Evrópusambandið hefur ákveðið að hefja eiginlegar samningaviðræður við Íslendinga um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það var í raun endanlega staðfest á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins í vikunni. Mikilvægt skref.
Fjarvera fulltrúa hingað til mikilvægs stjórnmálaflokks á Íslandi á þessum mikilvæga fundi sameiginlegrar þingmannanefndar vakti athygli mína og áhyggjur. Slík fjarvera er ekki Íslandi til framdráttar á alþjóðavettvangi hvað sem mönnum finnst um ESB.
Fyrstu kaflarnir sem opnaðir verða í aðildarumræðunum eru um opinber útboð, samkeppnismál, upplýsingatækni og fjölmiðlun, vísindi og rannsóknir og menntun og menningu. Reyndar höfum við undanfarna tæpa tvo áratugi notið öflugs stuðnings Evróðusambandsins í flestum þessum málaflokkum – en látum það vera á þessari stundu. Nú erum við farin að ræða mögulegan aðildarsamning.
Nú þurfa stjórnmálamennirnir að hætta barnalegri þrætupólitíkinni og fara að ræða þau pólitísku markmið sem Ísland vill ná í aðildarviðræðunum í hverjum kafla í aðildarviðræðna fyrir sig. Þar skiptir miklu máli í þeirri umræðu að fá áherslur þeirra sem eru gegn aðild ekki síður en þeirra sem eru jákvæðir fyrir mögulegri inngöngu í ESB.
Það er skylda stjórnmálamanna að tryggja sem bestan aðildarsamning sem þjóðin og Alþingi taka síðan afstöðu til. Því þurfa allir að taka virkan þátt í umræðunni um hver skuli vera samningsmarkmið Íslands í viðræðunum og jafnframt að veita samninganefnd Íslands öflugt og málefnalegt aðhald.
Stjórnmálaflokkarnir hafa algerlega brugðist þeirri skyldu sinni meðan til dæmis Bændasamtök Íslands hafa sett fram sínar „varnarlínur“ sem við eigum að sjálfsögðu að taka tillti til í aðildarumræðunum.
Það bólar hins vegar ekkert á pólitískri stefnumótun og lýðræðislegri umræðu stjórnmálamannanna um hvað beri að setja á oddinn í aðildarviðræðunum. Þeir virðast fastir í heimskulegum „já“ og „nei“ skotgröfum – þar sem barist er með innantómum slagorðum og órökstuddum staðhæfingum en ekki uppbyggjandi, rökstuddum, málefnalegum, lýðræðislegum umræðum um raunverulega hagsmuni Íslands í aðildarviðræðnum.
Er ekki kominn tími til að tengja?
Landráðamenn ríða um héruð. Þeir verða afgreiddir þegar þar að kemur.
@esb Andstæðingur
Sorglegt innlegg en því miður afar algengt í umræðunni hjá stækum andstæðingum aðildarviðræðna. Hefur þú ekkert málefnalegt fram að leggja?