Það er í raun ótrúlega góður árangur að Gnarr borgarstjóri skuli ná nær 40% ánægjufylgi í könnun MMR. Sú niðurstaða er kjaftshögg fyrir fjórflokkinn og vísbending um að hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir geti ekki hummað Bezta fram af sér. Enda er eins og ég hef oft bent á margir lofandi stjórnmálamenn innan raða Bezta sem eiga fullt erindi í íslenska pólitík – þótt Gnarrinn hafi valdið vonbrigðum.
Það er nefnilega kjarni málsins! Gnarr hefur ekki bara valdið mér vonbrigðum sem borgarstjóri – heldur fjölmörgum öðrum sem bundu við hann vonir eins og niðursveifla ánægjuvogarinnar sýnir. En þrátt fyrir það er nær 40% borgarbúa ánægðir með borgarstjóranna sinn!
Það er deginum ljósara að fjórflokkurinn hefur misst hefðbundna yfirburðarstöðu sína.
Ástæðan er einföld eins og Heiða Kristín fyrrum aðstoðarmaður Gnarrs bendir á í DV í dag:
„Heiða Kristín telur flokkunum öllum hafa mistekist í umbótastarfi og endurnýjun. „Þeim hefur algerlega mistekist og það hefur ekkert breyst í vinnulagi og hvernig stjórnmálamenn nálgast þennan leik. Það er ennþá verið að spila hann eftir gömlu leikreglunum. Ég sé líka að margir sem komu nýir á vettvang stjórnmála líta út fyrir að vera að gefast upp.“
Heiða Kristín segir meðlimi fjórflokksins ætla að humma af sér kröfu fólks um breytingar. „Mér finnst þeir allir halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og þeirra taktík er að leiða hjá sér allt annað. Þeir líta fram hjá okkur af ásettu ráði og þeir vona að við gefumst upp. Þetta allt saman lít ég á sem ákveðið samkomulag þeirra á milli sem hefur þann tilgang að halda hlutunum óbreyttum. En það hefur enginn gefist upp hjá okkur og það er mikið afrek út af fyrir sig.““
Krafa almennings er einmitt sú að gerðar verði alvöru umbætur og endurnýjun í hefðbundnu stjórnmálaflokkunum. Ég hef enga trú á að slíkar umbætur verði gerðar úr þessu. Stjórnmálaafl eins og Bezti er því komið til að vera. Kjósendur vilja nýtt, frjálslynt og opið stjórnmálaafl í stað gamla staðnaða fjórflokksins.
Það eru hin raunverulegu skilaboð í viðhorfskönnun MMR sem sýnir ótrúlegan árangur Gnarrs – þótt hann hafi ekki staðið sig neitt sérstaklega vel!
Einhvernvegin finnst mér þessi svokallaði flokkur ekki vera neitt nýtt, hvorki fugl né fiskur og því breyta nánast engu.
Uppgjörið er algjörleg eftir og bara bíður síns tækifæris sem mun koma í einhveri mynd fyrr en síðar.
Þarf stjórnmálaflokka til að stjórna landinu? Legg til að 63 einstaklingar verði valdir af handahófi á 18 mánaða fresti til að semja lög og reglur fyrir landið.
Af hverju talarðu alltaf um „Bezta“? Flokkurinn heitir „Besti flokkurinn“, ekki „Bezti“.
@ Valþór!
Þegar ég sá fyrst umfjöllun um Bezta á prenti – þá var z í heitinu. Ég hreinlega hélt að það væri hluti af gríninu. Skrifaði því heitið með z.
Líklega var ástæðan sú að ég sá umfjöllunina fyrst á prenti í Mogganum – en eins og þú veist þá er z algeng þar 🙂
Mér finnst hins vegar ekki nokkur ástæða til að hætta að nota z í heitinu þegar ég áttaði mig á því að flokkurinn var zetulaus. Annars vegar er það flottara – og hins vegar virðast allir vita að þegar ég skrifa Bezti – þá er um að ræða Bezta flokkinn!
Mæli með að liðsmenn Bezta taki upp þennan rithátt!
Það var klappað vel og lengi fyrir honum í Norræna húsinu í dag. Besta borgastjóraræða sem ég hef heyrt. Er prentuð í kynningarbæklingi setningarathafnarinnar. Ef við lítum á þessa könnun sem fylgiskönnun þá heldur hann fylgi sínu, sem er bara nokkuð gott miðað við allar þær óvinsælu ákvarðanir sem hann hefur þurft að taka.
Einmitt, það er ótrúlegur árangur á þessum tímum að 40% séu ánægðir með borgarstjórann — það er stóra fréttin en ekki að rúm 60% séu það ekki.