Uppgefið leiguverð á íslenskum íbúðamarkaði er afar oft miklu lægra en raunverulegt leiguverð. Ástæðan er annars vegar glórulaus skattastefna ríkisins og hins vegar glórulaus viðmiðun leigubóta samhliða afnámi vaxtabóta ef eigendur húsnæðis búa ekki í eigin íbúð.
Það er afar algengt að þinglýstir leigusamningar hljóði upp á fjárhæð sem dugi til þess að leigjandi fái greiddar fullar húsaleigubætur. Leigufjárhæðin sem er umfram þá fjárhæð er síðan greidd svört – eins og í gamla daga.
Ástæðan er sú að með 100% hækkun skatts á leigutekjur úr 10% í 20% fer verulega að muna um skattgreiðslurnar auk þess sem leigutekjur geta orðið til þess að eigandi leiguíbúðarinnar hækki um skattþrep vegna leigutekna. Þá er það betra fyrir leigjandan að greiða hluta leigunnar svart í stað þess að greiða hærri leigu sem nemur aukinni skattheimtu ríkisins.
Þá er ákveðnum hluta leigusamninga ekki þinglýst þar sem um er að ræða leigu á eigin húsnæði og þinglýsing verður til þess að sá sem leigir frá sér íbúð – mögulega til að standa undir stökkbreyttum lánum – missir vaxtabætur sem lúta allt öðrum lögmálum en húsaleigubótum.
Rita ummæli