Þriðjudagur 01.02.2011 - 07:44 - 2 ummæli

Samþykkt ESB stefna Gunnars Braga

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Framsóknarflokksins sat í málefnanefnd Framsóknarflokksins fyrir síðasta flokksþing og var lykilmaður í að semja tillögu að ályktun um aðildarviðræður að Evrópusambandinu.  Um 900 manns sátu flokksþingið.

Tillaga Gunnars Braga og félaga hans í málefnanefndinni var samþykkt orðrétt nema fyrirsögninni „Markmið“ var breytt í  „Skilyrði“ á þinginu sjálfu – að tillögu Gunnars Braga – til að koma á móts við öfgafyllstu andstæðinga Evrópusambandsins.

Sú breyting varð til þess að tillagan var samþykkt nánast samhljóða – einungis örfáir flokksþingsmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni – sem nú er samþykkt og gild stefna Framsóknarflokksins.

Samþykkt stefna Framsóknarflokksins hljóðar svo:

“ Ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið

Markmið

Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. 

Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

Skilyrði

• Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.

• Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.

• Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.

• Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.

• Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.

• Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.

• Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.

• Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.

• Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

Fyrstu skref

Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið. ”

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Grandvar

    „Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.“

    Get bara ekki hætt að brosa!

    Spurning um að taka upp raunveruleikasprautuna fyrir þetta veruleikafirrta fólk!

  • Kannski breytir esb grunnlögum sínum fyrir oss ísa. Aldrei að vita!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur