Fimmtudagur 08.09.2011 - 11:10 - 16 ummæli

CHF í stað ISK?

Það hafa margir bent á tilvist svissneska frankans sem rök fyrir því að Íslendingar geti og eigi að halda íslensku krónunni sem sjálfstæðum gjaldmiðli. Þá hafa aðrir talið rétt að Íslendingar taki upp svissneska frankann í stað evru. Ég hef bent á að við ættum að taka upp færeyska krónu – en er núna jafnframt reiðubúinn að skoða upptöku svissneska frankans – ef mönnum þykir algerlega ómögulegt að taka beint upp evru.

Ástæðan er einföld. Svisslendingar eru búnir að binda gengi svissneska frankans við evru. Svona eins og færeyska krónan endurspeglar þá dönsku sem tekur mið af evru með ákveðnum vikmörkum. 

Það fór ótrúlega lítið fyrir fréttinni af tengingu svissneska frankans við evru. Eins og sú frétt er í raun merkileg – og setur umræðu um gjaldeyrismál á Íslandi í nýtt samhengi.

Þegar ég var í Framsóknarflokknum fór iðulega fram víðtæk og vönduð umræða um hina ýmsu málaflokka.  Vinna sem iðulega endaði með vönduðum skýrslum og tillögugerð. Ein slík skýrsla er skýrsla Gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins sem gefin var út í septembermánuði 2008 og bar heitið „Staða krónunnar og valkostir í gjaldeyrismálum“.  Þessi skýrsla hefur nú verið fjarlægð af vef Framsóknar.

Í samantekt skýrslunna segir ma:

„Stysti útdráttur úr skýrslunni gæti því litið út á þennan hátt:

Styrkari efnahags- og peningamálastjórn – stórefling krónunnar eða taka evru upp sem gjaldmiðil“

Þessi niðurstaða virðist ekki falla núverandi flokksforystu Framsóknarflokksins í geð fyrst skýrslan var fjárlægð af vef flokksins.

Samantekt skýrslunnar hljóðaði í heild sinni svo:

„Markmið vinnu nefndarinnar er að leggja mat á þá kosti sem eru í stöðunni varðandi framtíðargjaldmiðil fyrir íslenska hagkerfið. Til að leggja grunn að niðurstöðunni er í upphafi þessarar skýrslu fjallað nokkuð um sögulegt hlutverk íslensku krónunnar og farið yfir þær miklu breytingar sem orðið hafa í íslensku þjóð- og atvinnulífi á síðustu árum og það tíundað sem vel hefur tekist til með og einnig það sem betur mátti fara.

Sýnt er fram á að frá árinu 1995 hefur íslenskt þjóðfélag verið á hraðri ferð frá hefðbundnu framleiðslusamfélagi til þess sem kallað hefur verið þjónustu- eða þekkingarsamfélag. Það endurspeglast í tilfærslu vinnuafls frá frumframleiðslugreinum til þjónustugreina, stórauknum fjölda sem útskrifast með háskólamenntun, mikilli hækkun launa og því að ráðstöfunartekjur hafa hækkað að raungildi yfir 50%. Framleiðslugreinarnar, s.s. sjávarútvegur, hafa þurft að mæta þessari breytingu með því að auka framleiðni vinnuaflsins eða sem nemur nálægt tvöföldun á útflutningstekjum á hvern starfsmann.

Einnig er rakið að það hefði mátt standa betur að hagstjórninni á þessum miklu uppgangstímum síðustu ára. Það var fyrirsjáanlegt að það yrði spenna í hagkerfinu vegna framkvæmda í orkuiðnaðinum og að þar yrðu til vel launuð störf sem kepptu við aðrar framleiðslugreinar um vinnuaflið. Því verður að teljast á margan hátt óheppilegt að samtímis var farið í aðgerðir sem stuðluðu að aukinni þenslu, s.s. með miklu framboði húsnæðislána fjármálafyrirtækja og skattalækkunum hins opinbera. Á sama tíma var einnig nánast ótakmarkaður aðgangur að erlendu lánsfé á lágum vöxtum sem orsakaði mikla aukningu í neyslu og framkvæmdum á nánast öllum sviðum.

Við þessar aðstæður var nánast óframkvæmanlegt fyrir Seðlabankann að hafa stjórn á peningamálunum með verðbólgumarkmiði sem ná átti með stýrivaxtabreytingum. Með stýrivöxtum sem voru mun hærri en þekkist í öðrum þróuðum hagkerfum fór áhugi erlendra fjárfesta vaxandi á að fjárfesta í íslenskum krónum, svokölluðum jöklabréfum, sem jók á eftirspurn eftir krónum og styrkti gengið enn frekar. Þessar aðstæður sköpuðu lágt innflutningsverð sem frestaði því að undirliggjandi verðbólga kæmi fram.

Það er við þessar aðstæður sem umræðan um hvort skipta eigi um gjaldmiðil fer af stað af þunga á ný. Eftir að hafa kynnt sér þau sjónarmið sem hafa verið uppi um gjaldmiðilsbreytingar og kallað á fund sinn hóp sérfræðinga og hagsmunaaðila um málefnið er það skoðun nefndarinnar að það séu fyrst og fremst tveir kostir sem komi til greina.

Annaðhvort að viðhalda krónunni sem framtíðargjaldmiðli og þá með fjölbreyttari framkvæmd peningastefnunnar og stórefldum gjaldeyrisvarasjóði eða með því að taka upp evru sem gjaldmiðil með fullri aðild að peningamálstefnu Seðlabanka Evrópu. Rökin fyrir því að taka upp evruna ef skipt er um gjaldmiðil á annað borð eru m.a. að nýr gjaldmiðill þurfi að endurspegla utanríkisviðskipti þjóðarinnar sem best og vera stór alþjóðlegur gjaldmiðill. Sá gjaldmiðill sem er besti samnefnari þessara þátta fyrir Ísland er evran.

Við störf nefndarinnar kom skýrt fram að mjög erfitt er að starfrækja alþjóðlegt fjármálakerfi eins og hefur verið að þróast hér á landi á síðustu árum á jafn litlu gjaldmiðilssvæði og því íslenska. Frekari vöxtur þess er því ólíklegur án breytinga hvað varðar gjaldmiðil þjóðarinnar.

Það er einnig skoðun nefndarinnar að hvor leiðin sem verður farin þá verði hún að byggja á traustri efnahagsstjórn. Jafn miklar sveiflur og hafa verið í íslensku efnahagslífi undanfarna áratugi samrýmast ekki þátttöku í opnu alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Því verður að vanda meira til hag- og peningamálastjórnarinnar en hefð er fyrir hér á landi. Að öðrum kosti mun hinn litli gjaldmiðill, íslenska krónan, magna hagsveifluna m.a. fyrir tilverknað utanaðkomandi afla eins og nú er að gerast. Og þótt farin væri sú leið að taka upp nýjan gjaldmiðil kann staðbundin verðbólga, sem ekki er hægt að koma út með gengisbreytingum, að rýra samkeppnisstöðu landsins án agaðrar hag- og peningastjórnunar.

Stysti útdráttur úr skýrslunni gæti því litið út á þennan hátt:

Styrkari efnahags- og peningamálastjórn – stórefling krónunnar eða taka evru upp sem gjaldmiðil.“

Þótt þessi merka skýrsla hafi verið fjarlægð af vef Framsóknarflokksins þá er finnst hún enn á Vefsafni Árnastofnunar. Unnt er að sjá hana í heild með því að smella á:

Staða krónunnar og valkostir í gjaldeyrissmálum. Gjaldmiðilsnefnd Framsókanrflokksins. September 2008.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Held að þú sért að fara með rangt mál að CHF sé með fastgengisstefnu gangvart EUR. Hefur verið mikið umræðunni hérna niður í Evrópu það sé að vera vandamál hversu sterkur CHF er gagnvart EUR. Getur vel verið að það sé hið opinbera markmið en í raunveruleikanum gengur það mjög illa, þar sem CHF, eins og þú veist, lítur svolítið sérstökum lögmálum þegar fjármálakrísa ríkir.

  • Þessi tenging CHF við Evru er merkileg. Það verður áhugavert fyrir okkur Íslendinga að sjá hvernig það gengur enda er þetta stórmerkileg tilraun.

    Það er ávinningur af því að taka gengisflökkt út úr viðskiptum og því er evran besti kosturinn fyrir Svisslendinga.

  • sé að þetta komment á ekki við hjá mér Hallur…var að fletta þessu upp…

  • Hallur Magnússon

    @Danskur

    Það er einmitt málið að það fór ótrúlega lítið fyrir þessari merku frétt!

    Reyndar er staðreyndin sú að þótt Svisslendingar séu utan ESB – þá hafa þeir aðlagað regluverk sitt og staðla ótrúlega vel að regluverki ESB.

    Reyndar þannig að þeir eru komnir lengra en Íslendingar í hinu „stórhættulega aðlögunarferli“ að ESB 🙂

  • Það er alls ekki búið að taka upp fastgengisstefnu á CHF gagnvart EUR. Það er mikill misskilningur sem íslenskir fjölmiðlamenn virðast ekki átta sig á.

    Hið rétta er að svissneski seðlabankinn hefur einsett sér að gjaldeyriskrossinn EUR/CHF fari ekki undir 1,2 gildið. Til þess er hann tilbúinn að kaupa ótakmarkað magn af gjaldeyri.

    Þetta þýðir að bankinn stefnir EKKI á að festa gengið í 1,20. Hærra gengi, t.d. upp í 1,5 myndi þýða veikari franka og það myndi hugnast bankanum vel. Markmið er sem sagt að veikja frankann, ekki halda honum þetta sterkum sem hann ennþá er.

  • Sjóður

    Það er nú ekki það að Svisslendingar séu svo skotnir í evrunni. Þeir eru að reyna að stoppa það sem gerðist á Íslandi síðasta áratuginn og leiddi til hruns krónunnar. Óheft innstreymi erlends fjármagns sem myndi keyra verðið á frankanum þeirra upp úr öllu valdi og stórskaða útflutningsgreinar.

    Þeir ætla ekki að nýta tækifærið til að búa til „góðæri“ eins og sumir. Heldur ætla þeir að stoppa þetta í fæðingu og eru búnir að hóta spákaupmönnum að það verði endalaust prentað af CHF. Það sé enginn að fara að toppa Seðlabankana Sviss í þessum leik.

    Hver væri staðan á Íslandi ef Seðalbankinn hefði unnið vinnuna sína og haldið krónunni í eðlilegu gengi? Ekki farið að leika sér með bull gengi sem engar forsendur voru fyrir og svo hrundi með tilþrifum.

  • Ómar Kristjánsson

    Já já, þeir tóku upp Evru þeir svissararnir. þ.e.a.s. sem viðmið. Og þar með Liechtenstein líka.

  • Var í Sviss í sumar og sá ekki betur en að þeir væru komnir með evruna að miklu leiti.
    Byrjaði á því að borga vegatollinn þegar ég kom keyrandi til landsins, með Evrum, einnig var hægt að borga fyrir bílastæði, hótel og víðast hvar í verslunum með Evrum. Allir hraðbankar sem ég notaði buðu bæði upp á Evrur og Franka.
    Og núna eru þeir að tengja Frankann við Evruna.

  • Eyjólfur

    Sjóður,

    Og þetta innstreymi er einkum vegna innistæðna sem eru að flýja óráðsíu og óstöðugleika á (aðallega jaðri) evrusvæðinu.

  • Ómar Kristjánsson

    Nei. Innstreymið er ekkert útaf því. það er aðallega útaf því að vegna fjármálaóstöðugleika er skortur á fjárfestingakostum og leita þannig í gjaldmiðil eins og Frankann sem reis bara og reis. þetta var gróðravon og spekúlatíft.

    En þeir svissararnir og Liechtensteinarnir voru ekkert í vandræðum með þetta. þeir tóku bara upp Evru. Og íslenskir svokallaðir fjölmiðlar eiga í voða vanræðum með að segja íslendingum frá þessum tíðindum.

  • Jóhannes

    Þessi aðgerð svissneska seðlabankans sýnir best vandann við að halda úti sjálfstæðri mynt, meira að segja svissneska frankanum.

    Áhættan, sem seðlabankinn er að taka með því að „kaupa endalaust“ erlendan gjaldeyri til að halda frankanum undir settum mörkum, getur verið gríðarleg eins og erlendir sérfræðingar hafa bent á. Ef viðsnúningur verður ekki í efnahagslífi á vesturlöndum á næstunni gæti vel verið að stórir áhættusjóðir reyndu á getu bankans til að standa við stefnu sína. Í öllu falli er áhætta seðlabankans mjög mikil.

    Það er ansi langsótt hugmynd að seðlabanki Íslands geti beitt sömu aðferð, þe að halda gengi krónunnar stöðugu miðað við einhverja aðra mynt með gjaldeyriskaupum og sölu. Slíkt brask með fjármuni þjóðarinnar er mjög áhættusamt, gjaldeyrisvarasjóðurinn þyrfti að vera gríðarlega stór og dýr í rekstri. En gjaldeyrisvarasjóðurinn yrði samt aldrei nógu stór til að verjast áhlaupi spákaupmanna, þvert á móti er líklegt að krónan yrði vinsæl skotskífa framsækinna áhættufjárfesta.

  • Eyjólfur

    Rétt, Jóhannes. Undirstöðurnar og verðmætasköpun geta sannarlega verið mjög mismunandi og ekkert seðlabankabrölt breytir því. Afleiðingarnar af misráðnum inngripum geta verið dýrar.

    Ómar, vissulega er spekúlatíft gjaldmiðlabrölt hluti af þessu líka, en innflæði sparifjár hefur verið gríðarlegt. Þú getur auðveldlega sært fram upplýsingar um það með aðstoð Google.

  • Ómar Kristjánsson

    Eg skal ekkert segja um hvað hr. gúggöl segir. En hitt veoit eg, að umræðan ´ísl. fjölmiðlum, sem flestir í eigu og undir áhrifavaldi sjalla og þeirra valdaklíka ss. Líú, er alveg furðuleg. það er stanslaust – og þá erum við að tala um stanslaust – eitthvert tal hja þessum svokölluðu fjölmilum um hrun og fall og ég veit ekki hvað og hvað, Evrunnar.

    Staðreyndin er að Evran er öflugasti gjaldmiðill í heimi á eftir dollaranum. Evran hefur verið ótrúlega stöðug í fjármálaóstöðugleikanum. Lönd og einstaklingar kjósa að geyma fjármuni sína í Evrusjóðum. Staðreynd.

    Á sama tíma tala sömu fjölmiðlar um svokallaða krónu sem eitthvert töfratól. Fyrirbrigði þar sem allir erlendir aðilar fá hláturskast ef þeir sjá slíkt. Krónan er verðlaus uan Íslands. Eitt stórt0 stendur allstaðar á þar til gerðum gjaldmiðlatöflum aftan við Krónu. Ef hún er þá yfirhöfuð á lista þar.

    That said, þá er Evran ekkert aðalmálið í sambandi viðaðild Íslands að EU. Aðalmálið er að Ísland tengist Evrópu pólitískt og efnahagslega og á að sjálfsögðu að láta rödd sína heyrast þar við borðið sem fullvalda ríki sæmir en ekki hírast í sjallakotinu í einangrun og fásinni.

  • Færeyzka krónan ER danska krónan. Hún er bara lókalíseruð útgáfa af henni (með eigin seðla, en ekki mynt). Rétt eins og hvert € land er með eigin myndir á sinni €.

  • Svissari

    Þetta eru hreint ótrúlegar umræður. Auðsjáanlega hafa menn ekki hugmynd um efnahagsástand Evru ríkjanna og síðan efnahagsástandið í Sviss, sem að öllum ólöstuðum er það stöðugasta sem þekkist í veröldinni og hefur verið svo um mjög langa tíð.
    Það er rétt sem Gestur (no. 5) segir: svisslendingar eru ekki búnir að taka upp evru. Eru ekkert á þeim buxunum. Hins vegar er slæmt ástand á evrusvæðinu alvarlegt hér í Sviss þar sem stór hluti útflutnings fer inná evrusvæðið. Þess vegna (voru neyddir til þess) voru sett upp þessi viðmið, til að hamla því að evran væri í frjálsu falli hér. Munið að það er efnahagsástandið á evru svæðinu sem gerir evruna veika. Ekkert sem hefur breytst í svissnesku efnahagslífi, nema eymdin allt í kring um okkur.

  • Ómar.

    Hvaða tegund af steik ertu?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur