Föstudagur 17.04.2015 - 10:22 - 2 ummæli

Vantar «dugnad» á Íslandi?

„Dugnad“ er eitt af þessum orðum sem hefur dálítið aðra meiningu í norsku en íslensku. Ég hef haft mikinn „dugnad“ í Noregi en er ekki viss um að „dugnaður“ sé það sem lýsir mér best á íslensku.

„Dugnad“ er óaðskiljanlegur þáttur í íþróttastarfi og öðru félagsstarfi barna og unglinga í Noregi og virkar nánast eins og lítil herskylda á foreldra og forráðamenn.

„Dugnad“ er ólaunað vinnuframlag fyrir félagið. Vinnuframlag sem skapar félaginu tekjur til að halda úti barna og unglingastarfi.
Það mæta allir í „dugnad“. Það er ekkert val.

Þegar strákarnir mínir þeir Styrmir og Magnus æfðu hjá Start þá var það skylda fyrir foreldri að mæta þrisvar sinnum í sjoppuna á meistaraflokksleikjum á Sør-Arena og selja pulsur, pizzur, kaffi og kók. Sex sinnum fyrir okkur sem vorum með tvo gutta æfandi.

En það var allt í lagi. Hagnaðurinn af veitingasölunni rennur til barna og unglingastarfsins í Start. Til barnanna.

Nú um helgina eru það tvær 8 tíma vaktir á Umbro-Cup. Afar stóru handboltamóti sem haldið er hér í Kristiansand. 8 tímar fyrir Magnús og 8 tímar fyrir Grétu sem æfa handbolta með AK28. Reyndar átti sá gamli að bæta við enn einni 8 tíma vaktinni fyrir sjálfan sig þar hann æfir og spiler með 4. Deildarliði AK28. En ég slapp þar sem mönnum fannst 16 tímar temmilegt á einni helgi og ég á annarri löppinni eftir aðgerð.

En það er allt í lagi. Tekjurnar af handboltamótinu eru verulegar og renna til barna og unglingastarfsins í AK28. Til barnanna.

Þar sem Gréta æfir fótbolta með Gimleroll þá bíður 8 tíma vakt á Sør-Cup næsta haust.

… og svo allir smádugnaðarnir inn á milli til að fjármagna keppnisferðir.

Þótt ég fái stundum nóg af endalausum „dugnad“ verandi með 3 börn sem æfa handbolta og fótbolta þá finnst mér þetta gott og jákvætt. Þetta er gott félagslega. Tengir foreldra betur en ella. Og það eru allir með – ekki bara hluti foreldra sem fórnar sér í „íslensku“ sjálfboðaliðsstarfi þar sem fáir bera upp mikið – þótt það séu líka margir slíkir sjálfboðaliðar sem vinna ómælda vinnu fyrir lið barnsins síns, utan hefbundins „dugnaðar“.

… og þá er ég kominn að öðru einkenni Norðmanna. Það eru í raun foreldrar sem bera uppi barna og unglingastarfið. Þeir þjálfa, sjá um utanumhald og skipulagningu æfinga og leikja. Þeir eru órjúfanlegur hluti barna og unglingastarfsins.

Vissulega vinna foreldrar á Íslandi mikið sjálfboðaliðastarf kring um íþróttastarf og annað félagsstarf barnanna sinna – sumir. En margir eru og vilja vera stikkfrí. Í Noregi er enginn stikkfrí.

Er kannske ástæða til að taka upp norskan „dugnað“ á Íslandi?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Jakob Snævar Ólafsson

    Foreldrar eiga a.m.k. ekki að koma nálægt þjálfun en sjálfsagt að þeir leggi eitthvað af mörkum við hvers kyns utanumhald, þó má ekki gleyma því að þeir leggja allir sitt af mörkum í formi æfingagjalda.

  • Enginn efast um „dugnad“ Norðmanna í sjálfboðaliðsstarfi en þetta er líka innbyggt í frændur þeirra á Íslandi. Íþróttastarf byggist á óeigingjörnu ólaunuðu framlagi foreldra, fjöldinn allur af félögum safnar fjármunum til góðgerðarmála svo ekki sé minnst á björgunarsveitirnar.
    Jafnvel þegar kemur að fangelsismálum birtist þessi eiginleiki Íslendingsins. Kvíabryggja; til skamms tíma smáður staður en vegsemd og virðing smám saman farið vaxandi. Umskiptin hófust með kunnum alþingismanni sem ekki aðeins gerði garðinn frægan með listsköpun heldur náði með góðum tengslum inn í kerfið að endurnýja allan húsbúnað staðarins og allt það var unnið í sjálfboðavinnu. Og senn mun Kvíabryggja færast upp á hátind velsældar og virðingar. Fremstu og snjöllustu menn landsins í fyrirtækjarekstri og bankasýslu verða heimilismenn þar næstu árin; hlaðnir starfsorku og ráðnir í því að nýta sér yfirburða þekkingu og meðfædda vitsmuni í þágu staðarins og allt í sjálfboðavinnu. Þeir munu byrja á námskeiðshaldi í viðskiptatengdum greinum fyrir aðra heimilismenn og í framhaldinu stofna með þeim fjárfestingarsjóð sem gerir þá fjárhagslega velmegandi. Heimilismenn í öðrum fangelsum hafa þegar gert sér ljóst hvert stefnir og kvarta sáran yfir aðstöðumuninum. Og það má auðveldlega sjá framvinduna fyrir. Orðsporið mun breiðast út og Kvíabryggja breytast í skólasetur þar sem bæði verður boðið upp á námskeið á staðnum og öflugt fjarnám því nettengingin stenst alþjóðlega staðla. Stofnað verður fyrirtækið Kvíabryggja ehf þar sem meginstoðin verða fjárfestingarsjóðir og umsýsla með þeim og verða allir heimilismenn er frá líður viðloðandi starfsemina. Þannig rís Kvíabryggja úr öskustónni fyrir óeigingjarnt sjálfboðaliðsstarf og í framtíðinni mun vistun þar reynast hverjum þeim manni sem hlotnast sú náð, mesti vegsaukinn á lífsleiðinni.
    Það er því ástæðulaust að miklast af „dugnad“ Norðmanna þegar kemur að sjálfboðaliðsstarfi. Íslendingar standa þeim jafnfætis ef ekki fremri.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hallur Magnússon
Fjögurra barna faðir "af vondu fólki" og áhugamaður um þjóðmál.

Heldur upp á eftirfarandi vísu:

"Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun."

Séra Baldur segir að Hallur sé: "...bæði sviphreinn og tillögugóður"!
RSS straumur: RSS straumur