Þriðjudagur 16.08.2011 - 01:10 - 12 ummæli

Beztafólkið að byrja í pólitík!

Ég er þess fullviss að hluti þess ágæta fólks sem ætlaði sér aldrei inn á pólitíska sviðið en gerði það í ádeilduframboði Bezta flokksins og sambærilegra framboða víða um land er rétt að byrja í pólitík!

Það sem meira er – ég tel að í röðum þessa fólks sé að finna finna stjórnmálamenn sem eiga eftir að láta mikið að sér kveða í næst árum og eiga eftir að breyta íslenskum stjórnmálum.

Vonandi til hins betra.

Það voru ekki margir sem töldu að Jón G. Kristinsson myndi gerbreyta hinu pólitíska landslagi í borgarstjórn Reykjavíkur þegar hann kom fram í útvarpi og sagðist ætla að verða borgarstjórinn í Reykjavík. En hann og samstarfsfólk gerði það samt – þökk sé lýðræðinu sem við eigum að verja með kjafti og klóm – þótt okkur finnist niðurstöður kosninga ekki alltaf gáfulegar!

Það vita það flestir sem fylgst hafa með pistlum mínum að mér finnst Jón G. Kristinsson ekki hafa staðið sig sem skyldi sem borgarstjóri – ég hafði miklu meiri væntingar til hans. Finnst hann hafa brugðist í pólitík þótt hann klikki ekki í sífelldum listgjörningi sínum.

En þeir sem hafa fylgst með pistlum mínum – og ekki gersamlega misst sig þegar ég hef gagnrýnt Jón G. Kristinsson borgarstjóra – vita einnig að ég hef mikið álit á mörgu samflokksfólki Jóns G. Kristinssonar í Bezta flokknum.

Ég hef fylgst með þessum nýju stjórnmálamönnum – bæði í Bezta og í sambærilegum ádeiluframboðum sem náðu árangri. Enda hefðbundið 100 ára flokkakerfi að hrynja eins og ég hef oft bent á.

Og ég verð að segja mér finnst ákveðinn hluti þess fólks nákvæmlega það sem ég hef verið að vonast til að sjá á sjónarsviðinu.

Frjálslynt fólk sem leggur sig fram við að vinna hugmyndum sínum framgang með hag almennings að leiðarljósi.

Frjálslynt fólk sem lætur ekki hefðir og valdakerfi stöðva sig í því sem það vill koma á framfæri.

Frjálslynt fólk sem ég væri svo mikið reiðubúinn að vinna með í pólitík – ef ég væri ekki hættur í pólitík 🙂

Ég er þess fullviss að vænn hluti þess ágæta fólks sem ætlaði sér aldrei inn á pólitíska sviðið en hefur verið að ganga gegnum eldskírn sína í stjórnmálum á undanförnum mánuðum mun taka þátt í því nýja frjálslynda stjórnmálafli sem óhjákvæmilega mun myndast á Íslandi á næstu mánuðum eða misserum.

Frjálslyndu stjórnmálaafli þar sem mun sameinast sá mikli og ferski kraftur fólks sem aldrei ætlaði í pólitík en Jón G. Kristinsson dró inn á stjórnmálasviðið, sá mikli kraftur og dýrmæta reynsla sem frjálslynt fólk sem hefur og mun segja skilið við 100 ára flokkakerfi og  vinna í þágu þjóðar en ekki sérhagsmuna hefur fram að færa, og sá mikli kraftur sem frjálslynt fók í samfélaginu sem hingað til hefur einungis verið áhorfandi að stjórnmálum.

Frjálslynt afl sem 100 ára flokkakerfi óttast mest af öllum – með réttu!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Bíð spenntur. Vona að þú hafir rétt fyrir þér.
    Kveðja að norðan.

  • Árni kristjánsson

    Flottur

  • Menn hafa skiljanlega misst sig af og til thví að ómálefnaleg gagnrýni thín á Gnarrin hefur einatt verið ósanngjörn :]

  • Hallur Magnússon

    Ari.

    Það er bara ekki rétt að gagnrýni mín á Jón G. Kristinsson borgarstjóra hafi verið ómálaefnaleg!

    Aðdáendur Jóns G. Krisinssonar eru bara viðkvæmari fyrir gagnrýni á átrúnaðargoðið en aðdáendur annarra stjórnmálamanna gegnum tíðina – stjórnmálamanna sem þurft hafa að sitja undir ásanngjörnum árásum sumra þeirra sem fá hland fyrir hjartað ef Jón G. Kristinsson er gagnrýndur.

    Ekki gleyma því að Jón G. Kristinsson er borgarstjóri – og því táknmynd borgarkerfisins – alveg eins og Hanna Birna, Dagur B., Ingibjörg Sólrún og Davíð voru táknmyndir borgarkerfisins þegar þau gegndu stöðu borgarstjóra.

    Enda fengu þau sinn skammt af gagnrýni vegna þess að þau gegndu stöðu borgarstjóra – ekki vegna þess hverjar persónurnar voru.

    Viðkvæmni sumra stuðningsmanna Jóns G. er barnaleg – en pólitík er meðal annars þroskaferli – þannig það mun væntanlega lagast.

    Það breytir því hins vegar ekki – eins og ég hef marg oft bent á að meðal samherja Jóns G. er afar öflugt fólk sem hefur fullt erindi í pólitík.

  • Grímur Atlason

    Þú ert nú eiginlega bara fyndinn. Kallar borgarstjóra Jón G. Kristinsson – líkt og Davíð Oddsson. Þið kumpánarnir haldist í hendur með þetta – og varla er það fyrir virðingar sakir. Og Zetan sem þú annars hefur ekki tamið þér að nota – hún fær líka að njóta sín. En ég get svo sem trútt um talað. Kalla sjálfan mig Grím Kögun Atlason og flokkinn þinn (sem gerði Kögunarmenn svona ríka) Fransósarflokk.

    En eitt stendur þó eftir: Barnalega fólkið í Besta flokknum gerði það sem Bé listanum og R listanum og D listanum og tókst ekki að gera: Þau sögu að keisarinn væri í engum fötum þegar kom að málefnum OR. Þau gátu tekið til í apparati – sem var svo samansúrrað af fransós, allaballi, kratastuði og síðast en ekki síst Valhallarrugli – að það hálfa væri meira en nóg! Megi Besti flokkurinn því vera barnalegur sem lengst svo ekki komist aftur til valda eintómir kallar sem eiga vini í verktakabransanum….

  • Kristján Blöndal

    „en pólitík er meðal annars þroskaferli“

    Þú er partur af valdamálinu sem Ísland stendur fyrir framan.

  • Hallur Magnússon

    Grímur.

    Vissi ekki að Davíð Oddsson kallaði Jón G. Kristinsson Jón G. Kristinsson 🙂 Enda er ég ekki mikið að fylgjst með DO þessar vikurnar.

    Finnst þér zetan ekki falleg?

    Bezti flokkurinn er miklu betra en Besti flokkurinn. Reyndar hélt ég upphaflega að það væri zeta í Bezta. Sá það á prenti þegar ævintýrið var að byrja – og tók því þannig að Jón vildi hafa zetu. Líklega hefur það bara verið í Mogganum 🙂

    Þú hefur greinilega ekki lesið pistilinn minn. Ég hef ekki sagt að borgarfulltrúar Bezta séu barnalegir. Þvert á móti þá hef ég alla tíð haldið því fram að í þeirra hópi séu mjög efnilegir stjórnmálamenn sem muni – ef þeir vilja – verða öflugir stjórnmálamenn til framtíðar.

    Hins vegar hef ég sagt að VIÐKVÆMNI sumra aðdáenda Jóns G. borgarstjóra við gagnrýni á hann sé barnaleg. Það er allt annað.

    … og Grímur. Ertu nú viss um að Bezti hafi staðið sig vel og standi sig vel í OR?

  • Held að ég hafi fyrst skrifað Bezti með z. Hér á Eyjunni.

  • Ragnar Þórisson

    Stóð Besti flokkurinn sig í OR?

    Kannski fullsnemmt að dæma um það ennþá á sama hátt og við dæmum slaka frammistöðu forvera þeirra.

    Þú kallar borgarstjórann Jón G. Kristinsson líklega af sömu ástæðu og þú skrif Besti með z. Þú hefur séð það í Mogganum.

  • Eitt sem virkar pínu skrýtið í þessum hnýtingum þínum Hallberg, er að þú tönnlast á því að Jóhann Gnarrson sé sem borgarstjóri e.k. „táknmynd“ borgarkerfisins og flokksins síns og sé því gagnrýni verður sem slíkur – á sama tíma og þú lofar Betzta Flokkinn og meðlimi hans fyrir áræðni og góð störf.

    Ef hann er „táknmynd“ þeirra og kerfisins, ætti hann þá ekki skilið lof líka? Eða hvað á hann að gera sem ‘táknmynd’ annað en að hvetja flokkslimi sína og kerfið til góðra verka?

    Hvað finnst þér, Hallmar?

  • Hlynur Þór Magnússon

    Ágæti Hallur. Pistlarnir þínir þykja mér jafnan prýðilegir og markvissir og skemmtilegir. Leyfi mér að víkja að einu, sem áður hefur borið hér á góma! Það er stríðnisleg notkun þín á nafni borgarstjórans, sem heitir með réttu Jón Gnarr en þú kallar ýmist Jón Gunnar Kristinsson (hann bar það nafn fyrrum en ekki lengur) eða Jón G. Kristinsson. Á sínum tíma skrifaði Sverrir Hermannsson iðulega í Morgunblaðið og minntist þar ósjaldan á pólitískan óvin sinn Ólaf Ragnar Grímsson. Sverrir nefndi hann aldrei fullu nafni, það ég man, heldur Ó. Grímsson – bersýnilega í óvirðingarskyni. Mér fannst þetta heldur „ómálefnalegt“ hjá Sverri og hreint ekkert fyndið …

  • Ragnar Þórisson

    Ekki nóg með að það megi dæma það sem óvirðingu notkun þín á nafni borgarstjóra heldur er það ekki skynsöm leið til að koma gagnrýni á hann á framfæri. Mesta athyglin fer á notkun þína á nafni hans meðan annað fer fyrir ofan garð og neðan.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur