Laugardagur 05.02.2011 - 18:25 - 26 ummæli

Þjóðaratkvæði um IceSave!

Það eru sterk rök sem mæla með því að samningur um IceSave verði borinn undir þjóðaratkvæði. Þjóðin felldi fyrri IceSave samning í þjóðaratkvæðagreiðslu – þeirri fyrstu um slíkt mál. Þjóðin á því að klára málið.

Þótt fyrirliggjandi samningur yrði samþykktur á Alþingi með 63 atkvæðum – þá eru samt sterk rök fyrir því að samningurinn verði lagður fyrir þjóðaratkvæði.

Þjóðin hafnaði fyrri samningi. Þjóðin ætti því einnig að taka ákvörðun um fyrirliggjandi samning. Óháð niðurstöðu Alþingis.

Ég er sannfærður um að þjóðin muni samþykkja fyrirliggandi samning. Við höfum val um að fara dómstólaleiðina en hún gæti orðið okkur dýr. Þá er ég ekki að tala um fjármuni  – heldur samskipti og samkomulag við aðrar þjóðir í framtíðinni.

Farsælasti farvegur IceSave málsins tel ég vera að Alþingi samþykki frumvarp um samþykkt samningsins með afgerandi, þverpólitískum meirihluta – en með ákvæði um að niðurstaða Alþingis verði lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er eina leiðin til að sameina þjóðina í þessu erfiða máli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Björn Kristinsson

    Það er lágmarks krafa að spyrja þjóðina álits í þessu efni. Það er hún sem borgar reikninginn. Allt annað klífur þjóðina í herðar niður.

    Ég hef fulla trú að þjóðin sé bær til að meta hvernig eigi að kjósa í því máli.

  • Hallur Magnússon

    En við eigum samt ekki að taka málið af Alþingi – þingmenn eiga að klára málið af sinni hálfu – og leggja það síðan fyrir þjóðina.

  • Björn Kristinsson

    Sammála Hallur. Mögulega verður afgreiðsla þessa máls liður í því að alþingismenn fari að vinna saman sem heild.

    Að persónugera hlutina, sjá allt í gegnum pólitísk gleraugu hefur ekki skilað okkur neinu síðustu ár. Það má færa fyrir því sterk rök að háttarlag Alþingismanna sem og hvernig fjölmiðlum er beitt hafa skaðað þjóðina meira síðustu tvö ár en almennt er viðurkennt.

  • Bull, milliríkjadeilur á aldrei að setja í þjóðaratkvæðisgreiðslur, til hvers erum við með þessa pólítíkusa annars? Eigum við kannski að leggja niður alþingi og taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur um hvert einasta mál?

    Þjóðin mun aldrei samþykkja þetta í kosningu og skemma fyrir sjálfri sér(þú getur tékkað t.d. á þumall upp/þumall niður mismuninum í fréttakommentakerfi Eyjunnar til að sjá að meginþorri fólks vill ekki samþykkja þetta). Ég myndi persónulega samþykkja þetta enda vil ég koma þessu frá.

  • Sleppum allri hræsni hér. Við vitum alveg hvað það þýðir að bera málið undir þjóðina, það yrði fellt…
    Sorglega margir eru nefninlega haldnir þeirri meinloku að það sé nóg að segja nei, þá séum við laus allra mála

  • Hallur Magnússon

    Hilmar.
    Af hverju heldur þú að samningurinn yrði felldur?

  • Sorglega margir eru nefninlega haldnir þeirri meinloku að það sé nóg að segja nei, þá séum við laus allra mála…

    Held að sá hópur slagi yfir meirihluta og hann mun segja nei..

  • Ómar Harðarson

    Það á aðeins að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu mál þar sem ákvörðunin er endanleg.

    Milliríkjadeilur halda áfram, hvað svo sem ákveðið er í þjóðaratkvæðagreiðslu. Icesave hélt áfram, þrátt fyrir að lagabreytingin á fyrstu Icesavelögunum hefði verið felld.

    Stefnan í fiskveiðistjórnun; ákvörðun um hvernig aðgangi að auðlindinni er háttað og hvert sé fyrirkomulag afgjalds af henni, yrði hins vegar endanleg (fyrir okkar kynslóð) ef hún færi undir dóm þjóðarinnar.

    Það er því tóm sýndarmennska að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Við búum við þingræði. Meðan stjórnarskránni hefur ekki verið breytt skulum við láta þingmennina um að drekka af þessum kaleik.

  • Auðvitað á þetta að fara í þjóðaratkvæði. Það eru engar reglur um það hvað beri að afgreiða í þjóðaratkvæðagreiðlsum og hvað ekki. Reyndar segir mér svo hugur að ef þetta yrði borið undir þjóðina þá yrði þetta fellt. En, það kemur aldrei í ljós ef ekki er kosið.

  • Ómar Kristjánsson

    Verður þá ekki sprningin að vera: Hvort villt þú heldur ganga í ljótum gallabuxum eða allsber?

    http://www.visir.is/thu-gaetir-endad-uppi-allsber/article/2011203758209

  • Hrafn Arnarson

    Sæll Hallur, hver eru þessi sterku rök sem þú nefnir tvisvar en skýrir ekki frekar? Þurfa 40000 að skrifa nafn sitt á undirskriftalista? Þarf forseti lýðveldsins að telja að alvarlegt ósamræmi sé á milli vilja þingsins og vilja þjóðarinnar? Er það stærð samningsins og óvissa um endanlega upphæð? Er það að áður hefur verið kosið um þetta mál? Hvers vegna ætti þjóðaratkvæðagreiðsla að sameina þjóðina? Ef 60% segja já , 40% nei, verða þá ekki 40% ósátt og láta ekki af sannfæringu sinni. Ég er ekki endilega að mæla á móti þjóðaratkvæðagreiðslu í þessu máli. Vandinn er hins vegar að þjóðaratkvæðagreiðsla verður að vera eðlilegur þáttur í stjórnskipan landsins. Það er hún ekki núna. Núverandi forseti lýðveldisins hefur ákveðið að móta embættið að eigin hætti en það getur ekki verið háð mati eins manns hvort slíkar atkvæðagreiðslur fari fram eða ekki.

  • Hallur, ég er í grunninn hlynnt því að mál séu lögð í dóm þjóðarinnar með þjóðaratkvæðagreiðslu EN í þessu máli óttast ég að meira en helmingur þeirra sem munu kjósa muni ekki láta skynsemi heldur tilfinningar ráða. Því miður virðist vera ótrúlega stór hópur þarna úti sem er hreinlega haldinn þráhyggju í þessu máli og lokar algjörlega augunum fyrir því hversu mikil áhætta er fólgin í nei-inu. Jafnkaldhæðnislegt og það er þá eru meiri en minni líkur á því að þeir sem berjast harðast fyrir því að almenningur verði ekki látinn greiða Icesave verði á endanum þeir sem með nei-inu sínu kalla mögulega yfir þjóðina 300-400 milljarða skuld í stað 47 milljarða, fari málið fyrir dómstóla.

  • Svavar Bjarnason

    Leggjum allar tillögur um skattahækkanir og niðurskurð í velferðakerfinu í þjóðaratkvæði.

    Djók!!

  • Þjóðin felldi fyrri Icesave samning með afgerandi hætti. Þjóðin á að hafa lokaorðið varðandi þann samning sem nú liggur fyrir. Það er sjálfsögð krafa og þjóðin hefur sýnt í verki, að hún er traustsins verð.
    Steingrímur og Jóhanna lofuðu Bjarna Ben í hástert fyrir óvæntan stuðning við nýjasta samkomulagið. En þau hafa enn ekki þakkað forsetanum og þjóðinni fyrir að hafa komið í veg fyrir meiriháttar afglöp þeirra á fyrri stigum málsins. Þau sluppu fyrir horn en framganga þeirra er geymd en ekki gleymd.
    Aukinn stuðningur í þinginu við nýjasta Icesave samkomulagið breytir engu um þá sjálfsögðu kröfu að samningurinn fari í þjóðaratkvæði. Samningurinn er líka fjarri því að vera óumdeildur og enn er bent á, að áhættan hvíli öll á Íslendingum. Indefence hópurinn er ekki sáttur. Sama er að segja um flesta þingmenn Framsóknar, Þór Saari og hans samherja.
    Fyrirspurn til Halls framsóknarmanns: Hefurðu fylgst með störfum Guðmundar Steingrímssonar í þinginu? Ef svo er, bentu þá vinsamlegast á atriði sem sýna að sá ágæti maður sé í stjórnarandstöðu.

  • Andri Thorstensen

    Það væri í það minnsta eðlilegt að Icesave samningurinn færi í þjóðaratkvæði ef stór hluti þjóðarinnar myndi krefjast þess í undirskriftarsöfnun eins og síðast.
    En þar sem slík undirskriftarsöfnun hefur ekki farið í gang, allavega ekki enn, er hægt að líta svo á að stærsti hluti þjóðarinn treysti Alþingi til að klára málin að þessu sinni.

    Það eru reyndar rök fyrir því að setja Icesave í þjóðaratkvæði án slíkrar undirskriftarsöfnunar eins og þú bendir á.
    En spurningin er hvort þau rök vegi þyngra en sú áhætta sem enn frekari töf á undirskrift gæti falið í sér; sbr. rök Lárusar Blöndal í Fréttablaðinu í gær um að eftir því sem lengri tími líði verði líklegra að Bretar og Hollendingar ákveði að segja sig frá samningnum.

  • Hallur Magnússon

    Það er merkilegt hvað margir treysta ekki þjóðinni til að taka ábyrga afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

  • Gísli Ingvarsson

    Þjóðaratkvæði um samninga einsog þessa eru fáránlegir. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar eiga að leiða þessi mákl til lykta og standa síðan skil af sínum gerðum í kosningum. Þjóðaratkvæði um breytingar á stjórnarskrá og því um líkt er allt annað enda ekki fulltrúalýðræði að breyta því fyrir hönd þjóðarinnar.

  • Hallur Magnússon

    Með ólíkindum hversu margir líta framhjá því að þetta mál fór í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Menn geta verið ósammála um að slíkt hefði átt að gera. En við breytum því ekki.

    Með rökum þeirra sem segja að ekki eigi að leggja þennan samning í þjóðaratkvæði – þá hefði verið unnt að samþykkja AFTUR samhljóða samning og var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

  • Gunnlaugur Ingvarsson

    Algerlega sammála þér.
    En það nákvæmleg sama á við um ESB málið þar þarf þjóðin að fá að kjósa milliliðalaust sem allra fyrst því þetta ESB mál hefur sundrað og klofið þessa þjóð meira en nokkurt annað á lýðveldistímaum og ollið henni meira tjóni og hörmungum en flestar náttúrhamfarir sem hún hfur mátt þola.
    Þjóðin þarf að fá tækifæri til þess að kjósa þessa ESB þvælu af sér sem allra fyrst til þess að þjóðin geti í sameiningu litið fram á veginn !

  • Sæll Hallur. Ég var að horfa á formann þíns gamla flokks í Silfri Egils í dag og það verður víst að viðurkennast að Sigmundur Davíð er mjög sterkur karakter með mikið pólitískt nef. Maðurinn er efni í stórforingja en situr hinsvegar uppi með þingflokk sem er hálf ónýtur þó við nefnum engin nöfn. Nú er ég hér með tillögu sem þú getur farið með í gamla flokkinn þinn. Hvernig væri að þið í stjónmálunum tækjuð upp siði knattspyrnunnar þar sem bestu leikmennirnir ganga kaupum og sölu á háu verði ? Framsók gæti þannig selt sjálfstæðisflokknum Sigmund Davíð sem sterkan formann til að leiða þann flokk en Framsók fengi í staðin vænar fúlgur til að borga upp allar skuldir flokksins. Framsók gæti svo spilað á hinum pólitíska leikvengi undir stjórn Vigdísar eða Eyglóar meðan Sigmundur Davíð tæki að sér að tukta til innanbúðar í Sjálfstæðisflokknum. Það er að vísu ekki víst að Framsókn mundi spila í meistaradeild undir stjórn þeirra tveggja kvenna sem hér voru nefndar en maður veit aldrei. Er þetta ekki sniðug hugmynd sem mundi leysa vanda allra?

  • Hallur Magnússon

    Gunnlaugur.
    Þjóðin mun greiða atkvæði um aðildarsaming að ESB þegar hann liggur fyrir. Það hefur þegar verið ákveðið.

    Heiða.

    Ég veit að þú ert mikill stuðningsmaður og aðdáandi Sigmundar Davíðs – en ekkert sérstaklega hrifinn af þingflokki Framsóknarmanna. Það er ekkert nýtt.
    Því kemur þessi tillaga ekki mjög á óvart.

    En er ekki betra að Sigmundir sýni stórforingjahæfileika sína innan Framsókn – og sjái til þess að koma þar á eðlilegu jafnvægi – það er stutt í flokksþing.

    Ef Sigmundur ræður ekki við tvær kraftmiklar stelpur upprunnar úr suðurkjördæmi – og að byggja brýr yfir í frjálslynda hluta flokksins til að halda flokknum saman – þá hefur hann ekkert í Sjálfstæðisflokkinn að gera.

    Hef hins vegar fulla trú á að Sigmundur muni einmitt ná tökum á þingflokknum og næa góðu sambandi við frjálslynda hluta flokksins.

  • Hallur Magnússon

    … svo var nafni hans að bjóða honum upp í dans með ríkisstjórninn.

  • Sæll aftur Hallur. Frjálslyndi hluti þingflokks Framsóknar hvaða lið ertu að tala um ? Þú getur ekki í alvöru verið að tala um vinkonu þína hana Siv sem einhvern sérstakan fulltrúa „frjálslyndis“ ? Eða Guðmund krata Steingrímsson sem nákvæmlega ekkert hefur komið frá veit ekki hvað maðurinn er að gera inni á Alþingi ? Mér finnst svona úr fjarlægð séð að Siv sé endanlega búin að missa áhuga á pólitík hún bara dröslast með, er sennilega að bíða eftir að fá gott starf. Guðmundur krati hangir í pilsfaldinum á Siv svona til að vera ekki einn þó Siv hafi aldrei verið krati. Hverjir eru hinir sem ekki eru frjálslyndir þarna í þingflokknum ? Er það Gunnar Bragi, Birkir Jón og Höskuldur ? Annars væri nú gaman að heyra hvernig þú skilgreinir frjálslyndið ? Ef skilgreiningin er fyrst og fremst að styðja inngöngu í ESB þá er Halldór Ásgrímsson væntanlega ímynd frjálslyndisins þar á bæ, eða Jón frímúrari Sigurðsson ? 🙂

  • Hallur Magnússon

    Heiða.

    Ég var nú ekkert sérstaklega að tala um þingflokk Framsóknarflokksins þegar ég var að tala um frjálslynda hluta Framsóknarflokksins – en þú þekkir þingflokkinn þekkir miklu betur en þú vilt stundum vera láta.

    Ég að vísa til flokksmanna í heild – sem þú þekkir reyndar almennt nokkuð síður en þingflokkinn.

    Reyndar þekkir þú formann flokksins líklega best Framsóknarmanna – en látum það liggja milli hluta.

    En fyrst þú spyrð, þá hefur Siv gegnum tíðina frekast talist til frjálslynda hluta Framsóknarflokksins. Myndi ekki treysta því að hún sé búin að missa áhuga á pólitík. Hefur styrkst aftur undanfarið.

    Veit að þér hefur staðið ógn af Guðmundi Steingrímssyni – en óþarfi að reyna að gera lítið úr honum.

    Með þína löngu reynslu úr fjölmiðlum – þá veit ég að það þarf ekki að skilgreina fyrir þig hugtakið frjálslyndi í pólitík. Set samt link á slíka skilgreiningu.

    http://plato.stanford.edu/entries/liberalism/

    Þú getur svo flokkað þingflokkinn sjálfur.

    Vakti reyndar athygli mína að þú tiltókst ekki vinkonur þínar af Suðurlandinu þegar þú fjallaðir um frjálslyndið. Það eru nefnilega stundum frjálslyndir taktar í Eygló!

    Ég geri ráð fyrir að það sé hærra hlutfall úr frjálslynda hluta Framsóknarflokksins sem vilja aðildarviðræður að ESB – og taka síðan afstöðu um áframhaldið – en gallharðra andstæðinga ESB. Það er hins vegar að líkindum afleiðing frjálslyndis frekar en orsök.

    Það ber ekki vott um mikið frjálslyndi að kanna ekki þá kosti sem eru í stöðunni hverju sinni – heldur stinga klaufunum í mýrina – án haldbærra raka.

    Hefur ekkert með Halldór Ásgrímsson að gera né frímúrararegluna.

  • Sæll Hallur. Með vísan í síðustu skrif þín hér að ofan þá virðist þú nú gefa þér að ég sé allt önnur manneskja en ég er. Út frá þessu eru skrifin eitthvað svona, ja hvað skal segja, alveg út í bláinn. Ég reyndar átta mig alls ekki á hvað þú ert að fara sbr. tilvitnun þína í reynslu mína af fjölmiðlum en á fjölmiðlum hef ég aldrei unnið og ekkert komið nálægt fjölmiðlun á einn eða neinn hátt. Skil ekki heldur hvernig mér á að stafa ógn af Guðmundi Steingrímssyni ég veit ekki til að leiðir okkar hafi nokkurn tíman legið saman enda þekki ég manninn ekkert nema úr fjölmiðlum. Siv vinkonu þína þekki ég á hinn bóginn og ræðum ekki meira um þau kynni. Um meintar vinkonur mínar af Suðurlandi þá átta ég mig ekki á hverjar þær eru nema þú sért að tala um Eygló sem ég þekki ekki og ekki heldur hana þarna Brá Konráðsdóttur.
    Hallur þú hefur farið eitthvað illa út af sporinu í þessum skrifum veit ekki hvað ég skrifaði sem kom svona illa við þig að þú misstir fókus, hef haft á þér álit fyrir góða þekkingu á húsnæðismarkaðnum og skrifum þínum um þau mál. En svona að lokum hafðu ekki óviðkomandi fólk fyrir sök þó þér líki ekki viðhorf mín til sumra félaga þinna. Bestu kveðjur HH

  • Hallur Magnússon

    Heiða

    🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur