteignamarkaði – sem endaði síðan í efnahagshruni?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Það eru margir fínir punktar í þessu Hallur.

    Hins vegar er ég ekki endilega sammála þessari ályktun þinni:

    „að óheft íbúðalán bankakerfisins settu efnahagslífið á hvolf“

    Það nægir að horfa á þær upphæðir sem eru bundnar íhúsnæðislánunum og bera þær saman við þær upphæðir sem vantar í bankakerfið núna þegar verið er að gera það upp. Það sem þarf að afskrifa af húsnæðisskuldum bankakerfisins er bara dropi í hafið miðað við þá 7-9000 milljarða sem senda þarf til peningahimna nú eftir hrun.

    Vissulega á húsnæðisbólan þátt í hruninu en það væri nær að álykta að t.d. lán til eignarhaldsfélaga, án veða, sem aldrei fást innheimt og nema miklu hærri fjárhæðum en afskriftir húsnæðisskluda, hefðu sett efnahagslífið á hvolf.

    Ef ég man þessar tölur rétt þá voru til kúnnar innan bankakerfisins sem voru með hærri yfirdrátt á gjaldeyrisreikningum sínum hjá einum og sama bankanum en sem nemur öllum gengistryggðum húsnæðislánum í kerfinu.

    Svo finnst mér gott að fá það staðfest grafískt, að gengistryggð lán til heimila eru ekki lánuð að neinu marki fyrr en bankarnir eru komnir í vandræði. Það hefur verið mín skoðun frá hruni að rannsaka beri tilurð þessarar lánastarfsemi eins og hvert annað sakamál.

  • Hallur Magnússon

    Seiken.
    Auðvitað er það samspil þessara þátta semsetti allt á hvolf. En það er ljóst að þensluna á íbúðamarkaði er hægt að færa skuldlaust á bankana.

  • Sæll Hallur

    Það er svo merkilegt, að menn lemja ennþá hausinn við þann stein að bankarnir hafi verið saklaus fórnarlömb Íbúðalánasjóðs. Hann hafi dregið þá á asnaeyrunum út í það að bjóða 80-90 og síðar 100% íbúðalán haustið 2004. Fólk gleymir alveg yfirlýsingum bankamanna og fulltrúa þeirra, Guðjóns Rúnarssonar, að nú ætli bankarnir að koma ÍLS út af íbúðalánamarkaðnum. Það gleymir líka kæru bankanna til ESA, þar sem þeir ætluðu með illu að koma ÍLS út af húsnæðislánamarkaðnum.

    Kv.
    Marinó

  • Mjög góð og þörf línurit. Sannar fullkomlega, að bankarnir voru megin drifkrafturinn á bakvið hækkun húsnæðisverðs hér – bjuggu þá bólu til.

    Þó eins og Seiken bendir á, sú bóla hafi ekki verið stærsta bólan í hagkerfinu, þá er það hún sem er klárlega meginorskö þess vanda hópa almennings í sem dag skulda of mikið í sínu húsnæði.

    Kv.

  • Mjög fín samantekt hjá þér Hallur, afar fróðlegt að sjá að kúrfan sem sýnir verðhækkun á íbúðarhúsnæði í Reykjavík á sínum tíma var komin vel á veg næstum þráðbeint upp í loftið áður en Íbúðalánasjóður kom inn með heimild fyrir 90 % lánum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur