Þriðjudagur 01.03.2011 - 12:44 - 6 ummæli

Styð Svandísi Svavarsdóttur

Ég styð Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra í því átaki sem hún hefur hleypt af stokkunum og felst í aðgerðum til að auka útbreiðslu birkiskóga á Íslandi.

Umhverfisráðuneytið segir að með verkefninu sé stefnt að því að friða land fyrir beit í nágrenni birkiskóga, sér í lagi þar sem skógurinn getur breiðst út án verulegra annarra aðgerða en beitarfriðunar. Einnig geti í einhverjum tilvikum verið þörf á frekari aðgerðum, svo sem fræsáningu eða gróðursetningu.

Slík skógrækt geti verið framkvæmd á landi í umsjón stofnana umhverfisráðuneytisins og mun verða unnin greining á möguleikum þess.

Einnig verði lögð áhersla á samstarf við landeigendur um friðun lands frá beit í nágrenni birkiskóga/skógarleifa þar sem skógurinn geti fengið að breiðast út. Þetta séu eðlilega langtímaaðgerðir, þar sem miðað er við að tekin séu fyrir stór samfelld svæði.  

Frábært framtak – því það jafnast fátt á við fallega og vel ilmandi íslenska birkiskóga!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Sumarbústaðareigandi á einn hektara lands. Skikinn er að nokkru mólendi, rofabörð áberandi og þriðjungur landsins malarbingir. Hann ákveður að hefja uppgræðslu á skikanum sínum m.a. með skógrækt. Landið er flatlent svo langt sem augað eygir en í fjarska sér til fjalla. Landeigandinn sér fyrir sér að með tíð og tíma verði landið hans fallegt og skjólgott og paradís fyrir hann og fjölskylduna.
    En vandi er á höndum. Svandís umhverfisráðherra ætlar að búa til nefnd eða nokkurs konar stóra bróður í ræktunarmálum sem ákveður hverju má planta út og hverju ekki og á nefndin að vinna samkvæmt örfokauppblásnum hugmyndum umhverfisráðherrans.
    Það liggur því fyrir, að sumarbústaðareigandinn þarf að ganga fyrir stóra vellaunaða nefnd rétttrúnaðarmanna í landgræðslumálum og færa fram óskir sínar. Má ég rækta birki? Já, á þriðjungi lands. Má ég setja lúpínu í melana sem undanfara birkiræktunar? Ekki að ræða það enda eru melarnir einkenni Íslands og hefur svo verið nánast frá 14. öld að landnámsmennirnir ruddu skógana og brenndu til upphitunar í híbýlum sínum. Melarnir og örfoka landið hafa því unnið sér þegnrétt og ekki má hrófla við þessum einkennum Íslands sem gleðja alla þá sem um landið fara jafnt innlenda sem útlendinga. En segir sumarbústaðaeigandinn, ég elska stafafuruna, blágrenið og sitkagrenið. Má ég ekki planta út nokkrum slíkum mér og mínum til yndis? Það kemur ekki til greina. Þessar plöntur flokkast undir innflutt illgresi og eru á bannlistanum. Og stóra nefndin hallar sér afturábak í mjúkum hægindunum, andlitin steinrunnin og málið er útrætt. Sumarbústaðareigandinn fer bugaður af fundi. Allar hugmyndir hans um að fegra og bæta land sitt eru fyrir bí. Stóri bróðir eða öllu heldur stóra systir ræður og dómi verður ekki áfrýjað. Ekki um sinn að minnsta kosti.
    En landeiganda til huggunar er ekki öll nótt úti enn. Svandís umhverfisráðherra með að baki sér sitt fámenna rétttrúnaðarlið í landgræðslumálum situr aðeins skamma stund í embætti og í framhaldi af því má vænta vitrænni aðgerða í þessum málum. Landeigandinn verður því að sína þolinmæði. Biðin gæti verið eitt ár, í mesta lagi tvö og það er ekki langur tími í sögu uppgræðslu og landverndar á Íslandi.
    Mikið undur hvað framsóknarmaðurinn Hallur er elskur að hugmyndafræði Svandísar. Framsóknarmenn hafa frá því að flokkurinn var stofnaður haft á stefnuskrá sinni að endurheimta skuli landgæðin frá því um landnám með uppgræðslu örfoka lands og skógrækt.

  • Þetta er ný grein í „Ísland fyrir Íslendinga“-öfgunum sem að tröllríða landinu.

    Sem sagt. Hvenær byrjar planta að vera íslensk? Er það 1944? eða við landnám 830? eða við landris fyrir 20-60 milljónum ára? Hvað er íslensk planta?

    Finnst þetta persónulega lykta af umhverfisrasisma.

  • Hallur Magnússon

    GSS – Ólinn.
    Eruð þið á móti íslenskum birkiskógum?

  • Já, kallast and-rasismi. (djók)

    Nei er annars svarið við spurningunni þinni.

    En er á móti einhæfingu vistkerfis Íslands.

  • Hallur Magnússon

    Ólinn.
    Viltu gera svo vel að benda mér á hvar í pistlinum mínum er ég að tala fyrir einhæfingu vistkerfis Íslands?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur