Loksins virðist glitta í nýtt réttlátt húsnæðisbótakerfi á Íslandi en ég hef talað fyrir slíkri endurskipulagningu í tæpan áratug! Tillaga um nýtt húsnæðisbótakerfi var að finna í tillögum starfshóps á vegum Árna Páls Árnasonar þegar hann var félagsmálaráðherra – en ég sat í þeim vinnuhópi.
Það er gleðiefni að endurskipulagning húsnæðisbótakerfisins sé komin formlega á dagskrá. Af því tilefni birti ég nú pistil um húsnæðismál frá 20. maí 2008 þar sem ég meðal annars bendi á nauðsyn slíkrar endurskipulagningar. Pistillinn birtist á Moggablogginu.
„Er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?
Gæti verið réttara og einfaldara að félagslegur stuðningur í húsnæðismálum verði ekki í formi styrkingu félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs sem gæti leitt til hallareksturs og gjaldþrots ef tekið er mið af sögunni, heldur gegnum húsnæðisbætur sem taka mið af stöðu fólks hverju sinni?
Félagsmálaráðherra hefur nú gengið fram fyrir skjöldu og dregið úr þeim skaða sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra sköpuðu með ónákvæmum og ótímabærum yfirlýsingum um óskilgreinda framtíð Íbúðalánasjóðs. Félagsmálaráðherra segist muni standa vörð um Íbúðalánasjóð og að sjóðurinn muni áfram veita landsmönnum um allt land almenn íbúðalán en án ríkisábyrgðar.
Þau lán munu óhjákvæmilega verða á hærri vöxtum en sambærileg lán eru með ríkisábyrgð. Það er hins vegar ekki aðalatriðið. Það sem skiptir máli er að almenningur hafi rétt á slíkum lánum. Slíkur réttur er ekki til staðar hjá bönkunum, en ríkisvaldinum ber skylda til að tryggja almenningi aðgang að slíkum lánum dutlungalaust. Ég treysti félagsmálaráðherra vel í að tryggja almannahagsmuni á þennan hátt.
En það er fleira sem félagsmálaráðherrann segir:
„Samhliða breytingunum gefst tækifæri til að styrkja verulega félagslega hluta sjóðsins eins og ég hef boðað. Slíkar félagslegar áherslur munu nýtast þeim sem verr standa á húsnæðismarkaði, fyrstu íbúðarkaupendum og tekjulágum.“
Þessi markmið eru göfug og jákvæð.
En er rétt að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs? Ég ætla ekki að útiloka það – en ég er ekki viss!
Hvað þýðir það að efla félagslegan hluta Íbúðalánasjóðs?
Íbúðalánasjóður er fyrst og fremst sjálfbær samfélagslegur sjóður sem nær markmiðum sínum án beinna framlaga úr ríkissjóði. Ríkisábyrgð sem ríkissjóður ber engan kostnað af og öflug skuldabréfaútgáfa sjóðsins tryggir sjóðnum bestu mögulegu lánakjör í íslenskum verðtryggðum krónum. Þessir lágu vextir og sá tryggi réttur sem almenningur á hefur lengst af nýst best þeim sem eru í lægri tekjuhópunum.
Hinn sértæki félagslegi hluti Íbúðalánasjóðs í dag er fyrst og fremst félagsleg leiguíbúðalán sem eru niðurgreidd með beinum framlögum úr ríkissjóði, enda má Íbúðalánasjóður ekki niðurgreiða einn lánaflokk með tekjum af öðrum vegna lögbundinna jafnræðissjónarmiða.
Ætlar ríkisstjórnin að auka slíkar niðurgreiðslur á vöxtum Íbúðalánasjóðs? Er það styrking félagslega hluta sjóðsins? Á að hverfa frá hinum sjálfbæra Íbúðalánasjóði yfir í ríkisrekna og ríkisstyrkta félagsmálastofnun?
Ég minni á að ein ástæða þess að Húsnæðisstofnun ríkisins var endurskipulögð með stofnun Íbúðalánasjóðs var sú staðreynd að hinn félagslegi Byggingasjóður verkamanna var gjörsamlega gjaldþrota, hafði étið upp allt eigið fé Byggingasjóðs ríkisins svo það stefndi í allsherjar gjaldþrot Húsnæðisstofnunar. Á núvirði var eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna neikvætt um rúmlega 24 milljarða – sem er meira en núverandi eigið fé Íbúðalánasjóðs.
Þessi staða var afleiðing þess kerfis þar sem ríkissjóður átti að niðurgreiða vexti félagslegra lána – en sveikst um það.
Er ekki einfaldara að allur Íbúðalánasjóður verði almennur og fjármagnaður án ríkisábyrgðar?
Er ekki réttara og einfaldara að félagslegur stuðningur í húsnæðismálum verði ekki í formi styrkingu félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs sem gæti leitt til hallareksturs og gjaldþrots ef tekið er mið af sögunni, heldur gegnum húsnæðisbætur sem taka mið af stöðu fólks hverju sinni?
Þannig er rekstur Íbúðalánasjóðs tryggður öllum almenningi til hagsbóta en markmiðum um félagslega aðstoð næst á mun markvissari hátt!
Með slíkum húsnæðisbótum í stað niðurgreiðslu lána Íbúðalánasjóðs er jafnræði á mörgum sviðum náð.
Það ætti að vera jafnræði milli húsnæðisforma og slíkar bætur óháðar búsetuformi. Það á ekki að skipta máli hvort búið er í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búseturéttarhúsnæði.
Það ætti að vera jafnræði milli lánveitenda. Það á heldur ekki að skipta máli hvort húsnæðið er fjármagnað af Íbúðalánasjóði eða öðrum fjármálastofnunum. Húsnæðisbæturnar fara þangað sem þeirra er þörf.
Gæti þetta ekki verið vænlegri leið en „styrking félagslegs hluta Íbúðalánasjóðs“?“
Greinin á Moggablogginu 20. ´maí 2008. http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/544864/
Meiri umfjöllun um húsnæðisbætur og húsnæðismál : http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/547051/
http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/640473/
http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/668166/
http://blog.eyjan.is/hallurm/2011/04/04/husnaedi-fyrir-alla/
Rita ummæli