Föstudagur 21.01.2011 - 09:42 - Rita ummæli

Samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður hefur mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna. Tilvist hans byggist á þessu samfélagslega hlutverki.  Lögbundið hlutverk Íbúðalánasjóðs er:

“ … að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

1.gr. laga um húsnæðismál  nr. 44/1998

Íbúðalánasjóður er ekki og á ekki að vera venjulegt fjármálafyrirtæki. Íbúðalánasjóður á að vera sjálfbær – en ekki rekinn í hagnaðarskyni.

Ef hugmyndafræði viðskiptabanka verður ofan á í rekstri og stjórnun Íbúðalánasjóðs – ef hugmyndafræði hagnaðar tekur við af hugmyndafræði sjálfbærni – ef hugmyndafræði fjármagnsins tekur við af hugmyndfræði samfélagslegrar ábyrgðar – þá er tilvistargrunnur Íbúðalánasjóðs fyrir bí.

Þá er rétt að leggja Íbúðalánasjóð niður og færa íbúðalánin alfarið til banka og annarra fjármálafyrirtækja.

En auðvitað eigum við að standa vörð um Íbúðalánasjóð sem sjálfbæran, samfélagslegan lánasjóð sem tryggir landsmönnum öllum – hvar sem þeir búa – „öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum“.

Þrátt fyrir að í landinu ríki hrein vinstri stjórn sem ætti að öllu jöfnu að berjast fyrir tilvist samfélagslegs Íbúðalánasjóðs, þá virðast blikur á lofti.

Í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru vísbendinga um að samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs verði í öðru sæti – en hugmyndafræði viðskiptabanka, hagnaðar og fjármagns – verði sett í fyrsta sæti.

Það er hlutverk stjórnvalda, nýrrar stjórnar Íbúðalánasjóðs og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs að tryggja áfram samfélagslega stöðu sjóðsins.

Það er hlutverk stjórnvalda, nýrrar stjórnar Íbúðalánasjóðs og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs að tryggja landsmönnum öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum.

Það er hlutverk okkar – þjóðarinnar – að veita stjórnvöldum, stjórn Íbúðalánasjóðs og framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs stuðning og aðhald svo samfélagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs verði ekki fórnað.

Það er að hefjast enn eitt stríðið um samfélagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur