Fimmtudagur 02.06.2011 - 10:36 - 12 ummæli

Fjárhúskötturinn kominn í Framsókn

Það að hinn gallharði vinstri maður Ásmundur Einar Daðason fyrrum alþingismaður VG skuli ganga til liðs við Framsóknarflokkinn staðfestir að Framsóknarflokkurinn er að fjarlægjast hefðina sem frjálslyndur umbótaflokkur á miðju stjórnmálanna. Ég er ósáttur við þá vegferð sem Framsóknarflokkurinn hefur verið á að undanförnu – þrátt fyrir einstaka gott stefnumál flokksins – enda sagði ég mig úr flokknum eftir aldarfjórðungsstarf 1. desember.

Reyndar hafði ég spáð því fyrir nokkru að Ásmundur Einar væri á leið Framsóknarflokkinn og þá jafnvel með Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur. Þá voru þau enn öll í þingflokki VG. Það voru gerð hróp að mér þegar ég spáði því – en ég þekki mitt heimafólk í Framsókn – og var nokkuð viss að þróun mála á fámennu flokksþingi yrði ekki í átt víðtækra sátta innan Framsóknarflokksins í anda flokks Steingríms Hermannssonar heldur í átt til fjárhúskattana í VG.

Þessi staða þarf þó ekki að vera slæm fyrir íslensk stjórnmál. Þvert á móti getur þetta verið skref í átt til nauðsynlegrar uppstokkunar hins úrelta aldargamla flokkakerfis á Íslandi – en eins og ég hef áður bent á til dæmis í pistlinum „Hrun 100 ára flokkakerfis?“ 

Forysta Framsóknarflokksins hefur valið að feta nýja leið. Frá frjálslyndum Framsóknarflokki Steingríms Hermannssonar sem tók mjög virkan þátt í alþjóðastarfi frjálslyndra flokka í Evrópu og á heimsvísu – þótt Steingrímur væri á móti því að Ísland tæki þátt í EES samstarfinu árið 1993  þar sem hann taldi réttilega að í þeim samningi fælist fullveldisframsal.

Ný leið forystu Framsóknarflokksins virðist vera leið stjórnlyndis, ósveigjanleika, einangrunarhyggju og eldfimrar þjóðernishyggju.

Áratugahefð Framsóknarflokksins sem samvinnuflokks í víðasta skilnings þess orðs þar sem Framsókn var brúarsmiðurinn og límið í stjórnmálunum vegna þess frjálslyndis og sveigjanleika sem flokkurinn sýndi virðist vera fyrir bí. Þótt einstaka þingmaður sýni slíka tilburði – þá kafna þeir tilburðir í háværum einstrengingshætti og upphrópunum annarra þingmanna.

Hið fyrra umburðarlyndi Framsóknarflokksins virðist einnig vera að fjara út hjá stuðningsmönnum hinnar nýju leiðar flokksins sem í athugasemdakerfum bloggheima láta gammin geysa margir með svívirðingum,  jafnvel heift, gegn þeim sem hafa aðra nálgun á málin. Hugmyndafræði brúarsmíð Framsóknar er fyrir bí.

Birtingarform þessa eru meðal annars persónulegar árásir á tvo þingmenn Framsóknarflokksins –  sem voru þeir einu sem fylgdu Evrópustefnu flokksins sem samþykkt var á fjölmennu flokksþingi árið 2009 en var breytt á fámennu flokksþingi 2011 –  hafa verið áberandi. Heift og fullkominn skortur á umburðarlyndi hefur verið gegnum gangandi hjá þessum stjörnum athugasemdakerfanna. Mjög óframsóknarlegt verð ég að segja.

Þótt ég sé ekki sáttur við þessa leið míns gamla flokks – þá er alveg ljóst að það er ákveðinni hljómgrunnur fyrir þessari stefnu.  Mér þykir sárt að það verði Framsóknarflokkurinn sem taki þessa stöðu – en það verður svo að vera.

Þessi leiðangur Framsóknar sem fær ákveðna staðfestingu í inngöngu Ásmundar Einars í flokkinn skapar sterkari grunn undir mögulegt nýtt, frjálslynt stjórnmálafl sem getur meðal annars tileinkaða sér umburðarlynd, sáttfýsi og frjálslynda félagshyggju Steingríms Hermannsonar.

Staðreyndin er nefnilega sú – sem ég hef oft bent á – að frjálslyndi hluti Framsóknarflokksins, frjálslyndi hluti Samfylkingar og frjálslyndi hluti Sjálfstæðisflokks eiga oft á tíðum meira sameiginlegt með hver öðrum en með öðrum hópum sömu flokka. 

Vegferð Framsóknarflokksins undanfarið og innganga Ásmundar Einars hefur losað verulega um flokksbönd fjölda frjálslyndra Framsóknarmanna við Framsóknarflokkinn.

Tilburðir Jóhönnu Sigurðardóttur til að halda saman frjálslynda hluta Samfylkingarinnar og sínum eigin stjórnlynda hluta þess flokks með því að bjóða „frjálslyndum Evrópusinnum“ til liðs við Samfylkinguna undir nýrri forystu og kennitölu sýnir að það er farið að rakna úr flokksböndum frjálslynds fólks á þeim bænum.

… og stór hluti þess mikla fjöldi kjósenda sem ekki sér framtíð í núverandi flokkum – er einmitt að leita að nýju, öflugu, frjálslyndu og umburðarlyndu afli til að takast á við mikilvæg verkefni framtíðarinnar.

Um misskilning Jóhönnu að Samfylkingin væri vettvangur frjálslyndra afla ræddi ég í pistlinum „Mikilvægur misskilningur Jóhönnu!“  Ákveðinn hluti Samfylkingar er nefnilega allt annað en frjálslyndur.

Þannig er ljóst að  „heimkoma“ fjárhúskattarins úr VG í Framsókn gæti verið af hinu góða fyrir íslensk stjórnmál.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Þó að maður sé ekki beint yfir sig ánægður með Framsóknarflokkinn (nema þá Siv og Guðmund Steingríms.) þá held ég að hann eigi það ekki skilið að fá „villikött“ inn á „heimilið.“

    Nýjar áherslur í Framsókn?:

    Frelsið skal nú fjandans til
    fast að orði kveðið.
    Hugsjónirnar hér um bil
    horfnar oní beðið.

  • Jón Ingi

    Framsókn virðist hafa gefist upp á að leita fylgis hjá frjálslyndu fólki í þéttbýli og er því dæmd til fylgis á bilinu 10-15% hámark og mun því verða í besta falli meðreiðarflokkur þeirra sem hentar hverju sinni. Frumkvæðið er horfið og þröngir dreifbýlisflokkar með einhæfa stefnu einangrunar og afturhalds munu aldrei leiða eitt eða neitt í pólitík. Frálslyndara fólk eins og þú Hallur og enn er eftir fer örugglega að hugsa sér til hreyfings.

  • Mikið ofboðslegt bull er þetta í krötunum Jóni Inga og Badda. En Hallur þú virðist telja að þessi tæplega 100 ára flokkur fari á hliðina við það að Ásmundur Einar daðason hafi gengið til liðs við flokkinn en hvernig var þetta með Kidda komma þ.e. Kristinn Gunnarsson fór ekki allt á hliðina þegar hið frjálslynda átrúnaðargoð þitt Halldór Ásgrímsson fékk hann til að ganga í flokkinn ?

  • Sæll Hallur.
    Þú mærir mjög frjálslyndi og víðsýni Steingríms heitins Hermannssonar og get ég tekið undir það.

    HAnn var meira að segja svo framsýnn að hann var algerlega á móti EES samningnum sem m.a. færði okkur bankahrunið skilgetið.
    Hann var líka svo frjálslyndur og víðsýnn að hann var allt frá upphafi og alla tíð virkur félagi í Heimssýn.

    Þverpólitískur félagsskapur okkar sem berjumst gegn ESB aðild og sumir ykakr ESB taglhnýtinga uppnefnið þröngsýn í háði og spotti.

    Framsókn er svo sannarlega á réttri leið og Ásmundur Einar Daðason einn yngsti þingmaður okkar er mjög kraftmikill og víðsýnn og hörkuduglegur og nýtur mikils trausts í kjördæmi sínu þvert á flokka og flokkadrætti.

    Það er því mikill fengur fyrir Framsókn að hafa fengið þennan kraftmikla og unga þingmann til liðs við sig.

    Auk þess er hann öflugur formaður Heimssýnar sem njóta stuðnings tugþúsunda íslendinga úr öllum flokkum.

  • Æi ekki svona súr.

  • fridrik indridason

    þér er boðið upp í dans eins meðal annarra. eins og ég hef útskýrt fyrir tóta er staðan í framsókn orðin sú sama og í repúblikanaflokknum fyrir vestan í upphafi blómaáratugarins. verulegum þjóðrembingum á borð við Barry Goldwater var leyft að sýsla með flokkinn um stund. eða þar til þeir voru rassskelltir í forsetakosningunum 1964. þá smurðu nixon og co sér inn í rifuna sem myndaðist, hann sjálfur rested, tan and ready, og tóku völdin 1968.
    leyfum sigmundi davíð að sökkva í eigin leðju. hann virðist fullfær um slíkt án aðstoðar. síðan hirðum við upp leyfarnar af flokknum í lok næstu kosninga og komum honum aftur á sinn stall.

  • Framsóknarflokkurinn helmingaði fylgi sitt á landsvísu með því að fæla vinstri sinnaða helminginn af flokknum á braut.

    Fólkið sem kaus hann af því að hann var ekki Sjálfstæðisflokkurinn, var með forystufólk að hluta sem var á móti EES/EB, var ekki Kanasleikja og hafði ekki fattað hvernig Finnur og co voru að stela því fjármagni sem var tengt Framsókn.

    Þetta klímaxaði svo í Íraksmálinu og þegar það varð nokkurn veginn ljóst hvernig einstakir menn tengdir Framsóknarflokknum höfðu stolið peningum (löglega en siðlaust og allt það).

    Það fólk kemur kannski í einhverjum mæli tilbaka núna. Verður að minnsta kosti spennandi að sjá hvort Framsókn fari að læðast uppundir 20% í skoðanakönnunum.

  • Hallur Magnússon

    Brátt fer að bóla á Bjarna Harðar.

  • Hallur svo er kominn timi til að þú farir að jafna þig á því að vera kominn úr Framsóknarflokknum, ert alveg eins og alkóhólisti sem hefur drukkið ótæpilega allt lífið, fer í afvötnum og getur á eftir ekki hugsað um neitt annað en brennivín sem hann á að vera hættur að hugsa um. Get real man, you are gone, ekki vera svona stöðugt að opinbera hvað þú ert ofboðslega bad looser. Jón Sig fyrrv formaður þinn er að skrifa enn eina greinina um ímyndað þjóðernisofstæki, hann er sko verulega bad looser, þú þarft ekki að taka hann til fyrirmyndar, farðu að lifa lífinu í nútíðinni maður, þú ert hættur í Framsókn reyndu að muna það litli karl.

  • Gissur Jónsson

    Svei mér þá ef tími ykkar Jóhönnu er ekki kominn. Þið gætuð orðið flott teymi. hehehe

  • Gormar45

    Hallur hvað tapaði Sparisjóður mýrasýslu mikklum peningum á bílaleiguni sem þú varst stjórnarformaður í ?

  • Hallur Magnússon

    Gormar 45.

    Í fyrsta lagi er stórt M í Mýrasýslu og tvö n í bílaleigunni. Þá er bara eitt k í miklum.

    Þá sé ég ekki hvað það kemur þessu máli við.

    En þá 2 mánuði sem ég var stjórnarformaður í bílaleigunni Sixt upp úr áramótunum 2008 skilaði rekstur bílaleigunnar verulegnum hagnaði.

    Þrátt fyrir að lánastofnanir hefðu lokað fyrir fjármögnun á bílum til smærri bílaleiga var rekstur Sixt tryggður fram á haust 2008 með sérstökum lánasamningi beint við bílaumboð.

    Sá lánasamningur var að fullu efndur og til staðar voru fjármunir til að gera að fullu upp fjármögnunarsamning við Sparisjóð Mýrasýslu miðað við þær forsendur sem um var samið við Sparisjóð Mýrasýslu og bílaumboðið.

    Þær forsendur sem samið var um voru fjármögnun í erlendri mynt og endurkaup í erlendri mynt.

    En vegna afdrifaríkra mistaka Sparisjóðs Mýrasýslu árið 2006 – sem komu í ljós þegar nýr aðili var að koma til liðs við Sixt með verulegri hlutafjáraukningu – þá var ekki áframhaldandi rekstrargrundvöllur fyrir bílaleigunni sem var í góðum rekstri.

    Ég skal aftur fara yfir þann feril fyrir þig sem ég hef gert áður- því það virðist sem sért eitthvað tregur. Fyrirgefðu að ég hef þetta orðrétt eins og síðast – hætti ekki á að breytamiklu – það gæti ruglað þig í ríminu.

    „Reyndar stjórnaði ég ekki bílaleigunni Sixt – heldur bróðir minn – en rekstur þeirrar bílaleigu gekk ótrúlega vel árið 2008 – árið sem allar þessar stóru fóru á hausinn svo tapið hjá þeim skipti milljörðum – þrátt fyrir að ekki fékkst eðlileg fjármögnun úr bankakerfinu til endurnýjunar bílaflota Sixt.

    Hins vegar voru það mistök Sparisjóðs Mýrasýslu sem varð til þess að ekki varð rekstrargrundvöllur fyrir bílaleigunni haustið 2008 – ekki rekstur fyrirtækisins. Þvert á móti var reksturinn það góður að nýr öflugur aðili var að koma til liðs við félagið í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu.

    Fyrst þú vekur máls á þessu skal ég fara yfir málavöxtu.

    Í fjármögnun á bílaflota Sixt hjá Sparisjóði Mýrasýslu árið 2006 var á öllum stigum gengið úr frá því að lánin væru í gjaldeyrislánum (sem nú hafa verið dæmd ólögmæt) og að endurkaup bílaumboðsins á bílunum væru einnig í gjaldeyri. Eðlilega. Enda tekjur leigunnar fyrst og fremst í erlendum gjaldeyri.

    Þannig voru lánapappírar á öllum stigum – þar til á því síðasta – þegar einhver snillingur hjá Sparisjóði Mýrasýslu ákvað upp á sitt einsdæmi að breyta endurkaupasamningnum við bílaumboðið úr gjaldeyri í íslenskar krónur. Sem er náttúrlega gersamlega galið vegna gengisáhættunnar.

    Það sem meira var – Sparisjóður Mýrasýslu lét engan vita af þessari breytingu á lánapappírum sem gerð var korter fyrir undirskrift. Þáverandi stjórnarformaður Sixt – sem reyndar starfaði hjá fyrrnefndu Reykjavík Capital eins og doktor Arnar Bjarnason – skrifaði undir lánapappírana án þess að taka eftir þessari örlagaríku breytingu.

    Þessi mistök Sparisjóðs Mýrasýslu varð til þess að við hrun íslensku krónunnar varð mikill munur á skuldbindingunum sem Sixt þurftu að standa við í erlendu láni – og skuldbindingum endurkaupanda bílanna – bílaumboðsins – í íslenskum krónum. Hrun krónunar varð til þess að ekki var lengur rekstrargrundvöllur fyrir bílaleigunni.

    Sparisjóður Mýrasýslu hefur væntanlega tapað töluverðu á þessum mistökum sínum. Tilfinnanlegra var þó tapið fyrir þá sem höfðu lagt mikla fjármuni og mikla vinnu í rekstur fyrirtækisins – og hefðu uppskorið ríkulega á árinu 2009 – 2001. Ef ekki hefði verið fyrir aulaskap Sparisjóðs Mýrasýslu.

    Takk fyrir að gefa mér tækifæri á að koma þessari sorgarsögu mista Sparisjóðs Mýrasýslu á framfæri – því sumir halda að ástæða þess að Sixt skipti um eigendur hafi verið vegna þess að daglegur rekstur leigunnar gekk ekki upp á erfiðum tíma – þegar hið rétt var að reksturinn gekk ótrúelga vel í erfiðum aðstæðum – en fáránlega mistök sparisjóðsins – og fyrrum stjórnarmanns sem treysti því að hann væri að skrifa undir þá pappíra sem hann hafði áður séð – og las ekki það sem hann skrifað undir.“

    Svo ég svari spurningunni þinni beint – þá hef ég ekki hugmynd um hvað þessi afdrifaríku mistök Sparisjóðs Mýrasýslu kostuðu þann ágæta sparisjóð – en ég veit hvað það kostaði hluthafa Sixt.

    Tap þeirra af völdum Sparisjóðs Mýrasýslu var tilfinnanlegt – en þér kemur ekki við hversu mikið það var.

    Enn og aftur.

    Þú ert mikilmenni eða hitt þó heldur að þora ekki að skrifa undir nafni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur