Miðvikudagur 23.03.2011 - 12:34 - 4 ummæli

Lögbrjótur ræðst að ríkissaksóknara!

“Lögbrjótur sem gegnir háttsettri opinberri stöðu hefur ráðist að ríkissaksóknara Íslands að sögn ríkissaksóknara. Lögbrjóturinn sem er kona og einn hæstlaunaðasti embættismaður íslenska ríkisins situr sem fastast.”

Þannig gæti frétt um Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hljómað. Fréttin yrði rétt og ekki hægt að véfengja hana  – en gæfi kannske ekki alveg rétta mynd af stöðu mála.

Við erum hins vegar sífellt að lesa fréttaflutning af þessu taki.

En skoðum aðeins af hverju ofangreind frétt stenst fullkomlega og engin séns fyrir forsætisráðherrann að rengja hana.

Fyrst um lögbrjótinn með tilvitnun í úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli sem höfðað var gegn forsætisráðherra:

Forsætisráðuneytið auglýsti í mars 2010 laust embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hafi verið gegn jafnréttislögum með því að skipa karl í embættið en hún taldi sig vera hæfari eða jafn hæfa þeim karli sem skipaður var. Þá taldi kærandi að einkunnagjöf vegna hæfnisþátta væri röng og ófullnægjandi. Forsætisráðuneytið taldi hins vegar að karlinn hefði verið hæfasti umsækjandinn um embætti skrifstofustjóra, meðal annars á grundvelli hæfnismats, þekkingar og reynslu. Kærunefnd jafnréttismála taldi að forsætisráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar því að gengið var framhjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra. Taldist því ráðuneytið hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í ráðuneytinu.

Þá árásin – en á vef  ríkissaksóknara segir:

„Forsætisráðherra tilkynnti engu að síður í sjónvarpi 10. júní 2009 að mér bæri að víkja alfarið úr starfi. Þennan dag var ég staddur erlendis á fundi ríkissaksóknara Norðurlandanna sem fylgdust agndofa með aðförunum. Ég tel að árás á ríkissaksóknara og embætti hans með þessum hætti hafi verið bæði óviðeigandi og tilefnislaus,“

Undir þetta ritar ríkissaksóknari Valtýr Sigurðsson.

Ergo. Samkvæmt þessu er Jóhanna lögbrjótur og ríkissaksóknari segir að hún hafi ráðist að sér.

Ég reyndar býst við að Jóhanna sé á öðru máli.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Góður Hallur !!!! verulega góð ábending

  • Hallur Magnússon

    Það er löngu ljóst að hæfnisnefndir utanaðkomandi aðilja mega EKKI raða umsækjendum í opinberar stöðir í 1. 2. og 3. – heldur einungis leggja mat á hverjir teljast hæfir.

    Jóhanna getur því EKKI skýlt sér á bak við röðun ráðningafyrirtækis út í bæ.

  • Ákaflega ómálefnalegur pistill; fremur stráksleg aulafyndni.

    Forsætisráðherra skipaði skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu eftir niðurstöðu mats hæfisnefndar, sem m.a. var skipuð óháðum mannauðsráðgjafa úti í bæ, og fór nákvæmlega eftir tillögum nefndarinnar.

    Sá sem lenti í 5. sæti að mati hæfisnefndar kærir málið til kærunefndar jafnréttismála sem kemst að þeirri niðurstöðu „að forsætisráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar því að gengið var framhjá kæranda við skipun í embætti skrifstofustjóra.“

    Mannauðsráðgjafinn hefur sent frá sér greinargerð um niðurstöðu kærunefndarinnar, sjá: http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/6709. Af lestri þeirrar greinargerðar er ljóst að hæfisnefndin og kærunefndin fóru ólíkar leiðir í hæfismati. Það þarf því ekki að koma á óvart að niðurstöðurnar hafi verið mismunandi.

    Málið afhjúpar þann galla í stjórnsýslunni að mismunandi aðilar fara hver eftir sínum reglum í stað þess að fara eftir samræmdum reglum. Þetta er kjarni málsins og á þessu þarf að ráða bót.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur