Sunnudagur 14.08.2011 - 16:10 - 4 ummæli

Lögga á nærbuxunum!

Lögreglan hefur nú verið án samninga í 255 daga. Það er ólíðandi. Endurbirti af því tilefni pistil minn um málefni lögrelgunnar frá því 2.desember 2010 – Lögga á nærbuxunum!  Það hefur nefnilega ekkert breyst frá því þá!
„Ég gleymi aldrei þegar Grana löggu var sagt upp í Spaugstofunni og sendur heim á nærbrókinni einni saman vegna fjárskorts lögreglunnar. Það var fyrir hrun – í mars 2008. Þetta gráa gaman var á þeim tíma háalvarleg vísbending um það ófremdarástand sem þá var að skapast hjá íslensku lögreglunni vegna fjárskorts.
 
Síðan þá hefur enn verið gengið á lögregluna með óhóflegum niðurskurði. Á sama tíma og lögreglan hefur staðið í ströngu. Sýndi hetjudáð með faglegum vinnubrögðum og æðruleysi í búsáhaldabyltingunni í samstarfi við flesta mótmælendur. Þurftu samt að standa undir eggjakasti og hastarlegum árásum lítils hóps heigla sem huldu andlit sín og réðust með hörku að lögreglu.
 
Þarna stóðu þessir lögreglumenn – með skuldir sínar og brostnar vonir í persónulega lífinu – æðrulausir og gerðu skyldu sína með staðfastri en hóflegri löggæslu.
 
Og það þrátt fyrir að héraðsdómur hefði stuttu áður sýknað árásarmenn sem gengu í skrokk á óeinkennisklæddum lögreglumönnum sem ætluðu að handtaka meinta fíkniefnasala og gerðu grein fyrir stöðu sinni sem lögreglumenn – af kærum fyrir árás á valdstjórnina – lesist lögregluna.
Ég var á þeim tíma afar ósáttur með það skotleyfi sem héraðsdómur gaf óbeint á lögregluna með þeim dómi – þótt ég sé frekar á því að menn eigi að njóta vafans í sakamálum en að vera dæmdir að ósekju. 

Staða löggæslumanna veiktist við þetta – og þegar launin eru of lág – þá spáði ég því að við myndum til lengri tíma missa bestu mennina úr lögreglunni. Kjarnan úr lögreglunni sem vann þjóð sinni svo mikið gagn með faglegum og hóflegum viðbrögðum á örlagatímum.

Lögreglumönnum hefur fækkað. Lögregluliðið er að missa marga hæfa starfsmenn. Menn flýja álagið. Menn flýja ofbeldið sem þeir eru beittir. Og menn flýja launin þrátt fyrir slakt ástand á vinnumarkaði.

Hvort sem okkur líkar það betur eður verr þá verðum við að auka fjárframlög til lögreglunnar. Það dugir skammt að verja grunnþætti velferðarþjónustunnar, heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins ef óöld skapast þar sem löggæslan er í molum. 

Við eigum góða og faglega lögreglu – en slík lögregla er ekki sjálfgefin. Það höfum við séð í ríkjum víða um heim.

Fagleg og öflug lögregla sem vinnur á grunni þess lýðræðis sem við byggjum samfélag okkar á er einn af hornsteinum samfélagsins. Þessi hornsteinn er að molna þar sem lögreglumenn eru hreint og beint að gefast upp vegna of mikils álags og allt of lágra launa.

Við verðum að hafa skilning á því að löggæslan kosti peninga – og ríkisvaldið verður að halda uppi faglegri lögreglu. Ríkisstjórn og Alþingi verða að gera sér grein fyrir þessari staðreynd.

Það verður að tryggja fjármagn til faglegrar löggæslu og það verður að tryggja lögreglumenn fyrir áföllum í starfi. Annars blasir ekki einungis við efnahagslegt hrun – heldur samfélagslegt hrun!

Árið 2008 var Grani lögga á nærbuxunum vegna sparnaðar. Ekki láta Grana löggu koma fram nærbuxnalausan árið 2011. Stöndum við bak faglegrar lögreglu á Íslandi.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Sæll Hallur.
    Vil fyrir hönd Landssambands lögreglumanna þakka þér fyrir að taka þetta mál upp. Við sem erum í framvarðasveit stéttarinnar höfum ítrekað tekið upp þessa stöðu við stjórnvöld en því miður án þess að við því hafi verið brugðist.

    Oft hefur verið þörf en nú er alger nauðsyn á viðbrögðum ef ekki á illa að fara.

    Kær kveðja
    Steinar Adolfs

  • Hallur Magnússon

    Kærar þakkir fyrir þetta Steinar.

    Ég hef fengið mjög góð viðbrögð í þau skipti sem ég hef vakið athygli á þessu ófremdarástandi með lögregluna. En einhverra hluta vegna þá eru þau viðbrögð oftast í samtölum eða gegnum tölvupóst – minnst á athugasemdakerfinu!

  • Höskuldur B.Erlingsson

    Sömuleiðis Hallur þakkir fyrir greinin.
    Höskuldur B.Erlingsson form.lögr.fél. Norðurlands vestra

  • Það er ágætt fyrir fólk að hafa í huga þá miklu ábyrgð sem hvílir á herðum lögreglumanna, (slökkviliðsmanna og sjúkraflutningamanna) í sínum daglegu störfum. Sem sálfræðingur tel ég mikilvægt að það sé tekið með í reikninginn að verkefni lögreglumanna snúast meðal annars um það að koma að aðstæðum sem fæst okkar vilja koma að og upplifa og bregðast við með fagmannlegum og fumlausum hætti. Það er hluti af þeirra starfi. Slíkt tekur á fólk því öll erum við manneskjur sama hvaða starfi við gegnum. Í þeirri skyldu er falinn ákveðinn mannlegur kostnaður sem aldrei verður hægt að meta til fjár.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur