Föstudagur 18.02.2011 - 21:10 - 15 ummæli

Grundvöllur Framsóknar

Ég var spurður að því í dag af hverju ég hefði starfaði í Framsóknarflokknum í 25 ár. Ég svaraði eins og satt er að ég hefði alltaf verið frjálslyndur miðjumaður og að grunnstefna Framsóknarflokksins hefði höfðað mest til mín þegar ég ákvað að hefja þátttöku í stjórnmálum. Sú ákvörðun að velja Framsóknarflokkinn var tekin eftir að hafa sótt fundi allra stjórnmálaflokka og ég kynnt mér stefnumál þeirra allra.

Ég starfaði af heilindum innan flokksins á aldarfjórðung og lagði mitt af mörkum til að bæta samfélagið með leiðarljósið „Frelsi með félagslegri ábyrgð“.  Kom því slagorði reyndar á flot innan flokksins – hafði fengið það lánað frá norrænum systurflokki.

Ég mun halda áfram að leggja mitt af mörkum til að bæta samfélagið á grunni hugmyndarinnar um frelsi með félagslegri ábyrgð  þótt ég hafi kosið að starfa utan flokka frá og með fullveldisdeginum 1. desember síðastliðinn.

Mér þykir vænt um Framsóknarflokkinn og mér finnst grunngildi hans frábær.

Framsóknarflokkurinn á sér nefnilega grundvallarstefnuskrá sem er einskonar stjórnarskrá flokksins. Því miður hafa margir Framsóknarmenn gleymt þessari ágætu grundvallarstefnuskrá.

Mig langar að koma þessari ágætu grundvallarsefnuskrá á framfæri:

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins

Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.
 
I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.
 
II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
 
III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.
 
IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.
 
V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.
 
VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.
 
VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.
 
VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.
 
IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.
 
X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Sorglegt hvernig komid er fyrir thinum gamla flokki. Bkv. Baldur

  • Hallur Magnússon

    Okkar – ekki satt?

  • Hlynur Þór Magnússon

    Enda þótt ég hafi verið flokksbundinn í öðrum ónefndum stjórnmálaflokki – stofnuðum 1929 – og gegnt þar fjölmörgum trúnaðarstörfum um ævina, hef ég í rauninni alltaf verið miðjumaður, kannski öðru nafni framsóknarmaður. Ég hef alla tíð verið hófsamur vinstrisinnaður íhaldsmaður og studdi t.d. Gunnar Thoroddsen á sínum tíma. Hef aldrei komið nálægt frjálshyggjunni svokölluðu. Pabbi minn (dáinn 1958 þegar ég var í æsku) var mikilsvirtur framsóknarmaður alla sína tíð.

  • Þú ættir að vera í Samfylkingunni. Þar eru þeir sem eru í þessu til að hafa vinnu.

  • Á ég að skvetta ískaldri vatnsgusu í andlitið á þér?

    Allt í lagi hér er hún

    Get a live

  • Trausti Þórðarson

    Hvernig gastu sagt þig úr svona frábærum flokki eftir að hafa starfað þar af heilindum í aldarfjórðung með þeim Halldóri Ásgrímssyni og Finni Ingólfssyni?
    Þú hlýtur að vera stoltur af árangursríku samstarfi ykkar félaganna.

  • Ég finnst ég verða knúinn til að bæta við fyrri comments
    vegna þess að ég á bágt með að trúa að það séu til
    svona flokkstréhestar í okkar samfélagi
    Hallur Magnússon hvað er að ske með þig?
    Hvernig dettur þér í hug að birta þessa trúarjátningu?
    Ég verð að játa að ég er algjörlega kjaftstopp

  • Gunnar Jóhannsson

    Sæll Hallur,

    Ég skil vel það sem þú skrifar. Sjálfur er ég flokksbundinn (skráður) í þrjá flokka, Framsókn, Sjálfstæðis, og Samfylkingu. Reyndar skráði ég mig aldrei í Samfylkinguna en einhvernveginn fór nafnið með í púkkið frá Alþýðuflokknum. Hvað um það. Það sem hefur valdið mér hvað mestu vonbrigðum með það fólk sem ég hef kosið er að komast að því hversu valdið spillir ótrúlega fljótt og örugglega, algerlega burt séð frá því hvaða flokkur á í hlut.

    Sjálfur starfaði ég eitt sinn á fréttastofu og þurfti stundum að vera niðri á Alþingi svo tímum skipti. Rétt að taka fram að ég var tæknimaður í fréttum. Þingfréttamaðurinn sem hafði langa reynslu í bransanum sagði eitt sinn við okkur að stjórnmálamenn væru upp til hópa prinsipplausar druslur!!! Í dag ca 20 árum síðar er ég endanlega orðinn sammála honum.

  • Jæja vaktinni að ljúka þennan sólarhringinn og brátt tími til að ganga til náða en fyrst þarf að renna yfir bloggið hja röflurunum og sjá hvað er að pirra þetta blessaða uppstökka fólk sem kallar sig bloggara en er svona svolitlir vælukjóar. Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf verið svolítið hlýtt til Halls Magnússonar en hefur þó leiðst í mörg herrans ár að svona gjörvilegu strákur skuli vera hálfgerð kerling í sér og því ætla ég enn að reyna að brýna karlinn.
    Sko Hallur minn það er ekki bæði hægt að segja sig úr flokki og væla svo yfir að flokkurinn sem þú sagðir þig úr og ert að hnýta í skuli ekki bara hlaupa til og lána þér húsnæði. Sérðu virkilega ekki hvað þetta er barnalegt væl hjá þér ?
    Finnst þér að hvaða félagsskapur eða einstaklingur sem er eigi að geta látið stjórnmálaflokka leggja sér til húsnæði undir fund ef viðkomandi dettur í hug að boða fund? Ég skil afstöðu framkvæmdastjórans mjög vel að synja þessu hann er væntanlega ekki í þeim bísness að lána fólki af götunni fundarsal.
    Getur þú ekki bara haldið fundinn í kirkjunni hjá séra Baldri sem er með Framsókn á heilanum eins og þú karlinn minn, og sem vottar þér samúð vegna afstöðu framkvæmdastjórans.
    Hættu nú þessu væli þú ert góður drengur en lélegur píslarvottur og það nennir enginn í þjóðfélagi okkar lengur að hlusta á vælandi fólk sem er upptekið af því að vorkenna sjálfu sér.

  • Hallur Magnússon

    Heiða mín.

    Ég hef ekkert verið að væla vegna úthýsingar af Hverfisgötunni. Mér sýnist hins vegar mínir fyrrverandi samflokksmenn á Hverfisgötunni vera tippilsinna. Það er sorglegt.

    Hafðu í huga að ég var BÚINN að fá salinn undir fund!

    Það sem ég gerði þegar framkvæmdastjórinn hætti við að lána mér salinn – var einfaldlega að útvega mér nýjan. En þar sem ég hafði boðað fjölmarga á fund á Hverfisgötunni í sal sem ég hafði fengið lánaðan – þá varð ég að afboða þá staðsetningu og skýrði frá því af hverju.

    Ekki veit ég hvaðan ritstjóri Eyjunnar fékk þær upplýsingar – en þegar hann spyr mig út í húsnæðismál vegna fundarins – þá sagði ég satt. Átti ég kannske að skrökva?

    Það fór fyrir hjartað á framkvæmdastjóranum og stórvini mínum.

    Hvað varðar kirkjuna hans séra Baldurs – þá minni ég þig á að – sem þú reyndar veist – að miðstjórnarfundir Framsóknarflokksins hafa að undanförnu aðallega verið haldnir í safnaðarheimilum kirkna!

    Viss um að ég hefði fengið inni í nánast öllum safnaðarheimilum borgarinnar.

  • Í byrjun síðustu aldar tók Jónas frá Hriflu þátt í stofun Framsóknar- og Alþýðuflokks. Sé ekki húsakynni fyrir skoðanir þínar þá ertu velkominn í flokk jafnaðarmanna enda frelsi og jöfnuður ríkjandi þar.

  • Ef þinn skilningur er réttur Hallur, að þér hafi verið úthýst með fundinn, þá er það mín skoðun að sú ákvörðun hafi verið mistök.

    En, frjálslyndur flokkur á að hafa umburðarlyndi – umbera mismunandi skoðanir.

    Ég á þeirri skoðun í dag, að hrun bankakerfisins hafi færst Ísland til baka aftur í það far, að okkar eigin gjaldmiðill sé nauðsynlegur til að tryggja snögga aðlögun og sveigjanleika.

    Mín skoðun hefur alltaf verið, að grundvöllur þess að taka upp gjaldmiðil sem við höfum enga stjórn á, sé tiltekin hagkerfis aðlögun. Ég á við að hagkerfið þarf að geta fylgt þeim sveiflum sem eiga sér stað, i megahagkerfinu sem stýring þess gjaldmiðils miðar við.

    *En, með upptöku annars gjaldmiðils þarf hagkerfið að aðlaga sig að honum, en ekki öfugt.

    *Þá mega sveiflur ekki vera mjög miklar í aðrar áttir – þetta er grundvallar atriði, í því hvort upptaka annars gjaldmiðils sé möguleg án þess, að af því hljótist meiri skaði.

    Að auki sýnist mér, að þróun sú er átti sér stað í kjölfar þess, að kreppan á Grikklandi hófst sýni, að þetta sé sennilega rétt.

    *En þ.s. fall krónunnar gerði fyrir okkur, var að snúa viðskiptajöfnuðinum við, yfir í hagnað.

    *Þetta skiptir mjög miklu máli, því ef við hefðum haft 300ma.kr. í halla í stað 300ma.kr. hagnaðar, væru skuldir þjóðarinnar hærri um cirka 40% VÞF þ.e. 370% í stað 330%.

    **En, ég bendi á að Grikkland, Spánn og Portúgal eru enn með umtalsverðann halla á heildarjöfnuði (current account), meir en 2. árum eftir upphaf kreppu.

    ****Þ.s. ég er að segja, er að mér sýnist þetta full sönnun þess, að Ísland og íslendingar, þurfi á þeim sveigjanleika að halda, sem fylgir því að hafa eigin gjaldmiðil.

    Ég lít sem sagt þannig á, að möguleikinn sé ekki lengur raunhæfur, að taka upp annan gjaldmiðil á næstu árum. Til þurfi að koma ný hagkerfis uppbygging, í stað þeirrar sem fór út um þúfur – er á sýnum tíma átti einmitt að færa grunnhagkerfis sveiflu okkar nær hinni Evrópsku.

    Þá verðum við að framkvæma innan krónuhagkerfis.

    Þannig, sé ég ekki að fyrir okkur sé neinn sérstakur akkur af því að ganga í ESB. En, megin-gróðinn átti að vera Evran. En, í dag miðað við þær hagkerfis aðstæður sem nú eru til staðar og verða næstu árin, sennilega næstu 10-20, en uppbygging nýrra atvinnuvega er tímafrek – – þá held ég að betra sé fyrir okkur, að vera áfram einfaldlega í EES.

    —————–> Framhald

  • En mér sýnist ekki að nettó gróði sé klárlega af því, að auka innflutning landbúnaðarvara. En, á móti lægri verðum (en ekki má gleyma flutningskostnaði og fákeppni hérlendis sem ekki eru líkur að lagist) kemur að gjaldeyrir er takmörkuð auðlind, og þá þarf að minnka annan innflutning í staðinn.

    Að auki kemur til, aukinn kostnaður við greiðslur í sameiginlega sjóði.

    Síðan, varðandi sjávarútveg, þó svo að erlend eignaraðild myndi ekki endilega verða óskaplega skaðleg, þá er hún samt skaði að einu leiti. En, ef ísl. sjávarútvegs fyrirtæki eru í eigu kennitala erlendis, þá hafa þeir aðilar rétt til að fá hagnað sendan úr landi. Þetta er nettó tap þ.s. í dag fáum við allan hagnað skattlagðan hérlendis.

    Síðan sýnist mér, að miklar breytingar séu að verða á Evrusvæðinu, en Frakkar og Þjóðverjar virðast vera að leitast við að knýja í gegn, breytingar sem munu minnka sjálfforræði þeirra þjóðar sem tilheyra Evrusvæði. Þannig, að það stefnir klárlega sýnist mér í svokallaða 2-ja hraða Evrópu.

    Ef það verður útkoman, þá finnst það of langt gengið, að afsala sér svo miklu sjálfforræði, sem virðist stefna í. En, vera má að Danir hafi séð þennan möguleika fyrir og það sé raunverulega ástæða þess að þeir ákváðu að halda krónu. Ef til vill á það sama við Svía.
    ——————-

    Hallur með fulla virðingu fyrir ykkar skoðunum og þínum þá er ég búinn að endurskoða verulega mín viðhorf, í ljósi nýrra upplýsinga.

    Mér leikur forvitni á að heyra, hvort að þín viðhorf Hallur hafi breyst nokkuð?

    *Hvernig útskýrir þú t.d. að það hefði verið okkar hagur, að hafa ekki þann aðlögunarsveigjanleika sem gengisfallið framkallaði, er það sneri jöfnuði landsins út á við – við í hagnað?

    *Hvernig, getur það hafa gengið upp, að halda áfram að safna skuldum, upp í 370%? Ég stórefa t.d. að við hefðum haldið kredit viðskiptum. Aðilar, hefðu fyllst óróa og hætt að lána okkur fyrir innflutningi.

    *Mér sýnist ljóst, að ef grunnhagkerfið fær ekki skjóta kostnaðarlækkun – vísa til innlends kostnaðar – þá sé hætta á raunverulegu hagkerfishruni hérlendis. En, allt er hér flutt inn fyrir gjaldeyristekjur. Þannig, að allt hérlendis stendur og fellur með því, að þeir atvinnuvegir sem útvega þær – standi.

    Ég hef áttað mig á því, að Evrunni fylgir viss viðbótar gjaldþrots hætta, sem er sú að peningarnir geta raunverulega klárast þ.s. þú getur ekki búið þá til.
    ——————

    Þ.s. ég er að segja, er að ég sé ekki það sem ómálefnalegt hjá Framsóknarflokknum, að endurskoða sína afstöðu í ljósi þeirrar þróunar er átt hefur sér stað, og taka nýja afstöðu í því ljósi.

    Það sé engin þversögn að tala um frjálslynda miðjustefnu, og það að líta ekki þannig á, að ESB aðild sé þjóðinni í hag í náinni framtíð!

    Kv.

  • Hallur Magnússon

    Undirbúningsfundur fyrir Evrópuvettvang frjálslynds miðjufólks

    Undirbúningsfundur fyrir hugsanlega stofnun samstarfsvettvangs frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu verður haldinn þriðjudaginn 22. febrúar kl. 20.00 í sal Framsóknarsalnum að Digranesvegi 12 Kópavogi.

    Á fundinum verður fjallað um eftirfarandi:

    1.Er ástæða til að setja á fót sérstakan samstarfsvettvang frjálslynds miðjufólks vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu?

    2.Í hvaða formi ætti slíkur samstarfsvettvangur að vera?

    3.Hver ættu að vera helstu áhersluatriði og verkefni?

    4.Skipan undirbúningshóps

    Allir velkomnir á undirbúningsfundinn.

    Fundarboðandi er Hallur Magnússon“

  • Gissur Jónsson

    „Þeim var ég verst er ég unni mest.“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur