Föstudagur 02.09.2011 - 22:30 - 9 ummæli

Raðmorðatilraun á landsbyggðinni?

Erum við að horfa upp á „raðmorðatilraun“ á landsbyggðinni í boði stjórnvalda? Það mætti halda það. Ég játa að ég er að ganga yfir strikið til að beina athygli að grafalvarlegu máli – en tilgangurinn helgar meðalið. Því það er verið að hætta mannslífum á landsbyggðinni!

Það mætti ætla að ríkisstjórn Íslands telji að mannslífin á landsbyggðinni séu minna virði en mannslífin á höfuðborgarsvæðinu. Það sama var uppi á teningnum hjá síðustu ríkisstjórn – og reyndar hjá þeirri þarsíðustu líka undir það síðasta.

Ég veit þetta eru alvarlegar ásakanir. En því miður réttar.

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni hefur verið skorin niður ár eftir ár eftir ár.  Í nafni „hagræðingar“. Ok. Látum það vera.

Það er sagt „ódýrara“ að sinna sjúku og slösuðu landsbyggðarfólki í Reykjavík en úti á landi. Ok. Látum það vera.

En – ef það á að loka allri bráðaheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni – í nafni „sparnaðar“ og „hagkvæmni“ – þá verða sjúklingar og illa slasað fólk utan af landi að komast í hagkvæmnina í Reykjavík.  Annars mun fólk deyja að óþörfu.

Er núverandi ríkisstjórn að tryggja það að sjúklingar og illa slasað fólk komist í „hagkvæmnina“ í Reykjavík?

Nei. Þvert á móti þá virðist hún vinna gegn því!

Eins og síðasta ríkisstjórn.

Og þarsíðasta!

Á sama tíma og heilbrigðisþjónusta – að ég tali ekki um bráðaþjónusta – út á landi er að deyja út – þá er verið að draga úr fjárframlögum til sjúkraflutninga bæði í lofti og á landi.  Það má líkja því við „morðtilraun“ á landsbyggðinni – því það að bjarga ekki mannslífi sem unnt er að bjarga jaðrar við morð

En björgunarþyrluflotinn er lamaður aftur og aftur. Vegna niðurskurðar.

Ríkisstjórnin getur ekki bæði skorið niður heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni og skorið niður björgunarþyrluflotan. Því eins ljótt og það hljómar – þá er nánast unnt að halda því fram að slíkt sé „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“.

Ég veit þetta er gróf aðferð til að draga fram ástand sem hefur skapast og líkur eru á að versni – ef menn hugsa málið ekki alla leið!

Alþingi og ríkisstjórn VERÐA að skoða niðurskurð heilbrigðisþjónustu og niðurskurð til þyrlusveita Landhelgisgæslunnar í samhengi. Það er EKKI unnt að skera niður á báðum stöðum.

Þessi pistlill minn er EKKI ætlaður til þess að skaða núverandi ríkisstjórn – og ég er ekki að saka hana sérstakelga um „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“ – enda hefur þetta verið þróun sem hófst í ríkisstjórn sem hvorugur núverandi ríkisstjórnarflokka átti þátt í.

Þessi pistill minn – eins nöturlegur og hann er – er ætlaður til þess að koma í veg fyrir að óheillaþróun undanfarinna ára og ríkisstjórna haldi áfram.

Því enginn Íslendingur vill „raðmorðatilraun á landsbyggðinni“.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Mikið rosalega er þetta vondur pistill, á alla mælikvarða.

  • Hallur Magnússon

    @Vilhjálmur.
    Þú mátt hafa þá skoðun – en vildir þú vera svo vænn að benda mér á eitthvað sem ekki er rétt?

  • Hermann Ólafsson

    Fullkomlega óviðeigandi nálgun á málefninu. þú hugsar augljóslega ekki lengra en nef þitt nær, en hvað heldurðu t.d. Að norðmenn myndu halda læsu þeir þetta frá þér? Skora á þig einfaldlega að fjarlægja þetta.

  • Hallur Magnússon

    @Hermann.

    Gætir þú bent mér á 1 atriði sem ekki er rétt í pistlinum?

  • Ekki gleyma svo að flugvöllurinn í RVK á að vera kjurr! 🙂

  • Hallur Magnússon

    … einu gildu rökin fyrir staðsetningu hans 🙂

  • Hallur,
    Hefurðu kynnt þér starfsemi sjúkraflugsins sem rekið er, án hávaða, frá Akureyri?
    Það virkar jafnt fyrir Jón Jónsson, reykvíking, sem velti bílnum, á ferðalagi með fjölskylduna við Borgarfjörð eystra, og hana Beggu gömlu á Sauðárkróki. Þau þurftu bæði að komast sem fyrst undir læknishendi á Lansanum, þar sem mínútur skiftu máli.
    Þarna er búið að byggja upp innviði sem sinna þessum þörfum, svínvirka, og hafa bjargað fjölda mannslífa.
    .
    Þessi starfsemi er ein af mörgum, sem gera Ísland að góðu landi til að búa á.

  • Hvernig dettur þér að tala um morðtilraun eða raðmorðatilraun á landsbyggðinni? Bentu fyrst á eitt dæmi þar sem landsbyggðarmanneskja var eða er í hættu vegna skorts á sjúkraflutningum. Án raka er þetta bara upphrópanir og þvæla.

  • Hallur Magnússon

    Anna. Ég ætla ekki að rifja hér upp dauðsföll sem þegar hafa orðið vegna þessa. En þau hafa orðið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur