Er Jón bakari Gnarr – lesist borgarstjóri – stundum hengdur fyrir smið?
Borgarstjóranefnan hefur undanfarið sætt mikilli gagnrýni vegna tveggja mála. Ruslatunnumálsins og tónlistaskólamálsins.
Tónlistarmenn baula á hann eins og beljurnar á Bítlana fyrir að skera gróflega niður fjárframlög til tónlistarskólanna.
Æfir ættingjar farlama gamalmenna sem fara sér að voða við að koma ruslatunnunum sínum að 15 metra fjarlægð frá götu – svo þau verði ekki innlyksa í eigin sorpi – æpa á Jón borgarstjóra Gnarr yfir ruslaralegri hegðan hans í garð þeirra sem búa í húsum þar sem sorpið er ekki haft nánast á almannafæri.
En fattaði Jón borgarstjóri Gnarr og súpertónlistargrúbban hans upp á þessum snilldar sparnaðarleiðum?
Onei!
Báðar leiðirnar voru settar fram og sparnaður reiknaður í tíð Samvinnustjórnarmeirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á síðari hluta síðasta kjörtímabils. Báðar leiðirnar voru hins vegar afskrifaðar og settar í ruslið – meðal annars vegar andstöðu Samfylkingarinnar í samvinnuferlinu í borgarstjórn sem þá tíðkaðist.
Er Jón bakari Gnarr – lesist borgarstjóri – þá stundum hengdur fyrir smið?
Já og nei. Það er ekki hægt að skamma hann fyrir að hafa fattað upp á þessum sparnaðarleiðum. En hann ber ábyrgð á því að koma þeim í framkvæmd.
En hver ætli sé smiðurinn á bak við það að koma þessum umdeildu sparnaðarleiðum í framkvæmd? Hver setti sparnaðarleiðirnar á Odd á ný? Hver sá að þarna var Björkunarleið fyrir borgarsjóð? Er það ekki Deginum ljósara?
Hvern ætti að hengja?
Ekki var Bezti flokkurinn á borgarstjórnarsviðinu þegar tillögurnar komu fram. Ætli það séu einhverjir fleiri sem mynda núverandi borgarstjórnarmeirihluta – einhverjir sem voru á sviðinu þegar samvinnustjórnmál tíðkuðust og sparnaðarleiðirnar föttuðust?
Hlífum bakaranum og samfylkjumst um að finna smiðinn!
Orðið ábyrgð er bara bullorð til að hækka launaseðla semsagt?
🙂
Þetta er örugglega rétt hjá þér Hallur. En, þ.e. merkilegt hvernig borgarfulltrúum Samfylkingar, tekst að láta lítið á sér bera 🙂
Er verið viljandi, að gefa þá villandi mynd að Bexti Flokkurinn, sé einn að gera óvinsæla hluti?
Kv.
Ég vil meina að ruslatunnu sparnaðurinn sé vanhugsaður því hann mismunar, en tónlistarsparnaðurinn ekki. Ef fólki finnst að tónlistarnám ætti að vera niðurgreitt, annað hvort út af hagkvæmni eða af því að peningarnir eru þess virði þegar við njótum tónlistarinnar er eitt, en af hverju ætti eitt sveitarfélag að standa undir því að mennta alla tónlistarmenn þjóðarinnar.
Ef kostnaður við nám er hár þá verður annað hvort að takmarka fjöldann (eins og t.d. læknar) eða láta fólk standa undir kostnaði að einhverju leyti. (Skólagjöld í listaháskólanum hækka með hverju ári og eiga að endingu að vera 300,000kr. meira en fjórföld á við skráningargjald HÍ). Auk þess er það ekki hlutverk sveitarfélaga að standa að háskólamenntun heldur ríkisins. Ef ríkið niðurgreiddi tónlistarnám þá gætu kannski sumir lært hjá einkakennara í heimasveit og glatt eyru þeirra sem ekki búa við endalaust úrval tónleika.