Mánudagur 19.11.2012 - 08:04 - 6 ummæli

Hanna Birna bjargaði Orkuveitunni!

Það er rangt hjá Þorsteini Pálssyni þeim vandaða manni og öfluga penna að Hanna Birna Kristjánsdóttir eigi sér „enga aðra erfiða fortíð í pólitík en að hafa skilið skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn“. Hanna Birna Kristjánsdóttir skildi ekki skuldavanda Orkuveitunnar eftir til úrlausnar fyrir Besta flokkinn.  Þvert á móti þá vann Hanna Birna frá fyrsta degi sem borgarstjóri að lausn skuldavanda Orkuveitunnar!

Hanna Birna og Óskar Bergsson höfðu forgöngu um það haustið 2008 þegar þau tóku við stjórnartaumunum í Reykjavík að Reykjavíkurborg tæki til hliðar milljarða úr borgarsjóði til að takast á við möguleg áföll vegna Orkuveitu Reykjavíkur. Þau gerðu sér grein fyrir því að bjartsýnissukkið og ofurskuldsetningin sem fór á fullt eftir að Alfreð Þorsteinsson hætti sem formaður stjórnar Orkuveitunnar gæti komið Orkuveitunni í vandræði.

Það voru þessir fjármunir sem Hanna Birna og Óskar tóku frá sem Besti flokkurinn gekk í til að takast á við vanda Orkuveitunnar.

Það sem meira er – þegar Besti flokkurinn tók við þá hafði stjórn Orkuveitunnar með Guðlaug Gylfa Sverrisson stjórnarformann í fararbroddi átt um nokkurt skeið í viðræðum við lánadrottna sína um endurskipulagningu skulda,  unnið áætlanir um gjaldskrárhækkanir í skrefum og lagt á ráðin um niðurskurð.   Sú áætlun og það samstarf við lánadrottna fauk út í veður og vind þegar Besti flokkurinn kom að málinu eins og fíll í postulínsbúð þannig að lánadrottnar stóðu agndofa!  Það frestaði aðgerðum um endurskipulagningu lána um einhverja mánuði.

Hins vegar verður það ekki af Besta flokknum tekið að hann tók á skuldamálum Orkuveitinnar af hörku og skar lúxusfitulagið af fyrirtækinu án nokkurrar miskunnar. Það ber að hrósa þeim fyrir það.

En hvað sem því líður þá er það ekki rétt að Hanna Birna hafi ekki unnið að lausn skuldavanda Orkuveitur Reykjavíkur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Eggert Herbertsson

    Held að þetta sé nú mikil einföldun hjá þér félagi. Það að taka peninga til hliðar er enginn björgunarleiðangur. Sjóðstreymið hjá borginni réði við allar aðgerðir – skipti engu máli á hvaða reikningnum peningar lágu.

    Það sem Hanna BIrna gerði fyrir síðustu kosningar var að lýsa því yfir statt og stöðugt að ekki þyrfti að hækka gjöld OR og ekki fækka fólki. Þetta var eins rangt og það gat verið og líklega bara blekkingar, rétt fyrir kosningar.

  • Og skýrslan sem unnin var um hrikalega stöðu Orkuveitunnar sem borgarstjóri sat á fram yfir kosningar. Átti ekkert að minnast á það? Hún laug blákalt að kjósendum um stöðu fyrirtækisins.

  • Eyjólfur Kristjánsson

    “ eftir að Alfreð Þorsteinsson hætti sem formaður stjórnar Orkuveitunnar“. Ertu búinn að gleyma því að þú ert hættur í Framsókn, góðu heilli, og þarf því ekki lengur að túlka allt með þeim gleraugum. Njóttu frelsisins!

  • Kristbjörn Árnason

    þú ert einn um þessa skoðun

  • Það vefst svolítið fyrir mér við lestur þessa pistils að tengja innihald hans við yfirskriftina.
    Í pistlinum er því haldið fram að Hanna Birna hafi gert sér grein fyrir skuldavanda OR og lagt pening til hliðar fyrir mögulega lausn hans. Í niðurlaginu er fullyrt að það sé ekki rétt (hjá Þorsteini Pálssyni) að Hanna Birna hafi ekkert gert í málefnum Orkuveitunnar.
    Gott og vel, segjum að allt ofangreint sé rétt – hvernig í ósköpunum er samt hægt fullyrða að hún hafi bjargað Orkuveitunni sem ekki lagði fram neinar lausnir né greip til aðgerða?
    Oflof er háð og þetta er beinlínis kjánaleg yfirskrift á pistli. Og röng.

  • Ég held nú að ef Hanna Birna hafi bjargað Orkuveitunni, þá hefði hún auglýst það rækilega.

    Þess í stað tók hún léttan Villa á þetta. Talaði sem minnst um vandann en minntist þó ítrekað á það að ekki þyrfti að hækka gjöld.

    Hins vegar er ég mjög hissa á Hönnu Birnu að hafa ekki þorað í formannslag við Bjarna Ben. En það er reyndar allt önnur umræða.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur