Þriðjudagur 17.04.2012 - 22:32 - 8 ummæli

Vorið komið og ég farinn!

Þótt það sé pólitískur fimbulvetur þá er að koma vor. Hjá okkur hinum. Mig langar að njóta vorsins. Er ekki í skapi að fylgjast með niðurdrepandi og vonlausum stjórnmálamönnum Íslands. Nenni ekki í augnablikinu að benda á vanhugsuð frumvörp sem þingmenn illa að sér munu hvort eð er hleypa í gegnum þingið hvað sem ég segi. Sé nokkur slík á leiðinni.

Langar heldur ekki að fjalla um fjölmiðlastétt sem er að bregðast sem aldrei fyrr. Finnst það sorglegt. Með blaðamannaskírteini nr. 126.

Veit að það þýðir ekki að rökræða á málefnalegan hátt um kosti og galla mikilvægustu alþjóðasamninga sem Ísland hefur tekið þátt í – aðildarviðræður að Evrópusambandinu.  Treysti þjóðinni í að taka afstöðu til niðurstöðu slíks samnings en veit að varðhundar séríslenskra þröngra sérhagsmuna sem sumir komust á þing fyrir mitt tilstilli á fölskum forsendum munu gjamma lengur en vanstilltustu rakkar landsins.

Finnst hundar ekkert sérstaklega skemmtileg dýr en ber meiri virðingu fyrir þeim en sérhagsmunarökkunum á Alþingi.

Mér finnst gaman og fróðlegt að umgangast og ræða við eldra fólk. Það hefur yfir svo mikilli visku að ráða. Visku sem við miðaldara fólkið eigum að sjúga í okkur. Finnst þess vegna sorglegt hversu gamla fólkið í ríkisstjórninni er að koma slæmu orði á visku hinna öldruðu. Líklega vegna þess að gamla fólkið í forystu ríkisstjórnarinnar er ekki svo gamalt. Okkur finnst það bara því við erum búin að heyra sama nöldursönginn þeirra í svo marga áratugi.

„Minn tími mun koma!“ ….

Ég pakka því í bili. Læt aðra um að nöldra fram á sumar.  Ætla að njóta vorsins og upplifa það með börnunum mínum og konunni minni. Enda búinn að missa ánægjuna af því að blogga. Í bili.

… birtist aftur á blogginu í sumar. Ef mig langar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Vorvindar glaðir, glettnir og hraðir,
    geysast um löndin létt eins og börn.
    Lækirnir skoppa, hjala og hoppa,
    hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
    Hjartað mitt litla hlustaðu á,
    hóar nú smalinn brúninni frá.
    Fossbúinn kveður, kætir og gleður,
    frjálst er í fjalladal.

    Gleðilegt sumar 🙂

  • Skil þig hrikalega vel Hallur: En endilega taktu með þér bókina Animal Farm eftir George Orwell út í vorið og láttu hugan reika með, og þá sérstaklega ef það skildi vera langt síðan þú last bókina síðast.

    Svo er líka þægilegt að halla sér aftur í sófanum og smella videomyndinni í tækið og láta það mata sig á listaverki listaverkanna

    Animal Farm lifir enn….

  • Pétur Maack

    „Finnst hundar ekkert sérstaklega skemmtileg dýr en ber meiri virðingu fyrir þeim en sérhagsmunarökkunum á Alþingi.“

    góður!

  • Þórður Sigurjónsson

    Skil þig mæta vel Hallur, hræðilega niðurbrjótandi að fylgjast með stjórnmálum á Íslandi í dag. Mannkostirnir á Alþingi eru því miður afar fátæklegir. Vonbrigðin um betra og heiðarlegra samfélag eru mikil hjá mjög mörgum tel ég. Engi merki á lofti um að þeir tímar séu í vændum á næstu misserum.

  • Baldur Kristjánsson

    Komdu aptur í haust enn sviphreinni og tillögubetri! kv. B

  • Á Alþingi er verið að takast á um mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar, sjávarútveginn, ESB og stjórnarskrána og þú nennir ekki að fylgjast með. Á alþingi eru ekkert verri þingmenn nú en endranær og þeir eru það úrval sem þjóðin hefur uppá að bjóða. Það er engir betri fyrir utan. Nýju þingmenirnir sem komu inn síðast eru dálítið ruglaðir og geta verið ómálefnalegir en þeir eiga eftir að skólast og skána.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Njóttu vel og gleðilegt sumar.

  • Leifur A. Benediktsson

    Og taktu boltann með í fríið. Fátt er skemmtilegra en að taka einn nettan vító við krakkana.

    Klikkar ekki.

    Gleðilegt sumar, og takk fyrir pistlana í vetur.

    p.s. ég var að vonast til að sjá þig í Egilshöllinni í kvöld á undanúrsl.leiknum í Lengjunni. Klúður hjá ykkur Víkingum:o(

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur