Þriðjudagur 18.09.2012 - 08:00 - 11 ummæli

Menntamálaráðuneyti gegn menningu!

Menntamálaráðuneytið vinnur gegn íslenskri menningu.  Kannske er það vegna þess að um er að ræða íslenska þjóðmenningu en ekki snobbmenning 101 Reykjavík.

Göngur og réttir eru ekki einungis mikilvægar fyrir íslenskt atvinnulíf á landsbyggðinni. Göngur og réttir með þeim hefðum sem þeim fylgja eru mikilvæg menningarverðmæti íslensku þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að íslensk æska hafi kost á að kynnast þessum þjóðmennningarverðmætum Íslendinga. Þá er ekki síður lærdómsfullt fyrir börnin okkar að taka þátt í göngum og réttum og átta sig þannig á samhengi landbúnaðar, vinnu og matvælaöflunar.

En Menntamálaráðuneytið leggur stein í götu þessa.  Af ástæðum sem Menntamálaráðuneytið hefur ekki getað fært rök fyrir önnur en „þessu verður ekki breytt“ – þá velur ráðuneytið að halda samræmd próf í miðjum göngum og réttum. Þannig kemur ráðuneytið í veg fyrir að þau börn og unglingar sem kost hafa á því að taka þátt í íslenskri þjóðmenningu samhliða því að gera gagn – geti sótt réttir.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að halda samræmd próf nokkrum vikum síðar.

Þetta er skammarlegt kæra vinkona Katrín Jakobsdóttir Thoroddsen!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Hvernig getur maður sem er álitinn (af ókunnugum) sæmilega að sér og víðsýnn skrifað þetta: „Menntamálaráðuneytið vinnur gegn íslenskri menningu. Kannske er það vegna þess að um er að ræða íslenska þjóðmenningu en ekki snobbmenning 101 Reykjavík.“

  • Pétur J.

    Er hægt fá skilgreingu á “ snobbmenning 101 Reykjavík “ og hvernig hún samræmist ekki íslenskri þjóðmenningu ?

  • Hallur Magnússon

    Ég var þess fullviss að stílbragð mitt „snobbmenning 101 Reykjavík“ myndi vekja viðbrögð. Þau viðbrögð undirstrika nákvæmlega það sem málið snýst um. Íslensk þjóðmenning – menningin kring um réttir og göngur – er minna metin af menntamálaráðuneytinu en margslungin menning sem iðkuð er í 101 Reykjavík.

    Gagnvart menntamálaráðuneytinu er menning 101 Reykjavík því „snobbmenning“. Þjóðmenning í íslenskum sveitum þar á bæ greinilega 2. flokks menning – virðist vera.

    Það þýðir hins vegar ekki að ég beri ekki virðingu fyrir þeirri menningu sem iðkuð er í 101 Reykjavík. Þvert á móti.

    Í stað þess að hengja ykkur á „snobbmenningu 101 Reykjavík“ – þá bið ég ykkur að íhuga stöðu íslenskrar þjóðmenningar vs. menningu 101 Reykjavík. Er þjóðmenningin jafnsett?

    Held ekki.

  • Skeggi Skaftason

    Eru ekki réttir og göngur í nokkrar vikur að hausti? Mega þá skólar ekki gera neitt sem máli skiptir þær vikur? Eru ekki réttir annars yfirleitt um helgar?

    Er menning í 101 Reykjavík ekki þjóðmenning??

  • Hallur Magnússon

    Skeggi. Það er ekkert val um að börnin taki þátt í samræmdum prófum. Aðrir mikilvægir skólaviðburðir eru þess eðlis að það er val forráðamanna barnanna að meta það hvort skipti meira máli – þátttaka í göngum og réttum eða þátttaka í viðkomandi skólaviðburði. Á þessu er grundvallarmunur.

  • Geturðu gefið okkur dæmi um það sem þú kallar
    þjóðmenningu og hvað 101 Reykjavík menningu?

    Þetta er afar óljóst hjá þér og það er slæmt því þetta
    eru lykilhugtök í færslunni.

    Það hlýtur að vera fleira en réttir og göngur.

    Bara svo maður geti lagt eitthvað efnislegt til málsins.

  • Torfi Stefán

    Þennan pistil hefði verið hægt að skrifa á annan hátt, t.d. að menntamálaráðuneytið/skólayfirvöld taka ekki tillit til sveita og þeirrar vinnu sem þar fer fram, með því að ákveða að hafa samræmd próf í grunnskólum nú strax í byrjun haustannar.

    Þetta orðalag mætti jafnvel slípa til og gera þjálla. Ef einhver meining væri síðan hjá síðuhöfundi myndi hann senda menntamálaráðherra þessa kvörtun og jafnvel stofna þrýstihóp, koma sér og/eða talsmanni í fjölmiðla.

    Enn í stað þess ákveður síðuhöfundur að nefna 101 snobbmenningu vs. þjóðmenning. Fyrir vikið (og síðuhöfundur vissi líklega af því) fara allir að ræða eitthvað atriði sem ætti í raun ekki að skipta máli.
    Því auðvitað hafa börn og aðrir gott og gaman af réttum. Reyndar ætti jafnvel að skipuleggja vettvangsferðir hjá skólum, það væri hægt að tengja við þjóðfræði, sagnfræði (réttir í fortíð og frameftir, gamlar réttir og nýjar, erfiðleikar og þar frameftir), hagfræði (á hverju byggist efnahagur sveitarinnar, áhrif réttartúrisma á sveitina) og fleir og fleira.

    En með því að henda fram fáránlegri setningu tekur síðuhöfundur þátt í miður leiðinlegu „stríði“ landsbyggðar og höfuðborgar. Og fyrst að þessi setning kom fram verður höfundur að greina á milli þjóðmenningar og snobb-menningar. Ennfremur væri síðan gott að fá að vita hvar menntamálaráðuneytið hefur hliðrað til skólastarfi til þess að 101 snobbmenning fái notið sín?

  • Þorgeir Tryggvason

    Hvað er þetta, ertu nokkuð of góður til að skella í þig hálfri landaflösku og túra skólana með Vel er mætt og Undir bláhimni?

  • Hallur Magnússon

    … ef hinn frábæra og jákvæða gleðiganga væri haldin á Íslandi fimmtudaginn 20. september. Haldið þið að menntamálaráðuneytið myndi halda samræmd próf þann mikilvæga mannréttinda- og menningardag?

    Svarið nú í einlægni!

  • Skeggi Skaftason

    Hin frábæra og jákvæða gleðiganga er ekki haldin á fimmtudegi því þá er flest fólk í vinnu og börn í skólum.

    Var þetta annars tilraun til að benda á 101-snobbmenningu? Eða er gleðiganga homma og lesbía líka dæmi um eitthvað sem er ekki „þjóðmenning“?

  • Torfi Stefán Jónsson

    Bíddu bíddu nú þarf virkilega að fara að skilgreina 101 snobbmenningu og reyndar líka þjóðmenningu. Því hvar er gleðigangan? Er hún ekki þjóðmenning þegar rúmlega 50.000 manns mæta niður í bæ til að taka þátt/horfa?

    Eins liggur við að ég endurtaki fyrri skrif og velti því fyrir mér hver er tilgangurinn með því gera þjóðmenningu vs. 101snobbmenning að lykilatriði í stað þess að velta hinu betur fyrir sér.

    Gleðigangan er ekki á fimmtudegi heldur er hún á laugardegi og í ágúst. Fyrir því eru ýmsar ástæður, meðal annars möguleiki á góðu veðri ofl..

    En ef hún væri haldin í kringum aðra helgina í september og menntamálaráðuneytið hefði ákveðið að þá væri ágætis tími fyrir samræmd próf. Þá held ég með fullri sannfæringu að menntamálaráðuneytið myndi keyra þá ákvörðun í gegn. Ef einhverjir hagsmunahópar myndu síðan taka sig saman til að fá samræmdu prófum seinkað þá væri möguleika á því. Ekki flóknara svar en það.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur